Viðbrögð við hættumati - LRH - næturvandi miðborgar.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra tók til starfa 1. janúar 2007, þegar nýskipan lögreglumála kom til sögunnar, það er fækkun lögregluumdæma og sameining þeirra. Hinn 1. júlí síðastliðinn lagði ég fyrir ríkisstjórnina fyrstu opinberu útgáfuna á mati greiningardeildarinnar á hættu af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi.
Í greiningarskýrslunni er leitast er við að horfa fram á veg og segja til um líklega þróun á þeim sviðum sem hún nær til. Við gerð hættumatsins voru einkum nýttar skýrslur úr gagnabönkum lögreglu á Íslandi og upplýsingar, sem greiningardeild hefur aflað. Upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum greiningardeildar komu einnig að notum. Leitað var til sérfræðinga innan lögreglu auk þess sem nýttar voru opnar heimildir. Stuðst var við skilgreiningar og aðferðafræði Evrópulögreglunnar, Europol.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra metur hættu á hryðjuverkum hér lága í byrjun júní 2008. Hins vegar er lögð þung áhersla á aukin umsvif skipulagðra erlendra glæpahópa á Íslandi. Þá eru íslenskir afbrotamenn ekki taldir síður stórtækir í skipulögðum afbrotum.
Með kynningu á skýrslunni hefst enn nýr áfangi í löggæslustarfi hér á landi. Með hættumatinu er athygli beint að brýnum viðfangsefnum lögreglu. Í matinu felst leiðsögn um þau verkefni, sem hafa ber í huga í daglegum löggæslustörfum og við mótun framtíðarstefnu. Skýrslan er staðfesting á hinu mikilvæga starfi, sem unnið er af greiningardeild ríkislögreglustjóra.
Í skýrslunni er tekið fram, að við hættumat vegna hugsanlegra aðgerða hryðjuverkamanna á Íslandi beri að hafa í huga, að lögregla á Íslandi búi ekki yfir forvirkum rannsóknarheimildum innan þess málaflokks og megi því ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila liggi ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot. Möguleikar lögreglunnar hér til að fyrirbyggja hryðjuverk séu því ekki þeir sömu og annars staðar á Norðurlöndunum. Þessu fylgi einnig að íslensk lögregla hafi mun takmarkaðri upplýsingar um mögulega ógn eða hættulega einstaklinga, sem kunni að fremja hryðjuverk.
Eftir að skýrslan var birt, sneri Fréttablaðiðið sér til Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, og spurði hann álits á því, sem í skýrslunni segir. Í blaðinu 3. júlí segir meðal annars:
„Fram kemur í nýrri hættumatsskýrslu Ríkislögreglustjóra að lögreglu skorti forvirkar rannsóknarheimildir til að takast betur á við og fyrirbyggja skipulagða glæpastarfsemi. „Það er í mörgum tilfellum nauðsynlegt fyrir lögreglu að hafa þessar heimildir," segir Ásgeir Karlsson, stjórnandi greiningardeildar Ríkislögreglustjóra. Hann leggur þó áherslu á að í öðrum ríkjum séu þær háðar ströngu eftirliti.
„Ég hef oftar en einu sinni lýst þeirri skoðun minni, að tryggja þurfi lögreglu þessar heimildir hér á landi," segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.
Lúðvík Bergvinsson er á allt öðru máli. „Á mannamáli heitir þetta öryggislögregla eða leyniþjónusta," segir hann og telur ekki þörf á slíkri stofnun. Nær væri að eyða fé í að byggja upp almenna löggæslu. „Við þessar aðstæður þurfum við ekki að byggja upp enn eina deildina eða stofnunina. Það er fráleitt."
Í fyrra var unnið frumvarp í dómsmálaráðuneytinu um íslenska öryggisþjónustu, sem væri aðskilin frá lögreglu og hefði umræddar heimildir. Það er enn hjá ráðherra til frekari útfærslna og hefur fáum verið kynnt.
„Ég held að ég geti sagt það fyrir Samfylkinguna að öryggislögregla eða leyniþjónusta er ekki á forgangslista hennar," segir Lúðvík, spurður um það hvort slíkt frumvarp myndi njóta stuðnings hans og samflokksmanna hans í Samfylkingunni.“
Hinn 3. júlí birtist þetta um málið í Morgunblaðinu:
„FORVIRKAR rannsóknarheimildir munu verða bundnar við það, sem ákveðið er lögum samkvæmt og aldrei yrði til þeirra gripið nema með samþykki dómara,“ segir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. Hann hefur hug á því að Alþingi veiti lögreglu slíkar heimildir en þær felast í því að safnað er upplýsingum um fólk eða fyrirtæki án þess að rökstuddur grunur sé um afbrot. Slíkar heimildir hefur lögregla á Norðurlöndum. Í mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra kemur fram að þrátt fyrir lágt hættustig sé ljóst að hryðjuverk geti átt sér stað á Íslandi og sömuleiðis undirbúningur og skipulag hryðjuverka í öðrum löndum. Í matinu kemur fram að merki séu um aukin umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi, bæði á vegum innlendra og erlendra hópa, sem láti nú til sín taka á fleiri sviðum en verið hefur t.d í mansali og barnaklámi, auk fíkniefnasölu. Greiningardeild ríkislögreglustjóra leggur þunga áherslu á að möguleikar til að bregðast við þróun af þessu tagi séu minni en ella því að lögregla hafi ekki forvirkar rannsóknarheimildir.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segist munu kynna tillögur um forvirkar rannsóknarheimildir við fyrirhugaða heildarendurskoðun lögreglulaga og einnig hyggst hann leggja þær fyrir svonefnda hættumatsnefnd, sem starfar á vegum utanríkisráðherra.
Á brattann að sækja í þinginu
„Reynsla mín er sú, að það geti verið á brattann að sækja í fyrstu á Alþingi með sjálfsagðar og eðlilegar breytingar á starfsháttum lögreglu og þingmenn þurfi því töluvert ráðrúm til að fjalla um mál af þessu tagi,“ segir Björn. Rökræður og miðlun upplýsinga leiði þó að lokum til skynsamlegrar niðurstöðu, eins og hafi gerst þegar þingið samþykkti að greiningardeild ríkislögreglustjóra yrði stofnuð. „Fyrsta skrefið er að sjálfsögðu, að ég leggi fram tillögur mínar,“ segir Björn. Hann telur nauðsynlegt að horfa fram á veg og leggja sig fram um að búa í haginn enn frekar. „Alþjóðlegri glæpastarfsemi verður til dæmis að svara með auknu alþjóðlegu lögreglusamstarfi og hefur markvisst verið unnið að því að efla það af okkar hálfu,“ segir Björn jafnframt. Hættustig vegna hryðjuverkaógnar var lágt í júníbyrjun, skv. fyrsta mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra á slíkri hættu. Það þýðir að ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um hættu á hryðjuverkum né er almennt talin sérstök ástæða til að auka viðbúnað lögreglu.“
Morgunblaðið fjallar síðan um hættumatið í leiðara sínum 4. júlí og segir:
„Nýtt opinbert hættumat greiningardeildar ríkislögreglustjóra er merkileg lesning. Þar er lýst gjörbreyttum veruleika í undirheimunum hér á landi, þar sem engir smákrimmar eru á ferð heldur harðsvíraðir, skipulagðir glæpahópar.
Í fyrsta lagi kemst greiningardeildin að þeirri niðurstöðu að hér á landi færist skipulögð glæpastarfsemi í vöxt og verði sífellt fjölbreytilegri. Erlend glæpagengi hafi haslað sér völl á Íslandi. Þau eigi bæði í samstarfi og samkeppni við íslenzka glæpamenn. Vísbendingar séu um að starfsemi erlendra glæpahringja hér á landi sé mun umfangsmeiri en flestir hafi ætlað.
Í öðru lagi slær greiningardeild ríkislögreglustjóra því föstu í fyrsta sinn að hér á landi sé skipulagt vændi og jafnframt stundað mansal. „Vísbendingar eru um að erlendir aðilar komi í auknum mæli að skipulögðu vændi á Íslandi. Grunur leikur á að sú starfsemi tengist mansalshringjum, einkum í Austur-Evrópu. Víst þykir að íslenskir ríkisborgarar búsettir hér á landi, eigi samstarf við erlenda aðila á þessu sviði skipulagðrar glæpastarfsemi,“ segir í hættumatinu.
Í þriðja lagi er í skýrslu greiningardeildarinnar fjallað um hættu á hryðjuverkum á Íslandi. Deildin telur að hættustig vegna hryðjuverka sé lágt, en segir hins vegar skýrt að það sama eigi við um Ísland og önnur vestræn ríki, að hér geti hryðjuverk átt sér stað, svo og undirbúningur og skipulag hryðjuverka gagnvart öðrum löndum.
„Ísland og íslenskir hagsmunir gætu orðið fyrir alvarlegum skaða ef hérlendis færi fram undirbúningur að hryðjuverki í öðru landi eða rekja mætti árásir til þess að íslensk stjórnvöld hefðu ekki sinnt alþjóðlegum skuldbindingum um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi,“ segir í hættumatinu.
Höfundar hættumatsins benda á að lögreglan á Íslandi búi ekki yfir heimildum til að beita forvirkum rannsóknaraðgerðum og megi ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða fyrirtæki, liggi ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot. „Möguleikar lögreglunnar á Íslandi til þess að fyrirbyggja hryðjuverk eru því ekki þeir sömu og á hinum Norðurlöndunum. Þessu fylgir einnig að lögreglan hérlendis hefur mun takmarkaðri upplýsingar um mögulega ógn eða hættulega einstaklinga, sem kunna að fremja hryðjuverk,“ segir í skýrslunni.
Af því, sem fram kemur í hættumatinu, má draga þá ályktun að stofnun greiningardeildar ríkislögreglustjóra var nauðsynlegt framfaraspor í löggæzlu á Íslandi. Lögreglan verður að búa yfir ýtarlegri greiningu á því umhverfi, sem hún starfar í, og líklegri þróun þess, m.a. í samhengi við framvinduna á alþjóðlegum vettvangi.
Sömuleiðis er auðvelt að álykta að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um aukinn viðbúnað lögreglunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum, t.d. með eflingu sérsveitar ríkislögreglustjóra, voru réttar.
Og í ljósi lestrarins verða þingmenn, sem lögðust af offorsi gegn þessum umbótum, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi, dálítið hlægilegir. Menn, sem vildu í öðru orðinu berjast með oddi og egg gegn m.a. fíkniefnasölu, vændi og mansali, lögðust í hinu orðinu gegn því að lögreglan fengi þau tæki sem duga til að taka á slíkri starfsemi.
Meðal þeirra, sem höfðu allt á hornum sér yfir stofnun greiningardeildarinnar, voru Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson, sem höfðu miklar áhyggjur af „leyniþjónustu“ og „njósnastarfsemi“ á Íslandi. Það er gott að nú geta þeir lesið fyrstu niðurstöður „njósnanna“ í opinberri skýrslu.
Þegar lagt var til að efla sérsveitina, m.a. til að geta brugðizt við vopnuðum glæpahópum og hryðjuverkum, hlupu téður Ögmundur og Ágúst Ólafur, ásamt Helga Hjörvar og Lúðvík Bergvinssyni, upp til handa og fóta. Meðal annars var spurt hvort verið væri að stofna „íslenzkan her“. Bendir eitthvað til þess, nú þegar sérsveitin hefur margoft sannað sig við löggæzlustörf?
Björn Bjarnason segir í Morgunblaðinu í gær að hann hyggist leggja fyrir Alþingi tillögur um að lögreglan fái heimildir til forvirkra rannsóknaraðgerða, sem hún telur sig þurfa og sem lögregla annars staðar á Norðurlöndum hefur. Skyldu áðurnefndir þingmenn líka ætla að leggjast gegn því?“
Ég hef engu við þennan ágæta leiðara Morgunblaðsins að bæta. Hann lýsir stöðu þessara mála vel, bæði þeim verkefnum, sem við blasa við gæslu öryggis í þágu borgaranna, og einnig pólitíska viðfangsefninu hjá mér.
Lúðvík Bergvinsson hefur tafið fyrir framgangi nauðsynlegra umbóta á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Umbóta, sem ríkisendurskoðun styður. Umbóta, sem falla að markmiðum viðkomandi ráðuneyta. Umbóta, sem eru óhjákvæmilegar til að ná tökum á fjármálum embættisins. Lúðvík lét í veðri vaka á þingi, að hann styddi þessar umbætur, ef embætti ríkislögreglustjóra yrði aflagt! Lúðvík hefur einnig lagst gegn hugmyndum um varalið lögreglu og nú lýsir hann andstöðu við öryggis- og greiningarþjónustu á vegum lögreglu.
Ég er nú að hrinda af stað heildarendurskoðun lögreglulaga og við hana verða öll þessi mál lögð undir og kynnt til opinnar og almennrar umræðu. Fátt er mikilvægara varðandi almenna stöðu og verkefni lögreglu en að ræða málið fyrir opnum tjöldum.
Á næstu vikum og mánuðum mun ég hafa frumkvæði að því, að það verði gert. Efniviðurinn til þess er meiri og betri en áður. Greiningarskýrslan með hættumatinu en framlag í þessu skyni og eins áfangaskýrsla frá því fyrr í sumar, sem hefur að geyma úttekt á reynslunni af nýskipan lögreglumála.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, sem varð til undir forystu Stefán Eiríkssonar lögreglustjóra 1. janúar 2007, hefur sent frá sér fyrstu ársskýrslu sína. Þar kemur fram, að 196.161 manns búa í þessu lögregluumdæmi eða 62.7% landsmanna, hlutfall erlendra manna í umdæminu er 6,5% af íbúum (6,8% af öllum landsmönnum 312. 872) og fjöldi ríkisfanga þeirra, sem í umdæminu búa, er 126 (128 á landinu öllu). Lögreglumenn í liðinu voru 347 í árslok 2007 og borgaralegir starfsmenn 109, rekstur ársins 2007 kostaði um 3,1 milljarð króna og varð 65 milljón króna halli á rekstrinum á árinu en við upphaf þess var áætlað að hann yrði 180 m. kr.
Undir lok skýrslunnar segir:
„Almennt hefur sameining lögregluliðanna [í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði] heppnast vel og skilað miklu þótt ekki hafi allt verið hnökralaust. Aukin skilvirkni, yfirsýn og samræming á störfum deilda hefur verið til hagsbóta og þess sjást víða merki. T. d. hjá ákærusviði embættisins, en tekist hefur að koma fleiri brotum til meðferðar hjá dómstólunum í færri dómsmálum. Þannig voru 3.162 mál afgreidd með 1.376 ákærum árið 2007 en árið 2006 afgreiddu þau embætti sem nú mynda LRH 3.142 mál með 1.497 ákærum.
Annað sem hefur gengið vel er sáttamiðlun í sakamálum. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem leitast er við að ná sáttum á milli brotamanna og brotaþola í kjölfar afbrots. Sáttamiðlun stendur öllum til boða sem náð hafa sakhæfisaldri en sé þolandi eða gerandi yngri en 18 ára skal lögráðamaður samþykkja að sáttamiðlun sé beitt. Verkefnið nær til alls landsins en hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var komið á sáttum í yfir tuttugu málum árið 2007. Einkum var um að ræða minniháttar líkamsárásarmál, brot gegn valdstjórninni, eignaspjöll og þjófnað. Ákveðin skilyrði þarf til að málum sé vísað í sáttamiðlun. Eitt þeirra er að gerandi hafi játað brotið, málið sé talið upplýst og gerandi og þolandi hafi samþykkt að málið fari þessa leið.“
Í skýrslunni er rætt um afskipti lögreglunnar af brotum gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkur og minnt á, að Stefán Eiríksson hafi blandað sér í umræður um miðborgarmálin svonefndu með grein í Morgunblaðinu auk þess sem löggæsla hafi verið hert, en alls voru skráð brot gegn lögreglusamþykktinni ríflega 600 á árinu 2007.
Veitingamenn hafa deilt á lögreglustjóra fyrir að vekja máls á því, að það kynni að draga úr næturvandræðum í miðborginni, yrði afgreiðslutími veitingastaða styttur. Raunar ætti ekki að þurfa að deila um þetta, því að af sjálfu leiðir. Pétur Gunnarsson, rithöfundur, ræddi þetta mál í pistli í Morgunblaðinu 4. júlí og segir meðal annars:
„Í miðborg Rómar eru kaffihús og barir fleiri en tölu verður á komið og mannhafið sem kemur saman yfir mat og drykk á hverju kvöldi ævintýralegt. En fljótlega upp úr miðnætti er öllu lokið og götuhreinsunin tekur við. Eins er um heimsborgina París, þar er leitun á stað þar sem hægt er að fá veitingar eftir að komið er fram yfir miðnætti, í hæstalagi á meðan verið er að stafla upp stólum. Stokkhólmur er undir sömu sök seldur, miðbær morandi í veitingastöðum, en upp úr miðnætti eru ljósin slökkt.
Maður sem hefur ekki náð að skemmta sér fyrir miðnætti, það eru hverfandi líkur á að hann nái því eftir miðnætti. Hið öndverða er miklu líklegra, að hann verði sjálfum sér og öðrum til æ meiri leiðinda. Samanber skálmöldina sem er orðin fastur liður í miðborg Reykjavíkur. Morgunsár er jafnvel á góðri leið með að fá nýja og breytta merkingu í íslensku: sá tími þegar mönnum er hættast við sárum.
„Þetta fylgir því að búa í borg,“ segja menn „resigneraðir“. En það er óvart ekki lóðið, þetta er séríslensk uppfinning. Og skilin sem slík af útlendingum sem jafnvel gera sér ferð hingað upp eftir til að skoða það sem þeir hafa aldrei augum litið annars staðar: varanlega „verslunarmannahelgi“ og vargöld í miðborg.
Auðvitað eru í stórborgum Smiðjuhverfi og Skemmuvegir þar sem finna má næturklúbba þar sem hægt er að liðsinna fólki sem býr við einhvers konar gleðitregðu. En að blanda því saman við miðbæinn – þessa betri stofu borganna og andlit – lengra verður vart komist í útnárahætti,“
Þetta eru orð í tíma töluð og á þann veg, að hlýtur að höfða til allra hugsandi manna, jafnvel þeirra, sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.
Að lokum: Pétur nefnir að orðið morgunsár sé að fá nýja og breytta merkingu. Á dögunum var sagt frá því, að Benedikt sundkappi hefði enn reynt að synda yfir Ermarsund en orðið frá að hverfa eftir 10 tíma þolraun í sjónum – hann átti meðal annars erfitt með að matast vegna sjógangs. Til að lýsa þessum erfiðleikum Benedikts var orðið „næringarinntaka“ notað í fréttum hljóðvarps ríkisins.