17.6.2008

Baugsmál - Hanna Birna - Írar segja nei - fangelsismál.

Á þeim tíma, sem liðinn er, síðan ég skrifaði hér pistil síðast hefur svo margt gerst, hér eru nokkrir punktar:

1.     Á Schengen-ráðherrafundi í Lúxemborg var einkum rætt um, hvernig taka eigi á ólöglegum hælisleitendum. Grikki höfðu þar orðið af mestum þunga, en þessum hælisleitendum hefur fjölgað mjög mikið hjá þeim undanfarin ár og sömu sögu er að segja um Kýpur.

2.     Ég fór til Mallorca í fyrsta sinn. Var þar fylgdarmaður Skálholtskvartettsins, þar sem Rut, kona mín, er meðal hljóðfæraleikara. Hafi ég ímyndað mér Mallorca sífellt baðaða í sól, brást sú mynd, því að það rigndi næstum hvern dag þá viku, sem við vorum á eyjunni. Með kvartettinum átti ég þess hins vegar kost að kynnast annarri hlið á lífi eyjarinnar en sem strandgestur. Í dagbók minni hér á síðunni er nánari ferðalýsing.

3.     Baugsmálinu lauk í hæstarétti, það er þeim hluta málaferlanna gegn forráðamönnum Baugs, sem ekki lúta að skattamálum. Eftirhreytur niðurstöðu hæstaréttar eru meðal annars þær, ef marka má fréttir, að kæra á ummæli mín hér á síðunni í tengslum við málaferlin fyrir mannréttindadómstólnum í Strassborg. Dómstóllinn hefur áður fjallað um frelsi stjórnmálamanna til að lýsa skoðunum sínum og telur hann að sjálfsögðu, að ekki beri að takmarka það.

4.     Að fenginni niðurstöðu hæstaréttar hafa orðið nokkrar umræður um stöðu ákæruvaldsins. Áhugamenn um það efni ættu að kynna sér rækilega þær breytingar á skipan ákæruvaldsins, sem samþykktar voru í þinglok með nýju lögunum um meðferð sakamála. Þessi skipan varð til við vinnu innan dómsmálaráðuneytisins, eftir að réttarfarsnefnd hafði lagt fram tillögur sínar að frumvarpinu um meðferð sakamála. Síðan voru nýmælin kynnt sameiginlega af ráðuneyti og réttarfarsnefnd fyrir allsherjarnefnd alþingis og loks samþykkt samhljóða á alþingi. Að þessari breytingu lögfestri er tímabært, að fjárveitingavaldið samþykki auknar fjárveitingar til þessa þáttar í eftirlitskerfi ríkisvaldsins, eins og gert hefur verið til samkeppniseftirlits og fjármálaeftirlits.

5.     Nokkrar umræður hafa orðið um svonefnt millidómstig. Ég ákvað að taka þann þátt til sérmeðferðar við afgreiðslu frumvarpsins um meðferð sakamála og hefur hann verið til skoðunar í nefnd. Hallgrímur Helgason rithöfundur ritaði bjálfalegustu greinina til þessa í tilefni af Baugsdómi hæstaréttar. Þar heldur hann því meðal annars fram, að millidómstig sé sérstaklega til umræðu í þágu Haraldar Johannessens ríkislögreglustjóra. Þetta er svo fráleit kenning, að höfundur hennar dæmir sig úr leik með því einu að hreyfa henni. Millidómstig er til umræðu vegna ábendinga frá mannréttindadómstólnum og snertir ekki embætti ríkislögreglustjóra á neinn hátt heldur aðferðir við sönnunarfærslu fyrir fleiru en einu dómstigi.

6.     Hanna Birna Kristjánsdóttir var valin oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, eftir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson ákvað að afsala sér því hlutverki. Hanna Birna mun örugglega standa undir hinni miklu ábyrgð, sem á henni hvílir. Hún er einörð baráttukona og fer ekki í launkofa með skoðanir sínar, hrein og bein. Ég verð var við mikinn samhug sjálfstæðismanna að baki henni og góðar óskir um velgengni.

7.     Ég er sammála Hönnu Birnu um þá skyldu stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur að einbeita sér að því að tryggja viðskiptavinum fyrirtækisins sem besta þjónustu á hinn hagkvæmasta hátt – kröftunum beri að verja til þessa en ekki í útrás með almannafé í húfi. Þekking Íslendinga á nýtingu jarðvarma er ekki rígbundin innan opinberra orkufyrirtækja heldur byggist á hæfni þeirra einstaklinga, sem yfir þessari þekkingu búa. Öflug einkafyrirtæki á borð við Mannvit eru best til þess fallin að miðla þessari þekkingu til annarra þjóða og taka þá fjárhagslegu áhættu, sem af því kann að fylgja.

8.     Þegar Guðmundur Þóroddsson hætti störfum sem forstjóri REI, birtust fréttir um mótmæli innan úr Orkuveitu Reykjavíkur um of mikla pólitíska stjórn á fyrirtækinu. Spyrja má: Hvernig er unnt að stjórna opinberu fyrirtæki á annan veg en þann, að þar hafi stjórnmál einhver áhrif? Vilji menn losna við stjórnmálaafskipti af rekstri fyrirtækja, eiga þeir, að afnema opinbera eign af þeim. Svo einfalt er það. Stjórnmálin voru ekki fyrirferðarminni í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, þegar Guðmundur Þóroddsson og Alfreð Þorsteinsson voru þar upp á sitt besta. Eða þegar Helgi Hjörvar ákvað að hefja linu.net ævintýrið, sem byggðist á því að nýta raforku til gagnaflutninga.

9.     Gordon Brown vann atkvæðagreiðslu í neðri deild breska þingsins um að lögregla gæti haldið mönnum í 42 daga gæsluvarðhaldi, án þess að leggja mál þeirra fyrir dómara. Rökin fyrir þessu eru þau, að svo langan tíma geti tekið lögreglu að rannsaka alla málavexti og hún verði að hafa til þess tóm, enda séu hinir handteknu grunaðir um undirbúning hryðjuverka eða annað þeim tengt. 9 atkvæða meirihluti var með tillögunni og fékkst úrslitastuðningurinn frá þingmönnum frá N-Írlandi, þar sem flótti brast í þinglið Verkamannaflokksins og íhaldsmenn voru á móti.

10.  Hið sérkennilega við þetta mál í pólitísku ljósi er, að krafa um svo langt gæsluvarðhald án dóms, er ekki hávær innan úr breska réttarvörslukerfinu. Heldur hefur málið breyst í einskonar styrkleikamat á forystu Verkamannaflokksins. David Davis, skugga-innanríkisráðherra Íhaldsflokksins, sagði af sér, eftir að Brown hafði ná takmarki sínu, til þess eins að bjóða sig fram aftur í sama kjördæmi til að árétta enn betur andstöðu sína við 48 dagana. Er þess nú beðið, hvort Davis verður sjálfkjörinn, en afsögn af þessu tagi, er næsta einsök í breskri þingsögu og eru skoðanir mjög skiptar um ágæti hennar.

11. Hinn 12. júní felldu Írar Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins með 53,4% atkvæða gegn 46,6%. Við þetta varð mikill stjórnmálavandi innan sambandsins, því að öll 27 aðildarríki þess verða að fullgilda sáttmálann, til að hann taki gildi. Stefnt hafði verið að gildistöku 1. janúar 2009, en sú dagsetning er í uppnámi.

12. Allir helstu stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar Írlands vildu samþykkja Lissabon-sáttmálann og sömu sögu er að segja um þá, sem taldir eru tilheyra hinni menntuðu elítu landsins. Höfðað var til þess, að Írar hefðu notið þess ríkulega í fjárhagslegu tilliti að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þeir ættu ríka samleið með Evrópuþjóðum og ættu að leggja sitt lóð á vogarskál hinnar háleitu Evrópuhugsjónar. Allt kom fyrir ekki. Bændur og sjómenn létu sér ekki segjast. Töldu sig ekki knúna til að færa meira vald til Brussel, óttuðust regluveldið og það, sem kynni að felast í hinum óskiljanlega texta sáttmálans.

13. Viðbrögðin voru þau frá Brussel, að ekkert fengi stöðvað framgang Lissabon-sáttmálans, þing annarra landa ættu að halda áfram að fullgilda hann. Írar hefðu misskilið málið, þeir ættu að hugsa það betur og síðan bara að kjósa aftur, eins og þeir gerðu um árið vegna Nice-sáttmálans.

14. Brussel telur nei-niðurstöðu einfaldlega ekki gilda og heimtar, að haldið verði áfram, þar til svarið er já, Ég hlustaði á samtal um málið í BBC World Service við franskan Evrópuþingmann. Fréttamaðurinn var svo gáttaður á, hve svörin voru mikið út í hött við spurningum hans, að hann velti því fyrir sér, hvort það væri ekki einmitt vegna málflutnings af þessu tagi, sem fólk segði einfaldlega nei, þegar það fengi tækifæri til þess. Vegna Lissabon-sáttmálans var allt gert, til að slíkt tækifæri gæfist ekki, en írsk stjórnvöld urðu að hlíta eigin stjórnarskrá. Í einu ríki gafst þjóðinni tækifæri til að láta í ljós álit sitt og sagði nei.

15. Vaclav Klaus, forseti Tékklands, féllst ekki á Brussel-áskorunina um, að haldið yrði áfram með fullgildingu Lissabon-sáttmálans, eins og ekkert hefði í skorist. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, flaug strax til Prag til að ræða málið við Klaus, en Frakkar fara með forsæti innan ESB næstu sex mánuði frá 1. júlí. Þeir ætluðu sér annað verkefni á þeim mánuðum en að glíma við nei frá Írum. Írar, hollir hlutleysi sínu, óttast áform Frakka um að efla hernaðarlegt samstarf innan Evrópusambandsins í forsetatíð sinni.

16. Brussel hefur ekki dregið fram neitt plan B eftir nei Íra. Það verður rætt á leiðtogafundi sambandsins fimmtudag og föstudag. Hugmyndir um tvískipt samstarf sambandsríkjanna hafa vaknað að nýju, það er að ríki geti valið sér samstarfsleiðir að eigin vild. Þessi skipan gildir raunar innan Evrópusambandsins, þegar litið er til aðildar að Schengen-samkomulaginu og evru-samstarfinu.

17. Skriðurinn á Evrópusambandinu er svo þungur í átt frá því, sem almenningur innan ríkja þess vill, að engu er líkara en stjórnmálamenn hafi ekki þrek til annars en berast með honum í stað þess að taka í hemlana. Því meira sem Evrópuelítan fjarlægist fólkið, þeim mun meiri líkur eru á alvarlegum brestum í undirstöðu samstarfsins.

18. Í nýjasta hefti Þjóðmála rita ég grein um um Evrópuumræðurnar hér á landi um þessar mundir. Þar vek ég máls á því, að staða íslensku krónunnar hafi kveikt nýjan áhuga á auknu Evrópusamstarfi Íslendinga og jafnvel aðild að Evrópusambandinu. Lausleg athugun leiðir í ljós, að lögfræðilega er ekkert, sem banni stjórnendum Evrópusambandsins, að semja við ríki utan sambandsins um evru-málefni. Það hefur verið gert við Vatíkanið, San Marino, Monakó og Andorra, svo að dæmi séu nefnd. Sé lögmætið fyrir hendi innan Evrópusambandsins, byggist niðurstaða viðfangsefna á pólitískum vilja.

19. Lögmæti Lissabon-sáttmálans er ekki fyrir hendi, eftir að Írar sögðu nei. Þess vegna getur Evrópusambandið ekki haldið áfram, eins og ekkert hafi í skorist. Stjórnendur þess verða að líta til lögheimildanna og sjá, hvaða kosti þær veita þeim.

20. Hinn 14. júní birtist leiðari í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Fangelsi á byrjunarreit? Þar segir meðal annars: „Stjórnvöld hafa velt vandanum á undan sér í hartnær fimmtíu ár. Allt frá 1960 hefur átt að reisa gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík. Í tólf ár, þ.e. frá því að ófullnægjandi fangelsi í Síðumúla var lagt niður, hefur lögreglan ekið með gæsluvarðhaldsfanga 120 km frá Litla-Hrauni til Reykjavíkur og til baka, til yfirheyrslu eða fyrir dóm. Nú benda fréttir til að enn eigi að velta fangelsismálum lengur í kerfinu – og að það sé gert án tillits til þess, hver telst besta og faglegasta niðurstaðan. Hvaða sjónarmið önnur gætu þar ráðið?“

21. Hver er besta og faglegasta niðurstaðan að mati Morgunblaðsins? Jú, að reisa stórt fangelsi á Hólmsheiði í Reykjavík, ef rétt er skilið, í stað þess, að tengja gæsluvarðhalds- og skammvistunarfangelsi nýrri lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu og leggja meiri áherslu en áður var ráðgert á að stækka og styrkja starfsemina á Litla Hrauni. Helsta efnisástæðan fyrir því, að þessi stefna sé röng, er nefnd sú, að lengra verði að sækja meðferðarþjónustu hjá SÁÁ. Meðferðarstarf hefur borið mjög góðan árangur á Litla Hrauni á þessu ári eins og lýst hefur verið í fréttum og ekkert segir, að ekki sé unnt að efla það enn frekar, þótt SÁÁ sé með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík.

22. Í tíð minni sem dómsmálaráðherra hafa orðið miklar breytingar í fangelsismálum. Að uppbyggingu fangelsa hefur verið unnið samkvæmt áætlun og hefur þar allt gengið eftir, það er stækkun og endurgerð að Kvíabryggju, endurgerð á Akureyri, stækkun og endurgerð á Litla Hrauni, sem nú er í mótun í samræmi við faglegar tillögur um það efni, meðal annars frá nefnd undir formennsku Margrétar Frímannsdóttur, sem nú er settur forstöðumaður á Litla Hrauni.

23. Góðum tíma hefur verið varið til að skoða allar hliðar þessara mála og niðurstaðan hefur orðið sú, að efla Litla Hraun og setja mörkin við nýtt fangelsi í Reykjavík við gæsluvarðhald og skammtímavistun og huga að því að reisa byggingar vegna þessa í tengslum við nýja lögreglustöð. Það er rétt, að í tæp 50 ár hafa menn velt nýju fangelsi í Reykjavík fyrir sér. Aldrei hefur verið ráðist í framkvæmdir, af því að ekki hefur fengist nægur stuðningur við tillöguna að lausn, hvort sem hún hefur þótt faglega best eða ekki.

24. Þau rök leiðarahöfundar að aka þurfi langa leið fram og bak til Litla Hrauns um alla framtíð með gæsluvarðhaldsfanga falla að sjálfsögðu um sjálf sig, þegar gæsluvarðhaldsfangelsi hefur verið reist í Reykjavík. Hitt hlýtur einnig að koma til athugunar hjá dómurum og lögreglu, hvort ekki megi nota fjarfundabúnað til yfirheyrslu á föngum, sem eru á Litla Hrauni, vaxi mönnum tími, fyrirhöfn og kostnaður við flutning manna á milli staða í augum. Þá kann einnig að vera athugunarefni að bjóða þetta verkefni út, svo að kraftar lögreglu séu ekki við það bundnir.

25. Í leiðaranum er ákvörðunin um að efla Litla Hraun kennd við málefnafátæka byggðapólitík og látið í veðri vaka, að sunnlenskir þingmenn hafi ráðið niðurstöðu minni um þetta mál. Þessar fullyrðingar byggjast á getgátum. Þótt ég hafi mjög góða reynslu af því, að færa verkefni úr dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til embætta sýslumanna víða um land, var það hagkvæmni, ráðdeild og almenn skynsemi, sem réð mestu um stefnuna, sem Morgunblaðið hallmælir. Fangelsi á höfuðborgarsvæðinu er síður en svo á byrjunarreit. Góð undirbúningsvinna vegna nýs fangelsis, sem ætlaður var staður á Hólmsheiði, nýtist við allt það, sem nú er gert.

26. Gott samstarf mitt við Valtý Sigurðsson í tíð hans sem fangelsismálastjóri og nú við Pál Winkel, fangelsismálastjóra, hefur byggst á nánu samráði og sameiginlegri viðleitni til að nálgast úrlausn mála með góð rök að leiðarljósi. Sem betur fer gáfum við Valtýr okkur tíma til að fara yfir stöðu mála og móta þá áætlun, sem hrundið var í framkvæmd og skilað hefur góðum árangri til þessa. Markmiðið var, að fara fyrst að Kvíabryggju, síðan til Akureyri, þá að Litla Hrauni og enda loks í Reykjavík. Þetta hefur gengið eftir og þótt umfang fangelsis í Reykjavík og starfseminnar á Litla Hrauni hafi tekið breytingum á þessari leið er langt í frá, að fangelsi í Reykjavík sé að byrjunarreit. Þvert á móti er gerð tillagna að raunhæfri leið til að tryggja að það loksins rísi á lokastigi.