24.4.2008

Ritstjóraskipti.

 

Kynnt var  23. apríl, að Styrmir Gunnarsson mundi láta af ritstjórn Morgunblaðsins 2. júní nk. og Ólafur Stephensen, ritstjóri 24 stunda, hins Árvakursblaðsins, mundi taka við af Styrmi og jafnframt verða aðalritstjóri Árvakursmiðlanna, Morgunblaðsins, 24 stunda og mbl.is, ef ég skildi fréttina rétt. Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, var ráðin ritstjóri 24 stunda frá 2.júní, en hún hefur verið fréttastjóri blaðsins frá haustinu 2006.

Með brotthvarfi Styrmis úr ritstjórastólnum verða þáttaskil í sögu Morgunblaðsins og raunar sögu íslenskrar blaðamennsku. Styrmir hóf störf á Morgunblaðinu 2. júní 1965 og varð ritstjóri árið 1972. Með Ólafi kemur að ritstjórastörfum við blaðið maður, sem á ekki rætur aftur til þess tíma, þegar Valtýr Stefánsson ritstýrði blaðinu og mótaði það.

Í ritstjóratíð þeirra Styrmis og Matthíasar Johannessens lögðu þeir kapp á að höggva á hin formlegu tengsl við Sjálfstæðisflokkinn, sem fólust meðal annars í setu þingfréttaritara blaðsins á þingflokksfundum sjálfstæðismanna. Málefnalega hefur ekki alltaf verið samhljómur milli stefnu Sjálfstæðisflokksins og ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins hina síðari áratugi.

Fyrr urðu skil á milli flokks og blaðs á vettvangi þjóðmála en á vettvangi borgarmála. Morgunblaðið hefur löngum verið mjög samstiga borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Þess vegna voru það nokkur tíðindi á sínum tíma, þegar blaðið snerist gegn ákvörðun Davíðs Oddssonar borgarstjóra um ráðhús Reykjavíkur við Tjörnina í Reykjavík. Gagnrýni Morgunblaðsins í ráðhúsmálinu bliknar hins vegar í samanburði við hneykslan þess á framgöngu Kjartans Magnússonar og annarra sjálfstæðismanna í borgarstjórn í OR/REI málinu.

Í dagbókarbrotum, sem Matthías Johannessen hefur birt frá níunda og tíunda áratug síðustu aldar á vefsíðu sinni, rifjar hann upp ágreining Morgunblaðsins við Davíð Oddsson. Þar er meðal annars nefnt til sögunnar, að mörgum hafi þótt nóg um dálæti Morgunblaðsins á Jóni Baldvini Hannibalssyni, sem hefur ríkulega notið æskuvináttu sinnar við Styrmi Gunnarsson á síðum blaðsins í áranna rás.

Ef til vill má kenna það við kaldhæðni örlaganna, að sama dag, 24. apríl, og sagt er frá því í Morgunblaðinu, hvenær Styrmir Gunnarsson lætur af störfum, skuli birtast þar miðopnugrein eftir Jón Baldvin Hannibalsson, sem ekki verður lesin öðru vísi en sem persónuleg árás á Styrmi Gunnarsson fyrir andstöðu hans við aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Grein sinni lýkur Jón Baldvin með þessum orðum:

„Hættu þessu bulli [að vara lesendur við ESB-aðild], Styrmir. Sýndu lesendum þínum heldur þann sóma að upplýsa þá um lausnir á vandamálum af þessu tagi fremur en að hræða þá frá skynsamlegum niðurstöðum með dómsdagsspám. Það er fullt af aðgengilegum og áreiðanlegum rannsóknum á því hvernig örva megi nýsköpun starfa og draga úr atvinnuleysi eftir öðrum leiðum en fikti við sjálfan gjaldmiðilinn. Hvernig væri að Morgunblaðið byði vel völdum hópi manna, sem kunna skil á þessum rannsóknum og á reynslu og árangri einstakra aðildarþjóða, að útskýra málið fordómalaust á síðum blaðsins? Hvernig væri að byrja á Danmörku þar sem ritstjórinn var einu sinni svínahirðir um fermingaraldurinn? Hafa menn virkilega ekkert lært síðan?

Feitletrun er mín. Við lestur þess texta vaknar spurning eins og þessi: Er þetta framlag til málefnalegra umræðna um vanda líðandi stundar á Íslandi? Er á þennan hátt unnt að breyta framvindu efnahagsmála?

Framar í grein sinni segir Jón Baldvin:

„Niðurstaðan er sú að það þjónar okkar þjóðarhagsmunum til langs tíma að taka nú þegar ákvörðun um að óska eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að taka upp evru. Í slíkri ákvörðun felst yfirlýsing um að við munum nú, með kerfisbundnum hætti, gera það sem þarf til að uppfylla sett skilyrði til að vera samstarfshæfir í evrusamstarfinu. Þessi skilyrði snúast um lága langtímavexti, litla verðbólgu, jafnvægi í ríkisfjármálum og gengisstöðugleika. Þetta er það sem atvinnulíf og heimili þurfa nú á að halda, sem vegvísum inn í framtíðina, eins og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur orðað það.“

Hér er feitletrun einnig mín. Orð Jóns Baldvins má skilja á þann veg, að í orðum mínum um vegvísi í Evrópumálum hafi falist, að ég telji að marka beri efnahagslega leið inn í Evrópusambandið. Þetta er í besta falli misskilningur á því, sem ég sagði. Það snerist um nauðsyn þess, að tekin yrði umræða um, hvaða leið skyldi farin á innlendum stjórnmálavettvangi til að búa þannig um hnúta, að unnt yrði að ræða við Evrópusambandið, fengist til þess umboð frá þjóðinni, eftir að öll heimavinnan hefði verið unnin, það er tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, breyting á stjórnarskrá og taka annarra stjórnskipulegra ákvarðana.

Aðildarviðræður við ESB myndu helst líkjast krossaprófi, þar sem samningamenn þess myndu merkja við allt, sem við þegar uppfylltum til aðildar, og síðan ræða hvað við þyrftum langan tíma til að uppfylla annað. Aðlögun að kröfum ESB byggist á tímamörkum en ekki efnislegum breytingum á neinu, sem ákveðið hefur verið á vettvangi þess.

Jón Baldvin Hannibalsson hefur löngum haft horn í síðu Seðlabanka Íslands og grein hans í Morgunblaðinu 24. apríl ber þess merki. Eftir að hafa hlustað á erindi Þórarins G. Péturssonar, staðgengils aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands og forstöðumanns rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs bankans, í Rotary-klúbbi Reykjavíkur í hádeginu 23. apríl hef ég skýrari sýn á markmið seðlabankans en áður. Af því að skoða vefsíðu bankans sýnist mér, að megindrættir erindis Þórarins séu samhljóða því, sem hann flutti á öðrum vettvangi 10. mars sl. http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=1686.

Af málflutningi Þórarins verður ekki dregin önnur ályktun en seðlabankinn telji trúverðugleika sinn í húfi og hann náist ekki nema með óbreyttri stefnu. Hún miði að því að hverfa frá sveiflum í efnahagslegum viðbrögðum, þar sem farið hafi verið úr einum öfgum í aðrar. Seðlabankinn verði að brjótast í gegnum þennan skafl, hvort sem mönnum líki betur eða verr. Takist það öðlist hann í fyrsta sinn í sögu sinni trúverðugleika.

Stefnufestan í erindi Þórarins var í hrópandi andstöðu við upphlaupskennd viðbrögð við ákvörðunum bankans. Ég held, að bankinn ætti að gera meira af því að kynna þessa meginstefnu, inntak hennar og markmið. Það myndi að minnsta kosti stuðla að málefnarlegri umræðum um inntakið í stefnu bankans. Að honum takist að ná markmiði sínu er mikilvægur þáttur þeirrar heimavinnu, sem felst í svarinu við spurningunni um, hvort Ísland sé hæft til þátttöku í evrópsku myntsamstarfi.

Í fjármálaheiminum á sú skoðun nokkurn hljómgrunn, að afstaða seðlabankans ráði mestu um, að meðal fjármálafyrirtækja hafi áhugi á ESB-aðild aukist. Ræðst það af viðleitni til að efla trúverðugleika seðlabankans, að þessi ESB-spenna hafi myndast vegna afstöðu bankans? Eða er eitthvað annað, sem þar ræður för?

Ef að líkum lætur, breytist tónninn í skrifum ritstjóra Morgunblaðsins um Evrópumál, þegar Ólafur tekur við af Styrmi. Ólafur hefur skrifað af meiri samúð með þeim málstað, að Ísland eigi erindi innan ESB en Styrmir.

ESB-aðild er hins vegar mál af þeirri stærð, að skoðun ritstjóra kann að mega sín lítils, þegar til kastanna kemur. Fjölmiðlaafstaða í Bretlandi til Evrópumála sýnir, að það eru að lokum eigendur fjölmiðlanna, sem ákveða, hvort þeir hallist að stuðningi við Brusselvaldið eða ekki.

Hér á landi hefur þróunin orðið sú, eftir að Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, kynnti þá skoðun sína, að Ísland ætti að fara í Evrópusambandið, að miðlar kenndir við Baug halla sér til þeirrar áttar. Kristín, systir Jóns Ásgeirs, áréttaði enn mikilvægi þessarar stefnu í ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins á dögunum. Er augljóst, að stjórendum Baugs finnst hagsmunum sínum betur borgið innan ESB en utan. Spyrja má, hvort þeirra hagsmunir og þjóðarhagsmunir falli í sama farveg. Gagnrýnar umræður hafa ekki orðið um þetta efni.

Aðalfundur Landsbankans var haldinn 23. apríl og þar flutti Björgólfur Guðmundsson, formaður bankastjórnar ræðu. Í frásögnum af henni kemur ekki fram, að hann hafi rætt sérstaklega um Ísland og Evrópusambandið, en hins vegar lagði hann áherslu á að safna fé í góðæri til mögru áranna og mynda í því skyni þjóðarsjóð, sem yrði nægilega öflugur til að standast ytri þrýsting á erfiðum tímum. Afstaða Björgólfs til Evrópusambandsins mun að lokum ráða miklu um afstöðu Morgunblaðsins. Goðsögnin um, að eigendur ráði engu um ritstjórnarstefnu blaða, er ekki annað en goðsögn.

Fréttir af aðalafundi Straums Burðaráss, sem haldinn var 15. apríl síðastliðinn, bera ekki með sér, að Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður, hafi áhuga á, að Ísland gangi í ESB. Hann er hins vegar áhugamaður um, að hugað verði að öðrum gjaldmiðli en krónunni en þó ekki endilega evru.