15.3.2008

Írar og evran - agi við fjármálastjórn - um bloggið.

Í breska blaðinu The Daily Telegraph hinn 13. mars segir, að írska ríkisstjórnin kunni að þurfa að rétta írskum bönkum hjálparhönd vegna lækkunar á fasteignaverði í landinu. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa nein ráð til að stöðva alvarlega, efnahagslega niðursveiflu. Tímabundin þjóðnýting á bönkum kunni að verða þrautalendingin.

Morgan Kelly, prófessor við University College í Dyflinni, segir ríkisstjórnina næstum úrræðalausa til að sporna gegn því að niðursveiflan breytist í alvarlegan samdrátt. Hann segir Íra ekki geta gert neitt, sem þjóð mundi venjulega gera við aðstæður sem þessar, þar sem þeir séu hluti evrusvæðisins. Þeir geti ekki lækkað vexti, þeir geti ekki lækkað gengið og þeir hafi miklu minna svigrúm til fjármálalegra aðgerða en fólk ætli. Þeir sitji einfaldlega í súpunni.

Fasteignaverð lækkaði um 7% á Írlandi síðasta ár og heldur áfram að lækka á þessu ári. Atvinnuleysi var 5,2% í febrúar sl. hið mesta í 8 ár. Bankarnir séu bjargar þurfi eins og þeir voru á Norðurlöndunum í byrjun 10. áratugarins, þegar ríkið tók þá í fóstur. Minnt er á, að tveir sænskir bankar voru þjóðnýttir og blásið í þá nýju lífi, áður en þeir voru aftur settir á markað. Svíar hafi þó ekki náð tökum á stjórn eigin peningamála, fyrr en eftir að þeir hættu þátttöku í evrópska gjaldmiðlasamstarfinu (ERM) og tóku peningamálin í eigin hendur.

Í fréttinni er einnig rifjað upp, að síðustu 20 ár hefur verið litið til Írlands sem fyrirmyndar vegna hagvaxtar og efnahagsframfara. Írar eigi þó mest undir viðskiptum í pundum og dollar af öllum evruríkjum og finni því þyngst fyrir áhrifum af síhækkandi gengi evrunnar. Morgan Kelly telur, að Írar hafi tapað 20% af samkeppnishæfni sinni frá því sem hún var, þegar evran kom til sögunnar.

Af umræðum hér á landi um viðbrögð í efnahagsmálum stendur upp úr furðulega mörgum, að eina bjargráðið sé að fara sömu leið og Írar gerðu með aðild að evrusvæðinu. Írar eru eina ESB-þjóðin, sem verður að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmála ESB. Af fréttum má ráða, að reiði almennings í garð evrunnar kunni að leiða til þess, að sáttmálanum verði hafnað af Írum. Þar með yrði allt í uppnámi innan ESB.

Á Schengen-fundi í Brussel á dögunum ræddi ég við írskan ráðherra um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sagði, að hún yrði í sumar. Á hinn bóginn hefði endanleg dagsetning ekki verið ákveðin.

Sjá má, að ríkisstjórnin vill draga sem lengst að tilkynna daginn, því að vitað er, að í kosningabaráttunni muni andstæðingar Lissabon-sáttmálans hvaðanæva að úr Evrópu koma til Írlands til að leggja sitt af mörkum til að fella hann.

Undanfarnar vikur hef ég setið tvo Schengen-ráðherrafundi og þar á meðal tekið þátt í tveimur lokuðum, óformlegum umræðum. Ég fullyrði, að Ísland, Noregur og Sviss standa ekki verr að vígi en aðildarríki ESB, ef áhugi er á því að viðra á þessum vettvangi einhver sérgreind hagsmunamál þessara ríkja eða hafa áhrif á ákvarðanir. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að unnt sé að vinna skipulegar að því að kynna og ræða íslenska Schengen-hagsmuni við framkvæmdastjórn ESB með núverandi skipan en ef Ísland væri aðili að ESB.

Störf mín á þessum vettvangi síðan 2003, fyrir utan formennsku í Evrópunefndinni, 2004 til 2007, hafa gefið mér einstakt tækifæri til að afla mér haldgóðrar þekkingar á tengslum Íslands og Evrópusambandsins – jafnvel meiri en flestra annarra íslenskra stjórnmálamanna. Með þessa reynslu að baki blæs ég á þau sjónarmið, að með núverandi skipan sé ekki unnt að tryggja íslenska hagsmuni á fullnægjandi hátt gagnvart Evrópusambandinu. Auk þess lít ég á það sem uppgjöf við stjórn íslenskra efnahagsmála að halda, að allur vandi hverfi með því einu að ganga í Evrópusambandið til að komast í eitthvert evruskjól.

Agi við fjármálastjórn.

Ríkisendurskoðun sendi frá sér skýrslu 15. ágúst 2007 um framkvæmd fjárlaga árið 2006. Í fréttatilkynningu um skýrsluna sagði:

„Ríkisendurskoðun bendir á að það sé Alþingis að ákvarða umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum hvers árs. Forstöðumenn einstakra ríkisstofnana hafa engu að síður tekið sér vald til að auka þjónustuna eða draga úr henni frá því sem löggjafinn hefur mælt fyrir um og ákvarðað er með fjárveitingum til stofnananna.

Í þessu samhengi bendir Ríkisendurskoðun á að forstöðumönnum ríkisstofnana ber skilyrðislaust að reka stofnanir sínar innan fjárheimilda og leitast við að tryggja að svo sé. Brot á þeim starfsskyldum þýða lögum samkvæmt áminningu eða lausn frá störfum. Það heyrir hins vegar til algjörra undantekninga að ráðuneyti beiti slíkum viðurlögum og verður að telja það brotalöm á verklagi við framkvæmd fjárlaga.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir agaleysið sem einkennir framkvæmd fjárlaga og má bæði rekja til forstöðumanna stofnana og stjórnenda þeirra ráðuneyta sem þær heyra undir. Brýnt er að stofnanir og ráðuneyti sem hlut eiga að máli ráði sem fyrst bót á þessum vanda. Þá er ekki síður mikilvægt að fjárlaganefnd Alþingis hafi frumkvæði að því að koma þessum málum í rétt horf.“

Hinn 16. júlí 2007 sagði Gunnar Svavarsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nýkjörinn formaður fjárlaganefndar, í grein í Morgunblaðinu:

„Á undanförnum árum hefur allt að fjórðungur fjárlagaliða ráðstafað fjármunum umfram heimildir. Agi og festa skipta miklu þegar kemur að fjármálastjórn og ráðstöfun fjármuna. Vissulega geta verið eðlilegar skýringar á því af hverju ráðstöfun er ekki í samræmi við heimildir. Það má hins vegar aldrei verða sér íslenskt fyrirbrigði að svo sé. Í samanburði við þær þjóðir, sem við berum okkur gjarnan við, virðist það hinsvegar vera raunin. Það er því hlutverk okkar allra sem komum að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga að tryggja að við höldum okkur við þann ramma og það skipulag sem okkur er skapað. Endurrýni hlutanna á að leiða til bættari vinnubragða og ef það kemur í ljós að um van- eða ofáætlanir er að ræða þá á að skoða þau einstöku verkefni til betri lausna.“

Þessar brýningar ber að hafa í huga, þegar rætt er um fjárhag embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og viðbrögð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við rekstraráætlun frá embættinu, sem gerði ráð fyrir, að útgjöld þess á árinu 2008 yrðu 200 milljónir kr. umfram heimildir samkvæmt fjárlögum.

Í ljósi umræðu um fjárhag embættisins sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið fjölmiðlum eftirfarandi fréttatilkynningu hinn 8. mars s.l.

„Eftir samþykkt fjárlaga lagði embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum fram rekstraráætlun vegna ársins 2008, þar sem gert er ráð fyrir ríflega 200 milljón króna útgjöldum umfram heimildir fjárlaga. Það skal tekið fram að á fjárlögum ársins 2008 er ekki um að ræða neinn niðurskurð á fjárheimildum embættisins frá fyrri árum. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur kallað eftir ítarlegum upplýsingum og útskýringum frá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum vegna þessa. Þangað til þessar upplýsingar liggja fyrir verður starfsemi embættisins óbreytt. Úrlausn mála af þessu tagi er gerð í samvinnu ráðuneytis og viðkomandi stofnunar.“

Mánudaginn 10. mars komu lögreglustjórinn og nánustu samstarfsmenn hans á fund í ráðuneytinu og gerðu grein fyrir tillögum sínum og tók ráðuneytið þær til athugunar og sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Í morgun áttu fulltrúar lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum fund með dóms- og kirkjumálaráðherra og fulltrúum ráðuneytisins um fjármál embættisins. Á fundinum lögðu fulltrúar lögreglustjóraembættisins fram upplýsingar vegna nýrrar rekstraráætlunar ársins 2008. Málið er í vinnuferli og verða engar ákvarðanir um aðgerðir teknar fyrr en niðurstaða úr þeirri vinnu liggur fyrir.“

Ítrekuðu fulltrúar ráðuneytisins þetta sjónarmið á fundi, sem lögreglumenn og tollverðir við embættið boðuðu í Duus-húsi í Reykjanesbæ að kvöldi fimmtudags 13. mars.

Fyrrnefndri skýrslu ríkisendurskoðunar lýkur á þessum orðum:

„Þegar öllu er á botninn hvolft er vandamálið sem við er að glíma agaleysi forstöðumanna og stjórnenda ráðuneyta. Stofnanir komast upp með að ýta á undan sér halla ár eftir ár án þess að gripið sé til aðgerða gagnvart stjórnendum þeirra. Það gleymist að aðeins löggjafinn, handhafi hins lýðræðislega umboðs, hefur stjórnskipulegan rétt til að ákvarða umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum hvers árs. Hvorki forstöðumenn stofnana né stjórnendur ráðuneyta mega taka ákvarðanir sem kalla á útgjöld umfram það. Til að bregðast við auknum kröfum umfram það sem mæta má með fjárveitingum til rekstrarins hafa stjórnendur stofnana aðeins þá leið að spara, annaðhvort með því að hagræða í rekstrinum eða með því að draga saman starfsemi og þjónustu. Það er aðeins á valdi Alþingis að mæla fyrir um að veitt sé viðbótarfjárveiting. Í reynd taka stjórnendur sumra stofnana og ráðuneyta sér vald til að ákveða að verja meiri fjármunum til rekstrarins en heimild er fyrir. Brýnt er að stofnanir og ráðuneyti sem hlut eiga að máli bregðist við þessum vanda og ráði sem fyrst bót á honum. Þá er ekki síður mikilvægt að fjárlaganefnd Alþingis hafi frumkvæði að því að koma þessum málum í rétt horf.

Forstöðumenn vísa gjarnan ábyrgðinni á ráðuneytin. Forstöðumönnum (svo!) sem standa í langvinnum hallarekstri virðist oft skorta frumkvæði til að taka á málunum. Þeir beygja sig undir ráðuneytin og bíða eftir fyrirmælum þaðan í stað þess að fylgja lögum Alþingis. Þó ábyrgðin á því að fylgja fjárlögum hvíli fyrst og fremst á herðum forstöðumanna ber ráðuneytum engu að síður að grípa í taumana bregðist forstöðumenn starfsskyldum sínum. Í raun er það til marks um slaka yfirstjórn ráðuneyta þegar undirstofnanir þeirra fylgja ekki fjárlögum.“

Um bloggið.

Mig minnir, að einhver bloggari hafi einhvern tíma sagt, að hann læsi aldrei síðuna mína, af því að hann ætti þess ekki kost að skrifa þar athugasemd við skrif mín. Þá hafa einnig sumir litið á það sem atriði við skilgreiningu á bloggi, að unnt sé að koma að athugasemd við það á sama stað og það birtist. Þetta er röng skilgreining, að minnsta kosti ef marka má grein eftir Lee Gomes, sem birtist í The Wall Street Journal hinn 12 mars 2008 undir fyrirsögninni: An addictive Web of neurons.

Þar er tekið dæmi af því, hve köttum þyki gaman að því að leika sér við geislann af leysibendli. Þennan leik kattarins að geislanum megi nota til að skýra, hvernig við notum vefinn. Tekið er dæmi af síðu alþekkts, vinsæls, pólitísks bloggara, Andrews Sullivans. Hann fylgi ekki hinni almennu reglu um að gefa lesendum kost á að skrifa athugasemd á síðuna sína. Hann hafi hins vegar velt fyrir sér, hvort hann ætti að leyfa slíkar athugasemdir, og kannaði hug lesenda síðu sinnar til þess.

Svör lesenda voru skýr 60% á móti 40% voru andvíg því að leyfa athugasemdir. Þetta kom Sullivan á óvart en þó enn frekar hitt, að lesendurnir lýstu hegðun sinni á þann veg, að fengju þeir þetta tækifæri, ættu þeir erfitt með að hætta, eins og kötturinn, sem fær að leika sér að leysideplinum.

Lesendur sögðu, að þeir gætu ekki varist því að leggjast í lestur á athugasemdunum og þetta mundi draga athygli þeirra frá orðum Sullivans sjálfs, auk þess að verða svo tímafrekt, að það mundi hreinlega fæla þá frá því að opna síðu Sullivans. Loks kæmust þeir í tæri við óskemmtilega lágkúru, sem oft rataði inn í slíkar athugasemdir.

Netárátta af því tagi, sem birtist í þessum svörum hefur verið rannsökuð af Irving Biederman, taugasérfræðingi við Suður-Kaliforníu-háskóla. Ég ætla ekki að endursegja það, sem fram kemur um niðurstöður þessara rannsókna, en þær benda til að snerting við upplýsingar valdi þörf fyrir að afla enn meiri upplýsinga af sama eða svipuðu tagi. Grein sinni lýkur Lee Gomes á þessum orðum:

„Sagt er, að maðurinn sé gáfaðri en köttur, og þegar við kynnumst vefnum betur og upplýsingaflóðinu þar, ætti okkur að verða betur ljóst, hvað kemur okkur að gagni og hvað ekki.“

Við ættum með öðrum orðum að haga okkur öðru vísi en kettir, sem halda að ljósdepill frá leysibendli geymi bráð þeirra.

Greinin í The Wall Street Journal sannaði mér, að það hefði verið rétt ákvörðun á sínum tíma að losa lesendur síðu minnar undan því álagi að geta gert athugasemdir á síðunni sjálfri við skoðanir mínar. Á hinn bóginn er af síðunni greiðfær leið til að senda mér fyrirspurn eða athugasemd. Kannski hefur orðið fyrirspurn í þeirri línu sett einhverjum stólinn fyrir dyrnar, sem hefur ætlað að senda mér athugasemd. Ég veit það ekki, hitt veit ég, að mörg skemmtileg bréf hef ég fengið eftir þessari boðleið.