17.5.2008

Þingbréf um loftrými.

 

Þingbréf Morgunblaðsins eru af þeirri grein blaðamennsku, sem leyfir lesendum að skyggnast á bakvið tjöld þingstarfa heldur og dýpka myndina af þeim. Aðferðina má nota við stórslys, toppfundi, listahátíðir eða kvikmyndahátíðir eins og þá, sem nú stendur í Cannes. Þar beinist meiri athygli að athöfnum stjarnanna á hátiðinni en myndum þeirra. Frásagnir af Listahátið í Reykjavik um þessar mundir snúast einnig að verulegu leyti um hið fræga fólkið.

Blaðamenn, sem fá verkefni af þessu tagi, tengja frásagnir sínar oft eigin persónu, sé það til að skerpa lýsinguna. Óvenjulegt er, að þeir noti rými sitt til að lýsa persónulegum skoðunum á málefnum eða taka afstöðu til þeirra.

Þingfréttaritarar Morgunblaðsins hafa um árabil skrifað persónulegar lýsingar í þingbréfum. Oft eru þau til þess fallin að auðvelda lesendum skilning á mönnum og málefnum auk þess sem bréfin ættu að vekja áhuga þeirra, sem leiðist að lesa endursagnir af ræðum eða lýsingar á inntaki frumvarpa.

Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari Morgunblaðsins, notar oft vikulegan dálk sinn til að viðra skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Hinn 17. maí stofnar hún til ritdeilu við Ólaf Þ. Stephensen, verðandi ritstjóra Morgunblaðsins. Deilan snýst um, hvort of miklu fé sé varið til varnarmála á fjárlögum íslenska ríkisins.

Halla segir:

„Í síðasta þingbréfi gerði ég svokallaða „loftrýmisgæslu“ NATO-ríkjanna að umtalsefni og þá miklu fjármuni sem ráðgert er að verja til reksturs Varnarmálastofnunar. Ritstjóri 24 stunda, Ólafur Þ. Stephensen, tók þetta upp í leiðara 14. maí sl. og vitnaði til orða minna. Ólafur segir vel sloppið að verja aðeins 200 milljónum króna í varnir landsins en það er áætlaður árlegur kostnaður við veru erlendra herja hér á landi. Það má vel vera, en er vel sloppið að verja 1.350 milljónum króna til reksturs Varnarmálastofnunar?“

Við svo búið gagnrýnir Halla, hve miklum fjármunum er varið úr ríkissjóði til ratsjáreftirlits, en hún telur það hafa mátt vera í höndum borgaralega stofnana á borð við Flugstoðir – dýrt ratsjáreftirlit 300 þúsund manna þjóðar á tveimur stöðum hljómi „hálfankannalega“.  Halla ber auk þess blak af flugi rússeneskra sprengiflugvéla umhverfis Ísland, flugið sé ekki ólöglegt og utan íslenskrar lofthelgi og hún klykkir út með þessum orðum:  „Engin hernaðarógn er talin stafa af Rússafluginu þó að það geti vitaskuld verið truflandi, ekki síst fyrir borgaralegt flug. “

Hjá Höllu kveður við annan tón um flugið en hjá John Vinocur, hinum gamalreynda ritstjóra og dálkahöfundi The International Herald Tribune, sem lýsti nýlega undrun sinni yfir þeim ummælum rússneska sendiherrans á Íslandi, að Íslendingar skyldu bara venja sig við nálægð rússnesku sprengivélanna – sjálfur Pútin hefði ákveðið að senda þær á vettvang.,

Halla gerir lítið úr loftrýmisgæslu NATO frá Keflavíkurflugvelli og segir hana umdeilda innan NATO. Hún lætur að sjálfsögðu ekki svo lítið að velta fyrir sér hinum sögulegu tímamótum innan NATO og á Norður-Atlantshafi, þegar Frakkar senda í fyrsta sinn sveit orrustuflugvéla inn á þetta svæði.

Ákvörðunin sýnir, að Frakkar vilja í senn láta að sér kveða hernaðarlega á norðurslóðum og verða virkir þátttakendur innan herstjórnakerfis NATO, sem þeir yfirgáfu árið 1966.

Halla sér engin rök fyrir dvöl erlendra orrustuþotna hér á landi. Hún spyr: Er kalda stríðinu lokið? Auðvitað veit hún, að svo er. Ég  leyfi mér, að efast um, að hún hefði talið nokkurs virði að halda uppi vörnum á Íslandi í kalda stríðinu - ádeila hennar er þess eðlis. Hún lýkur málsvörn sinni með þessum orðum:

„Því á sú spurning fyllilega rétt á sér hvort farið sé skynsamlega með fjármuni. Þau rök sem stjórnvöld og Ólafur Stephensen hafa lagt fram til réttlætingar því mikla fé sem ráðgert er að verja til Varnarmálastofnunar og heræfinga hér á landi, eru ekki nógu sannfærandi. Markmiðin eru enn óskýr og það sama má segja um þær hættur sem bregðast á við.“

Ég var eindreginn talsmaður þess, að varnarmálafrumvarp Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra yrði að lögum. Ég lít á það sem nauðsynlegan lið í aðlögun að breyttum aðstæðum eftir brottför varnarliðins. Sömu sögu er að segja um þá ákvörðun mína, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt, að störf við löggæslu, tollgæslu og flugöryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli falli að eðlilegum stjórnsýslureglum. Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hefur stöðvað framgang frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á tollstjórn á Suðurnesjum. Af ræðu Lúðvíks á þingi fimmtudaginn 15. maí má einna helst álykta, að mótþrói hans byggist á andstöðu við embætti ríkislögreglustjóra!

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt loftrýmisgæsluna á svipuðum forsendum og Halla Gunnarsdóttir – þingflokkur sjálfstæðismanna brá hins vegar ekki fæti fyrir frumvarp utanríkisráðherra.

Fimmtudaginn 14. maí sagði Jón Gunnarsson í óundirbúinni fyrirspurn á alþingi til utanríkisáðherra:

„Við horfum núna upp á að verið er að borga hundruð milljóna í svokallað loftrýmiseftirlit og í rekstur ratsjárstöðvar suður á Keflavíkurflugvelli. Ég hef talað um að verkefnaval okkar sé ekki rétt, virðulegi forseti, þegar við veljum okkur verkefni á hernaðarlegum forsendum í þátttöku okkar innan og utan NATO. Ég hef talið og tel að við eigum að velja okkur verkefni við hæfi þar sem styrkur okkar, geta og þekking  geta komið að notum. Við eigum að velja okkur verkefni á þessum forsendum. Við getum sett það í samband við umsókn okkar um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna,  hvort ekki væri betra að fara með þetta málefni í farteskinu til að leita atkvæða á alþjóðavettvangi en það sem við höfum í dag.“

Utanríkisráðherra svaraði:

„Það geta auðvitað verið deildar meiningar um hvaða verkefni við eigum að velja okkur og hvort við eigum að halda uppi loftrýmiseftirliti með ratsjárstöðvum okkar og með eftirlitssveitum ársfjórðungslega eins og nú er raunin. Ástæðan fyrir því að við höldum uppi loftferðaeftirlitinu og tökum ársfjórðungslega á móti þessum sveitum er að forsætisráðherra fór á fund NATO og óskaði eftir mati NATO á því hvernig þessu skyldi háttað. Þetta varð niðurstaðan hjá NATO. Ef þingmaðurinn er mjög ósáttur við þá niðurstöðu hygg ég að hann verði að ræða það í sínum ranni en ekki við mig.“

Þessi orðaskipti Jóns og Ingibjargar Sólrúnar féllu, þegar Jón spurði utanríkisráðherra, hvort Kínverjum hefði verið boðin aðstoð alþjóðlegu rústabjörgunarsveitarinnar vegna jarðskjálftans mikla í Kína.

Sturla Jónsson og félagar hans í hópi vöruflutningabílstjóra voru einmitt á pöllum þingsins á sama tíma og gerðu hróp að Jóni og töldu nær að ræða hörmungar Íslendinga en annarra þjóða! Virtist hópnum verulega misboðið og strunsaði út undir ræðum þeirra Jóns og Ingibjargar Sólrúnar.

Ég hefði að óreyndu talið, að þessi mynd af þingstörfum hefði verið nærtækari í þingbréfi um þessi mál en hitt, að Höllu Gunnarsdóttur þætti nauðsynlegt að svara leiðara Ólafs Þ. Stephensens í 24 stundum.