19.1.2008

Nýju föt Björns Inga.

Skömmu fyrir áramót ræddi ég um Framsóknarflokkinn og stöðu hans og sagði meðal annars: „Hið dapurlega fyrir Framsóknarflokkinn er, að smæð hans veldur því, að flestum er í raun sama um átökin innan hans, flokkurinn sé í raun ekki til skiptanna. Sífellt fleiri spyrja sig að því, hvert sé í raun pólitískt erindi Framsóknarflokksins.“

Kannski er Framsóknarflokkurinn til skiptanna? Um þetta spyr ég vegna hinnar hatrömmu deilu innan flokksins, eftir að Guðjón Ólafur Jónsson, forystumaður flokksins í Reykjavík, sendi trúnaðarbréf dags. 15. janúar 2008 til 2000 flokkssystkina sinna og rakti flokksraunir á árinu 2007.

Guðjón Ólafur segir, árið 2007 hafa orðið framsóknarmönnum í Reykjavík „afskaplega erfitt“. Missir allra þriggja þingmanna flokksins í Reykjavík hafi verið „verulegt áfall“ og flokkurinn „hrökklaðist“ úr ríkisstjórn. Staða flokksins sé með „erfiðasta móti“. Hann segir „REI-klúðrið“ hafa leitt til nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur með aðild framsóknarmanna „en staða flokksins er öll mun þrengri innan borgarstjórnar en áður var“ að mati Guðjóns Ólafs, sem síðan segir:

„Versnandi staða flokksins og misklíð undanfarinna ára í okkar röðum hefur leitt til minni áhuga flokksmanna. Undanfarna mánuði hef ég í vaxandi mæli fundið fyrir uppgjöf fólks. Fleiri og fleiri hafa gefist upp, hætt að starfa og sumir jafnvel sagt sig úr flokknum, þ. á m. fyrrverandi borgarfulltrúi [Anna Kristinsdóttir] og stjórnarmenn í félögum okkar. Enn grassera gróusögur, nú síðast um að forystumenn okkar í borgarstjórn hafi fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 keypt sér föt fyrir hundruðir þúsunda á kostnað flokksins. Slíkar sögur eru leiðigjarnar og mikilvægt að forystumenn okkar leiðrétti þær sem fyrst með afgerandi hætti.“

Í tilefni af þessu bréfi segir Anna Kristinsdóttir á vefsíðu sinni:

„Í mörg herrans ár styrkti ég Framsóknarflokkinn mánaðarlega með framlagi mínu. Þessi framlög áttu að styrkja flokkinn í því að koma á framfæri stefnumálum sínum, ekki síst í kosningum.

Aldrei datt mér það í hug, að eitthvað að þeim peningum sem safnað var með þessum hætti meðal flokksmanna og velunnara flokksins færu í neitt annað en koma stefnumálum flokksins á framfæri.

Ef þetta er rétt hjá Guðjóni Ólafi að framlög þessi ásamt öðrum framlögum hafi m.a. farið í það að kaupa föt á einstaka frambjóðendur, er flokkurinn komin enn lengra frá uppruna sínum en ég hélt.

Aldrei hef ég áður heyrt af slíku og hvað þá síður að slíkt hafi verið gert í þeim fjölmörgu kosningum sem ég tók þátt í.

Frambjóðendur sækjast sjálfir eftir því að skipa sæti á listum flokka. Leggja jafnvel út í kostnaðarsöm prófkjör til þess að ná kjöri.

Ætli það sé til of mikils ætlað að frambjóðendur borgi fötin utan á sig sjálfir? Eða er þetta nýi takturinn í flokknum?“

Í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins 18. janúar sagði:

„Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna í Reykjavík, vildi ekki koma í viðtal vegna málsins [bréfs Guðjóns Ólafs] í dag. Hann kvaðst ekki vilja tjá sig um fjármál flokksins, þau hvíldu ekki á hans herðum. Í tölvupósti kvaðst hann afar undrandi, hryggur og leiður yfir efni bréfsins og hlyti að velta fyrir sér hvað byggi að baki. Engar aðrar reglur giltu um forystumenn Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2006 en aðrar kosningar innan flokksins. Það vissi Guðjón Ólafur manna best sjálfur. Ásakanir og dylgjur um annað væru því ekki svaraverðar. Björn Ingi kvaðst aldrei hafa kveinkað sér undan kröppum dansi við pólitíska andstæðinga. Sárara væri þó að þurfa að verjast árásum samherja og vina. Með slíka vini þarf Framsóknarflokkurinn ekki á óvinum að halda, ritar Björn Ingi að lokum. Guðjón Ólafur kveðst hins vegar aldrei hafa vitað til þess að flokkurinn fjárfesti í fatnaði á frambjóðendur sína. Þeir hefðu í mesta lagi fengið lánuð föt fyrir myndatökur í kosningabaráttu.“

Pétur Gunnarsson, ritstjóri eyjan.is og þrautþjálfaður spunameistari Framsóknarflokksins, bregst illa við bréfi Guðjóns Ólafs og segir í upphafi pistils um málið: „Eitt af því sem virðist vera hægt að stóla á er að þar sem Guðjón Ólafur Jónsson fer um í pólitík tekur hann með sér breiða spjótið. Og beitir því jafnan einu verkfæra.“

Pistlinum lýkur Pétur með þessum orðum:

„Nú syngur Guðjón Ólafur með atgeirnum lag þar sem viðlagið er um óumdeilda og farsæla sigurgöngu framsóknar í Reykjavík á þeim tímum sem hann var formaður kjördæmissambandsins sunnan Miklubrautar.

Mannkynssagan geymir áreiðanlega mörg dæmi um að spuni af því tagi hafi orðið að viðteknum sannindum. En ég held að þar hafi sigurvegararnir látið skrifa bækurnar.“

Á ruv.is  19. janúar segir: „Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir ekkert hæft í ásökunum Guðjóns Ólafs Jónssonar, fyrrverandi þingmanns, um að forystumenn flokksins í borgarstjórn hafi keypt sér föt fyrir hundruð þúsunda króna á kostnað flokksins.“

Björn Ingi Hrafnsson sagðist í sjónvarpsfréttum 19. janúar „ætla að íhuga“ stöðu sína og hann „treysti“ sér „varla“ til að vinna fyrir flokkinn meðan ástandið innan hans væri á þann veg, sem fram kæmi í bréfi Guðjóns Ólafs, en Björn Ingi sagðist ekki „hafa geð“ í sér til að ræða málið við Guðjón Ólaf. Fréttastofan sagði, að Björn Ingi „íhugaði að hætta störfum“ fyrir Framsóknarflokkinn.

Eitt er að upplýsa framsóknarmenn um, hvort fjárframlög þeirra til flokksins, hafi runnið til þess að kosta fatnað frambjóðenda. Hitt er að velta fyrir sér pólitískri niðurstöðu Guðjóns Ólafs, að með því að standa að „REI-klúðrinu“ hafi Björn Ingi þrengt stöðu framsóknarmanna í borgarstjórn.

Hingað til hefur framsóknarspuninn vegna vistaskipta Björns Inga verið á þann veg, að framsóknarmenn hafi unnið stórsigur með því að svíkja sjálfstæðismenn og náð vopnum sínum. Nýleg skoðanakönnun sýnir, að vísu, að þeir fengju ekki borgarfulltrúa í Reykjavík, yrði kosið nú – frekar en Reykvíkingar kusu engan framsóknarmann á þing 10. maí 2007.

Nýju föt framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur eru hin sömu og nýju föt keisarans í sögunni frægu eftir H. C. Andersen. Spunameistarar Björns Inga náðu sama árangri og spunameistarar keisarans – og Guðjón Ólafur tekur að sér hlutverk barnsins!