25.2.2008

Vandi vinstri/grænna - forsetakosningar í Rússlandi.

Óli Björn Kárason segir á vefsíðu sinni 25. febrúar í tilefni af skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, sem birtist í Fréttablaðinu 24. og 25. febrúar:

„Vinstri grænir virðast komnir í pólitíska kreppu undir forystu Steingríms J. Sigfússonar. Flokknum hefur ekkert gengið í stjórnarandstöðu og traust kjósenda til formannsins hrapar. Hægt er að leiða rök að því að vandi vinstri grænna eigi aðeins eftir að aukast samfara því sem hægist á í efnahagslífinu...

Til að kóróna vandræðagang vinstri grænna leiðir könnun Fréttablaðsins í ljós að aðeins 9,1% kjósenda bera mest traust til Steingríms J. Sigfússonar - mun færri en segjast fylgja flokknum að máli. Fyrir ári sögðust 25,7% kjósenda treysta formanni vinstri grænna mest allra stjórnmálamanna. Þannig er Steingrímur J. að missa fótanna á hinu pólitíska svelli.....

Kjósendur gera sér hins vegar grein fyrir að vinstri grænir bjóða ekki upp á fýsilegan kost til úrlausnar þeim vandamálum sem steðja að. Einmitt þess vegna styrkja stjórnarflokkarnir stöðu sína og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn og Geir H. Haarde. Fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins er athyglisverð ekki síst í ljósi vandræðagangsins í borgarstjórn. Staða Geir H. Haarde er gríðarlega sterk og styrkist. Framsóknarflokkur og frjálslyndir eru hins vegar í þann veginn að þurrkast út miðað við könnun Fréttablaðsins.“

Ég tek undir með Óla Birni. Hann málar stöðu stjórnarandstöðunnar síst of dökkum litum. Hún nær sér ekki á strik. Satt að segja er erfitt að átta sig á því, hvert hún er að fara með stefnu sinni og málflutningi.

Vinstri/græn eru alltof rög við að axla ábyrgð eins og best hefur sést í borgarstjórn Reykjavíkur. Sé vandræðagangur innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna farinn að valda kjósendum leiðindum, sérstaklega kjósendum Sjálfstæðisflokksins, ætti vandamálastefna vinstri/grænna og glamurstefna Samfylkingarinnar ekki síður að þykja leiðinleg.

Er fyrir löngu orðið tímabært, að borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna taki skýra málefnalega forystu og leiði veikleika andstæðinga sinna í ljós. Hvort Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni tekst að leiða flokkinn til þessarar forystu í borgarstjórninni eftir allt, sem á undan er gengið, þarf að skýrast á skömmum tíma, eigi að verða einhver flokksfriður um niðurstöðu sunnudagsins innan borgarstjórnarflokksins, niðurstöðu, sem ekki er eins skýr og ætla hefði mátt, ef fyrir Vilhjálmi Þ. vakir að sækjast eftir embætti borgarstjóra, þegar Ólafur F. lætur af því.

Um tíma mátti ætla, að bægslagangur Svandísar Svavarsdóttur í borgarstjórn Reykjavíkur mundi draga úr stöðnunarblænum á vinstri/grænum, en þegar við blasir, að hún þorir ekki að axla ábyrgð á stjórn borgarinnar með sjálfstæðismönnum og hangir í pilsfaldi Samfylkingarinnar, hefur glansinn horfið af Reykjavíkurarmi vinstri/grænna.

Nú virðast vinstri/græn einna helst ætla að slá keilur með því að gagnrýna landsmálastefnu Samfylkingarinnar og þó einkum, ef ráðist verður í stórframkvæmdir í krafti orkunýtingar til að treysta stöðu þjóðarbúsins. Vinstri/græn sýnast telja sér farsælt að höggva skarð í samstöðu stjórnarflokkanna með því að vega að Samfylkingunni fyrir að ganga á bak stefnu sinnar, sem kynnt hefur verið undir slagorðinu: Fagra Ísland. Þetta er einmitt áróður í anda stöðnunar, sem hefur minni hljómgrunn en áður vegna framvindu efnahagsmála.

Vinstri/græn hafa ekki fótað sig í andstöðu við ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Þau hafa ekki fundið taktinn og málflutningurinn verður einfaldlegra neikvæðari eftir því fleiri ræður um sama efnið eru endurteknar. Æ betur kemur í ljós, þegar harðnar á dalnum, að það er skynsamleg nýting orku í landinu, vatnsorku og jarðhita, sem skapar efnahagslega kjölfestu hér eins og annars staðar. Engri skynsamri þjóð dettur í hug að slá hendi á móti því, að orka lands hennar sé nýtt, enda sé það gert í eins góðri sátt við náttúruna og kostur er.

Spurning er, hve óróinn á fjármálamörkuðum eða óvissan um lífríki hafsins þurfa að verða mikil, til að renni enn á ný upp fyrir öllum, sem vilja efla þjóðarbúskapinn, hve fráleitt er að hefta frumkvæði og kraft þeirra, sem vilja nýta orkuna. Í þessu efni tóku vinstri/græn einfaldlega rangan pól í hæðina og súpa seyðið af því samhliða hinu, að öllum er ljóst, að þetta er flokkur andstöðu og fortíðar en ekki sameiginlegs átaks til framtíðar.

Forsetakosningar í Rússlandi.

Öllum frásögnum erlendra fréttamanna af forsetakosningunum, sem verða í Rússlandi sunnudaginn 2. mars nk., ber saman um, að þær séu sviðsett valdataka strengjabrúðu Vladimirs Pútíns, fráfarandi forseta. Búist er við, að Pútín verði forsætisráðherra Rússlands eftir að hann hverfur af forsetastóli.

Pútín tilnefndi Dmitrí Medvedev sem eftirmann sinn og nú er sagt, að hann sé tekinn til við að líkja eftir töktum Pútíns í limaburði og ræðuflutningi. Mátti raunar sjá það í sjónvarpinu í kvöld, 25. febrúar, þegar Medvedev flutti ræðu í Belgrað, þar sem hann hét Serbum stuðning vegna óánægju þeirra með sjálfstæði Kósóvó. Hann bar sig mjög líkt að og Pútín gerir, þótt hann sé allur rýrari og minni en forsetinn fráfarandi.

Medvedev er fyrrverandi lagaprófessor og hann hefur í ræðum sínum lagt áherslu á að efla rússneska réttarkerfið. Sumum þykir þau orð hafa holan hljóm og er þá meðal annars vísað til þess, að undir Pútín hafi stjórnvöld notað lögin í eigin þágu í stað þess að líta á þau sem umgjörð til að tryggja lögmæti þess, sem gert er.

Fréttir herma, að Pútín hafi auðgast um allt að 40 milljarði dollara í forsetatíð sinni og hann eigi hlutabréf í orkufyrirtækjum auk íbúðar í París. Á þeim átta árum, sem hann hefur verið húsbóndi í Kreml, hafa 14 blaðamenn – næstum allir gagnrýnendur Kremlverja – verið myrtir, þótt enginn morðingjanna hafi verið leiddur fyrir rétt. Samskipti rússneskra og breskra stjórnvalda eru við frostmark. Breska lögreglan telur, að fyrrverandi KGB maður hafi myrt gagnrýnanda Pútíns í London.

Jackson Diehl, dálkahöfundur The Washington Post, segir frá því, að Lev Ponomarev, leiðtogi mannréttindasamtaka Rússlands, hafi verið í Washington á dögunum og kynnt ráðamönnum þar og blaðamönnum, hve mikla áherslu Medvedev leggi á lögmæti þess, sem stjórnvöld taki sér fyrir hendur. Telur Ponomarev mikilvægt, að sem fyrst eftir kjör hans verði látið á það reyna, hvort Medvedev ætli að standa við orð sín um mikilvægi laganna og stjórnsýslu innan marka þeirra.

Hvatti Ponomarev til þess, að Bandaríkjastjórn og ríkisstjórnir annarra landa brýndu fyrir Medvedev að láta hætta að beita lögunum sem tæki til pólitískrar kúgunar. Þá yrði fallið frá ákærum gegn frjálslyndum menntamönnum fyrir að leggja stund á óljósar njósnir, stjórnarandstæðingum yrði ekki skipað inn á geðveikrahæli eða í herinn. Skattalögreglu yrði ekki sigað á mannréttindahreyfingar eða önnur félagasamtök almennings.

Ponomarev segir, að komið hafi verið á fót „pyntingabúðum“: gúlagið sé að koma aftur til sögunnar með 50 fanganýlendum, sem séu einangraðar frá mannabyggð, og þar sem fangar búi við stöðugar ofsóknir og misneytingu. Hefur myndum verið smyglað úr búðunum þessu til sönnunar.

Föstudaginn í síðustu viku sætti Ponomarev sjálfur ákæru fyrir rógburð um Júrí Kalinin, hershöfðingja, yfirmann rússnesku fangabúðanna. Ponomarev var sviptur öllum ferðaskilríkjum og telja málsvarar hans, að verið sé að refsa honum fyrir að segja hug sinn í Bandaríkjunum.

Hér er aðeins vísað til eins blaðamanns og frásagnar hans af því, hvernig staðan er í Rússlandi við forsetaskiptin. Fréttamenn BBC hafa verið á ferð um Rússland og frásagnir þeirra eru sama marki brenndar. Margir bundu vonir við, að Rússland yrði „normalt“ Evrópuríki eftir hrun Sovétríkjanna. Ekkert bendir því miður til þess, að þeim hafi orðið að von sinni.