Sýnileg löggæsla.
Megineinkenni fjölmiðlaumræðna um viðvarandi viðfangsefni er, að viðmælendur eru spurðir á þann veg, að engu er líkara en allt sé á hverfanda hveli – heimurinn fari í raun versnandi, af því að einhver hafi sagt, að eitthvað mætti vera betra. Þetta á ekki síst við, ef um opinber útgjöld er að ræða og einhver telur, að ekki sé nógu mikið innt af hendi.
Þessi einföldun stafar oftast af því, að fjölmiðlamaðurinn hefur sett sig lítið ef nokkuð inn í málið, sem um er að ræða, og getur því varla rætt það frá öðrum sjónarhóli en fram kom hjá síðasta viðmælanda hans. Stangist nýjasta sjónarmið á við orð annars viðmælenda, verður til nýr einfaldur vinkill og er reynt að nýta hann til hins ýtrasta.
Unnt er að halda yfirborðsumræðum af þessu tagi gangandi dögum saman, ef nógu margir viðmælendur eru til þess búnir að taka þátt í þeim. Hið einkennilega er, hve fjölmiðlamenn virðast hafa lítinn metnað til að skoða þau gögn, sem eru fyrir hendi um viðkomandi mál og byggjast oft langvinnu starfi, umræðum fagmanna og rannsóknum.
Hluti af sumarumræðum fjölmiðla er skortur á löggæslu í miðborg Reykjavíkur að sumarlagi. Nýjasta framlag til þeirrar umræðu er spurningin um það, hvort 14 eða 44 lögreglumenn voru á vakt að kvöldi 12. júlí og aðfaranótt 13. júlí. Eftir fund okkar Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra, föstudaginn 18. júlí sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér tilkynningu um þennan lögreglumannafjölda.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sagði í Kastljósi mánudaginn 21. júlí, að þennan fjölda ætti að skoða eftir því, hvort lögreglumenn hefðu verið á útkallsvakt eða ekki – með tölunni 14 hefði hann lagt áherslu á þá tölu, enda væri þar um hina „sýnilegu löggæslu“ að ræða. Hann sagði réttilega í lok samtalsins við Sigmar Guðmundsson, að það væri markmið landssambandsins, yfirstjórnar lögreglunnar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að efla löggæslu í landinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti hinn 10. júlí s. stefnu embættisins og má nálgast hana í heild sinni hér. Þar er að finna nánari skilgreiningu á grundvallarstefnu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, langtímaáætlun hennar 2008-2011 og þeirri hugmyndafræði/áhersluatriðum sem talin eru veigamest til að ná grundvallarmarkmiðum embættisins. Byggist stefnan á markmiðum, sem ég hef kynnt og lágu til grundvallar skipulagsbreytingum á sviði löggæslu sem tóku gildi um í upphafi árs 2007 sem og áherslum og markmiðum löggæsluáætlunar 2007-2011.
Í þessu mikilvæga stefnuskjali er meðal annars fjallað um sýnilega löggæslu og þar segir í upphafi:
„Rannsóknir sýna að aukin sýnileg löggæsla eykur bæði öryggi og öryggistilfinningu. Þannig hefur hún bæði þau áhrif að fækka afbrotum og draga úr áhættuhegðun, t.d. í umferðinni eða þar sem mikill mannfjöldi er samankominn, auk þess sem það eykur öryggistilfinningu borgara að sjá lögreglu við eftirlit og störf. Aukin sýnileg löggæsla á sér margar birtingamyndir. Mikilvægt er að allra leiða verði leitað til að auka þann tíma sem lögreglumenn í almennri deild, umferðardeild, forvarnadeild og á svæðisstöðvum eru við eftirlit og önnur störf á götum, í hverfum og á öðrum stöðum í umdæminu, m.a. með því að einfalda verkferla, með notkun á vettvangsskýrslum og með því að létta af lögreglumönnum ýmsum verkefnum sem oftast eru unnin við skýrslugerð fyrir framan tölvu?..Mikilvægt er að leitað verði leiða til að efla göngueftirlit lögreglu á öllu höfuðborgarsvæðinu og gera það að virkum þætti í löggæslunni, á stöðum þar sem fólk safnast saman og í íbúðahverfum.“
Hér er aðeins tíundað brot af því, sem fram kemur í stefnuskýrslunni um sýnilega löggæslu og gildi hennar. Þar er einnig rætt um hverfa- og grenndarlöggæslu, sem við borgarstjóri ræddum á fundi okkar 18. júlí, en í sameiginlegri tilkynningu okkar Ólafs F. Magnússonar um fundinn segir: „Fagnaði ráðherrann því framtaki Reykjavíkurborgar að ráða sérstaka menn til að auka öryggisgæslu í miðborginni. Samstarf af þessu tagi ætti að þróa áfram í samvinnu lögreglu og sveitarfélaga. Í því sambandi var rætt um hverfagæslu til eftirlits með tilteknum svæðum, grunsamlegum eða óeðlilegum mannaferðum og hópasöfnun unglinga og miðlun upplýsinga um slíkt til lögreglu. Hverfagæsla kæmi hins vegar aldrei í stað öflugrar löggæslu í borginni. Var ákveðið, að hugað skyldi að gerð samkomulags lögreglu og Reykjavíkur um skipulegt samstarf um hverfagæslu. Það er sameiginlegt markmið ráðherra og borgarstjóra að tryggja sem best öryggi borgaranna með öflugri löggæslu.“
Tvær meginleiðir eru til að efla sýnilega löggæslu, annars vegar með því að styrkja liðsafla lögreglunnar, sem ber að gera, og hins vegar með því að skipuleggja lögregluliðið á nýjan hátt, draga úr yfirbyggingu og minnka starfstíma lögreglumanna innan dyra. Í því efni þarf meðal annars að huga að endurskilgreiningu á starfsskyldum lögreglumanna, færa verkefni frá lögreglustjórum til sýslumanna, til að auðvelda embættum lögreglustjóra að einbeita sér að löggæslunni sjálfri, aukin skilvirkni hennar eykur sýnileika.
Ég hef nú ýtt endurskoðun lögreglulaga úr vör og ber að nýta hana til að fara ofan í alla þessa þætti.
Fyrir áhugamenn um eflingu löggæslu hefur verið birtur og er aðgengilegur mikill fróðleikur um leiðir til að ná því marki í gögnum, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið, embætti ríkislögreglustjóra og einstök lögregluembætti hafa sent frá sér. Af því öllu má ráða, að mikill árangur hefur náðst á liðnum árum og áform hafa verið kynnt, hvernig unnt er að gera enn betur.
Á undanförnum árum hef ég oft undrast, hve illa samfylkingarmenn utan þings og innan bregðast við hugmyndum um að styrkja innviði lögreglunnar. Ýmsir þeirra virðast hafa festst í óvild í garð embættis ríkislögreglustjóra og eru haldnir þeirri meinloku, að upphaf og endir allra umbóta í lögreglumálum byggist á því að vega að embættinu. Meinlokur eru oft erfiðar viðfangs, þær skila sjaldnast nokkrum árangri, enda helst til þess fallnar að bregða fæti fyrir breytingar og umbætur.
Í umræðum um löggæslu á höfuðborgarsvæðinu togast á sjónarmið sveitarstjórnarmanna, sem líta á sitt nærumhverfi sérstaklega, og lögregluyfirvalda, sem líta á höfuðborgarsvæðið í heild og haga allri starfsemi sinni á þann veg, að hvarvetna skuli löggæsla vera öflug. Enginn getur til dæmis með rökum mælt gegn því, að löggæsla hefur aukist í Hafnarfirði og Garðabæ eftir sameiningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Krafan um, að sérstaklega sé hugað að miðborg Reykjavíkur hefur sérstöðu – þá er í raun verið að tala um nokkrar götur, þar sem veitingastöðum hefur verið þjappað á tiltölulega lítinn blett og að auki er stofnað þar til „útihátíðar“ um helgar. Um útihátíðir gilda sérstakar reglur, bæði undirbúning og skyldur þeirra, sem til þeirra stofna. Skyldi miðborgarstjórn Reykjavíkur vilja láta innleiða þær reglur í miðborginni um helgar?
Fyrir nokkrum árum fór margt úrskeiðis við skipulag öryggisgæslu á menningarnótt í Reykjavík. Eftir að betri skipan komst á samstarf lögreglu og borgaryfirvalda, hefur yfirbragð þessa mikla mannfagnaðar breyst til hins betra. Þar koma miklu fleiri að allri gæslu en lögreglumenn, eins og jafnan á útihátíðum. Vilji borgaryfirvöld huga að sambærilegu skipulagi í miðborginni um helgar, þar sem um útihátíð sé að ræða að þeirra mati, þarf að nálgast viðfangsefnið á þann veg gagnvart lögreglu og öðrum.
Vilji stjórnmálamenn í raun styrkja lögregluna, er óhjákvæmilegt, að þeir líti á heildarmyndina. Það verður gert við endurskoðun lögreglulaganna og því mun að lokum reyna á vilja þingmanna og hug þeirra í garð öflugrar löggæslu, þegar frumvarp að nýjum lögreglulögum verður fyrir þá lagt.
Að lokum minni ég á það, sem ég sagði um þessi mál við brautskráningu nemenda úr lögregluskólanum 18. apríl sl.