13.1.2008

Miðborgarvandræði.

Fyrir þá, sem hafa fylgst með umræðum um skipulag við Laugaveg um nokkurt árabil, er í raun stórundarlegt að verða vitni að því uppnámi, sem verður nú, þegar hefjast á handa við framkvæmdir neðst á honum.

Kaupangur keypti húsin Laugaveg 4 til 6 í júní árið 2006. Þá hafði lengi staðið til að reisa ný hús á lóðunum og gert ráð fyrir því á deiliskipulagi frá því í september árið 2002. Jóhannes Sigurðsson, annar eigandi Kaupangs, segir í viðtali við Pétur Blöndal í Morgunblaðinu 13. janúar 2007, að markmiðið með kaupunum hafi verið að nýta lóðirnar undir glæsilegar verslanir og hótel. Þrír meirihlutar í borgarstjórn hafi komið að ákvörðunum um nýtingu lóðanna frá kaupum Kaupangs. Í tíð núverandi meirihluta hafi Kaupangur fengið öll tilskilin leyfi til að hefja framkvæmdir. Byggingarleyfi frá byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, framkvæmdaleyfi til að hefja niðurrif húsanna frá heilbrigðisstofu og að teikningar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa.

Segir Jóhannes, að þeir hafi líklega lagt fram meira en 30 tillögur að útliti húsanna. Jóhannes Kjarval og Nikulás Úlfar Másson, starfsmenn borgarskipulags, hafi fylgst með málinu frá fyrsta degi. Nikulás Úlfar tók við stöðu forstöðumanns húsafriðunarnefndar í byrjun nóvember. Nefndin hefur nú lagt til að húsin verði friðuð. Ástæðan fyrir því að nefndin tók ekki ákvörðun fyrr var m.a. sögð sú, að nefndinni hefðu ekki borist gögn frá borginni um útlit nýrra húsa á lóðunum. Eftir að yfir þrjátíu tillögur höfðu verið lagðar fyrir skipulagsráð Reykjavíkurborgar lagði formaður þess til að Reykjavíkurborg stæði straum af því að tvær arkitektastofur ynnu einnig tillögur að útliti húsanna.

Jóhannes Sigursson segir: „Þannig að endanlegt útlit húsnæðisins er ekki það sem við óskuðum eftir í byrjun að fá að byggja heldur felur það í sér málamiðlun á milli Borgarskipulags, Skipulagsráðs og borgarfulltrúa. ?..Niðurrif húsanna átti að hefjast föstudaginn 4. janúar, en kvöldið áður hringdi Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Hann óskaði eftir fundi til að ræða hvort við værum tilbúnir að leyfa flutning húsanna í burtu á kostnað borgarinnar. Á fundinum var óskað eftir tíu til fjórtán daga fresti. Þar ákváðum við að gefa borginni húsin og að borgin fengi fjórtán daga til þess að fjarlægja þau.“

Samningur um þetta var gerður af Birgi H. Sigurðssyni, skipulagsstjóra, Magnúsi Sædal, byggingarfulltrúa, Þorsteini Bergssyni, forstöðumanni minjaverndar og Jóhannesi og Bjarka Júlíussyni, meðeiganda Jóhannesar, fyrir hönd Kaupangs. Samningurinn rennur út 17. janúar. Í Morgunblaðinu segir: „Jóhannes á erfitt með að skilja kúvendingu Nikulásar Úlfars eftir að hann tók við embætti forstöðumanns húsafriðunarnefndar. „Þá lýsir hann því yfir að hann sé ósammála þessari uppbyggingu,“ segir Jóhannes. „Við höfðum fundað með honum í heilt ár sem fulltrúa Borgarskipulags, frá því við byrjuðum á deiliskipulaginu í júní 2006 þar til það var samþykkt í ágúst 2007. Og getum ómögulega skilið þessa kúvendingu.““

Kaupangur kemur að þessu máli árið 2006. Ég ætla að hverfa aftur til ársins 2002, en þá bauð ég mig fram til borgarstjórnar og tók þátt í umræðum um framtíð miðborgarinnar og þar kom Laugavegurinn meðal annars við sögu.

Hinn 30. janúar 2002 birtist forsíðufrétt í Viðskiptablaðinu um að Bolli Kristinsson, kaupmaður, kenndur við verslunina Sautján, hefði sagt sig úr miðborgarstjórn Reykjavíkurborgar og hefði í huga að selja eignir sínar við Laugaveginn, þar sem ekki væru forsendur fyrir verslunarrekstri þar vegna afstöðu borgaryfirvalda í skipulags- og friðunarmálum. Bolli hafði sýnt því áhuga að taka að sér vinnu við að skipuleggja Laugaveginn sem verslunargötu með hugmyndum um frekari uppbyggingu og breytingar.

Afsögn sína skýrði Bolli með því að vísa til þess, hve erfitt væri að komast að raun um afstöðu R-listans undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra til uppbyggingar miðborgarinnar og þróunar við Laugaveginn. Þau Bolli og Ingibjörg Sólrún hittust við svo búið og komust að niðurstöðu, sem varð til þess, að Bolli hélt áfram að vinna að því áhugamáli sínu að skjóta traustari stoðum undir verslunarrekstur við Laugaveginn.

Til að lýsa því, sem síðan gerðist fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí 2002, vitna ég hér í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins frá 11. ágúst 2002, en þar segir:

„Í apríl síðastliðnum [2002] skilaði starfshópur um endurmat á deiliskipulagi við Bankastræti og Laugaveg tillögum sínum um framtíðarskipulag þessarar helstu verslunaræðar miðborgarinnar, en tillögurnar eru veigamikill áfangi í endurmati á hlutverki og nýtingu svæðisins. Í hópnum áttu sæti Árni Þór Sigurðsson, formaður skipulags- og byggingarnefndar, Bolli Kristinsson kaupmaður, sem töluvert hefur látið til sín taka í umræðu um miðborgina, Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri miðborgar, Jóhannes S. Kjarval, skipulags- og byggingarsviði, og Pétur H. Ármannsson arkitekt, sem starfar við byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur. Í endurmati hópsins á deiliskipulaginu er farið í saumana á ásýnd og yfirbragði Laugavegar sem verslunargötu „þar sem sjónarmið uppbyggingar og varðveislu haldast í hendur“, eins og segir í skýrslunni.

Höfundar hennar leggja áherslu á mikilvægi þess að gera „Laugavegssvæðið að aðlaðandi kosti til fjárfestingar í verslunar-, atvinnu- og íbúðarhúsnæði með því að eyða óvissu um skipulag og skapa svigrúm í skipulagi til þróunar og uppbyggingar“. Þá er það sömuleiðis mat hópsins að „unnt sé að skapa verulegt svigrúm til nýrrar uppbyggingar við Laugaveg án þess að fórna byggingarsögulegum sérkennum götunnar og þeim lykilbyggingum fyrri tíðar sem mest gildi hafa fyrir ásýnd hennar“. Jafnframt leggur hópurinn áherslu á það meginsjónarmið að hæð bygginga við sunnanverðan Laugaveg taki mið af því að hægt sé að njóta sólar á götunni eftir föngum, en við norðurhluta Laugavegar er gert ráð fyrir hærri og samfelldari byggingum sem væntanlega munu þá veita skjól fyrir veðri og vindum. Það er því ljóst að rótgróin sérkenni byggingarsögu borgarinnar og landfræðileg lega hennar hafa verið höfð að leiðarljósi við vinnu starfshópsins og er það lofsvert.

Eins og fram kemur í fylgiskjali með niðurstöðum starfshópsins, „Stefnumörkun um húsvernd – þemahefti“, telur vinnuhópurinn að í einhverjum tilvikum kunni að vera nauðsynlegt að víkja frá settum verndunartillögum á Laugavegssvæðinu til þess að „skapa svigrúm fyrir nýja uppbyggingu er miðaði að því að treysta Laugaveginn í sessi sem aðalverslunargötu borgarinnar“. Þannig er meiri áhersla lögð á varðveislu eldri húsa sunnan götunnar en norðan hennar, þar eru fleiri varðveisluverð hús auk þess sem auðveldara er að skapa nauðsynlegt bakland fyrir öfluga verslunargötu Hverfisgötumegin en Grettisgötumegin. Gert er ráð fyrir varðveislu gamalla hornhúsa sem kennileita upp með götunni, sérstaklega þar sem þau mynda tengingu við hliðargötur og heilsteypta byggð eldri húsa. Höfundur þemaheftisins, Pétur H. Ármannsson arkitekt, leggur jafnframt áherslu á að það sé mat hans að sérstaða Laugavegarins liggi „öðru fremur í þróun hans sem mikilvægrar verslunargötu á 20. öld“, því margar aðrar götur í gamla bænum státi af heilsteyptari götumyndum. Hann nefnir sérstaklega Þingholtsstræti, Miðstræti og Vesturgötu, en þangað telur hann að mætti flytja gömul hús til að fylla upp í eyður og varðveita þá lágreistu götumynd timburhúsa frá 19. öld sem þar er enn til staðar.

Þau hús sem mest hafa mótað yfirbragð Laugavegarins eru stærri timbur- og steinhús frá fyrri hluta 20. aldar, hönnuð sem hluti af samfelldri byggð. Telur Pétur að þau eigi að gefa „fordæmi að mælikvarða, stærðarhlutföllum og mögulega útlitseinkennum nýrrar byggðar við götuna, einkum sunnan hennar“, enda megi þannig koma í veg fyrir að „andi“ hennar glatist. Hann tekur fram að grundvallarforsenda við mat á því hvort eldra hús eigi að víkja vegna uppbyggingaráforma sé sú að „það sem kemur í staðinn bæti umhverfið en skaði það ekki“. Þessi varnagli Péturs er mjög mikilvægur enda alltof mörg dæmi um seinni tíma byggingar í miðborg Reykjavíkur sem hvorki bæta umhverfi sitt né standa undir fagurfræðilegum kröfum ein og sér. Slík hús stinga ávallt í stúf og draga mikið úr gildi heildarmyndarinnar þegar til lengri tíma er litið. Því er full ástæða til að taka undir þau orð Péturs að athugandi sé „hvort íbúar og verslunareigendur við götuna ættu að hafa umsagnarrétt um útlit nýrra húsa, líkt og tíðkast í grónum hverfum víða erlendis [...] þar sem litið er á heildaryfirbragð umhverfis sem sameiginlegt hagsmunamál allra“. Einnig mætti hugsa sér að skipa nefnd fagmanna sem væru umsagnaraðilar um teikningar að nýbyggingum á þessu viðkvæma svæði, enda algjört skilyrði að uppbygging mótist af þeirri byggingarsögulegu og fagurfræðilegu yfirsýn er dugar til að tryggja að ný hús falli vel að því sem fyrir er.

Ljóst er að seint verða allir á eitt sáttir um uppbyggingu við Laugaveg, en þó virðist sem starfshópurinn um endurmat á deiliskipulaginu þar hafi ratað nokkuð vandfarinn meðalveg. Út frá ströngustu sjónarmiðum um varðveislu má vissulega gagnrýna ákvarðanir varðandi einstök hús sem nefndin telur í lagi að víki, en ekki má þó gleyma að möguleikinn á að flytja þau hús á aðra staði í miðborginni þar sem þau samræmast götumyndinni betur og þjóna sínu upprunalega hlutverki sem íbúðarhús er ætíð fyrir hendi. Þær áherslur sem koma fram í niðurstöðum nefndarinnar eru skynsamlegar og nútímalegar að því marki sem þær miðast við að halda í heiðri sérkenni reykvískrar byggðar og þróa hana áfram án þess að stæla hugsunarlaust stórborgir er risið hafa á öðrum forsendum en okkar. Það er því afar brýnt að þessi uppbygging hefjist sem fyrst.“

Þetta var sem sagt skrifað í ágúst 2002. Hvað hefur gerst síðan? Jú, skömmu eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002 keypti Reykjavíkurborg húseignir á svonefndum Stjörnubíósreit, andspænis versluninni Sautján, við Laugaveginn og þar hefur nú verið reist nýtt hús með stórum bílakjallara.

Næsta vers eru áformin um að reisa hús á lóðunum 4 til 6 við Laugaveg og nú eru þær framkvæmdir í uppnámi. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki burði til að ljúka málinu og húsafriðunarnefnd hefur skotið því frá henni til menntamálaráðherra. Ráðherrann vill réttilega, að borgaryfirvöld axli ábyrgð á málinu og eru lögfræðileg álitaefni til skoðunar í því sambandi.

Hinn 29, nóvember 2007 var skýrt frá því að Samson Properties fengi 11 þúsund fermetra lóð í Vatnsmýri í skiptum náist samningar um uppbyggingu Listaháskóla Íslands (LHÍ) á svokölluðum Frakkastígsreit í miðborg Reykjavíkur. Samþykkti borgarráð þennan sama dag makaskiptasamning milli borgarinnar og Samson á umræddum Frakkastígsreit og Lindargötureit. Þar áætlar borgin að byggja fleiri stúdentaíbúðir, en borgin fær lóðirnar Lindagötu 44 og Vatnsstíg 10,10A og 12. Samson fær í staðinn lóðarréttindi og fasteignir á Frakkastígsreitnum, þ.e. Hverfisgötu 60, 60A, 43B og eina íbúð í 58A. Einnig var samþykkt í borgarráði að ganga til samninga við Samson Properties um kaup á eignum borgarinnar á svokölluðum Landsbanka-Barónsreit, er þar um að ræða Skúlagötu 26, 28 og 30, lóðina að Vitastíg 5 sem og Hverfisgötu 85, 87, 89 og 91.

Þegar fylgst er með stjórnsýsluvandræðum Reykjavíkurborgar vegna tveggja húsa við Laugaveginn, hljóta að vakna spurningar um, hvort stjórnsýsla borgarinnar geti staðið við það, sem segir í samningum við Samson og snertir framtíðaraðsetur Listaháskóla Íslands.

Spyrja má enn og aftur: Er það ekki einmitt vandræðagangurinn við miðborgarstjórn af hálfu Reykjavíkurborgar, sem stendur miðborginni helst fyrir þrifum?

Með vandræðaganginn vegna húsanna við Laugaveg í huga, gengur kraftaverki næst, að tekist hafi að hrinda áformum um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss og öllu því, sem þeim stórbyggingum fylgir, í framkvæmd. Velunnarar Listháskóla Íslands hljóta að vona, að áform hans um aðsetur í miðborginni nái fram að ganga án stórvandræða og tafa.