27.1.2008

Ofsi vegna nýs meirihluta.

Stjórnmálatíðindi stormasamrar viku snerust um nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Mánudaginn 21. janúar klukkan 19.00 var efnt til blaðamannafundar að Kjarvalsstöðum, þar sem þeir Ólafur F. Magnússon, frjálslyndum, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sjálfstæðisflokki, greindu frá því, að fimmtudaginn 24. janúar yrði efnt til aukafundar í borgarstjórn Reykjavíkur og Ólafur F. kjörinn borgarstjóri nýs meirihluta.

Þegar borgarstjórn kom saman í hádegi fimmtudaginn 24. janúar, hafði fólki verið stefnt á pallana í fundarsalnum, og gerðu sumir í hópnum hróp að Ólafi F. Magnússyni og Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafði verið kjörin forseti borgarstjórnar, hélt hún þannig á málum, að fólkið hélt af pöllunum, án þess að beita þyrfti lögregluvaldi, en lögregla hafði verið kölluð að ráðhúsinu.

Í dagblöðunum laugardaginn 26. janúar eru birt viðtöl við Ólaf  F. Magnússon. Fyrirsögn Fréttablaðsins er: Vill vera dæmdur af verkum sínum en ekki veikindum. Undir forsíðumynd af Ólafi F. í 24 stundum stendur: „Þúsundir lenda í svipuðum erfiðleikum.“ Forystugrein Morgunblaðsins ber þessa fyrirsögn þennan dag:  Ósæmileg aðför að borgarstjóra. Þar er vikið að veikindum Ólafs F. Magnússonar. Í viðtali við Pétur Blöndal, blaðamann Morgunblaðsins, segir Ólafur F. „Ég þekki engin önnur dæmi um stjórnmálamann sem hefur nánast verið lagður í einelti vegna veikinda. Ég lenti í miklu mótlæti og veikindum á síðastliðnu ári og var frá vinnu um skeið. En hef nú um nokkurra mánaða tíma sinnt störfum á ný. Ég hef verið niðurdreginn og leitað mér hjálpar við því.“

Vegna þessara ummæla Ólafs F. Magnússonar er ástæða að velta fyrir sér eftirfarandi sex atriðum:

1.     Samfylkingarfólk og  vinstri/græn hafa löngum litið á sig og viljað láta líta á sig sem sérstaka talsmenn og verndara heilbrigðiskerfisins og hins miðlæga velferðarkerfis. Og engir hafa talið sig trúverðugri málsvara mannréttinda.

2.     Fólk úr þessum röðum stendur nú fyrir skipulagðri herferð á hendur nýjum borgarstjóra í Reykjavík með vísan til þess, að hann hafi átt við veikindi að stríða. Þeir, sem telja sig sérlega málsvara mannréttinda og samfélagslegrar velferðar hafa blásið til ófrægingar- og níðsherferðar gegn löglega kjörnum fulltrúa, af því að hann hefur átt við sjúkdóm að etja, sjúkdóm, sem á ári hverju leggst á mikinn fjölda Íslendinga. Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, tók sér þriggja mánaða frí frá störfum, þegar honum þótti sér ofvaxið að takast á við dagleg verkefni, en sneri síðan aftur til starfa, án þess að sæta einelti.

3.     Afstaðan gegn Ólafi F. Magnússyni lýsir ótrúlegum fordómum gagnvart þeim, sem átt hafa og eiga við geðræna sjúkdóma að etja. Hvaða boð eru samfylkingafólk og  vinstri/græn að senda þeim í samfélaginu, sem eiga við sams konar vanda að etja EÐA hafa einhverju sinni glímt við sambærilegan vanda?  Hver eru boðin til þeirra, sem haldnir eru kvíða yfir því, að sambærileg veikindi muni hrjá þá?

4.     Að óreyndu hefði mátt ætla, að samfylkingarfólki og vinstri/grænum  gæfist með kjöri nýja borgarstjórans prýðilegt og mikilvægt tilefni til að standa við orð sín og viðurkenna – ef ekki beinlínis fagna – endurkomu þess sem veiktist en náði með aðstoð góðra manna og velferðarkerfisins að rísa upp á ný og taka að sér þau trúnaðar- og ábyrgðarstörf, sem hann hafði verið kjörinn til að sinna.

5.     Dagur B. Eggertsson hefur sagt að Ólafur F. Magnússon  hafi verið „guðfaðir“ meirihlutans, sem frá fór 24. janúar. Hvaða upplýsingar hafði Dagur B. Eggertsson um Ólaf F. Magnússon þá?

6.     Hvar er Öryrkjabandalagið, þegar veikindi eru höfð til marks um að einstaklingur sé ekki fær um að sinna því starfi, sem sá hinn sami hefur tekið að sér?  Hefur Öryrkjabandalagið engar athugasemdir fram að færa við fordómana og eineltið?

Þegar sagt var frá mótælunum á ráðhúspöllunum varð til eitthvað, sem fjölmiðlar kölluðu „ungliðahreyfingu Margrétar Sverrisdóttur“. Hér er dæmi um, hvernig fjölmiðlar láta nota sig án þess að grundvallarspurninga sé spurt. Margrét varð að eiga    liðsmenn til að ögra Ólafi F. Magnússyni með hrópum og köllum. Þá urðu „ungir stuðningsmenn Margrétar Sverrisdóttur“  til. Engin hreyfing stendur að baki Margréti og hún á sér enga „unga stuðningsmenn“. Fráleitt er að vísað sé til Margrétar líkt og hún sé leiðtogi „samtaka“ eða „hreyfingar“. Hún er ekki pólitískt afl í höfuðborginni og því síður á landsvísu. Henni hefur ítrekað verið hafnað á vettvangi stjórnmálanna. 

Það er álíka fráleitt að tala um stjórnmálahreyfingu Margrétar Sverrisdóttur og bera framgönguna á ráðhúspöllunum saman við það, þegar þingmenn hrópa hver að öðrum í sal breska þingsins eða fólk efnir til mótmæla á götum úti Frakklandi. Þetta gerir Illugi Jökulsson þó í 24 stundum laugardaginn 26. janúar og segir, að ekki sé talað um aðför að lýðræði í Bretlandi eða Frakklandi vegna frammíkalla þingmanna eða mótmæla á götum úti.

Atvikin, sem Illugi nefnir eru einfaldlega allt annars eðlis en hróp og köll utanaðkomandi fólks í fundarsal kjörinna fulltrúa. Í þeim sal ríkja ákveðin fundarsköp, eftir að fundur hefur verið settur. Ég veit ekki um nein fundarsköp, sem gera ráð fyrir, að þeir, sem ekki eiga rétt til þátttöku í fundi, geti tekið fundinn í gislingu með ólátum. Illugi Jökulsson segir:

„Á Íslandi hefur valdasjúkum stjórnvöldum og þægum þjónum þeirra tekist að koma því inn hjá fólki að það sé hinn ógnarlegasti dónaskapur að virða ekki fundarsköp stjórnvalda. Það sé tilræði við lýðræðið en ekki sjálfsagður réttur borgaranna að mótmæla því sem borgararnir túlka sem gerræði stjórnvalda. Eins og átti sér stað í Ráðhúsinu á fimmtudaginn.“ [Leturbreyting Bj. Bj.]

Hin feitletruðu orð eiga ekki við neitt annað að styðjast en ímyndunarafl Illuga Jökulssonar. Það eru engin slík fundarsköp til. Í borgarstjórnarsalnum gilda fundarsköp, þegar borgarstjórn situr að störfum og ber öllum í salnum að hlíta þeim, jafnt borgarfulltrúum sem öðrum. Ópin og ókvæðisorðin af pöllunum voru brot á þessum fundarsköpum.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifaði um mótmælin á ráðhúspöllunum í 24 stundir föstudaginn 25. janúar og var allt annarrar skoðunar en Illugi. Kolbrún sagði meðal annars:

 „Þetta var ófögur sjón og vonandi á maður ekki eftir að verða oft vitni að öðru eins. Maður spyr sig hvort fulltrúum minnihlutans hafi þótt þessi ógeðfellda múgæsing í lagi. Ef þeim finnst þetta virkilega gott og blessað þá held ég að það sé varasamt að treysta þeim. Skynsamt fólk á að sjá að þetta var ekki í lagi....

Samfylkingarfólk mun hafa verið fjölmennt á pöllunum þennan dag. Nú vill svo til að ég er flokksbundin í Samfylkingunni. Ef það fólk sem þarna var á pöllum er dæmigert fyrir Samfylkinguna þá er ég örugglega ekki í réttum félagsskap.“

Páll Ásgeir Ásgeirsson er dálkahöfundur Morgunblaðsins á sunnudögum. Honum er síður en svo misboðið vegna þess, sem gerðist á ráðhúspöllunum. Hann segir sunnudaginn 27. janúar:

„Að kalla þessa úthringiaðgerð dónaskap og átroðning á lýðræðið er tepruskapur og hræsni? Mér finnst við eigum að vera þakklát fyrir að loksins stóð þessi ofdekraða yfirdráttarkynslóð upp úr sófanum og mætti með sæmilega fulla meðvitund á pallana og lét í sér heyra. Við eigum að gleðjast yfir ósvífni og dónaskap ungs fólks...“

Ástæðulaust er að gefa mikið fyrir slíka málsvörn fyrir ofríki í stað umræðna. Kona meðal þeirra, sem voru á pöllunum en gekk ekki fram af dónaskap var kölluð „fasisti“ af þeim, sem Páll Ásgeir segir, að taka beri með fögnuði.

Hin furðulega málsvörn fyrir ólætin í ráðhúsinu er aðeins sambærileg við orðfærið um veikindi Ólafs F. Magnússonar og nefnt er hér að framan.