1.12.2007

Í Harvard - Ísland í 1. sæti - löggæsla og hervarnir - bjorn.is á bannlista.

Fyrir viku var ég staddur í Boston og bjó mig undir að flytja fyrirlestur í Belfer Center í John F. Kennedy School of Government við Harvard-háskóla mánudaginn 26. nóvember. Að ég flytti þennan fyrirlestur átti sér langan aðdraganda, því að dagsetning hafði verið ákveðin í febrúar á þessu ári, en ég varð að falla frá ferðalaginu þá vegna veikinda minna. Raunar sögðu læknar mér, að hefði ég farið í flugvél vestur um haf á þeim tíma með samfallið hægra lunga, hefði það getað leitt mig til dauða – hvorki meira né minna. Þá var annar dagur ákveðinn, en enn á ný kom samfallið lunga í veg fyrir, að ég kæmist. Þriðji dagur var þá ákveðinn og var ánægjulegt að fá þetta einstæða tækifæri til að kynna þróun mála hér á norðurslóðum.

Raunar hefur efni fyrirlesturs míns tekið nokkrum breytingum á þeim mánuðum, sem liðnir eru, frá því að ég hóf að undirbúa hann. Á árinu hefur áhugi á viðfangsefni fyrirlesturs míns vaxið samhliða því, sem fleiri átta sig á því, að aukin umsvif á Norðurheimskautinu auka mikilvægi siglingaleiða á Norður-Atlantshafi, milli Grænlands og Íslands og Íslands og Færeyja. Þessi áhugi endurspeglast til dæmis í því, að síðan í september hef ég flutt fyrirlestra um þetta efni í Tromsö, á fundi NATO-þingmanna hér í Reykjavík, í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og nú síðast í Harvard.

Fyrirlesturinn í Harvard tekur mið af þátttöku minni í þessum fundum í ólíkum löndum og þeim sjónarmiðum, sem þar hafa komið fram hjá sérfróðum mönnum. Þegar ég lít til baka má segja, að veikindi mín og frestun á ferð minni til Boston vegna þeirra hafi orðið til að dýpka efnistökin og slípa framsetninguna. Alþjóðleg könnun frá því í október 2007 segir, að Harvard-háskóli sé hinn besti í heimi og háskólarnir í Oxford og Cambridge í Englandi séu saman í öðru sæti. Það er því eins gott að vanda vel til verka, þegar tækifæri gefst til að tala til kennara og nemenda í svo merkri menntastofnun.

Á þessum ferðalögum, hefur hugur minn leitað aftur til níunda áratugarins, þegar ég tók oft þátt í alþjóðlegum ráðstefnum um þróun flotamála á Norður-Atlantshafi. Fyrir réttum 20 árum var mikið rætt um flotastefnu Ronalds Reagans, sem miðaði að því að sækja með miklum herafla norður með strönd Noregs inn í Barentshaf og ógna sovéska kjarnorkukafbátaflotanum sem næst heimahöfnum hans. Margir töldu stefnuna ógnun við heimsfrið en hún reyndist á hinn bóginn mikilvægur liður í því að brjóta sovéska herveldið á bak aftur.

Nú er ekki rætt um nauðsyn þess að efla hernaðarstyrk á N-Atlantshafi heldur að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi á siglingaleiðum með öðrum aðferðum, það er í krafti borgaralegra stofnana með landhelgisgæslu og strandgæslu og samvinnu á því sviði. Hefur þetta verið snar þáttur í málflutningi mínum og hef ég hvatt til þess, að á vettvangi NATO og undir forystu Bandaríkjanna verði hugað að nýrri flotastefnu á N-Atlantshafi.

Því meira, sem ég ræði þetta mál og heyri sjónarmið fleiri, þeim mun betur sannfærist ég um skammsýni Bandaríkjastjórnar, þegar hún ákvað að kalla allan liðsafla sinn frá Íslandi. Ákvörðunin byggðist frekar á innbyrðis átökum valdamanna í Washington en vel ígrunduðu mati á aðstæðum – hvað sem líður þeirri skoðun innan Pentagon, að ekki hafi lengur verið þörf fyrir dvöl bandaríska flughersins á Keflavíkurflugvelli.

Flug rússneskra sprengiflugvéla norður Atlantshaf og umhverfis Íslands sýnir raunar haldleysi þessarar Pentagon-skoðunar . Þegar varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna hittust á óformlegum fundi í Noordwijk í Hollandi 24. og 25. október 2007, flugu rússneskar sprengjuvélar frá Kóla-skaga, suður með strönd Noregs og voru í 15 mínútna flugfjarlægð frá fundarstað ráðherranna, þegar þær sneru aftur heim á leið.

Ísland í 1. sæti.

Þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna var kynnt 27. nóvember en samkvæmt henni er Ísland nú í efsta sæti á lífskjaralista Sameinuðu Þjóðanna. Af því tilefni kvaddi Guðfinna S. Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sér hljóðs í upphafi þingfundar þennan sama dag og sagði:

„Mig langar að vekja athygli á fréttum sem hafa verið að birtast nú í morgun í fjölmiðlum þar sem bent er á að lífskjör á Íslandi eru þau bestu í heimi ef marka má niðurstöður greiningar á lífskjörum meðal 177 þjóða heims. Við ræðum oft í þessum þingsal um það sem ekki er gott og það sem miður fer. Það er því þess virði að staldra við og huga að þeirri staðreynd að Ísland er með hæstu einkunn eða hæsta skor ásamt Noregi samkvæmt lífskjaravísitölu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin hefur birt vísitölu af þessu tagi undanfarin 18 ár.

Mat á lífskjörum byggist á nokkrum þáttum. Þeir þættir eru m.a. lífslíkur, menntunarstig og landsframleiðsla á mann. Þessir þættir eru taldir hafa áhrif á lífsgæði. Á listanum í ár er Ísland í fyrsta sæti með afar hátt skor, 0,968, og þar á eftir fylgja þær þjóðir sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Mig langar að nota tækifærið og fagna þessum niðurstöðum. Þetta vekur athygli á Íslandi en um leið, og það skiptir meira máli, minnir þetta okkur á hve lánsöm við erum að fá að lifa, starfa, ala upp börn okkar og eldast í þessu landi.

Fram undan bíða mál sem munu enn frekar þróa íslenskt samfélag. Ég hlakka t.d. til að taka þátt í umræðum um að efla menntakerfið og heilbrigðiskerfið hér á landi. Við erum í efsta sæti en ég veit að við getum gert betur. Mig langar að biðja hæstv. forsætisráðherra að segja okkur álit sitt á umræddri niðurstöðu.“

Geir H. Haarde forsætisráðherra brást vel við ósk þingmannsins og sagði:

„Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessari niðurstöðu. Hún var birt í morgun á vegum Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Niðurstaðan bendir til þess að við höfum enn bætt okkur á listanum sem birtur hefur verið árlega nú um 17 ára skeið. Vissulega eru það ánægjuleg tíðindi. Þó að við höfum í mörg ár verið í hópi efstu ríkja rekur mig ekki minni til þess að við höfum áður vermt fyrsta sætið.

Það sem er merkilegt við þessa niðurstöðu er að ekki er eingöngu mældur kaupmáttur eða fjárhagslegur hagur viðkomandi landa heldur einnig önnur atriði sem áhrif hafa á velmegun viðkomandi þjóðar, og þá batnar staða okkar enn miðað við einfalda mælingu á ráðstöfunartekjum á mann. Þetta er ánægjulegt en jafnframt áskorun til okkar um að halda áfram að standa okkur vel og gera enn betur eins og hv. þingmaður sagði.

Í morgun bárust líka þau tíðindi að hið alþjóðlega lánshæfisfyrirtæki Moody's hefði ákveðið að breyta ekki lánshæfismati á ríkissjóði Íslands, hvorki matinu sjálfu né horfunum hvað það varðar. Ástæða er til að vekja athygli á því að Moody's hefur haft okkur í hæsta flokki nú um nokkurra ára skeið og sér ekki ástæðu til að gera breytingar þar á. Því vil ég líka fagna sérstaklega.

Þetta hvort tveggja ætti að vera þeim áminning innan lands sem utan sem reyna að tala niður allan árangur sem náðst hefur. Margt hefur gengið vel. Mörg verkefni þarf að leysa, mörg vandamál eru óleyst, þannig er það alltaf. En sem betur fer fáum við vísbendingar um að við séum þrátt fyrir allt á réttri leið.“

Í ár eru 16 ár liðin frá því, að Íslendingar treystu Sjálfstæðisflokknum fyrir stjórnarforystu og allan þann tíma hefur Ísland verið að fikra sig markvisst upp eftir þeim lista Sameinuðu þjóðanna, sem sýnir gæði lífskjara og nú erum við komin í efsta sæti og sannfærð um, að enn megi gera betur. Ég er stoltur yfir því að hafa fengið tækifæri til að vera virkur þátttakandi í því að ná þessum glæsilega árangri.

Löggæsla og hervarnir.

Hans Haraldsson heldur úti síðunni Málgagn og undir þessari slóð frá 28. nóvember http://polites.blog.is/blog/polites/entry/377576/ má finna þennan texta:

„Pétur Gunnarson skrifar stórundarlega færslu á eyjublogg sitt í dag. Þar lofar hann Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, fyrir að gæta að aðskilnaði borgaralegra stofnana og hervarna en lastar að sama skapi Björn Bjarnason, dómsmálráðherra fyrir að vilja „feta hálfsovéska leið þar sem hernaði og löggæslu er hrært saman“.

Ég býst við því að flest skynsamt fólk fallist á að Ísland, eitt landa, sé ekki undanskilið því að hafa einhverjar varnarþarfir. Flestir fallast á það að sérsveit lögreglu sé nauðsynleg og margir telja að einhver viðbúnaður í viðbót gæti verið nauðsynlegur.

Í flestum löndum tíðkast aðskilnaður borgaralegrar löggæslu og hervarna. Liður í þessu er að mismunandi stofnanir sinna hörðu vörnunum og almennri löggæslu. Það sama gildir með leyniþjónustustarfsemi í tengslum við löggæslu annarsvegar og landvarnir hinsvegar. Í sumum löndum er þátttaka herafla í löggæslu bönnuð með öllu.

Hvor ráðherrann var það svo sem kvað upp úr með það fyrir nokkrum mánuðum að hér yrði ekki stofnað sérstakt varnarlið? Var það Björn eða Ingibjörg? Og hvor þeirra var það sem talaði í sömu ræðu um að halda löggæslu og landvörnum aðskildum?

Af pistli Péturs er það reyndar að ráða að Ingibjörg hafi staðið sig með ágætum í þessari viðleitni þar sem sérstök varnarmálastofa verður stofnuð í kring um heræfinga (oft með þátttöku sérsveitar og Landhelgisgæslunnar!) og ratsjáreftirlit. Pétri þykir það greinilega mjög mikilvægt að halda tæknimönnum ratsjárstofnunar og skipuleggjendum heræfinga frá löggæslunni.“

Ég tek undir með Hans, þegar hann segir færslu Péturs „stórundarlega“. Ef Pétur telur mig vera málsvara þess að blanda saman hernaðarlegum og borgaralegum stofnunum, er það aðeins enn til marks um spuna í stað staðreynda.

Í Fréttablaðinu 1. desember birtist fréttaskýring eftir Brján Jónsson blaðamann. Hann lagði nokkrar spurningar fyrir mig af því tilefni, meðal annars um svonefnda varnarmálastofnun. Birti ég spurningar Brjáns og svör mín hér:

1) Þú hefur talað fyrir því að starfsemi Ratsjárstofnunar færðist í Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð. Ert þú enn þeirrar skoðunar?

Svar: Ég er þeirrar skoðunar, að nýta eigi þær upplýsingar, sem ratsjárkerfið safnar af borgaralegum stofnunum, flugmálayfirvöldum og vaktstöðinni við Skógarhlíð. Ég tel, að skoða eigi til hlítar, hvernig það er gert á hinn hagkvæmasta hátt um leið og merki frá kerfinu eru nýtt í þágu sameiginlegra loftvarna. Landhelgisgæslan starfar náið með alþjóðlegum stofnunum, fær frá þeim upplýsingar og miðlar til þeirra upplýsingum. Þessi liður í starfi gæslunnar mun aðeins halda áfram að aukast á komandi árum eins og samningurinn við Norðmenn um þyrlukaup og Dani um eftirlitsstörf á hafinu sýna. Í ferð minni til Boston fyrr í þessari viku ræddi ég við yfirmann stöðvar bandarísku strandgæslunnar í Boston um bein tengsl hennar við landhelgisgæsluna og er gagnkvæmur áhugi á að samningsbinda slíkt samstarf. Þá hef ég einnig heimsótt gervihnattamiðstöð Kongsberg í Tromsö og verið er að kanna, hvernig unnt er að samhæfa sem best móttöku upplýsinga frá henni hér á landi.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að upplýsingaöflun ratsjárkerfisins eigi að falla inn í þessa heildarmynd.

2) Ef skoðun þín er óbreytt, ertu þá andsnúinn þeim áformum utanríkisráðherra að koma á laggirnar sérstakri varnarmálastofnun?

Svar: Varnarmálastofnun getur aldrei komið í stað annarra stofnana hér, ef svo væri, þyrfti ekki að koma henni á fót. Eigi þessi stofnun að sinna hernaðarlegum verkefnum er eðlilegt, að um þau verkefni þurfi að setja sérstök lög.

3) Eru að þínu mati einhver vandkvæði á því að koma starfsemi Ratsjárstofnunar fyrir í Skógarhlíð? Þyrfti allur sá mannskapur sem unnið hefur hjá Ratsjárstofnun að fylgja með?

Svar: Ef um hernaðarlega starfsemi er að ræða á hún ekki heima í Skógarhlíð. Öll borgaraleg verkefni til eftirlits í þágu öryggis þjóðarinnar eiga þar heima.

 

Bjorn.is á bannlista.

G. Pétur Matthíasson, fjölmiðlafulltrúi vegagerðarinnar, heldur úti bloggsíðu http://gpetur.blogspot.com/ og þar er meðal annars þessi texti frá þriðjudeginum 27. nóvember:

„Á Pressukvöldi fyrir nokkru síðan upplýsti ég að ég hefði þá fyrir löngu síðan hætt að lesa blogg Björns Bjarnasonar sem byrjaði svo snemma að blogga að bloggið var ekki orðið til.

 

Mér skildist á manni um helgina að um þetta hefði Óli Teitur skrifað um í nýjustu bók sinni um fjölmiðlapistla, sem einhvers konar sönnun þess að fréttamenn hötuðu BB. Maður þessi talaði um að ég hefði sagt að ég hefði ekki nennt að lesa Björn. Það er ekki allskostar rétt. Annar maður fór einnig að ræða þetta við mig, líka blaðamaður og fannst ákaflega rangt að lesa ekki Björn Bjarnason.

Þetta þarfnast skýringar. Ég hætti ekki að lesa BB útaf leti, því fer fjarri. Maður hefur hinsvegar nóg að lesa á netinu og allsstaðar annarsstaðar og auðvitað á maður að velja af kostngæfni hvernig maður ver tíma sínum.

Það var samt ekki aðalatriðið.

Tvennt skiptir máli: Hættan á innri ritskoðun og dónaskapur.

Þegar BB var menntmálaráðherra og löngu eftir að hann hætti sem slíkur nefndi hann á bloggi sínu fréttastofur Útvarps og Sjónvarps aldrei neitt annað er útvarp ríkisins og sjónvarp ríkisins. Flestum er reyndar kennt ungum að uppnefna ekki fólk, en það er önnur saga. Þetta var ekki eini dónaskapurinn en á tímabili hafði ráðherrann alveg sérstakt horn í síðu fréttamanna á fréttastofu Útvarpsins.

Skrif um fréttir fannst mér bera þess merki að ráðherrann væri með þeim að reyna að hafa áhrif á umfjöllun næstu fréttar, það var ekki farið fram á leiðréttingu, eða beðið um að fá að koma sínum sjónarmiðum að, með því að hafa samband við fréttastofurnar heldur var þessi leið farin, eiginlega leið nöldurs í sambland við dónaskap. Hnýtt í fréttaflutning og fréttamenn.“

Þetta er forvitnilegt viðhorf hjá G. Pétri Matthíassyni. Um langt árabil, áður en ég hóf að halda úti vefsíðu, en eftir að ríkiseinokun á útvarpsrekstri var afnumin, tók ég að tala um hljóðvarp og sjónvarp ríkisins, svo að lesendur Morgunblaðsins væru ekki í neinum vafa um hvaða miðill væri til umræðu. Að segja mig vera að uppnefna þessar ríkisstofnanir eða ríkisfyrirtæki, eins og nú er, með því að kenna þær við eiganda sinn, er í ætt við allar skammirnar yfir því, að ég skuli nota orðið Baugsmiðlar yfir fjölmiðla í eign þess mikla fyrirtækis. Ef ég veit rétt, hefur Baugur kært mig fyrir mannréttindadómstóli Evrópu vegna þeirrar orðnotkunar.

Hvers vegna er fjölmiðlamönnum svona illa við, að miðlarnir séu kenndir við eigendur sína? Hvað segir G. Pétur um sjálft heitið: Ríkisútvarp? Felst ekki dónaskapur í því? Eða orðinu: ríkisfjölmiðlar? Mér þykir langsótt og raunar broslegt að vera sakaður um dónaskap fyrir að tala um hljóðvarp eða sjónvarp ríkisins. Hvaða orð á að nota um opinberar yfirlýsingar G. Péturs gegn vefsíðu minni? Ritskoðunaráráttu? Sæmir slík afstaða fréttamanni eða fjölmiðlafulltrúa?

Þá er hitt ekki síður skondið, að ég hefði frekar átt að biðja um leiðréttingu á því, sem ég taldi rangt í fréttum, eða biðja um að komast að í fréttatíma, í stað þess að lýsa skoðun minni hér á síðunni. Ég átti og á sem sagt að leggja það í mat fréttastjóranna, hvort þeir vilji leiðrétta orð stofnana sinna eða láta svo lítið að leyfa mér að koma að mínu sjónarmiði.

Reynslan af slíkum samskiptum hefur einfaldlega kennt mér, að það er miklu einfaldara fyrir mig að segja skoðun mína hér en að óska eftir leiðréttingu og hvað þá heldur að óska eftir að komast í fréttir – það hefur mér aldrei líkað. Ég hef treyst fjölmiðlamönnum fyrir mati á því, sem er fréttnæmt, eftir að ég hætti sjálfur fréttastjórn. Þegar ég var menntamálaráðherra, sagði ég oft, að ég hefði engin afskipti af fréttum eða öðru efni ríkisfjölmiðlanna og stóð við það. Að kenna þetta við nöldur eða dónaskap er órökstutt hjá G. Pétri og frekar til marks um viðkvæmni en orð mín – alla gagnrýni mína á fjölmiðlamenn hef ég skýrt með dæmum.

Að G. Pétur skuli hafa hætt að lesa síðuna mína, vegna þess að ég kenndi hljóðvarp og sjónvarps ríkisins við eiganda sinn og bað ekki fréttastjóra um leiðréttingu á því, sem ég taldi miður fara, sýnir, hve lítið þarf til að fæla suma frá því að kynna sér skoðanir annarra. Á þessum árum var G. Pétur meðal annars þingfréttaritari á vegum ríkisfjölmiðlanna og hafði þar þær skyldur að segja frá störfum mínum á óhlutdrægan hátt.

Ég endurtek það, sem ég sagði fyrir skömmu af öðru tilefni, að starfsumhverfi okkar stjórnmálamanna er einkennilegt. Kröfurnar um, að við leitum ekki eigin leiða til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri við þessar starfsaðstæður, eiga einfaldlega ekki við nein rök að styðjast. Þær virðast heldur byggjast á þeirri skoðun, að almenningur eigi aðeins að kynnast okkur í gegnum síu fjölmiðlanna og megi ekki að hafa aðgang að uppsprettunni sjálfri.

Í fyrrnefndum pistli sínum upplýsir G. Pétur einnig um ritstjórnarstefnu á fréttastofu ríkisfjölmiðlanna. Hann segir:

„Það er líka eitthvað að því þegar menn vilja ekki koma í viðtöl og segja að engu sé að bæta við það sem sagt hefur verið á bloggi viðkomandi. Þá er nú ekki hægt að spyrja menn útí það sem sagt er, ó nei. Enda var reynt þegar frá leið á fréttastofu Sjónvarpsins að vitna ekki í blogg manna ef þeir vildu ekki koma í viðtal um það sem skrifað var. Á því voru náttúrulega gerðar undantekningar.“

Þessi stefna hefur runnið sitt skeið í lesmiðlunum, því að þeir þrífast nú mjög á því, að birta tilvitnanir í blogg og auðvelda lesendum sínum að nálgast blogg, án þess að gera kröfu um að viðkomandi lýsi því nánar í viðtali við viðkomandi blað, hvað hann er að fara með bloggi sínu. Er það enn ráðandi stefna á ríkisfjölmiðlum að vitna ekki í blogg manna í fréttatímum, nema jafnframt sé óskað eftir því, að höfundur standi fyrir máli sínu með svörum til fréttamanns?