13.4.2008

Efling löggæslu - framtíð LRS - samþætting starfa - hörð kosningabarátta.

Hinn 10. apríl flutti ég ávarp við upphaf námskeiðs, sem haldið var í húsnæði Lögregluskóla ríkisins að frumkvæði fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og snerist um alþjóðlega, skipulagða glæpastarfsemi.

Í máli mínu, frá því að ég tók við embætti dóms- og kirkjumálaráðherra árið 2003, hef ég lagt mikla áherslu á, að löggæslan beindi athygli sinni að þessum þáttum, Við mundum kynnast þessari skuggahlið alþjóðavæðingarinnar eins og aðrar þjóðir.

Fréttir af þróun afbrota í landinu sýna, að varnaðarorð af þessu tagi áttu vissulega rétt á sér þá. Fundur forstöðumanna stofnana á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins snerist árið 2007 um, hvernig stofnanir ráðuneytisins ættu að stilla saman strengi sína til að takast á við hina miklu breytingu, sem orðið hefur í íslensku þjóðfélagi vegna fjölgunar útlendinga og þeirrar hættu, að innan raða þeirra leyndust þeir, sem nýttu sér frelsi til frjálsrar farar um EES-svæðið í því skyni að auðgast með afbrotum.

Í ávarpi mínu hinn 10. apríl minntist ég þess, hvernig seðlabanki og fjármálaeftirlit hefðu greint einn þátt fjármálavanda þjóðarinnar um þessar mundir á þann veg, að gerð hefði verið atlaga að krónunni af þeim, sem vildu hagnast, jafnvel á ólögmætan hátt, á því að veikja hana. Í framhaldi af þeirri greiningu hefði verið gripið til ráðstafana í samvinnu við þá heima og erlendis, sem gætu lagt því lið að snúa vörn í sókn.

Þá sagði ég, að við endurskipulagningu Landhelgisgæslu Íslands hefði verið lagt til grundvallar mat á framtíðarverkefnum, sem myndu meðal annars byggjast á auknum ferðum risaskipa með olíu, gas og farþega vegna fleiri siglinga um norðurhöf og inn á heimskautið. Í samræmi við þetta mat hefði verið ákveðið að láta smíða nýtt, öflugt varðskip, kaupa nýja flugvél og ráðast í endurnýjun þyrluflotans.

Líta yrði til löggæslu og landamæravörslu á sama hátt. Við mótun framtíðarstefnu yrði að leggja til grundvallar greiningu og mat á hættu og haga aðgerðum í samræmi við niðurstöðuna. Við þetta mat dygði ekki lengur að líta aðeins til þess, sem væri að gerast á íslenskum heimahögum, heldur yrði að hafa hina alþjóðlegu þróun inni í myndinni, einmitt þess vegna væri framtak fíkniefnadeildarinnar svo mikilvægt.

Að breyta áherslum í lögreglustarfi á þann veg, að menn séu meira á varðbergi en áður gagnvart ytri hættu og skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi, er ekki viðfangsefni, sem lokið er á skömmum tíma. Í eðli sínu er starfsemi lögreglu innhverfari, ef svo má að orði komast, en til dæmis landhelgisgæslu, sem hefur margra áratuga reynslu af því að takast á við þá, sem sækja inn í íslenska lögsögu frá útlöndum.

Mikilvægur þáttur í því að vekja lögreglumenn til vitundar um hina alþjóðlegu hættu er að gefa þeim kost á að kynnast og vinna náið með starfsystkinum í útlöndum. Þess vegna skipti til dæmis miklu, að Lögregluskóli ríkisins gerðist aðili að samstarfi evrópskra lögregluskóla, CEPOL. Undir þeim merkjum eiga lögreglumenn héðan greiðan aðgang að fræðslu og námskeiðum.

Með því að leggja til, að innan lögreglunnar starfi sérstök greiningardeild, sem þjóni lögregluliðum um land allt, var ég að árétta mikilvægi mats og greiningarstarfs. Án þess að leiðin hafi verið kortlögð, eru menn jafnan í nokkurri óvissu og vita ekki alltaf, hvert þeir eru að fara. Greiningardeildin á að leggja fram efnivið í kortagerð fyrir lögregluna, svo að störf hennar séu markvissari en ella væri. Hún starfar í nánum tengslum við tollgæslu og landhelgisgæslu.

Landamæravarsla fellur undir verksvið lögreglu. Greiningarstarf í þágu hennar vex jafnt og þétt. Miklu skiptir að greiningarnetið við landamærin sé þéttriðið og virkt með tengingu við allar hinar öflugu upplýsingalindir, sem standa landamæravörðunum til boða, þegar þeir meta gögn um þá, sem eru að koma til landsins. Hér skiptir samstarf Schengen-ríkja miklu og snýst það í æ meira mæli um borgaraleg öryggismál.

Innan lands þarf að vera fyrir hendi nægilega öflugt og fjölbreytt lögreglulið til að takast á við allar tegundir afbrota og vegna aukinnar hörku í heimi afbrotanna, þarf að búa lögreglu undir hörð átök og þjálfa hana í því skyni. Innan okkar lögreglu hefur verið lögð áhersla á það undanfarin ár að efla styrk hennar með fjölgun í sérsveit lögreglunnar. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að efla einstaka liðsheildir lögreglunnar með því að stækka lögregluumdæmin.

Hvert sem litið er hefur lögreglan verið að styrkjast undanfarin ár og er ég stoltur af hinni góðu samvinnu, sem ég hef átt við lögreglustjóra og lögreglumenn um umbætur á þessu sviði. Hitt er ljóst, að aukin umsvif lögreglu og erfiðari viðfangsefni krefjast í senn nýrra vinnubragða og meiri fjármuna.

Framtíð LRS.

Umræður um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum (LRS) þessa dagana eru úr takt við hina jákvæðu heildarþróun í löggæslumálum, enda snúast þær um allt annað, það er stjórnsýsluskipulag embættisins. Skipulagið er á skjön við allt annað á þessu sviði í landinu, og stendur embættinu svo fyrir þrifum fjárhagslega, að um langt árabil hefur ekki tekist að reka það innan fjárheimilda samkvæmt fjárlögum.

Alþingi hefur flýtt afgreiðslu fjárlaga til að tryggja, að embætti get samið rekstraráætlanir samkvæmt þeim fyrir lok desember og lagt þær fyrir viðkomandi ráðuneyti til staðfestingar. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kom slík áætlun frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum ekki fyrr en í febrúar 2008 til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þar var gert ráð fyrir, að rekstur embættisins á þessu ári yrði rúmar 200 milljónir umfram fjárheimildir. Ráðuneytið gat að sjálfsögðu ekki fallist á þessa áætlun, það hefði verið brot á öllum reglum um framkvæmd fjárlaga. Var lögreglustjóranum skýrt frá þessu og lagt fyrir hann að ná endum saman. Hann kynnti ráðuneytinu síðan endurskoðaða áætlun með tillögum um uppsagnir starfsmanna og ekki yrðu ráðnir neinir til sumarafleysinga, svo að dæmi séu nefnd. Jafnframt fylgdi frásögn um, að í raun væri ekki unnt að framkvæma það, sem í tillögunum birtist.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið tók við yfirstjórn löggæslu og landamæravörslu á Keflavíkurflugvelli 1. janúar 2007 með í því fylgdi tollgæsla, sem er á verksviði fjármálaráðuneytis, og öryggisgæsla í flugstöðinni, sem er á verksviði samgönguráðuneytis. Ástæðan fyrir samstjórn þessara mála var sú, að utanríkisráðuneytið kom fram fyrir hönd stjórnarráðsins í heild gagnvart varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Á síðasta ári fékk ég sérstaka ráðgjafanefnd til að fylgjast með innra starfi og fjármálum LRS. Í fjáraukalögum fyrir árið 2006, sem samþykkt voru undir lok síðasta árs, átti að hreinsa upp eftirstöðvar af framúrkeyrslu embættis sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, en embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum varð til með því að setja alla löggæslu á Suðurnesjum undir sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli og breyta heiti embættisins í LRS. Ráðgjafanefndin lagði gott starf af mörkum á síðasta ári en helsta ábending hennar var, að til framtíðar yrði um aðskilinn fjárhag einstakra verkþátta að ræða og vildi hún tryg gja það með samningum við ráðuneyti viðkomandi málaflokka. Ríkisendurskoðun hefur fært fyrir því rök, að yfirstjórn tollgæslu í landinu eigi öll að vera á einni hendi undir forræði fjármálaráðuneytis,

Þegar við blasti öngþveiti í fjármálum LRS á þessu ári og í raun fjárhagslegt þrot, yrði ekki gripið til róttækra ráðstafana, var það mat mitt, að ganga stjórnsýslulega hreint til verks og hvert ráðuneyti tæki að sér sinn þátt í verkefnum LRS. Þessi leið er ekki farin í sparnaðarskyni og hefur ekki í för með sér uppsagnir starfsmanna. Hún tryggir hins vegar framtíð og öflugt innra starf embættisins betur en hinar árlegu fjármálakrísur þess.

Ríkisstjórnin samþykkti þessa leið út úr vanda embættisins og þingflokkur sjálfstæðismanna hefur samþykkt hana. Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingar, hefur beitt sér gegn málinu, án þess að ég viti, hvaða leið hann sér út þeim bráða vanda, sem við blasir.

Metnaður LRS er mikill og innan embættisins starfar fjöldi hæfra starfsmanna. Að halda því fram, að í tillögum mínum felist aðför að því góða starfi, sem unnið er innan LRS er í besta falli öfugmæli. Sé einhverjum stjórnmálamanni kappsmál að staðið sé vel að löggæslu og landamæravörslu, skipa ég mér í þann flokk og tel mig hafa sýnt það með störfum mínum. Hitt er ekki nýmæli fyrir mig, að einstakir þingmenn innan Samfylkingar eigi erfitt með að samþykkja umbætur og tillögur mínar á þessu sviði og leiðir til að styrkja löggæsluna.

Samþætting starfa.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist 13. apríl, er sagt frá skýrslu hóps um aðferðir til að bæta ástandið í miðborg Reykjavíkur. Af frásögninni má ráða, að árangur náist ekki nema með samstarfi margra aðila og að sjálfsögðu er eðlilegt, að borgaryfirvöld leiði það samþættingarstarf, sem er nauðsynlegt eigi að ná settu markmiði, að bæta ásýnd miðborgarinnar og næturlífið þar.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Stefán Eiríksson, ritaði grein í Morgunblaðið síðsumars í fyrra, þar sem hann vakti einmitt máls á nauðsyn samþættingar í störfum. Hrópuðu þá margir, að lögreglan væri að hlaupast undan merkjum, allt færi á betri veg, ef sýnileiki hennar yrði aukinn. Löggæsla er vissulega öflug í miðborginni, þegar á þarf að halda, en hún glímir aðeins við sjúkdómseinkennin, ef uppræta á vandann, þarf að taka á meininu sjálfu.

Í umræðum um breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum láta sumir eins og skipting verkefna og fjárhagslegrar ábyrgðar milli þeirra, sem fara með viðkomandi málaflokka innan stjórnarráðsins, sé aðför að þeim verkefnum, sem starfsmönnum embættisins ber að vinna lögum samkvæmt, þeir samþætti ekki störf sín lúti þeir ekki sama yfirmanni. Væri þetta hin almenna reynsla mætti eins halda því fram, að enginn árangur næðist við að uppræta vandann í miðborg Reykjavíkur nema lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fengi þar stjórn allra mála.

Á höfuðborgarsvæðinu starfar tollgæsla undir einni stjórn og löggæsla annarri. Fyrir því má færa rök, að tollheimta skiptist milli innheimtu fyrir ríkissjóð annars vegar og gæslustarfa hins vegar. Vilja menn, að gæslustörfin flytjist alfarið til lögreglu og undir stjórn lögreglustjóra alls staðar á landinu? Ég hef ekki séð tillögur um það. Þær komu ekki fram í skýrslu ríkisendurskoðunar um þetta efni, sem birt var í nóvember 2007 og laut að stjórnsýslu tollgæslunnar. Þar er hins vegar lögð rík áhersla á samþættingu í störfum lögreglu og tollvarða.

Samþætting löggæslu og tollgæslu er mikilvægust, þegar litið er til greiningar og miðlunar upplýsinga. Sé markmiðið að efla landamæravörslu hvarvetna á landinu, er óhjákvæmilegt að auka þessa samþættingu fyrir landið í heild, þótt tollurinn heyri undir ríkistollstjóra í umboði fjármálaráðherra og lögregla undir ríkislögreglustjóra og einstaka lögreglustjóra í umboði dóms- og kirkjumálaráðherra.

Sjái menn ekki tækifæri í breytingum nýta þeir þau ekki. Óttist menn breytingar er það oftast vegna þess að þeir dæma þær aðeins frá eigin hagsmunum, án þess þó að viðurkenna það opinberlega. Hrakspám og hræðsluáróðri er svo beitt til að hafa áhrif á aðra.

Hörð kosningabarátta.

Kosningabarátta meðal demókrata um forsetaembættið í Bandaríkjunum harðnar nú dag frá degi, enda dregur næst til stórtíðinda hinn 22. apríl nk. í Pennsylvaníu, tapi Hillary Clinton þar, telja flestir, að prófkjörsbaráttu hennar ljúki. Nýjustu tölur frá Associated Press um fylgi þeirra Baracks Obama og Hillary á flokksþingi demókrata segja, að Obama njóti fylgis 1.638 fulltrúa en Hillary 1.502.

Þegar kosningabarátta kemst á þetta stig og harkan er af þessu tagi, er fylgst með hverju orði frambjóðenda og því hent á loft af andstæðingum þeirra, sem þykir geta veikt stöðu þeirra.

Barack Obama flutti ræðu á fjáröflunarkvöldverði í San Francisco sl. sunnudag. Þar þótti hann tala niður til þeirra, sem minna mega sín í Bandaríkjunum, þegar hann sagði talaði um „bitran“ verkalýð, sem „leitaði trausts í byssum og trú“.

Hillary Clinton og John McCain, forsetaframbjóðandi repúblíkana, gagnrýndu Obama harðlega fyrir ummæli hans og hefur hann nú sagt, að hann hafi komist illa að orði.

Í ræðu sinni sagði Obama:

„You go into these small towns in Pennsylvania and, like a lot of small towns in the Midwest, the jobs have been gone now for 25 years and nothing's replaced them.

And it's not surprising, then, they get bitter, they cling to guns or religion or antipathy to people who aren't like them or anti-immigrant sentiment or anti-trade sentiment as a way to explain their frustrations.“

Hillary greip þessi orð á lofti og sagði kjósendur Pennsylvaníu ekki þurfa forseta, sem liti niður til þeirra. Ummælin væru yfirlætisfull og til marks um fáfræði um gildi og skoðanir Bandaríkjamanna, að minnsta kosti þeirra, sem hún þekkti. 

Þegar Obama játaði, að hann hefði verið of hvatvís í orðum  sagði hann, að biturt fólk  sneri sér að því, sem það treysti. Þess vegna kysi fólk um byssur eða leitaði skjóls í trú sinni, fjölskyldu og samfélagi. Það væri ósköp eðlilegt.

Vandræði af þessu tagi valda gleði meðal stuðningsmanna Hillary, sem telja þau dreifa athygli frá missögnum frambjóðanda þeirra. Frægust þeirra í seinni tíð eru ummæli hennar um, að hún hafi orðið að hlaupa í  skjól undan skothríð með dóttur sinni, Chelsea, við komu þeirra á flugvöllinn í Tuzla í Bosníu árið 1996. Myndskeið frá komunni sýnir hins vegar, að átta ára stúlka tók á móti mæðgunum við komuna í friði og spekt. Hillary hefur viðurkennt, að hún hafi lýst atvikinu á rangan hátt.

Bill Clinton hefur nú, á fundi í Indíana fimmtudaginn 10. apríl, endurvakið umræður um komu konu sinnar og dóttur til Tuzla. Hann bar blak af Hillary og sagði hana hafa fengið ómaklega útreið í fjölmiðlum.  Þeir hefðu látið eins og hún hefði gerst sek um bankarán.

Í ræðunni undraðist Bill uppnámið vegna mismæla Hillary, sem fallið hefðu síðla kvölds, þegar hún hefði verið dauðþreytt, og sagt frá því, sem kom fyrir hana í Bosníu 1995 – hún hefði strax beðist afsökunar og leiðrétt þetta. Fjölmiðlar hefðu svo blásið þetta upp. Síðan sagði hann hættusögu frá Bosníu á þessum árum. Taldi hann för Hillary sýna, hve mikla umhyggju hún hefði þá þegar borið fyrir velferð bandarískra hermanna. Hann héldi, að hún hefði verið fyrsta forsetafrúin á eftir Eleanor Roosevelt (í síðari heimsstyrjöldinni) til að heimsækja hermenn á vígvellinum. Fjölmiðlamenn hefðu síðan látið eins og hún hefði rænt banka eftir frásögn hennar, en sumir þeirra gætu, þegar þeir væru orðnir 60 ára, líka gleymt einhverju, væru þeir orðnir þreyttir ellefu að kvöldi.

Ýmsir hafa orðið til þess, að gera athugasemd við þessi orð Bills Clintons. Kona hans hafi ekki verið þreytt að kveldi, þegar hún sagði frá skotárásinni í Tuzla, heldur hafi hún endurtekið frásögnina oft, meðal annars á blaðamannafundi að morgni 17. mars. Þá hafi hún aldrei beðist afsökunar á ummælunum heldur viðurkennt, viku eftir fundinn 17. mars, að hafa mismælt sig – þá hafði myndbandið með því, sem raunverulega gerðist, verið sýnt og ekki neitt um að villast, hún fór með rangt mál. Pat Nixon fór sem forsetafrú til Saigon í Víetnamstríðinu og Barbara Bush forsetafrú fór til Sádí Arabíu tveimur mánuðum, áður en Persaflóastríðið hófst. Samanburðurinn við frú Roosevelt hafi því verið rangur. Hillary fór til Tuzla 1996 en ekki 1995 eins og Bill sagði.

Með allt þetta í huga er ekki skrýtið, að þær fréttir bærust úr herbúðum Hillary, að hún hafi hringt í Bill og beðið hann að hætta að tala um þetta mál. Bill sagði síðan, að hún hefði hringt í sig og sagt: Þú manst ekkert eftir þessu. Þú varst ekki þarna, láttu mig sjá um þetta. Og hann hafi svarað: Yes, ma’am!