2.3.2008

Brussel-fundir - OECD-skýrsla - heimskautamál í Foreign Affairs.

Evrópumál hafa nokkuð verið til umræðu síðustu daga í tilefni af fundum Geirs H. Haarde forsætisráðherra í Brussel, þar sem hann hitti forystumenn Evrópusambandsins (ESB) og áréttaði stjórnarstefnuna um að ESB-aðild væri ekki á dagskrá. Af ummælum sumra álitsgjafa hefði mátt ætla, að ráðherrann hefði sagt eitthvað allt annað, því að engu er líkara en þeir telji hann hafa verið að leggja drög að ESB-aðild Íslands.

Slíkar útleggingar eru ekkert nýnæmi í íslenskum Evrópuumræðum. Þær snúast alltof sjaldan um kjarna málsins. Óskhyggja ESB-sinna ræður þar of oft ferð frekar en raunsæi.

Víst er, að forystumenn ESB eru ekki andvígir aðild Íslands að sambandinu. Þeir eru hins vegar einarðir í andstöðu við, að Íslendingar taki einhliða upp evru. Yfirlýsingar ESB-forystunnar um evruna snúast um fleira en sjónarmið hér á landi. Hún ræður að sjálfsögðu ekki ákvörðunum íslenskra stjórnvalda um gjaldmiðil þjóðarinnar. Í fleiri löndum en hér er rætt um einhliða upptöku evru og andmælunum frá Brussel er beint til fleiri en okkar.

Um þessar mundir er ár liðið frá því að allra flokka Evrópunefnd undir formennsku minni skilaði skýrslu. Þar er að finna rökstuddar tillögur um virkari þátttöku okkar í samstarfi við ESB. Tillögurnar eru skýrar og framkvæmd þeirra mundi auka áhrif og ítök íslenskra stjórnvalda við mótun Evrópureglna og réttar.

Að mínu áliti er um innantómt gaspur stjórnmálamanna að ræða, ef þeir líta fram hjá þessum tillögum og gildi þess að framkvæma þær, í sömu andrá og þeir kvarta undan áhrifaleysi Íslands í Brussel. Ég mundi að minnsta kosti ekki treysta þeim, sem þannig tala, til að gæta íslenskra hagsmuna, ef Ísland færi í ESB. Aðildartalið er oft flótti frá því að takast á við verkefni líðandi stundar með þeim verkfærum, sem við höfum í hendi okkar.

Fimmtudaginn 28. febrúar sat ég ráðherrafund Schengen-ríkjanna og hitti síðan Franco Frattini, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB og ræddi við hann um aðild Íslands að málefnum, sem tengjast laga- og réttarsamstarfi innan ESB, án þess að falla beint undir Schengen-samkomulagið. Eftir fund okkar er ég sannfærður um að finna má viðundandi lausn á öllum þeim málum, sem við ræddum.

Reynsla mín af Schengen-þátttökunni og hin víðtæku kynni, sem ég hef haft af stöðu Íslands í samstarfinu við ESB á undanförnum árum, segja mér, að með íslenska hagsmuni í huga séu íslensk stjórnvöld í mjög sterkri stöðu í Brussel á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samkomulagsins.

Þeir, sem kjósa að skauta framhjá því, hver staða Íslands er og hve mörg tækifæri eru enn ónotuð af Íslands hálfu til hagsmunagæslu gagnvart ESB, og tala þess í stað óljósum orðum um mikinn hag okkar af ESB-aðild, eru einfaldlega á röngu róli.

Vandinn í samskiptum Íslands við ESB er ekki skortur á leiðum til áhrifa í Brussel. Vandinn er, að íslensk stjórnvöld nýta sér ekki nægilega vel og markvisst öll þessi tækifæri til áhrifa. Tillaga mín er, að lögð verði áhersla á úrlausn þessa raunhæfa verkefnis á grundvelli tillagna Evrópunefndarinnar í stað þess eyða tíma í innantómt tal um skort á Evrópuumræðu.

OECD-skýrsla.

Á heimleið frá Brussel las ég Berlingske Tidende og sá þar frétt um OECD-skýrslu um Ísland. Þar sagði, að Íslendingar væru skuldugasta þjóð í heimi.

Þess er getið fréttinni, að fjárfestingafélagið Baugur sé þekkt í Danmörku. Íslendingar eigi stórverslanirnar Magasin og Illum fyrir utan Sterling-flugfélagið. Á alþjóðlegum fjármálamörkuðum séu íslenskir stórbankar eins og Kaupþing umsvifameiri en smæð Íslands gefi til kynna.

Íslensk útþensla er sögð hafa byggst á lánum og Ísland skuldi nú mest allra vestrænna landa miðað við efnahagslega stærð. Nettóskuldir landsins, það er verðmæti íslenskra eigna erlendis að frádregnum eignum útlendinga á Íslandi svari til 122% af brúttóþjóðarframleiðslu.

Til samanburðar megi nefna, að margir hafi þungar áhyggjur af skuldastöðu Bandaríkjanna en þar sé þessi tala 20% og í Danmörku 2%. Á það er bent, að einkaaðilar séu þeir, sem skuldi á Íslandi, sem sýni, að ekki hafi verið aflað nægilegs sparifjár síðan bankarnir voru einkavæddir.

OECD telur, að auka verði opinbert eftirlit með fjármálakerfinu, að sögn Berlingske Tidende. Einnig verði stjórnmálamenn að forðast popúlisma og til marks um hann er nefnt að rýmkað hafi verið um reglur um opinber íbúðalán fyrir kosningar í maí 2007, en síðan hafi verið tekið í taumana að kosningum loknum. Þá er vísað til þess, að OECD telji happasælt, að ráðherrar virði sjálfstæði seðlabankans.

Ég hef setið í ríkisstjórnum, þar sem framsóknarmenn hafa talið sér helst til tekna að ýta undir töku opinberra íbúðalána með hagstæðum kjörum. Framsóknarmenn háðu meira að segja heila kosningabaráttu með slík gylliboð á vörunum. Skrýtið er að heyra þessa sömu menn hrópa hæst um það utan ríkisstjórnar, að forsætisráðherra þurfi að vakna til að átta sig á efnahagsvandanum. Líklega má helst gagnrýna efnahagsstjórn okkar sjálfstæðismanna hin síðari ár fyrir að hafa ekki haft hemil á íbúðalánagleði framsóknarmanna í stjórnarsamstarfi við þá.

Heimskautamál í Foreign Affairs.

Í nýjasta hefti bandaríska ritstins Foreign Affairs, einum áhrifamesta vettvangi í Bandaríkjunum til áhrifa á umræður um utanríkis- og öryggismál, birtist grein eftir Scott Borgerson, fyrrverandi foringja í bandarísku strandgæslunni, um loftlagsbreytingar og þróun mála á Norðurheimskauti og ber hún fyrirsögnina: Arctic Meltdown – The Economic and Security Implications of Global Warming.

Fyrir þá, sem fylgst hafa með framvindu mála á norðurslóðum, minni ís, gas- og olíuvinnslu og aukinni skipaumferð, er fátt nýtt í þessari grein. Á hinn bóginn er það til marks um aukinn áhuga Bandaríkjamanna  á þróun mála á þessum slóðum, að tímaritið skuli birta þessa grein.

Höfundur segir, að siglingar við Norðurheimskautið muni leiða til þess, að siglingagjöld verði lækkuð í Súes- og Panama-skurðunum, til að halda í viðskipti, auk þess sem Malakkasund við Singapore verði ekki eins mikilvæg siglingaleið og áður. Þess í stað verði til ný siglingaleið frá Dutch Harbor í Alaska og Íslands, sem tengi risahafnir (megaports) við Norður Atlantshaf annars vegar og Norður Kyrrahaf hins vegar.

2005 hafi 262 olíuskip verið til í heiminum, sem smíðuð hafi verið til siglinga í ís. Nú hafi 234 verið pöntuð til viðbótar.

Birting greinarinnar er enn ein staðfesting á því, að ritstjórn Foreign Affairs fylgist vel með framvindu geópólitískra mála. Í henni felst hvatning til bandarískra stjórnvalda til að bregðast við þessum breytingum af skynsemi og með hagsmuni þjóðar sinnar í huga.

Ég hef fengið tækifæri til að kynna svipuð sjónarmið í fyrirlestri í Bandaríkjunum og samtölum við bandaríska embættismenn og í þessu samhengi notað orðið skammsýni um þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að kalla allan liðsafla sinn heim úr varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Sé siglingaleið í nágrenni Íslands nefnd í sömu andrá og Malakkasund hringja bjöllur víðar en í Bandaríkjunum, enda hefur breskur fræðimaður, prófessor við London School of Economics, haldið því fram, að áhugi kínverskra stjórnvalda á nánum samskiptum við Ísland eigi rætur í framtíðarmati þeirra á gildi siglingaleiða í nágrenni Íslands.