5.1.2008

Norrænt öryggissamstarf - einkaþotan, snekkjan og visir.is

Í dagbókarfærslu hér á síðunni hinn 10. nóvember 2007 segi ég meðal annars:

„John Vinocur frá International Herald Tribune flutti lokaræðuna á ráðstefnunni í Stokkhólmi í gær og ræddi um Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og hvers vegna hann hefði ákveðið að taka upp nýja stefnu gagnvart Bandaríkjunum og NATO og hve djúpstæð áhrif þessi breyting væri fyrir Frakka. Í samtölum okkar þótti honum, að ákvörðun Frakka um að senda orrustuþotur til Íslands væri enn til marks um þessar nýju áherslur í utanríkisstefnu Frakka og raunar stórmerkileg í mörgu tilliti.

Vinocur notaði stefnubreytingu Frakka sem dæmisögu fyrir Svía, væru þeir að hugsa um aðild að NATO. Það þyrfti öfluga forystu og skýran vilja til að ræða mál á nýjum grunni, ef ganga ætti til þess verks - raunar gjörbreytt viðhorf heima fyrir, hvað sem liði áhrifum stefnubreytingarinnar út á við.“

Hér vísa ég til ársfundar Swedish Atlantic Association, sem er sambærilegt félag og Samtök um vestræna samvinnu hér á landi og hafa að markmiði stuðning við NATO og innan sænsku samtakanna eru málsvarar þess, að Svíþjóð gangi í NATO.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, er ekki stuðningsmaður NATO-aðildar. Hann er hins vegar eindreginn málsvari þess, að Finnland, Noregur og Svíþjóð efli samstarf sitt á sviði öryggismála. Hefur fjallað um þetta efni á vefsíðu sinni nú í upphafi nýs árs.

Bildt er þeirrar skoðunar, að við núverandi aðstæður skipti mestu að styrkja „mjuka säkerhetspolitiken – som ju inte handlar om det yttarsta territorialförsvar som är den hårda säkerhetspolitikens kärna.“ Þetta sé sérstaklega brýnt fyrir Norðurlönd vegna „resurs- och miljöfrågarna“ á Norðurslóðum.

Þetta kemur heim og saman við þær skoðanir, sem ég hef hreyft í erindum mínum undanfarna mánuði – að ný viðfangsefni blasi við í öryggismálum á Norðurslóðum og við þeim þurfi að bregðast með öðrum úrræðum en hernaðarlegum – það er með borgaralegum viðbúnaði.

Bildt ritaði um þetta á vefsíðu sinni 3. janúar og sagði hinn 4. janúar frá því, að vel hefði verið brugðist við hugmyndum sínum af finnskum ráðamönnum. Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finna, ritaði á vefsíðu sína hinn 4, janúar, að hann væri sömu skoðunar og Bildt, að ekki ætti að líta til NATO-aðildar heldur huga að öryggisgæslu með samstarfi við Svía og í því sambandi að stefna að sameiginlegum „krisövningar“ eða almannavarnaæfingu haustið 2008.

Í dagbókarfærslu 30. október 2007 sagði ég:

„Las í Weekendavisen hugleiðingu eftir Thomas Borring Olesen, prófessor við Árósarháskóla, um það, hvort Danir væru að verða utanveltu í norrænu samstarfi. Þannig hefði danski utanríkisráðherrann ekki verið boðinn til Bodö á dögunum af norskum starfsbróður sínum, Jonas Gahr Störe, sem bauð Svíum og Finnum til að ræða um utanríkis- og öryggismál.

Hið sama væri að segja um ræðu, sem Störe hélt í Militær Samfund í Osló 10. október undir fyrirsögninni: Breytingar á Norðurslóðum - hvernig geta Noregur, Finnland og Svíþjóð eflt samstarf sitt? Utanríkisráðherrar Noregs flyttu ekki ræður á þeim vettvangi nema til að boða eitthvað merkilegt.

Í ræðu sinni vék norski utanríkisráðherrann meira að samstarfi við Íslendinga en Dani og minnti á að Norðmenn og Danir hefðu gert samninga við Íslendinga eftir brottför bandaríska varnarliðsins. Samstarfið við Ísland tæki mið af því, að halda yrði úti eftirliti með aukinni skipaumferð á Norðurslóðum.

Að mínu áliti er engin spurning um áhuga Dana á því að tryggja öryggi á siglingaleiðunum yfir N-Atlantshaf og ber að hafa í huga skyldur þeirra í því efni í Færeyjum og Grænlandi.“

Þarna nefni ég fund, sem Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, bauð Ilkka Kanerva, utanríkisráðherra Finna, og Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, til hinn 9. og 10. október 2007 og haldinn var í Bodö en í tilkynningu um fundinn segja ráðherrarnir meðal annars:

„Vi deler utfordringer i utenriks- og sikkerhetspolitisk sammenheng i nord, og ønsker å utnytte dette interessefellesskapet i utformingen av et mer omfattende samarbeid.

Det nye sikkerhetspolitiske landskapet åpner også muligheter for å styrke samarbeidet om våre tre lands bidrag til internasjonale fredsoperasjoner og samhandling på bakken. Vi vil legge vekt på å styrke dialogen i utformingen av våre bidrag til stabilitet og sikkerhet innen rammen av FN, NATO, EU og OSSE. Det gjelder også et styrket samarbeid om mulige felles bidrag til fredsoperasjoner. Med utgangspunkt i Norges sikkerhetspolitiske samarbeid med EU og Sveriges og Finlands samarbeid med NATO åpner det seg nye muligheter som vi ønsker å utnytte.“

Hinn 18. desember 2007 sagði Carl Bildt frá því á vefsíðu sinni að hann hefði boðið gestum til „nordiskt julbord“ Ilkka Kanerva, utanríkisráðherra Finna, hefði ekki getað þegið boðið vegna fjárlagaumræðna í Helsinki en Per Stig Möller, utanríkisráðherra Dana, Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra, Olli Rehn, hinni finnski framkvæmdarstjórnarmaður í ESB, og Radek Sikorski, utanríkisráðherra Pólverja, hefðu þegið boðið.

Bildt segir, að eftir öryggismálafundina í Bodö og Stokkhólmi verði næsti fundur haldinn í Finnlandi.

Í dagbókarfærslu á síðu minni 7. desember 2007 segir:

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, heldur úti vefsíðu og segir þar frá miklum ferðalögum sínum og lýsir viðhorfi sínu til þess, sem hæst ber á þeim fundum, sem hann situr.

Hinn 5. desember segir hann í dagbókarfærslu undir fyrirsögninni: Nýtt öryggi:

„Sedan början av 1990-talet har det skett ett mjukt farväl till neutralitetspolitiken i vårt land. Men det har varit ett farväl som inte varit utan sina återfall och sina svårigheter.

Denna regering använder inte begreppet av den enkla anledningen att det saknar relevans. Genom medlemskapet i den Europeiska Unionen ingår vi i en politisk allians som innebär en helt annan verklighet.

Gårdagens betänkande från den parlamentariska försvarsberedningen sätter nu saken på papper på ett tydligt sätt:

Sverige kommer inte att förhålla sig passivt om en katastrof eller ett angrepp skulle drabba en annan EU-medlemsstat eller ett annat nordiskt land.Vi förväntar oss att dessa länder agerar på samma sätt om Sverige angrips.

Därmed skrivs neutralitet som option bort i varje rimligt fall. Vi har ju knappast som tradition att förklara neutralitet i konflikter i mer avlägsna delar av världen. Säkerhetspolitiken handlar om säkerheten i vår egen del av världen."

Hann vitnar sem sagt í nýtt álit sænska þingsins um varnarmál, þar sem segir, að Svíar muni ekki sitja hjá ef einhverjar hörmungar eða árás beinist gegn öðru ESB-ríki eða öðru norrænu ríki. Við væntum þess, að þessi ríki geri hið sama, verði ráðist á Svíþjóð. Bildt segir, að hlutleysi Svía sé hluti af sögunni en ekki samtímanum.

Það segir sína sögu um sjálfhverft viðhorf, að í norskum og íslenskum fjölmiðlum skuli þessi mikilvæga stefnubreyting vera túlkuð á þann veg, að Svíar muni grípa til varna, verði ráðist á Noreg eða Ísland!

Hér var í síðustu viku nefnd háttsettra manna úr sænska varnarmálaráðuneytinu til að kynnast viðhorfum okkar Íslendinga og ræddi ég meðal annars við þá um störf og skipulag lögreglu og landhelgisgæslu, auk þess sem þeir heimsóttu miðstöðina við Skógarhlíð. Sænska varnarmálaráðuneytið fer með stjórn borgaralegra viðbragða við almannavá og vill treysta samstarf við okkur á sviði almannavarna. Þá hefur landhelgisgæslan átt náið samstarf við sænska herinn við kaup á nýrri flugvél, sem er af sömu gerð og með samskonar búnað og vélar Svía til eftirlits á Eystrasalti.“

Sænska varnarmálaráðuneytið sendi sem sagt nefnd háttsettra manna hingað til lands í byrjun desember sl. til að kynna sér, hvernig við vinnum í anda „mjuka säkerhetspolitiken“.

Þótt Per Stig Möller hafi verið boðinn í jólaveisluna í Stokkhólmi, eru Danir ekki fullgildir þátttakendur í samstarfinu, sem hófst formlega með fundinum í Bodö. Staða Íslendinga er enn óljósari.

Á vettvangi Norðurlandaráðs eru þingmenn teknir til við að ræða ræða um öryggismál. Svigrúmið til þess mótast á hinn bóginn af vilja ríkisstjórna landanna. Svíar fara með norræna formennsku á árinu 2008. Carl Bildt ræður því miklu um það, sem gerist í þessum málum á þeim vettvangi á hinu nýbyrjaða ári.

Einkaþotan, snekkjan og visir.is

Ég hef haldið hér til haga frásögnum af opinberum samskiptum eigenda Baugsmiðlanna við miðla sína.

Miðvikudaginn 2. janúar 2008 var kl. 15. 30 birt frétt á visir.is þar sem sagði:

„Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson flaug ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Pálmadóttur til Jamaíka seinnipartinn í gær. Fararkosturinn var glæný einkaþota Jóns Ásgeirs af gerðinni Falcon 2000 og tilgangur ferðarinnar er að vígja nýja lúxussnekkju þeirra hjóna.

Ekki er langt síðan Jón Ásgeir fékk afhenta einkaflugvélina. Hún er hin glæsilegasta, kolsvört og kostar samkvæmt heimildum Vísis um tvo milljarða íslenskra króna. Vélin, sem er af gerðinni Falcon 2000, er sömu gerðar og þær vélar sem Jón Ásgeir hefur nýtt sér undanfarin ár með leigufyrirtækinu NetJet.

Snekkjan er einnig hin glæsilegasta, vel yfir 30 metrar á lengd og herma heimildir Vísis að hún kosti ekki undir tveimur milljörðum.

Í för með Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu voru meðal annars góðvinur Jóns Ásgeirs og viðskiptafélagi Pálmi Haraldsson í Fons og kona hans Halla Rannveig Halldórsdóttir sem og Sybil Kristinsdóttir, systir Bolla í 17, sem er ein besta vinkona Ingibjargar.

Jón Ásgeir og Ingibjörg gengu í það heilaga 17. nóvember síðastliðinn en náðu varla að njóta hveitibrauðsdaganna vegna anna Jóns Ásgeirs í málefnum FL Group.

Og veðrið er fínt á Jamaíka því samkvæmt veðurspá má búast við 28 stiga hita og smáskúrum í dag.“

Hinn 4. janúar kl. 12.24 birtist eftirfarandi frétt á visir.is:

„Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, FL Group og 365, sem rekur meðal annars Vísi, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Vísis af ferðalagi hans og Ingibjargar Pálmadóttur ásamt vinafólki sem birtist 2. janúar síðastliðinn.

„Varðandi frétt á visir.is frá 2. janúar um ferðalag mitt og vina minna vil ég taka eftirfarandi fram:

Uppistaðan í fréttinni er röng og önnur atriði ónákvæm og hún var mér skaðleg. Ekki var haft samband við mig til að staðreyna atriðin í fréttinni, né heldur neinn af starfsfólki mínu og enginn nafngreindur heimildamaður er nefndur. Ég átel fréttaflutning af þessum toga."

Jón Ásgeir Jóhannesson“

Fyrir aftan þennan texta birtist þessi athugasemd frá ritstjóra:

„Ég harma rangfærslur í fréttinni, sem voru hafðar eftir heimildarmönnum í góðri trú, og bið lesendur sem og það fólk sem var til umfjöllunar í fréttinni velvirðingar á þeim. Jóni Ásgeiri var ítrekað boðið upp á leiðréttingu á rangfærslum en þáði það ekki. Í ljósi rangfærslanna hef ég ákveðið að taka fréttina út úr flokknum "Mest lesnu" enda engum til góðs að röngum fréttum sé gert hátt undir höfði á Vísi."

Óskar Hrafn Þorvaldsson, ritstjóri Vísis"

Um athugasemdina sagði Egill Helgason, sem var á Baugsmiðli, á vefsíðu sinni 4. janúar:

„Auðmjúkari afsökunarbeiðni hefur varla sést í Baugsmiðli.

En hvað er rétt og hvað er rangt í fréttinni? Er allt rangt, eða bara sumt eða skyldi eitthvað vera rétt?

Er snekkja? Er þota? Er þotuliðið á Jamaíka?“

Hinn 5. janúar kl. 17.03 birtist þessi leiðrétting á visir.is:

„Vegna fréttar sem birtist 2. janúar á Vísi og yfirlýsingar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem birtist 4. janúar um ferðalag hans og Ingibjargar Pálmadóttur ásamt vinafólki þeirra, vill ritstjórn Vísis koma með leiðréttingu.

Vél sú sem Jón Ásgeir Jóhannesson flaug í burtu frá Íslandi á nýársdag er ekki í eigu hans heldur BG Aviation Ltd sem er eftir því sem Vísis kemst næst dótturfélag Baugs Group þar sem Jón Ásgeir og fjölskylda hans fara með ráðandi hlut og Jón Ásgeir er stjórnarformaður. Ferð vélarinnar var ekki heitið til Jamaíka heldur til Bangor í Maine-fylki í Bandaríkjunum. Ekki er vitað hvert farið var frá Bangor en þess má geta að hún var á Palm Beach-flugvelli í Flórída í gær. Verð vélarinnar er einnig nær 1,5 milljarði en tveimur.

Snekkjan sem Jón Ásgeir, Ingibjörg og vinafólk þeirra hugðust dvelja í er ekki ný heldur var hún afhent í ágúst á síðasta ári. Jón Ásgeir hefur dvalið í skútunni í nokkur skipti og var því ekki um jómfrúarferð hennar að ræða. Verð skútunnar er einng nær milljarði en tveimur.

Í athugasemd ritstjóra Vísis sem fylgdi með yfirlýsingu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar voru rangfærslur harmaðar. Eins og sjá má í leiðréttingunni er fyrirsögn fréttarinnar röng og önnur atriði ónákvæm. Ritstjórn Vísis er mjög í mun um að fréttir sem birtast á Vísi séu réttar og ef svo er ekki er beðist afsökunar. Skiptir þá engu máli hvaða einstaklingur á í hlut, hvort heldur það er Jón Ásgeir Jóhannesson eða einhver annar.“