29.6.2008

Björk - nýfrjálshyggja - virkjanir.

Í lesbók Morgunblaðsins birtist laugardaginn 28. júní grein eftir Önnu Björk Einarsdóttur undir fyrirsögninni: Ímyndin Ísland. Greinin er rituð í tilefni af Náttúru, tónleikum Bjarkar Guðmundsdóttur, Sigur Rósar og Ólafar Arnalds í Laugardalnum þennan sama dag, sem um 30. 000 manns sóttu. Höfundur tengir framtak Bjarkar og félaga nýlegri skýrslu um ímynd Íslands frá nefnd á vegum forsætisráðherra undir formennsku Svöfu Grönfeldt, rektors Háskólans í Reykjavík. Í grein Önnu Bjarkar segir meðal annars:

„Það er mikilvægt að hafa í huga að samkvæmt hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar er aðeins einn aðili sem aldrei má græða og það er ríkið, eða sameiginlegir sjóðir fólksins í landinu. Eina hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja svokallað „viðskiptaandrúmsloft“ fyrir einkafyrirtæki. Aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar, bæði í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og nú í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, miðast við að laða til Íslands erlendar (svo!) fjárfesta og fyrirtæki. Þótt stóriðjuframkvæmdirnar séu oft uppnefndar „stalínískar“ í daglegu tali og þær kenndar við forræðishyggju þá falla þær einstaklega vel að hugmyndafræði frjálshyggjunnar og fara ekki gegn henni eins og oft er haldið fram.

Þá er áhugavert að sú söguskoðun sem sett er fram af Björk og í skýrslu forsætisráðuneytisins [um ímynd Íslands] smellpassar við söguskoðun nýfrjálshyggjunnar. Þegar því er haldið fram að þjóðin hafi tekið „stökk frá því að vera þróunarland til þess að verða ein ríkasta þjóð í heimi á innan við öld“ eftir að „hún fékk frelsi og sjálfstæði“ er gefið í skyn að með innleiðingu nýfrjálshyggjunnar í íslensku samfélagi (frelsi) hafi þjóðin loksins fengið að blómstra. Þá er saga Íslands lesin út frá hagfræðikenningum sem fjalla um hvernig fátækari lönd geti náð í skottið á ríkari löndum ef aðferðir nýfrjálshyggjunnar eru notaðar. Þróunin í heiminum hefur hins vegar sýnt fram á það að þessi hugmynd virkar ekki – fátækari lönd heims hafa ekki náð í skottið á þeim ríkari þrátt fyrir að hafa tekið upp hagstjórn í anda nýfrjálshyggju. Í íslensku samhengi má allt eins, og ef til vill miklu frekar, leiða líkur að því að almenn velsæld í samfélaginu sé afurð velferðarkerfisins; almennrar heilbrigðisþjónustu, menntunar og félagslegs jafnaðar og að með nýfrjálshyggjunni sé verið að afnema þetta kerfi smám sama og afleiðingar þess séu enn ekki ljósar þótt nýleg mótmæli vörubílstjóra gefi vísbendingu um hvað koma skal. ....

Það hlýtur að vera umhugsunarefni umhverfisverndarsinna hversu auðveldlega ríkisstjórnin getur tekið upp málflutning þeirra án þess að breyta stefnu sinni í stóriðju á nokkurn hátt. Ef náttúrverndarsinnar einblína á ímynd Íslands í baráttu sinni gegn stóriðju á Íslandi frekar en hugmyndafræðilegt samhengi stefnunnar er hætta á að málflutningur þeirra fái að heyrast óáreittur í samfélaginu næstu ár án þess að stefna stjórnvalda breytist á nokkurn hátt......

Spurning mín til umhverfisverndarsinna á Íslandi í dag er því þessi: Hefur sú baráttuaðferð sem snýr að ímynd Íslands, sú sem gengst inn á forsendur nýfrjálshyggjunnar gagnrýnislaust, ekki beðið skipbrot? Þurfum við ekki að móta nýja stefnu til að bregðast við áframhaldandi stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar?“

Feitletrunin í tilvitnuninni hér að ofan er mín. Ég vel þessi orð höfundar sérstaklega, vegna þess að í þeim felst mikill misskilningur. Öll framvinda hin síðari ár sýnir, að þeim þjóðum vegnar best efnahagslega, sem tileinka sér aðferðir og hugmyndir frjálshyggjunnar. Nægir þar að nefna til sögunnar Kína, Indland og Víetnam.

Í ríki, sem hingað til hefur hafnað hagstjórn af þessu tagi, Kúbu, ríkir á hinn bóginn stöðnun og almenn fátækt. Í Venezúela hefur Hugo Chavez einræðisherra valið sósíalisma sem úrræði til að bæta hag þjóðarinnar, en hagur landsmanna versnar jafnt og þétt, þrátt fyrir miklar tekjur af síhækkandi olíuverði.

Kommúnistar hafa löngum afsakað hið hörmulega ástand á Kúbu með þeim rökum, að þar hafi íbúarnir þó aðgang að ókeypis menntun og hjúkrun. Hvoru tveggja er hins vegar svo frumstætt og fornfálegt vegna fátæktar, að ekki er til neinnar fyrirmyndar.

Ekkert þjóðfélag þrífst án verðmætasköpunar. Ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa starfað undir þeim merkjum undanfarin ár og tekist hefur á einstakan hátt að efla hagsæld þjóðarinnar.

Ólafur Björnsson, prófessor og alþingismaður, færði fyrir því sannfærandi rök á sínum tíma, að enginn vissi í raun, hvað væri félagshyggja. Á bak við hugtakið stæði í raun ekki neitt heldur væri það efnislega óskilgreind andstaða við frjálshyggju. Um svipað leyti var einnig tekið til við að ræða um þriðju leiðina í stjórnmálum til aðgreiningar frá gamaldags sósíalisma. Tony Blair leiddi nýja Verkamannaflokkinn til sigurs í Bretlandi undir þessum merkjum, af því að hann vildi ekki fylgja stefnu, sem kennd var við Margaret Thatcher, án þess að aðhyllast hreinræktaða jafnðarstefnu eða sósíalisma, þar sem hann vissi, að kjósendur myndu ekki kjósa slíkt yfir sig.

Þegar svo var komið, að frjálshyggjan var orðin viðtekin stefna hjá þeim, sem vildu ná eyrum kjósenda á árangursríkan hátt, var síðan farið að tala um nýfrjálshyggju á svipaðan veg og Anna Björk gerir í lesbókargrein sinni. Frjálshyggjumenn hafna hins vegar þessari orðnotkun eins og til dæmis má sjá í þessum orðum frjálshyggjumannsins Friðbjörns Orra Ketlilssonar 28. mars 2005:

„Orðskrípið „nýfrjálshyggja“

Frjálshyggjufélagið byggir stefnu sína á gömlum gildum frjálshyggjunnar. Á ensku nefnist stefna félagsins Classical Liberalism og vísar það heiti til gömlu frjálshyggjumannanna sem lögðu grunninn að hugmyndafræðinni á öllum sviðum. Frjálshyggjan gengur út á frelsi og réttlæti. Frelsi til athafna og eigna. Frelsi til trúar o.s.frv.

Allt tal um nýfrjálshyggju félagsmanna er því marklaust. Slík stefna er ekki til. Annað hvort er fólk sammála frjálshyggjunni eða ekki. Fólk sem tekur aðeins undir algjört frelsi hvítra en hafnar frelsi svartra er t.d. ekki að fara eftir frjálshyggju.

Hins vegar er þetta orðskrípi til þess ætlað að koma einhverju óorði á frjálshyggjuna og fylgismenn þeirrar stefnu hér á landi. Tilraunin er vindhögg því orðið hefur enga merkingu.

Gott mál.“

Anna Björk segir ekki frá því í grein sinni, hvaða stefnu hún telur, að fylgja eigi í stað þeirrar, sem hún segir, að ríkisstjórnin, Björk og Andri Snær fylgi.  Anna Björk er ekki í vafa um kjarnan í málflutningi Andra Snæs. Hún segir: „Þvert á móti hefur verið bent á að þær hugmyndir sem Andri Snær setur fram í Draumalandinu samræmist nýfrjálshyggjunni algerlega enda fékk Andri Snær sérstök verðlaun Sambands ungra sjálfstæðismanna fyrir Draumalandið, Frelsisskjöld Kjartans Gunnarssonar.“

Þegar rætt er um sífellt hærra olíuverð, er gjarnan vakin athygli á því, að í olíuríkjum er meginreglan sú, að ríkið á og stjórnar allri nýtingu á olíu- og gaslindum.  Olíuríki hafa myndað samtök til að stjórna framleiðslu og verði, OPEC. Þessir starfshættir eru í hrópandi andstöðu við frjálshyggju.

Lýðræði á undir högg að sækja í mörgum olíuríkjum og víða er þar einræði í einhvers konar mynd. Þótt ólíku geti verið saman að jafna um stjórnarhætti er þar eins og hér mikil tregða til að láta ráð yfir orkulindum úr hendi opinberra aðila.

Hvað sem líður frjálshyggju hér á landi og þeim orðum Önnu Bjarkar í lesbókinni, að „eina hlutverk ríkisvaldsins“ sé að tryggja „svokallað „viðskiptaandrúmsloft“ fyrir einkafyrirtæki“  hefur enginn stjórnmálaflokkur á stefnuskrá sinni að selja orkufyrirtæki eða sleppa opinberri stjórn eða eignarhaldi á orkulindum. Er næsta einkennilegt, að Anna Björk horfi fram hjá þessu, þegar hún ræðir um nýfrjálshyggjuna og náttúruvernd. 

Björk Guðmundsdóttir segir í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu 28. júní:

„Ég vil undirstrika það sem ég hef oft sagt: ég er ekki á móti virkjunum. Ég er á móti samstarfi við Alcoa og flest svipuð erlend stórfyrirtæki. Mér finnst þau ekki vera holl Íslandi eða Íslendingum.“

Feitletrun er mín. Ummælin eru í ætt við stefnu gegn fjölþjóðafyrirtækjum, sem sósíalistar höfðu í hávegum, áður en hnattvæðingin gerði stefnuna að pólitískum minjum. Björk er ekki á móti því, að orka sé virkjuð - þó ekki í þágu Alcoa. Spyrja má: Hvað um álfyrirtæki almennt?  Í íslenskri eigu? Eða Norðmanna?

Á tímum kalda stríðsins þótti mikils virði að semja við hlutlausa Svisslendinga, það er eigendur Alusuisse, um álverið í Straumsvík, til að forðast ágreining, sem byggðist á ásökunum um of mikil tengsl við bandaríska kapítalista. Ég hef oft áður vakið máls á því, að  þá hefði þótt saga til næsta bæjar, að forráðamenn í Neskaupstað (litlu Moskvu) myndu nokkrum áratugum síðar berjast af mestum þunga fyrir samningum við bandarískan álrisa, Alcoa.

Ef afstaða Bjarkar ræðst af því við hverja er samið, virðist hún ekki samstiga ungum jafnaðarmönnum, sem átelja ráðherra Samfylkingarinnar harðlega fyrir að stuðla að tveimur nýjum álverum, sama við hvern samið er um þau, og ganga þar með gegn stefnu flokksins í umhverfismálum. Þeir minna á, að í stefnunni Fagra Ísland, sem Samfylkingin boðaði fyrir síðustu kosningar, komi m.a. fram að slá skuli „ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.“ Samkvæmt því skuli ekki meira virkjað í bili.  Björk er hins vegar ekki á móti virkjunum. Ungir jafnaðarmenn gagnrýna, að viðskiptaráðherra hafi tekið skóflustungu að álveri í Helguvík í Reykjanesbæ og iðnaðarráðherra endurnýjað viljayfirlýsingu um byggingu álvers á Bakka við Húsavík, þótt heildarsýn yfir náttúrusvæði skorti. Þeir segja, að ráðherrarnir hafi með þessu farið „gróflega gegn stefnu flokksins“.

Frjálshyggja á Íslandi hefur undanfarin ár falist í því, að ríkisvaldið hefur selt ríkisbanka og skapað þannig nýtt svigrúm fyrir einkaaðila á fjármálamarkaði. Þetta svigrúm nýttu fyrirtæki síðan til útrásar og fóru sínu fram og vildu hafa minnst við ríkisvaldið að sælda. Færu stjórnmálamenn gagnrýnum orðum um framgöngu hinna nýju fyrirtækja, var það lagt út á hinn versta veg. Skattar á fyrirtæki voru lækkaðir til að halda þeim í landi og búa sem best í haginn fyrir þau af opinberri hálfu. Forseti Íslands lagði sig fram um að vera hvarvetna til reiðu á erlendum og innlendum vettvangi, þar sem þessum nýju, sístækkandi félögum þótti sér henta, að hann kæmi fram. Íslenska krónan nýttist vel í þessari sókn allri, auk þess sóttust erlendir fjárfestar eftir henni og til urðu svonefnd jöklabréf. Ímynd Íslands í nágrannalöndum mótaðist mjög af þessu og drægju erlendir fjölmiðlar eða greinendur af einhverju tagi í efa, að innistæða væri fyrir útrásinni, var þeim svarað fullum hálsi.

Hin síðari misseri hefur efnahagsþróun orðið öndverð þeim, sem sækja fram í krafti mikils lánsfjár og komið hefur að skuldadögum.  Þá breytist viðfangsefnið við stjórn fyrirtækja í vanda stjórnmálamanna, krónan er of lítil og sveiflukennd, ríkið styður ekki nógu vel við fyrirtækin, gjaldeyrisvarasjóðurinn er of lítill.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og einn ákafasti málsvari aðildar Íslands að Evrópusambandinu, lýsir stöðunni svo á vefsíðu sinni:

„Hvað skyldu útrásardrengirnir vera búnir að valda miklum skaða ef allt væri nú talið? Fyrirtæki sem áttu góða varasjóði standa nú skjálfandi út í kuldanum skuldsett upp í topp.“

Nokkrum dögum síðar segir Guðmundur:

„Reyndar er orðið ljóst að almenning er farið að blöskra. Fylgið hrapar í skoðanakönnunum og meiri hluti þjóðarinnar vill skýrari stefnu samfara hreinni nýtingu náttúruauðlinda landsins. Þessu var lofað fyrir síðustu kosningar en hefur ekki verið efnt. Skammtímalausnir ráða ríkjum, nauðhyggja. Nýfjrálshyggjustefnan hefur keyrt okkur upp að vegg. Hin sérstæða íslenska stefna, sem átti að vera svo stórkostleg, er hrunin. Hún hefur leitt yfir okkur stórkostlegar efnhagslegar þrengingar og það mun taka þjóðina mörg ár ef ekki áratugi að vinna sig út þeir skuldum sem þessi stefna hefur leitt yfir okkur....

Til þess að tryggja fjölgun atvinnutækifæra er ljóst að við þurfum að virkja, en þjóðin vill vera þátttakandi í þeirri ákvarðanatöku. Það er hægt að skapa mörg tækifæri með náttúrunni, en til þess þarf margfalt betra skipulag þjóðgarða. Þar duga ekki yfirlýsingar á opinberum vettvangi, þegar þeim fylgja engar framkvæmdir með friðun svæða á borð við Fjallabak, betra aðgegni, merktum leiðum og úthýsingu vélknúinna farartækja utan þeirra.“

Feitletrun er mín enda er ástæða til að velta fyrir sér inntaki þessara orða í ljósi þess, sem Anna Björk segir um samfelluna í stefnu nýfrjálshyggjunnar svonefndu og viðhorfa Bjarkar Guðmundsdóttur og Andra Snæs. Eru þau Guðmundur og Anna Björk að tala um sömu nýfrjálshyggju? Anna Björk telur, að ríkisstjórnin og Björk fylgi sömu stefnu nýfrjálshyggju, þegar rætt er um nýtingu náttúruauðlinda, en Guðmundur segir, að stefnan sé hrunin.

Guðmundur vill virkja meira samhliða betra skipulagi á þjóðgörðum. Hann er ekki þeirrar skoðunar, að sú stefna, sem Anna Björk kallar nýfrjálshyggju í grein sinni, hafi gengið sér til húðar. Orð Guðmundar um hrun nýfrjálshyggjunnar ber að skoða í ljósi þess, hvernig stjórnendur fyrirtækja hafa nýtt sér svigrúmið, eftir að ríkið hætti rekstri á bönkum. Guðmundur kallar eftir meiri opinberri forsjá og telur, að vonir sínar um hana rætist með aðild að Evrópusambandinu og þar með minni áhrifum Íslendinga sjálfra á stjórn eigin mála – hún sé og verði betur komin í Brussel, það er í höndum annarra.

Þetta eru forvitnilegar skoðanir, sem hér hafa verið reifaðar, og spurning, hvort þær muni setja svip sinn á stefnu stjórnmálaflokka framtíðarinnar. Til þess að svo megi verða, þarf að móta þær betur og slípa. Það er ekki nóg að vera á móti einhverju heldur þarf einnig að benda á leiðina áfram – ég er sammála þeirri skoðun, að það beri að virkja áfram á Íslandi. Á tímum vaxandi orkuskorts og síhækkandi orkuverðs eru að sjálfsögðu ekki nein rök fyrir því, að ekki skuli virkjuð hrein orka á Íslandi. Hitt er einnig sjálfsagt og eðlilegt að virkja í þágu aukinnar atvinnu og verðmætasköpunar í landi. Fjárfesta í orkufrekum iðnaði þarf að sjálfsögðu að velja af kostgæfni.