10.2.2008

OR/REI 10. 02. 08.

Í umræðum um lokaskýrslu stýrihóps borgarráðs um málefni REI og Orkuveitu Reykjavíkur (OR/REI málið) sannast enn, að erfitt er að átta sig á því fyrirfram í hvaða farveg fréttir falla. Hina síðustu daga hefur athyglin einkum beinst að þeim orðum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í Kastljósi að kvöldi fimmtudagsins 7. febrúar, þegar skýrslan var birt, að hann hefði leitað álits borgarlögmanns á umboði sínu til að samþykkja sameiningu REI og Geysis Green og fengið hjá honum grænt ljós um umboð sitt. Í skýrslu stýrihópsins kemur fram, að lögfræðingar draga þetta umboð í efa.

Eftir að Vilhjálmur Þ. lét þessi orð falla, kom í ljós, að hann átti ekki við Kristbjörgu Stephensen, sem var borgarlögmaður í lok september og byrjun október, þegar teknar voru ákvarðanir um OR/REI og Geysi Green Energy (GGE). Vilhjálmur Þ. var að vísa til fyrrverandi borgarlögmanns. Í frétt hljóðvarps ríkisins í hádeginu laugardaginn 9. febrúar segir:

„Hjörleifur Kvaran, sem nú er forstjóri Orkuveitunnar, gegndi starfi borgarlögmanns í 9 ár, en hætti störfum árið 2004. Er hann þessi fyrrverandi borgarlögmaður ?

Hjörleifur Kvaran: Vilhjálmur náttúrulega verður að svara því sjálfur. Við hvern hann á en ég er fyrrverandi borgarlögmaður og ég hef komið að þessu máli og ég hef rætt þessi mál við hann.

Hallgrímur Indriðason, fréttamaður: Og gafstu honum þau ráð að hann hefði þetta umboð til þess að samþykkja þessa sameiningu ?

Hjörleifur Kvaran: Það hefur oft komið fram að að að ég hef verið þeirrar skoðunar að hann hafi haft þetta umboð hann hafi haft bæði pólitískt umboð og umboð sem borgarstjóri, stöðuumboð, til að taka þessar ákvarðanir. Þannig að það er ekkert nýtt í málinu.

Hallgrímur: En sagðir þú honum það ?

Hjörleifur Kvaran: Ég held að að að á þessum tíma var Vilhjálmur bæði stjórnarmaður í Orkuveitunni og borgarstjóri og við ræddum þessi má ágætlega í þessu ferli. Að að að það má vel vera að þetta hafi komið fram í þeim samtölum, ég er alls ekki að draga það í efa.


En er Hjörleifur sem forstjóri Orkuveitunnar ekki vanhæfur til að gefa slíkt álit í ljósi stöðu hans í málinu.

Hjörleifur Kvaran: Þegar að þessi mál komu inná stjórnarfundinn og eigendafundinn þá átti ég enga hagsmuni í þessu máli. Enga.

Hallgrímur: Þannig að ef að þú hefðir haft einhverjar efasemdir um þetta umboð á þessum fundi.

Hjörleifur Kvaran: Þá hefði ég alveg örugglega komið því til skila. Alveg örugglega. Á fundinum og við þá sem að þurftu að taka þessar ákvarðanir. Ég hefði alveg örugglega komið því til skila ef að ég hefði efast um umboð manna. Það var þá hefði ég komið því til skila. Nú Vilhjálmur er nú lögfræðingur líka og fundarstjórinn var lögfræðingur líka þannig að það voru þrír lögfræðingar á fundinum og það var enginn sem að gerði neinar athugasemdir við að það væri einhver umboðsskortur hjá einhverjum. Það kom bara löngu seinna.

Með ummælum sínum í Kastljósi og áréttingu sinni á því, sem í þeim fólst, dró Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson athygli að sér og frá skýrslu stýrihópsins.

Hin raunverulega greinargerð þeirra, sem í hópnum sátu er aðeins 11 bls. að lengd og eru þær síður ekki þéttskrifaðar. Með skýrslunni fylgir síðan það, sem kallað er „tímaröð atburða og ákvarðana“ og lýsir atburðarás frá stjórnafundi í Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. janúar 2007 til 1. nóvember 2007, þegar stýrihópurinn skilaði áfangaskýrslu, hafnaði samruna REI og GGE í nýtt fyrirtæki undir nafninu REI og þjónustusamningi OR við REI.

Hvers vegna hefst tímaröðin 25. janúar 2007? Jú, vegna þess að þá samþykkti stjórn OR, að eignarhluti OR í Enex hf. yrði settur í sérstakt hlutafélag, eignahaldsfélag, sem OR ætti með Landsvirkjun, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Íslenskum orkurannsóknum. Þá var einnig samþykkt að fela forstjóra OR (sem þá var Guðmundur Þóroddsson) og framkvæmdastjóra lögfræðisviðs (sem þá var Hjörleifur Kvaran) að vinna tillögu um hvernig OR stæði að útrásarverkefnum í framtíðinni og hinn 7. mars 2007 samþykkti stjórn OR samhljóða að stofna Reykjavík Energy Invest (REI) um útrásarstarfsemi OR og var stofnfundur haldinn 11. júní 2007 og Guðmundur Þóroddsson ráðinn forstjóri en Hjörleifur B. Kvaran varð síðan forstjóri OR.

Skýrslu stýrihópsins fylgja tvær lögfræðilegar álitsgerðir eftir Andra Árnason hrl. og Láru V. Júlíusdóttur hrl. þá er þar birt fundargerð stjórnar- og eigendafundar OR 3. október 2007, tillögur stýrihópsins frá 1. nóv. 2007, erindisbréf stýrihópsins og spurningar umboðsmanns alþingis til borgarstjórnar vegna OR/REI málsins og svarbréf borgarlögmanns.

Stýrihópurinn starfaði frá 18. október til 7. febrúar undir formennsku Svandísar Svavarsdóttur. Þegar greinargerð hans er lesin, er fyrsta spurningin óhjákvæmilega sú, hvers vegna í ósköpunum það tók svona langan tíma að koma þessum blöðum saman. Frá því hefur verið greint, að innan hópsins hafi verið tekist á um einhver mál og niðurstaða hópsins sé málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða, auk þess sem menn hafi sameinast um, að Svandís ein talaði fyrir hönd hópsins um skýrsluna, en hún hefur haft stór orð um, hvílíkt tímamótaskjal sé hér á ferðinni og hefur helst mátt skilja hana á þann veg, að um ákveðin þáttaskil í stjórnmálastarfi sé að ræða með útgáfu skýrslunnar. Efni hennar ber það ekki með sér, þannig að Svandís hlýtur að vera að vísa til þess, sem gerðist á fundum stýrihópsins og hvernig hann komst að samkomulagi um plaggið. Í lokaorðum í greinargerð stýrihópsins segir meðal annars:

„Áréttað er að skýrslan sem hér er lögð fram er málamiðlun milli fulltrúa í stýrihópnum og væri með öðru sniði með orðum hvers og eins. Hópurinn fór bil beggja í orðalagi, áherslum og pólitískum niðurstöðum en var þó sammála um að leggja ríka áherslu á sameiginlega niðurstöðu vegna mikilvægis málsins. Þrátt fyrir þessa sátt er það sameiginlegur skilningur hópsins að mismunandi sjónarmið eigi fullan rétt á sér og fulltrúar ólíkra skoðanir (svo!) geti haft fyrirvara um einstaka þætti í skýrslunni.“

Þessir fyrirvarar um hinn endanlega texta stýrihópsins eiga aðeins við um greinargerð hans sjálfs, því að varla hefur verið deilt um tímaröðina, álitsgerðir annarra eða áður birt efni í hópunum. Um hvað var verið að semja á bakvið tjöldin? Engin svör hafa verið gefin um það.

Við lestur þess texta skýrslunnar, greinargerðarinnar, sem ritað er undir af stýrihópnum, er auðvelt að komast að því, að kjarni málsins felist í þessum orðum á bls. 10:

„Stýrihópurinn telur að umræðan um REI-málið sé að hluta til ákall um breyttar áherslur og vinnubrögð þar sem hagsmunir almennings eru hafðir að leiðarljósi við stjórnun og ákvarðanir hjá fyrirtækjum í opinberri eigu. Atburðir þeir sem eru efni þessarar skýrslu eiga að skila lærdómum inn í samfélagið, inn í pólitíkina og inn í stjórnsýsluna.“

Hér er ekki nýmæli á ferðinni. Umræður um OR og stjórnarhætti fyrirtækisins þau fjögur ár, sem ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur, snerust einmitt um þetta – að stjórnarformaður (Alfreð Þorsteinsson) og forstjóri (Guðmundur Þóroddsson) töldu sig geta farið sínu fram og væri spurt um mál OR í borgarráði eða borgarstjórn má segja, að spyrjendum hafi verið gefið langt nef – jafnvel í stjórn OR var okkur í minnihlutanum svarað með hálfgerðum skætingi, þegar óskað var eftir upplýsingum. Nægir þar að á minna á umræður um kostnað við nýjar höfuðstöðvar OR. Var jafnvel gengið svo langt að segja fyrirspurnir um það efni aðför að starfsmönnum OR.

Stýrihópurinn er einfaldlega að glíma við afleiðingar ákvarðana, sem teknar voru innan opinbers fyrirtækis, en með þeim hætti, að öll tengsl vantaði við umbjóðendur þeirra, sem þessar ákvarðanir tóku. „Í samrunaferli REI og GGE voru teknar stórar og afdrifaríkar ákvarðanir án nauðsynlegrar umræðu eða samþykkis lýðræðiskjörinna fulltrúa.“ segir stýrihópurinn og síðar „farsælla hefði verið að borgarstjóri hefði sótt umboð til borgarráðs“ og enn síðar „Það orkar verulega tvímælis að stjórnin [REI-stjórnin] hafi getað tekið mikilvægar og afdrifaríkar ákvarðanir, án þess að leita samþykkis stjórnar OR“ og þetta: „var hluthafasamkomulagið í REI við innkomu nýs hluthafa undirritað af starfandi forstjóra OR [Hjörleifi] fyrir hönd fyrirtækisins án þess að fyrir lægi samþykki stjórnar um umboð hans.“

Inn í þennan lokaða heim kemur síðan einkafyrirtæki, FL-group. Um það segir:

„Við vinnu stýrihópsins kom í ljós að FL-group, sem hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því hvernig þjónustusamningur OR og REI yrði, hafði bein áhrif á samningsgerðina eins og fram kemur í tölvupóstssamskiptum milli FL-group og OR. Þetta verður að teljast óeðlilegt í ljósi þess að samningurinn var á milli tveggja fyrirtækja í meirihlutaeigu borgarinnar og formleg staða FL-group gagnvart þeim fyrirtækjum engin. Þannig telur hópurinn að hagsmunum (svo!) OR hafi ekki verið gætt nægilega vel við samningsgerðina.“

Með þessum þjónustusamningi veitti OR hinu nýja REI, sem var að hluta í eigu FL-group, samkvæmt samrunasamningi REI og GGE,  20 ára einkarétt á þjónustu OR á vettvangi orkuvinnslu úr jarðvarma, sem veitt væri af hálfu sérfræðinga á sviði jarðvarma, kerfisfræðinga, rekstrarfræðinga, sérfræðinga í gerð viðskipta- og fjárhagsáætlana, sérfræðinga á sviði markaðsmála o. s. frv. sem nauðsynlegt væri til að auka viðskipti REI eða starfsemi félagsins eða þeirra fyrirtækja sem REI fjárfesti í utan Íslands. Samningurinn fól í sér rétt til að nýta öll hugverkaréttindi og tækni, sem þá var til, eða yrði til í framtíðinni, og voru í eigu OR. Ennfremur fengi REI leyfi til að nota vörumerkin og viðskiptaheitin Orkuveita Reykjavikur og Reykjavik Energy hjá öllum dótturfélögum REI á erlendri grundu og félögum sem REI ætti einhvern hlut í.

Vegna þáttar FL-group segir í leiðara Morgunblaðsins föstudaginn 8. febrúar, eftir að fjallað hefur verið um hina gagnrýndu stjórnarhætti innan OR:

Þessi umgengni ákveðinna borgarfulltrúa og embættismanna við lýðræðislega kjörið stjórnvald er stóralvarlegt mál. Hún vegur að grundvallarþáttum lýðræðisins. En annar þáttur málsins er jafn alvarlegur ef ekki alvarlegri. Í skýrslunni er fullyrt og vísað í tölvupóstssamskipti því til sönnunar, að FL Group, sem hafði verulegra hagsmuna að gæta, hafi haft áhrif á gerð þjónustusamnings á milli Orkuveitunnar og Reykjavík Energy Invest. Þetta er hneyksli.

Þetta er vísbending um að umsvifamiklir kaupsýslumenn hafi verið komnir inn á gafl hjá lýðræðislega kjörnu stjórnvaldi og haft þar áhrif, sem þeir alls ekki máttu hafa og mega alls ekki hafa.

Þessi afskipti eru einfaldlega óverjandi en þau vekja upp spurningar um það, hvort víðar geti verið pottur brotinn í þessum efnum og að áhrifamáttur peninganna sé orðinn meiri en hann á að vera.

Í morgunfréttum hljóðvarps ríkisins kl. 08.00 08. 02. 08 sagði:

„Ekkert er að athuga við aðkomu FL Group að samningaviðræðum REI og Orkuveitu Reykjavíkur eins og gefið er til kynna í skýrslu stýrihóps Svandísar Svavarsdóttur. Þetta segir Halldór Kristmannsson, upplýsingafulltrúi FL Group.

FL Group er stærsti hluthafinn í Geysi Green með 43% eignarhlut og 3 starfsmenn félagsins eiga sæti í 7 manna stjórn Geysis Green. Halldór Kristmannsson, upplýsingafulltrúi FL Group, segir að markmiðið með samruna Geysi Green og REI hafi verið að mynda félag sem yrði í forystu í jarðvarmavinnslu í heiminum. Hann segir að félagið telji ekkert athugavert við aðkomu FL Group eða Geysis að samningaviðræðum við REI og Orkuveitu Reykjavíkur eins og gefið sé til kynna í skýrslu stýrihóps Svandísar Svavarsdóttur. Ætlunin hafi verið að Orkuveita Reykjavíkur yrði stærsti hluthafinn með um 36% eignarhlut og hlutur FL Group átti að vera um 27%. Framlag FL Group til samrunans átti að vera eignarhlutur félagsins í Geysi til viðbótar við 6 milljarða króna í reiðufé sem félagið hugðist leggja til. Halldór bendir á að framlag Orkuveitunnar hafi verið í formi eignarhluts í REI en þar hafi umræddur þjónustusamningur gegnt lykilhlutverki í mati á þeim verðmætum. Því sé ljóst að samrunaviðræður, gerð þjónustusamnings og annarra skjala hafi verið nátengd og fléttast saman í viðræðum á milli REI og Geysis Green. Ljóst sé að Orkuveitan vildi fá umtalsverð verðmæti viðurkennd sem eignarhlut í sameinuðu félagi. Í ljósi þess sé ekkert annað en eðlilegt að málið hefði verið skoðað gaumgæfilega af samningsaðilum og FL Group geti því ekki talist utanaðkomandi aðili í málinu.“

Með vísan þessara orða og þess sem stýrihópurinn segir ætti að birta þann tölvupóst, sem nefndur er til sögunnar, svo að fleiri en þeir, sem í hópnum sátu, geti lagt mat á, hvort málum hafi verið þannig háttað, að eðlilegt hafi verið, að FL-group kæmi að innri málefnum OR og REI með þeim hætti, sem lýst er.

Í annál um OR/REI málið, sem ég birti hér á síðunni 4. nóvember 2007 eru birtar fréttir úr ljósvakamiðlum frá upphafi til loka REI/GGE en fyrirheitin voru ekki lítil eins og sagði í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 5. október 2007:

„Stjórnarmaður í Reykjavík Energy Invest telur verðmæti fyrirtækisins aukast það mikið á næstu árum að þriðjungshlutur Orkuveitunnar í því verði orðinn allt að 40 milljarðar króna eða jafnverðmætur og drjúgur hluti skulda Reykjavíkurborgar. Verðmæti 500 milljóna króna hlutar sem Bjarni Ármannsson, keypti fyrir um mánuði hefur tvöfaldast.

Orkuveita Reykjavíkur setti 6 milljarða króna í Reykjavík Energy Invest fyrir samrunann við Geysi Green Energy. Nú er sá hlutur metinn á 16 milljarða. Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarmaður í Reykjavík Energy Invest, segir að í samrunanum felist mikil viðurkenning á útrásarstarfi Orkuveitunnar. Hlutur veitunnar eigi eftir að verða enn verðmætari á næstu árum.

Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarmaður í Reykjavík Energy Invest: Það er orðið ljóst að verðmæti Orkuveitunnar í útrásarverkefnum hafa margfaldast á stuttum tíma. Það bendir til þess að við höfum verið að gera rétt. Það er stefnt á skráningu á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði um mitt ár 2009 og þá hygg ég að komi í ljós að sú fjárfesting sem að Orkuveitan hefur gert í þessum efnum fyrir hönd íbúanna á suðvesturhorninu hafi enn margfaldast að raungildi og nemi jafnvel 30, 40 milljörðum sem að fari langt með að dekka skuldir Reykjavíkurborgar.

Í tímaritinu Þjóðmálum 4. hefti 2007 er löng grein eftir mig undir fyrirsögninni: OR/REI-hneykslið og ófarir borgarstjórnar. Meginniðurstaða þeirrar úttektar er, að það hafi verið sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem hafi stöðvað framgang OR/REI-málsins og í raun snúist gegn laumuspilinu, sem var í kringum það allt og samstarfið við Fl-group.

Ég birti í grein minni tilvitnun í ­Morgunblaðs-grein eftir Hörð Bergmann, sem birtist 17. nóvember sl. en þar sagði m.a.: „Uppreisn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vitnaði um einlæga hneykslun og vilja til að bera siðferðilega ábyrgð gagnvart almenningi. Atburðarásin gefur okkur innsýn í veikleika opinberrar stjórnsýslu þegar glímt er við fjársterka fésýslumenn.“

Skýrsla stýrihópsins endurspeglar ekki hina stórpólitísku hlið OR/REI-málsins. Þar er ekki rakið, hvernig pólitískir málsvarar samstarfsins við FL-group hafa neyðst til að éta ofan í sig öll stóru orðin um gagnsemi þess samstarfs. Í raun stendur ekki steinn yfir steini í þeim málflutningi en um hann er þagað í skýrslu stýrihópsins, enda snýr hún að innri stjórnarháttum, án þess að farið sé yfir pólitíska hagsmuni eða markmið.

Í grein minni í Þjóðmálum vík ég að því, þegar þeir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, stóðu á palli með Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í New York, þar sem Clinton heiðraði þá fyrir að lofa 8 til 9 orkumilljörðum Reykvíkinga á næstu fimm árum til fjárfestinga í Djíbúti, einu fátækasta ríki Afríku. Ég segi: „Spyrja má: Með samþykki hverra var loforðið við Clinton gefið – borgarstjórnar eða borgarráðs Reykjavíkur? Um þetta eins og allt annað í þessu máli vaknar spurningin: Hverjir hafa í raun umboð til að ráðstafa orkumilljörðunum? Engin umgjörð breytir nauðsyn þess, að menn hafi heimildir til að ráðstafa eignum annarra.“

Í „tímaröð“ í skýrslu stýrihópsins segir: „Þann 28. september 2007 er greint opinberlega frá samkomulagi þar sem REI skuldbindur sig til að fjárfesta að lágmarki 10 milljónir Bandaríkjadala eða um 9 milljarða íslenskra króna á næstu fimm árum í jarðvarmavirkjunum í Austur-Afríku m.a. í Djibouti.“

Því miður kemur ekki fram í skýrslunni, hvernig staðið var að þessari ákvörðun um fjárfestingar í Djíbútí. REI og GGE höfðu ekki runnið saman í nýtt REI á þessum tíma, þannig að skuldbindinginn hefur að öllum líkindum verið gefin í nafni OR/REI.

Af skýrslu stýrihópsins má ráða, að innan hans hafi verið megn óánægja með það, hvernig staðið var að því hinn 30. október að svara bréfi umboðsmanns alþingis frá 9. október 2007, þar sem óskað er upplýsinga um stofnun REI, sölu hlutafjár og aðdraganda sameiningar REI og GGE. Í „tímaröð“ skýrslunnar segir: „Með bréfi dagsettu 30. október sendir borgarlögmaður „svar Reykjavíkurborgar“ við erindi umboðsmanns án þess að um (svo!) borgarráð hafi fjallað um það.“

Í greinargerð stýrihópsins segir: „Svör borgarlögmanns [til umboðsmanns] voru ekki kynnt borgarráði þrátt fyrir að spurningunum væri beint til borgarfulltrúa. Stýrihópurinn telur að þau vinnubrögð sýni að fara þurfi yfir verkferla víðar í borgarkerfinu en að því leyti sem varðar málefni REI og Orkuveitunnar sérstaklega.“

Þessi sneið er til Dags B. Eggertssonar, sem var orðinn borgarstjóri 30. október og tók einhliða ákvörðun um að senda texta borgarlögmanns til umboðsmanns alþingis. Þess er nú beðið, að umboðsmaður segi álit sitt, en hann tók það upp að eigin frumkvæði að krefja borgarstjórn um skýringar á því, hvernig staðið var að þeim umdeildu ákvörðunum, sem hér hefur enn verið lýst.

Allt, sem sagt hefur verið um nauðsyn þess, að innan borgarstjórnar takist mönnum að ráða við afleiðingar þessa máls, á við góð rök að styðjast.  Af mörgum vandleystum verkefnum, sem við borgarstjórn blasa, skiptir mestu, að þannig sé haldið á framhaldi OR/REI-málsins, að meðferðin verði ekki til að efla sundrungu meðal borgarfulltrúa heldur skipi þeir málefnum OR á farsæla braut út úr ógöngum ofríkis og leyndarhyggju.