4.5.2008

Afhroð Verkamannaflokks - furðufrétt um löggæslu.

Yfirlit

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi galt afhroð í sveitarstjórnarkosningum fimmtudaginn 1. maí, varð í þriðja sæti af bresku flokkunum þremur og með um 20 prósentustiga minna fylgi en Íhaldsflokkurinn, sem fékk 44%, Frjálslyndi flokkurinn 25% og Verkamannaflokkurinn 24%.

 

Lokahöggi varð Verkamannaflokkurinn lostinn við að íhaldsmaðurinn Boris Johnson sigraði vinstrimanninn öfgafulla, Ken Livingstone, í borgarstjórabaráttunni í London. Boris fékk 53,2% atkvæða en Ken 46,8%. Í fréttum hljóðvarps ríkisins var Ken sagður „litríkur“ nær hefði verið að kenna hann aðeins við rauða litinn. Boris er mun litríkari en Ken og fyrstu mánuði kosningabaráttunnar lögðu íhaldsmenn hart að sér við að sannfæra kjósendur um, að þeim væri full alvara með framboði hans.

 

Þetta er sterkasta staða Íhaldsflokksins síðan 1992 og eina skiptið síðan Verkamannaflokkurinn komst til valda 1997, sem forysta flokksins eygir sigurlíkur í næstu þingkosningum, sem verða í síðasta lagi 2010.

 

Á innan við ári frá því að Tony Blair hvarf úr forsætisráðherraembættinu hefur Gordon Brown glutrað niður stöðu Verkamannaflokksins. Honum dugar ekki að segja það eitt, að hann hlusti á raddir kjósenda og muni síðan halda áfram að veita þjóðinni forystu. Að morgni sunnudagsins 4. maí sagði hann, að efnahagsástandið, hækkanir olíu og matar, bitnaði á ríkisstjórninni, auk þess sem hann sjálfur væri kannski ekki nægilega mikið fyrir hið opinbera sviðsljós.

 

Stjórnmálastraumar í Evrópu sýna, að jafnaðarmenn og flokkar til vinstri við þá eiga undir högg að sækja á þessum óvissutímum í efnahagsmálum. Silvio Berlusconi sigraði nýlega í þingkosningum á Ítalíu og vinstrisinni var að tapa borgarstjórakosningum í Róm fyrir hægrisinna. Þýski jafnaðarmannaflokkurinn er að klofna til vinstri og þau sögulegu tímamót urðu í Hamborg á dögunum, að kristilegir demókratar gengu til meirihlutasamstarfs við græningja.

 

 

Furðufrétt um löggæslu.

 

Á visir.is mátti 2. maí lesa þessa frétt:

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður segir dómsmálaráðherra misskilja tollalögin þegar hann notar þau sem rök fyrir því að stía í sundur lög- og tollgæslu á Suðurnesjum. Skýrt sé kveðið á um það í lögunum að lögreglustjórar fari með tollstjórn.

Dómsmálaráðherra hefur sagt að rökin fyrir því að slíta í sundur lögreglu og tollgæslu á Suðurnesjum vera stjórnsýlsulegs eðlis. Þá hefur dómsmálaráðherra sagt að þar sem lögreglustjórinn er ekki sýslumaður eins og tíðkast annars staðar á landinu hafi hann ekki umboð framkvæmdavalds.

Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður segir þetta ekki rétt. „Þetta er grundvallarmisskilningur vegna þess að það er sérstaklega talað um það í lögum að lögreglustjórar hafi sýslumenn sér til samráðs og þeir skuli veita þeim upplýsingar og aðstoð," segir Sveinn Andri.

Sveinn Andri segir að fyrirhugaðar breytingar komi ekki til með að bæta lög eða tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. „Þvert á móti verður þetta til þess að veikja alla löggæslu á svæðinu."“

Hafi menn kynnt sér skoðanir mínar á skipan embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og glímu þess við þrálátan fjárhagsvanda og vanmátt til að gera áætlanir um rekstur í samræmi við heimildir í fjárlögum, ætti þeim að vera ljóst, að ég tel, að  þrír meginverkþættir embættisins skuli falla að verkaskiptingu innan stjórnarráðsins – löggæsla hjá dóms- og kirkjumálráðuneyti, tollgæsla hjá fjármálaráðuneyti og öryggisgæsla vegna flugs hjá samgönguráðuneyti. Hvert ráðuneyti eigi að líta eftir nýtingu fjárheimilda eða sértekna á sínu sviði.

Fjármálaráðuneyti ákveður með samþykki alþingis, hvernig landið skiptist í tollumdæmi og voru þau stækkuð nýlega. Það fellur vel að þeirri stefnu, að Suðurnes sameinist suðvesturlandi sem eitt tollumdæmi. Í tollalögum er umdæmum skipað á þennan veg:

  1. Suðvesturlandsumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og umdæmi lögreglustjóranna á Akranesi, í Borgarnesi og Stykkishólmi.
   
2. Vestfjarðaumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á Ísafirði.
   
3. Norðurlandsumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjóranna á Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík.
   
4. Austurlandsumdæmi nyrðra: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á Seyðisfirði.
   
5. Austurlandsumdæmi syðra: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði.
   
6. Suðurlandsumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjóranna á Selfossi og Hvolsvelli.
   
7. Vestmannaeyjaumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum.
   
8. Reykjanesumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Í tollalögum segir einnig:

Tollstjórar eru tollstjórinn í Reykjavík í Suðvesturlandsumdæmi, lögreglustjórinn á Ísafirði í Vestfjarðaumdæmi, lögreglustjórinn á Akureyri í Norðurlandsumdæmi, lögreglustjórinn á Seyðisfirði í Austurlandsumdæmi nyrðra, lögreglustjórinn á Eskifirði í Austurlandsumdæmi syðra, lögreglustjórinn á Selfossi í Suðurlandsumdæmi, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum í Vestmannaeyjaumdæmi og lögreglustjórinn á Suðurnesjum í Reykjanesumdæmi.
Sýslumenn í umdæmi hvers tollstjóra skulu veita allar nauðsynlegar upplýsingar er lúta að tollmeðferð vöru fyrir hönd tollstjóra í því umdæmi. Þeir skulu jafnframt veita tollskjölum viðtöku fyrir hönd tollstjóra.

Þegar þetta er lesið, sjá menn, að hvorki lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu né sýslumenn, sem jafnframt eru lögreglustjórar, á Akranesi, í Borgarnesi eða Stykkishólmi, fara með tollstjórn, enda er hún í höndum tollstjórans í Reykjavík. Fjármálaráðuneytið hefur kynnt hugmyndir um, að tollstjórn á Suðurnesjum falli einnig undir tollstjórann í Reykjavík. Að láta eins og slíkt sé einhver goðgá eða byggist á misskilningi mínum á tollalögum er í besta falli útúrsnúningur byggður á fáfræði.

Ég er þeirrar skoðunar, að samstarf tollstjórans í Reykjavík og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi þróast með ágætum, eftir að umdæmi lögreglustjórans var stækkað og hef ekki heyrt nein marktæk rök fyrir því, að hið sama geti ekki einnig gerst á Suðurnesjum. Umdæmabreyting samkvæmt tollalögum var samþykkt á alþingi, áður en varnarliðið hvarf af landi brott og áður en ríkisstjórnin ákvað í spetmber 2006 að breyta stjórnkerfinu við brottför varnarliðsins á þann veg, að stjórnsýsla félli að reglugerð um stjórnarráðið og verkskilum þar.

Ég hef bent á, að tollgæslu lögreglustjórans á Suðurnesjum megi rekja til þess, að hann var áður sýslumaður á Keflavíkurflugvelli og heyrði sem slíkur undir utanríkisráðuneytið, sem skapaði embættinu algjöra sérstöðu byggða á varnarsamstarfinu við Bandaríkin Það hefur nú tekið stakkaskiptum. Sýslumannsembætti á Keflavíkurflugvelli hefur verið lagt niður með nýjum varnarmálalögum. 

Hvarvetna á landinu utan höfuðborgarsvæðisins nema á Suðurnesjum eru lögreglustjórar jafnframt sýslumenn og sem slíkir umboðsmenn framkvæmdarvalds í héraði á annan veg en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem „aðeins“ er lögreglustjóri eins og ég tel, að lögreglustjórinn á Suðurnesjum eigi að verða, svo að hann einbeiti sér að löggæslu og landamæravörslu, en hún er á ábyrgð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Furðulegt er að lesa haft eftir Sveini Andra Sveinssyni, að einbeiting lögreglustjóra á Suðurnesjum að löggæslu muni „veikja alla löggæslu á svæðinu.“

Kristján Pétursson, sem lengi var tollvörður á Keflavíkurflugvelli, ritar um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum í Morgunblaðið 30. apríl og segir meðal annars:

„Þessi yfirstjórn [það er sú, sem ákveðin var vegna þess að utanríkisráðuneytið fór með allt vald stjórnarráðsins gagnvart varnarliðinu] hefur alla tíð hentað þessu embætti vel og enginn ágreiningur verið um það, fyrr en núverandi dómsmálaráðherra vill fara að þrískipta yfirstjórn þess. Aðalrök hans fyrir þessari breytingu eru að spara fjármuni. Yfirleitt er þessu öfugt farið, að sameining embætta og sveitarstjórna sé gerð til hagræðis og að spara fé. Persónulega sé ég engin haldbær rök hjá ráðherra fyrir þessari breytingu. Ég tel mig gjörþekkja þessa stofnun bæði fjárhags- og rekstrarlega eftir að hafa starfað þar á sínum tíma, sem deildarstjóri á þriðja tug ára.“

Feitletrun er mín, en þessar fullyrðingar Kristjáns eru einfaldlega rangar. Í áranna rás hefur oft verið að því fundið, að ekki væri um venjulega verkaskiptingu að ræða á Keflavíkurflugvelli og fundið að einni yfirstjórn þar undir utanríkisráðuneytinu. Svo oft hef ég bent á, að ég er ekki að leggja fram tillögur um sparnað heldur leið til að embættið starfi innan fjárheimilda sinna, að ég hélt, að maður, sem segist fylgjast svo vel með þessum málum, ætti að hafa tekið eftir því.