5.4.2008

Öflug löggæsla - rætt um vegvísi.

Björgvin Guðmundsson, ritstjóri viðskiptablaðs Fréttablaðsins, ritaði  leiðara föstudaginn 4. apríl um  lögreglu og löggæslu og hóf mál sitt með þessum orðum:

„Það verður seint hægt að saka Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, fyrir áhugaleysi á löggæslustörfum í landinu þau ár sem hann hefur setið í ráðuneytinu.

Fjölmörg framfaraskref hafa verið stigin sem löggæslumenn hafa yfir það heila verið ánægðir með. Hefur Björn meðal annars verið sæmdur gullmerki Landssambands lögreglumanna fyrir „frábær störf í þágu lögreglumanna". Enginn annar einstaklingur utan lögregluliðsins hefur verið sæmdur slíku heiðursmerki.“

Að loknum þessum inngangi fer Björgvin orðum um þá ákvörðun, að skipulag embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum skuli lagað að verkaskiptingu innan stjórnarráðsins eins og hún er ákveðin í reglugerð um starfsemi þess. Björgvin segir ákvörðunina hafa komið á óvart og hún hafi verið tekin í flýti og án samráðs yfirmenn embættisins. Þetta er ekki alls kostar rétt.

Ákvörðun mína tók ég 10 dögum eftir að ég fékk tillögur um leiðir til að mæta rúmlega 200 milljón króna fjárhagsvanda hjá embættinu. Hafði ég þá farið yfir þá kosti, sem voru í stöðunni. Taldi ég þá leið skynsamlegasta að fella embættið að skipulagi stjórnarráðsins, þannig að fjármálaráðuneyti bæri ábyrgð á tollgæslu, samgönguráðuneyti á öryggisgæslu vegna flugs og dóms- og kirkjumálaráðuneytið á löggæslu og landamæravörslu. Ég kynnti yfirmönnum embættisins ákvörðun mína og einnig umþóttunartíma til að hrinda henni í framkvæmd.

Samkvæmt þeim stjórnunarfræðum, sem ég hef kynnt mér, er ekki unnt að standa að málum á annan hátt en þann, að taka ákvörðun og kynna hana. Síðan ber að fylgja henni eftir í samræðum og undanfarna daga hef ég farið ítarlega yfir málið á góðum fundum með Jóhanni R. Benediktssyni lögreglustjóra, sem er mikils metinn af samstarfsfólki sínu og nýtur stuðnings þess. Samhliða hefur verið unnið að því með fjármálaráðuneyti og samgönguráðuneyti að framkvæma ákvörðunina, enda nýtur hún eindregins stuðnings ráðuneytanna.
Í leiðara sínum segir Björgvin:

„Ákvörðun um að lögreglustjórinn á Suðurnesjum færi með tollgæslu, öryggiseftirlit og landamæra- og löggæslu í sínu embætti hefur væntanlega verið vel ígrunduð áður en hún tók gildi í ársbyrjun 2007. Og menn áttuðu sig á sérstöðu embættisins.“

Við brottflutning varnarliðsins breyttust aðstæður á Keflavíkurflugvelli. Í tíð varnarliðsins fór utanríkisráðuneyti með öll málefni stjórnarráðsins á vellinum, þess vegna var sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli með verkefni tolls og öryggisgæslu á sinni könnu í umboði utanríkisráðherra.  Þegar ákveðið var að sameina löggæslu á Suðurnesjum undir einum hatti var niðurstaðan sú, að breyta sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum, þess vegna hefur hann með höndum yfirstjórn tollgæslu og öryggisgæslu. Ákvörðun um sameiningu 1. janúar 2007 sneri eingöngu að því að sameina lögreglu á Suðurnesjum undir einni stjórn. Sú ákvörðun, sem nú hefur verið tekin, miðar að því að árétta hlutverk lögreglunnar í þágu allra á Suðurnesjum, en tollgæsla og öryggisgæsla snýst um ferðir um Keflavíkurflugvöll, þótt tollverðir sinni að sjálfsögðu einnig skipum á svæðinu.

Samgönguráðuneyti er að taka við yfirstjórn flugumferðar á Keflavíkurflugvelli af utanríkisráðuneyti. Samgönguráðuneyti mótaði þá stefnu við öryggisgæslu á Reykjavíkurflugvelli að bjóða hana út í stað þess að endurnýja samning við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Þótt ég hafi talið, að lögregla ætti að eiga síðasta orð um þessa gæslu, ræð ég því ekki sem dómsmálaráðherra.  Eðlilegt er, að samgönguráðuneyti eigi síðasta orðið á Keflavíkurflugvelli eins og á Reykjavíkurflugvelli.

Í nóvember 2007 gaf ríkisendurskoðun út skýrslu um stjórnsýsluúttekt á tollgæslu gegn fíkniefnum og þar kemur fram, að skynsamlegt sé að stofna embætti ríkistollstjóra, sem fari með fjármálastjórn og boðvald á landsvísu. Eðlilegt er að fara að þessari tillögu og er ákvörðun mín um að fjármálaráðuneyti fari með tollgæslu á Keflavíkurflugvelli í samræmi við hana.

Ekkert í ákvörðun minni átti að koma þeim á óvart, sem fylgst hafa með framvindu mála á þessum sviðum. Óbreytt skipan mála hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum fer gegn því, sem samgönguráðuneyti hefur gert á Reykjavíkurflugvelli, og ríkisendurskoðun segir um skipan tollgæslu. Rökin fyrir ákvörðun minni eru þeim kunn, sem að þessum málum hafa unnið. Hitt er síðan annað mál, hvort menn vilja fallast á rökin eða ekki. Hvað sem því líður er ósanngjarnt  að segja, að rökin skorti.

Björgvin segir réttilega í leiðara sínum, að Jóhann R. Benediktsson og hans lið hafi sýnt góðan árangur í að vakta hér landamæri hvort sem þar fara um glæpamenn eða fíkniefnasmyglarar. Hitt vekur undrun mína, hve Björgvin virðist vilja gera lítið úr því, að embætti lögreglustjórans boði rúmlega 200 milljón króna umframkeyrslu miðað við fjárlög. Stangast það viðhorf við margítrekaða skoðun Björgvins um, að gæta beri aðhalds í opinberum rekstri.

Leiðaranum lýkur Björgvin á þessum orðum:

„Það er mikilvægt að Björn Bjarnason hlusti á sjónarmið manna eins og Jóhanns R. Benediktssonar og Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Frumskylda ríkisins er að veita borgurum vernd og tryggja öryggi landsins. Árangur í löggæslustörfum er ekki sjálfgefinn.“

Ótti Björgvins um, að ég hlusti hvorki á Jóhann né Stefán eða alla aðra lögreglustjóra og lögreglumenn, ef svo ber undir, er með öllu ástæðulaus.

Ekki má slaka á neinu í viðleitni við að efla löggæslu í landinu. Fyrir skömmu auglýsti embætti ríkislögreglustjóra eftir 32 nýjum lögreglumönnum til starfa í embættum víðsvegar um landið. Auglýsingin er ekki til marks um metnaðarleysi í málefnum lögreglunnar og ekki heldur nýleg auglýsing Lögregluskóla ríkisins eftir nýnemum. Er raunar undarlegt, að Björgvin skuli ekki geta um þetta hvoru tveggja, þegar hann ræðir um löggæslu og árangur hennar.

Rætt um vegvísi.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, ritaði leiðara um umræður um Evrópusambandið, Ísland og vegvísi í blaðið sunnudaginn 30. mars. Þar sagði meðal annars:

„Óraunhæft er að ljúka stjórnarskrárbreytingu [til að heimila aðild að ESB] fyrr en við lok kjörtímabils með því að hún kallar á samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Mikilvægt er að allar leikreglur í þessu efni liggi fyrir áður en þjóðin þarf endanlega að gera upp hug sinn um það mat á íslenskum hagsmunum sem eðlilega hlýtur að liggja til grundvallar ákvörðun af þessu tagi.

Ætla verður að ágreiningslaust sé að löggjöf um aðild öðlist ekki gildi nema þjóðin samþykki hana í allsherjaratkvæðagreiðslu. En hinu þarf að svara hvort gera eigi kröfur um aukinn meirihluta og lágmarks stuðning allra atkvæðisbærra manna. Margt mælir með því að fyrirfram sammælist menn um að þetta skref verði því aðeins stigið að rúmur meirihluti þjóðarinnar standi þar ótvírætt að baki.

Annað álitaefni snýr að því hvernig taka á ákvörðun um að óska eftir aðild og leita eftir samningum þar um. Á Alþingi að taka þá ákvörðun? Eða á ákvörðun Alþingis að vera háð samþykki þjóðarinnar? Skynsamleg rök eru fyrir því að láta gildi slíkrar ákvörðunar velta á úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þarna ræðir Þorsteinn inntak í stefnu, sem ég kallaði vegvísi í samtali mínu við Sigmund Erni í Mannamáli hinn 16. mars. Mikilvægt er, að á stjórnmálavettvangi náist samkomulag um þessi efnisatriði, vilji menn ræða í alvöru um leið í Evrópuumræðunum, sem er til þess fallin að tryggja sem mesta samheldni um niðurstöðu meðal þjóðarinnar. Sé sú skoðun rétt, að stjórnmálaflokkar klofni líklega vegna málsins, skiptir miklu um eftirleikinn að haga leikreglum á þann veg, að enginn efist um, hvernig meirihluti myndast.

Óánægja með skoðun Þorsteins birtist fljótlega í grein Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í Fréttablaðinu 1. apríl. Árni Páll telur Þorsteinn leggja farartálma á leið inn í ESB með tillögum sínum um tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og aukinn meirihluta, auk þess sem ekki þurfi að bíða eftir breytingu á stjórnarskránni.

Stjórnmálamenn, sem tóku þátt í umræðum um aðildina að EES og deilum um stjórnarskrána vegna hennar, munu aldrei samþykkja, að hugað sé að aðild að Evrópusambandinu, án þess að ótvíræð heimild sé til þess í stjórnarskránni. Annað væri hreint glapræði. Er í raun furðulegt, að löglærðum alþingismanni, Árna Páli, skuli til hugar koma, að ekki þurfi ótvíræða stjórnarskrárheimild, sé gengið til viðræðna um ESB-aðild. Árni Páll er einnig andvígur þjóðaratkvæðagreiðslu um hug þjóðarinnar, áður en ákvörðun er tekin um viðræður við ESB.

Viðbrögð Árna Páls sýna svart á hvítu, hve miklu skiptir að ræða þessi mál til hlítar á heimavettvangi – huga að heimavinnunni – áður en haldið er út fyrir ramma EES í samskiptum við ESB.

Umræða um inntakið í vegvísinum er hafin. Undan henni verður ekki vikist. Þorsteinn Pálsson hefur meira til síns máls en Árni Páll.