Solzhenitsín er allur - spenna í Kína.
Alexander Solzhenitsín er allur, 89 ára að aldri andaðist hann af hjartveiki síðdegis sunnudaginn 3. ágúst á heimili sínu í Moskvu. Í ár eru liðin 90 ár frá byltingunni í Rússlandi en Solzhenitsín helgaði líf sitt frá árinu 1945 þar til Sovétríkin urðu að engu 1991 baráttu gegn ógnarstjórn kommúnista í Rússlandi.
Hann brautskráðist með próf í eðlisfræði og stærðfræði frá Rostov-háskóla árið 1941, skömmu áður en Þjóðverjar réðust inn í Rússland. Hann var kallaður í herinn og barðist gegn Þjóðverjum en í febrúar undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari í Evrópu var hann handtekinn í A-Prússlandi af sovésku leyniþjónustunni fyrir að hafa talað óvirðulega um Stalín – kallað hann „karlinn með yfirvararskeggið“ í bréfi til skólafélaga síns. Þótt hann væri dyggur kommúnisti var hann dæmdur til átta ára fangavistar.
Eftir að fangavistinni lauk 1953 var hann dæmdur til „eilífðar útlegðar“ í eyðimörk Kazakhstan. Þar þjáðist hann af magaverkjum og reyndist vera með stórt krabbameinsæxli og komst eftir mikla baráttu á krabbameinsdeild í borginni Tashkent. Hann lýsti þessari reynslu þannig:
„Ég var eins og veika fólkið allt í kringum mig, en þó öðru vísi. Ég naut minni réttar en það og var neyddur til að tala minna. Þau fengu gesti í heimsókn, þau vildu aðeins eitt og stefndu aðeins að einu, að ná heilsunni að nýju. Ef ég næði mér hins vegar aftur á strik, yrði það næstum tilgangslaust: Ég var 35 ára, en þá um vorið gat ég ekki sagt um neinn í öllum heiminum, að hann væri minn. Ég átti ekki einu sinni vegabréf, og batnaði mér, yrði ég að yfirgefa þetta græna, gjöfula land, og fara aftur út í eyðimörkina mína, þar hafði ég verið dæmdur til að dveljast „til eilífðar“. Þar var ég undir opnu eftirliti, varð að tilkynna mig á tveggja vikna fresti, og um langt skeið hafði staðarlögreglan ekki leyft mér, deyjandi manninum, að fara til að leita mér lækninga.“
Undir læknishendi og með óhefðbundum lækningum náði hann góðri heilsu á nýjan leik og í apríl 1956 fékk hann bréf með tilkynningu um, að útlegð hans væri úr sögunni. Hann kvæntist að nýju konu, sem skildi við hann, á meðan hann sat í fangelsi og fluttist til hennar í borginni Ryazan, um 100 km fyrir sunnan Moskvu, þar sem hún starfaði sem efnafræðingur við landbúnaðaskóla. Solzhenitsín stundaði þar ritstörf og kenndi eðilsfræði og stjörnufræði.
Skáldsaga hans Dagur í lífi Ívans Denisovitsj birtist í tímaritinu Novy Mir í nóvember 1962. Almenna bókafélagið gaf bókina út árið 1963 í þýðingu Steingríms St. Th. Sigurðssonar. Þar er lýst degi í lífi fanga í sovéska Gúlaginu.
Með bókinni var Solzhenitsín heimskunnur á undraskömmum tíma. Hann fékk þó aðeins þrjár stuttar sögur útgefnar í Sovétríkjunum eftir þetta. Þegar hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1970 var það við enga hrifningu Kremlverja. Hann fór ekki til Stokkhólms til að taka við verðlaununum af ótta við að fá ekki að snúa aftur heim.
Hann skildi við konu sína tók saman við og kvæntist síðan Nataliu Svetlovu, stærðfræðingi, sem ennig vann við að vélrita texta í samizdat útgáfur, það er sjálfsútgáfur, sem bárust vélritaðar manna á meðal í Sovétríkjunum. Þau eignuðust þrjá syni.
Um sama leyti og hann fékk Nóbelsverðlaunin hafði hann lokið við að rita 300.000 orða verk um Gúlag-eyjaklasann. Vildi hann, að þessi lýsing á fangabúðum sovéskra kommúnista og 60 milljón fórnarlamba þeirra kæmi fyrst út í Sovétríkjunum. Honum snerist hugur í september 1973, þegar hann frétti, að KGB-menn hefðu fundið falið eintak af handritinu, eftir að hafa yfirheyrt Elizavetu Voronjanskaju, vélritara hans, sem hengdi sig skömmu síðar. Var bókin gefin út á rússnesku í París í ársbyrjun 1974.
Hinn 12. febrúar 1974 var Solzhenitsín handtekinn, sviptur ríkisborgararétti og sendur með Aeroflot-flugvél til Frankfurt í Þýskalandi, þar sem rithöfundurinn Heinrich Böll tók á móti honum. Natalia Svetlova og synirnir þrír komu sex vikum síðar og eftir stutta dvöl í Sviss hélt fjölskyldan til Bandaríkjanna, þar sem hún settist í Cavendish í Vermont og lifði út af fyrir sig í 18 ár. Sagt er, að það hafi þótt sérstakur viðburður í lífi Solzhenitsíns á búgarði þeirra í Cavendish, ef hann talaði við einhvern í síma.
Frægt er, að Henry Kissinger, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði Gerald R. Ford, forseta Bandaríkjanna, eindregið við að hitta Solzhenitsín, það myndi ekki aðeins styggja Kremlverja heldur einnig leiða til ágreinings vegna skoðana Solzhenitsíns á Banadríkjunum og bandamönnum þeirra.
Solzhenistín sneri aftur til Rússlands 27. maí 1994 og lenti fyrst við borgina Magadan í norðaustur Síberíu, en hún stóð áður í miðju Gúlaginu. Við komu sína laut hann til jarðar í minningu fórnarlamba Gúlagsins. Hann flaug síðan áfram til Vladivostock, þar sem hann hóf tveggja mánaða járbrautarferð í einkavagni með fjölskyldu sinni og tökuliði frá BBC, sem greiddi fyrir förina um þvert Rússland og festi hana alla á filmu.
Allt frá því að Solzhenitsín var rekinn á brott frá Sovétríkjunum, hafði hann verið viss um, að hann mundi snúa aftur til Rússlands.
Frásögnina hér að ofan byggi ég á langri grein um Solzhenitsín, sem birtist 4. ágúst í The New York Times. Í BBC World Service var meðal annars rætt um ævi og áhrif Solzhenistsíns við Vladimir Bukofskí, sem kom hingað í boði SVS og Varðbergs á sínum tíma, en hann var einn þeirra, sem reis gegn kommúnistunum í Kreml á þann veg, að vakti heimsathygli. Bukofskí sagði Solzhenitsín hafa verið sanna hetju, sem lifði af heimsstyrjöldina, Gúlagið, krabbamein og Sovétríkin.
Spyrja má, hvað við vissum mikið um Gúlagið og grimmd sovéska kerfisins, ef Solzhenitsín hefði ekki kallað Stalín „karlinn með yfirvararskeggið“. Í stað Nóbelsverðlauna fyrir bókmenntir hefði Solzhenitsín kannski fengið viðurkenningu sem góður framhaldsskólakennari í raunvísindum, án þess að heimurinn allur fengi að kynnast snilli hans.
Spenna í Kína.
Að morgni mánudags 4. ágúst birti opinbera kínverska fréttastofan Xinhua frétt um, að tveir menn hefðu drepið 16 lögreglumenn og sært aðra 16 með því að kasta handsprengjum að lögreglustöð í eyðimerkurborginni Kashgar í Xinjiang-héraði, vestast í landinu. Tilræðismennirnir voru handteknir.
Í BBC var þessi frétt sögð með þeim fyrirvara, að aðrir fjölmiðlar en Xinhua hefðu ekki staðfest efni hennar. Hvað sem því líður færir fréttin stoðir undir þá skoðun talsmanna kínversku öryggisstofnananna, sem láta nú að sér kveða af miklum þunga vegna upphafs Olympíuleikanna föstudaginn 8. ágúst, að mest hætta stafi af hryðjuverkamönnum frá þessum hluta Kína.
Uighurar http://the_uighurs.tripod.com/hist.htm eru múslimar, þeir eru 8 milljónir af 19 milljón íbúum í Xinjiang. Tungumál þeirra er af tyrkneskum rótum. Kínverskir embættismenn segja mestu hættu vegna Olympíuleikanna stafa frá dularfullri hreyfingu, sem heitir á ensku East Turkestan Islamic Movement eða ETIM og berst fyrir sjálfstæði Uighura og Austur-Túrkmenistan. Sumir sérfræðingar telja, að innan þessarar hreyfingar sé lítill hópur, Turkestan Islamic Partyþ 23. júlí sendi hann frá sér myndband með grímuklæddum manni, Seyfullah, sem gekkst við nýlegum sprengingum í langferðabílum í Kunming og Shanghai. Fimm týndu lífi vegna þessa og 26 manns særðust.
Í Kína eru milli 60 og 70 þjóðabrot, stjórnvöld í Peking viðurkenna þó aðeins 55. Mörg þeirra eru álíka fjölmenn og meðalþjóðir í Evrópu. Stjórnvöld í Kína óttast upplausn innan ríkisins, ef ekki er haldið aftur af sjálfstæðisvilja þjóðabrotanna.
Olympíuleikarnir draga athygli að þessum innviðum Kína. Ljóst er af aðdraganda leikanna, að kínversk stjórnvöld slaka ekki neitt á klónni, þegar litið er til öryggisráðstafana. Í The New York Times er 4. ágúst sagt, að engu sé líkara en þéttriðið öryggisteppi hafi verið lagt yfir 17 milljónir Pekingbúa.