18.11.2007

Tíðindalitlar þingfréttir.

Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritara Morgunblaðsins, þótti tíðindalítið á alþingi í síðustu viku, ef marka má þingbréf hennar í blaðinu laugardaginn 17. nóvember, en þar sagði meðal annars:

„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur greinilega ekki setið auðum höndum undanfarið. Í vikunni mælti hann fyrir þremur frumvörpum og lagði fram tvö og allt eru þetta vel unnin og þörf frumvörp, t.d. um almannavarnir og um meðferð sakamála.

Björn kom hins vegar dálítið á óvart þegar hann tók sér hálfpartinn fundarstjórnarvald á Alþingi í vikunni. Samkvæmt dagskrá átti Björn að ræða almenn hegningarlög en þegar hann var búinn að tala í u.þ.b. mínútu áttaði fólk sig á því að hann var að flytja ræðu um almannavarnafrumvarpið. Forseti hringdi bjöllunni og benti á mistökin en Björn þakkaði bara fyrir og hélt ótrauður áfram. Það er mögulegt að forseti hafi sagt Birni að halda áfram, án þess að það hafi heyrst, en þetta leit a.m.k. ankannalega út. Mikill órói greip um sig í þingsal og ekki síst hjá þingmönnum sem voru á mælendaskrá.

Hugsanlega áttaði Björn sig ekki strax og hélt þess vegna áfram en forseti þingsins hefði með réttu átt að stöðva hann aftur og óska eftir að hann byrjaði á réttu máli.“

Mér er ljúft að segja frá því, sem gerðist þriðjudaginn 13. nóvember, þegar ég hóf að flytja framsöguræður fyrir þremur málum mínum á dagskrá þann dag. Ég var svo mjög með hugann við frumvarp til laga um almannavarnir, að ég taldi það fyrst af mínum málum á dagskránni og í kliðnum, sem jafnan er, þegar umræður hefjast á þingi, tók ég einfaldlega ekki eftir kynningu forseta og hóf að ræða um almannavarnir í stað breytinga á almennum hegningarlögum, sem voru fyrstar á hinni prentuðu dagskrá.

Það er rétt hjá Höllu, að eftir að ég hafði hafið mál mitt hringdi forseti bjöllu sinni og vakti athygli mína og þingheims á því, að ég væri að ræða annað málið á dagskrá fundarins í stað hins fyrsta. Forseti hefði að sjálfsögðu getað óskað eftir því mig, að ég tæki til við að ræða frumvarpið um breytingu á almennu hegningarlögunum, en hann gerði það ekki og hélt ég því áfram ræðu minni um almannavarnafrumvarpið og í lok hennar baðst ég velvirðingar á því, ef þessi breyting frá hinni prentuðu dagskrá hefði valdið einhverjum vandræðum. Ræðuna má sjá hér á síðunni í heild og í textanum er einnig að finna orð forseta þingsins. Raunar má einnig sjá atvikið á vef alþingis, en þar er ný þjónusta kominn til sögunnar, sem felst í því að geyma sjónvarpsupptökur af umræðum um ákveðinn tíma.

Tilkynning Kjartans Ólafssonar, sem sat á forsetastóli, laut að því að upplýsa þingmenn um málið á dagskrá, svo að þeir gætu skráð sig á mælendaskrá í samræmi við það. Það er rétt hjá Höllu, að forseti hefði getað gefið mér fyrirmæli um að halda mig við hina prentuðu dagskrá, hann gerði það ekki og fólst því einfaldlega breyting á dagskránni í inngripi hans.

Ég sá einhvers staðar, að túlka ætti þetta litla atvik sem átök framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Spuni af því tagi er aðeins til sannindamerkis um það, hvernig spunameistarar starfa. Fjöður verður að fugli.

Almannavarnafrumvarpið hefur að geyma ýmis nýmæli. Ég hefði frekar kosið, að menn segðu fréttir af þeim í frásögn sinni af umræðum um málið, heldur hinu, sem gerist oft, að forseti þingsins breytir prentaðri dagskrá þingsins.

Þegar ég settist á alþingi 1991, töldu þingmenn sig búa við þann erfiða kost, að almenningur hefði síminnkandi tök á að fylgjast með störfum þeirra. Þingfréttir væru minni en áður, flokksblöð úr sögunni og allt væri í raun á þann veg, að einskonar þöggunarstefnu væri fylgt gagnvart störfum þingsins. Man ég eftir umræðum um, hvort unnt væri að skylda ríkisútvarpið til að halda úti sérstakri rás með efni frá alþingi. Var kannað, hvað þetta kynni að kosta, minnir mig, að talan 400 milljónir króna hefði verið nefnd.

Nú eru aðrir tímar. Sjónvarpað er frá öllum fundum alþingis. Netþjónusta þingsins er ótrúlega mikil og góð og um heim allan er unnt að fylgjast með fundum alþingis á netinu. Þar er einnig unnt að finna allar ræður og þingskjöl og nú eru meira að segja hinar lifandi umræður geymdar á netinu.

Þegar ég var í blaðamennsku og skrifaði um stjórnmál, safnaði ég þingtíðindum til að hafa aðgang að því, sem gerðist á alþingi fyrir utan að hafa þingtíðindi frá því að alþingi var endurreist 1845 heima við höndina. Fylltust margir heimilisskápar af  þingtíðindum vegna þeirrar áráttu minnar að halda utan um öll nauðsynleg gögn og viðhalda söfnun þeirra.

Þegar ég settist á þing var þingtíðindum reglulega dreift til þingmanna. Ég man ekki eftir því, hvenær því var hætt. Hitt veit ég, að síðustu daga höfum við unnið að því heima hjá mér að tæma alla skápa með þingtíðinda-heftum og flytja þau til Braga Kristjónssonar bóksala, hið sama á við um heftin af stjórnatíðindum, sem einnig fylltu marga skápa. Þá hef ég einnig látið Braga hafa gamla árganga af tímaritinu Foreign Affairs. Bendi ég áhugamönnum um þessi ritverk að nálgast þau hjá Braga, hann lætur þau örugglega af hendi fyrir sanngjarnt verð.

Nú næ ég í öll þessi gögn á netinu. Rafræna útgáfan nær misjafnlega langt aftur í tímann. Í Ólafsfirði er unnið að því að skanna þingtíðindi inn á netið. Á vefsíðu alþingis stendur: „Hér er hægt að leita í málum og málsheitum frá og með 1928 (40. löggjafarþingi). Þó er skráningu ekki að fullu lokið (71.-75. og 54.-62. þing vantar). Texti skjala er tiltækur frá og með 1974 (95. löggjafarþingi).“

Foreign Affairs er unnt að nálgast frá árunum 1922 á www.hvar.is en ókeypis aðgangur fyrir tölvueigendur á Íslandi var opnaður að alþjóðlegum gagnagrunnum í tíð minni sem menntamálaráðherra og er haldið um þennan upplýsingabrunn á www.hvar.is

Ríkisstjórnin samþykkti föstudaginn 16. nóvember tillögu mína um að þeir, sem vilja prentuð eintök af stjórnartíðindum verði að greiða fyrir kostnað af prentun þeirra. Áskrifendum hefur fækkað mikið frá því að rafræn útgáfa stjórnartíðinda hófst og þeim mun vafalaust fækka meira við þessa ákvörðun, sem leiðir óhjákvæmilega til þess, að áskriftarverðið stórhækkar. Dómsmálaráðuneytið mun sjá til þess, að til sé prentuð útgáfa af öllu, sem birtist í stjórnartíðindum og gæta að varðveislu þess efnis.

Þingfréttariturum kann að þykja tíðindalítið á alþingi.  Þess vegna þykir þeim líklega fréttnæmt, að annað dagskrármál sé tekið fyrir á undan hinu fyrsta. Síðan eru dregnar af því pólitískar ályktanir með aðferðum spunameistara.   Hvað sem þessu líður eru mörg merk mál fyrir þinginu að þessu sinni, sem eiga eftir að hafa langvarandi áhrif.

Hlutverk þingfréttara er að sjálfsögðu að setja þingmál og umræður í þannig samhengi, að um marktækar fréttir verði að ræða. Þetta gerist ekki með því að leita að þeim, sem finna einhverja vankanta á einhverjum ákvæðum frumvarpanna, heldur með því einu að skoða frumvörpin og lýsa efni þeirra.

Frumvörp til laga eru ekki flutt til að allir séu sammála um efni þeirra, heldur í því skyni að fá þau samþykkt eftir þinglega meðferð, þar sem ólík sjónarmið eru kynnt og síðan gengið til atkvæða. Hið sérkennilega við þingfréttir samtímans er, að það þykir oftast fréttnæmara, sem andmælendur í minnihluta segja, heldur en það, sem í frumvarpinu segir og almennt er samþykkt sem lög að lokum.