Reykjavíkurbréf og OR - fordæmi DV?
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er í dag (11. nóvember) rætt um hvernig hátta skuli samskiptum einkaaðila og opinberra. Tilefnið er þróun mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Þegar rætt er um OR-málið og uppnámið í borgarstjórn Reykjavíkur er nauðsynlegt að hafa tvennt í huga.
Í fyrsta lagi snerist gagnrýni á ákvörðunina um samruna REI og GGE hinn 3. október sl. um leyndarhyggjuna, sem réð ferðinni. Það er viðleitni starfsmanna og stjórnarmanna OR og REI til að fara sínu fram, án þess að segja kjörnum fulltrúum frá því, sem var að gerast hjá hinu opinbera fyrirtæki, Orkuveitu Reykjavíkur (OR).
Leyndarhyggjan var arfur frá stjórnartíð Alfreðs Þorsteinssonar, stjórnarformanns OR, og Guðmundar Þóroddssonar, forstjóra OR. Þeir héldu þannig á málum OR, að jafnvel stjórnarmenn þurftu að berjast fyrir því að fá upplýsingar og töldu, að þeir væru ekki upplýstir um allt - hvað þá heldur borgarráð og borgarstjórn. Alfreð veittist beinlínis að þeim, sem töldu, að upplýsa ætti borgarfulltrúa um málefni OR.
Í öðru lagi hefur deilan um OR og REI snúist um, hvort nota skuli almannafé í áhættufjárfestingar í óskyldum rekstri með eða án annarra. Í stjórnartíð Alfreðs og Guðmundar gagnrýndu sjálfstæðismenn fjárfestingar OR í Línu.neti, risarækjueldi, Feygingu og vatnsútflutningi. Þeir töldu, að með því væri verið að nota opinbert fé í fjárfestingar, sem ættu að vera á höndum einkaaðila. Alfreð varði þessar fjárfestingar á þeirri forsendu, að um skyldan rekstur væri að ræða og OR mundi hagnast verulega, þegar fram liðu stundir.
OR er hætt í vatnsútflutningi, risarækjueldi og Feygingu. Hafa verið birtar tölur um, hve miklu OR tapaði á þessum fjárfestingum? Lína.net er orðið að Gagnaveitunni og enginn veit í raun hvers virði fyrirtækið er. Margt bendir til þess að verðmæti þess hafi verið talað upp eins og gert var um GGE og REI fyrir fáeinum vikum.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er minnt á, að OR hafi orðið til við sameiningu þriggja þjónustufyrirtækja almennings, sem seldu Reykvíkingum og sumum nágrönnum þeirra heitt og kalt vatn og rafmagn. Þessi starfsemi hafi styrkst fjarhagslega við sameiningu í eitt fyrirtæki, þar hafi safnast miklir peningar og þeir hafi freistað „stjórnenda þess [OR] til þess að ráðast í margvíslegar framkvæmdir og verkefni, sem hafa lítið sem ekkert með að gera þann upprunalega tilgang þessa fyrirtækis og forvera þess að sjá viðskiptavinum sínum fyrir heitu og köldu vatni og rafmagni. Þannig var byggt glæsihýsi yfir starfsemina [sem fór a. m. k. 4 milljarða kr. fram úr áætlun innsk, Bj, Bj,] og peningar lagðir í ýmiss konar verkefni, sem ekki verður farið út í hér.“
Þessi verkefni nefndi ég hér að ofan en sjálfstæðismenn gagnrýndu þau á árunum 2002 til 2006. Höfundur Reykjavíkurbréfs telur, að fjárfestingar OR sýni, að hægt hafi verið að lækka verulega gjaldskrá OR á tímum þessara fjárfestinga og það sé hægt enn. Þá segir orðrétt: „Það er augljóslega góður kostur fyrir viðskiptavini og eigendur Orkuveitunnar að gjöldin verði lækkuð þannig að fjölskyldur á viðskiptasvæði Orkuveitunnar hafi meiri peninga handa á milli. Þetta virðist hvorki hafa hvarflað að stjórnendum Orkuveitunnar né borgarfulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur.“
Réttmæti síðustu orðanna í tilvitnuninni má draga í efa. Vissulega hefur það hvarflað að borgarfulltrúum að lækka gjöldin til OR. Minningin frá síðustu árum níunda áratugarins liggur hins vegar í loftinu. Þá gaf Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, til kynna, að lagður yrði einhvers konar jöfnunarskattur á Reykvíkinga, ef Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri, beitti sér fyrir því, að gjaldskrá heitavatnsins yrði lækkuð.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur eru sjálfum sér samkvæmir, þegar þeir vara við að almannafé OR sé notað til áhættufjárfestinga í REI. Rökin fyrir því eru hin sömu og gegn fjárfestingu í Línu.net, vatnsútflutningi, risarækjueldi, Feygingu og ofurdýru orkuveituhúsi.
Björn Ingi Hrafnsson, arftaki Alfreðs Þorsteinssonar og stjórnarhátta hans i OR og borgarstjórn Reykjavíkur, sér ekkert athugavert við leyndarhyggju innan OR og ævintýramennsku með fjármuni OR. Samfylkingarfólkið Dagur B. Eggertsson, Össur Skarphéðinsson og Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík, en höfundur Reykjavíkurbréfs vitnar einmitt í hana 11. nóvember, telja sjálfsagt, að OR setji fé í REI með einkaaðilum og REI taki þátt í áhættufjárfestingu erlendis, segir Svanfríður þetta „fína blöndu“ í grein í Morgunblaðinu 10. nóvember.
Í Reykjavíkurbréfinu segir:
„Svanfríður Jónasdóttir hefur áhyggjur af því að komi fyrirtæki á borð við Orkuveituna hvergi við sögu [í útrásinni] muni einkafyrirtæki kaupa allt bezta fólkið frá slíku opinberu fyrirtæki. Sú hætta er alltaf fyrir hendi og ekki hægt að útiloka hana með nokkru móti. Þar stendur viðkomandi starfsmaður frammi fyrir ákveðnu vali. Hann getur valið tiltölulega mikið starfsöryggi en lægri laun. Hann getur valið betri kjör en veit þá með því að líta í kringum sig, að þau kjör geta orðið skammgóður vermir.“
Eftir að hafa verið ráðherra nær óslitið síðan 1995 og fylgst náið með rekstri skóla, lögreglu og annarra opinberra stofnana, hef ég fyrir löngu áttað mig á því, að bæði ráðuneyti og þessar opinberu stofnanir standa höllum fæti í samkeppni við hinn frjálsa markað um starfsmenn á tímum þenslu og mikils vaxtar. Spyrja má: Er Svanfríður Jónasdóttir málsvari hinnar „fínu blöndu“ í allri opinberri starfsemi? Vill hún, að ríki eða sveitarfélög stofni hlutafélög í samvinnu við einkaaðila um skóla til að bæta stöðu sína í samkeppni um starfsmenn? Á hin „fína blanda“ aðeins við, þegar OR/REI á í hlut? Eru góðir starfsmenn ekki eins mikils virði á öðrum sviðum?
Æskilegt væri, að Svanfríður svaraði þessari spurningu: Hvers vegna eiga opinberir aðilar að sinna verkefnum, sem einkaaðilar eru fullfærir um að vinna á framúrskarandi hátt?
Háskóli Íslands hefur lagað starfshætti sína að breyttu starfsumhverfi eftir að einkareknir háskólar komu til sögunnar. Þar á bæ hafa menn hins vegar ekki viljað, að háskólanum yrði breytt í hlutafélag með aðild einkaaðila. Vill Svanfríður Jónasdóttir að það verði gert til að hann geti tryggt sér besta fólkið?
Þegar ég hreyfði því fyrir skömmu, að hugsanlega gætu einkaaðilar komið að rekstri nýs fangelsis á höfuðborgarasvæðinu, hófust umræður um það, hvort slíkt fyrirtæki gæti krafist þyngri refsinga til að græða meira! Ríkið greiðir um 17.000 kr. vegna hvers fanga á dag og gert er ráð fyrir um 50 afplánunarrýmum í hinu nýja fangelsi. Þegar slíkar fjárhæðir eru í húfi, telja sumir opinberu fé illa varið með samvinnu við einkaaðila, af því að þeir kunni að græða of mikið eða jafnvel fara að segja dómurum fyrir verkum og krefja alþíngi um þyngri refsilög. Líklega eru milljarðir OR og REI of stórar fjárhæðir til að menn átti sig á því, hvaða áhætta felst í fjárfestingum á Filippseyjum eða í Indónesíu – fyrir utan hrunduð milljarðanna, sem útrásin á að gefa í aðra hönd.
Við vitum ekki enn, hvar borgarfulltrúar vinstr/grænna detta að lokum niður í umræðunum um OR og REI. Þeir réðust gegn leyndarhyggjunni á sínum tíma en eru kannski farnir að aðhyllast hana núna, að minnsta kosti talar Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri/grænna, miklu minna og á lægri nótum um málið en áður.
Ef marka má málflutning vinstri/grænna á alþingi er hvers konar hlutafélagarekstur hins opinbera , svo að ekki sé minnst á„fínu blönduna“ eitur í þeirra beinum. Eru vinstri/grænir í borgarstjórn Reykjavíkur annarrar skoðunar?
Fordæmi DV?
Fréttir herma, að DV hafi dregið sig út lesendakönnunum og mælingu á lestri, sem sýnir útbreiðslu blaða. Þetta er örugglega ekki gert vegna þess að DV hafi sprengt skalann vegna mikilla vinsælda. Hitt er líklegra, að eigendur og stjórnendur blaðsins vilji ekki láta sjást, hve lágt blaðið mælist.
Raunar er ástæða til að spyrja sig að því, hvers virði kannanir eru, sem byggjast á því, að þeir, sem verið er að kanna, geti einfaldlega hafnað þátttöku. Hvað segðu menn, ef stjórnmálaflokkur ákvæði, að hann vildi ekki vera með í Gallup-könnun? Hann bannaði einfaldlega, að um sig yrði spurt?
Mér finnst miður, að lestur DV skuli ekki mældur, því að í engum fjölmiðli er mín oftar getið um þessar mundir en einmitt í DV.
Tökum föstudaginn 9. nóvember sem dæmi:
Á blaðsíðu 16 er sagt frá því i ritstjórnardálknum Sandkorni, að Davíð Oddsson hafi rætt við Fréttablaðið og síðan segir: „Merkilegt þykir að hann hafi tekið það blað í sátt en Davíð og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafa gjarnan talað um Baugsmiðlana og ekki viljað hafa nema sem minnst saman við þá að sælda.“
DV hefði mátt láta þess getið, að síðastliðið vor veitti ég sjálfu DV ítarlegt viðtal, skömmu eftir að ég kom af sjúkrahúsi og ég leitast jafnan við að svara spurningum blaðamanna DV sendi þeir mér tölvupóst. Sömu sögu er að segja um samskipti mín við Fréttablaðið.
Á sömu síðu er rætt um meirihlutaskiptin í Reykjavík og þar segir:
„Hermt er að kátastur allra vegna vandræðagangsins sé Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem hrærir í pottum sundrungar án þess að Geir nái að skáka honum út af sviðinu. Geir á að vera ljóst að Björn án ráðherradóms yrði margfalt illvígari en nú.“
Hvergi hefur komið fram í úttektum fjölmiðla eða samtölum við borgarfulltrúa og aðra vegna meirihlutaskiptanna í Reykjavík, að ég hafi hlutast til um það mál. Að ég líti á það sem tilefni einhvers uppgjörs innan Sjálfstæðisflokksins er algjörlega úr lausu lofti gripið – teldi ég svo vera, hefði ég ekki legið á þeirri skoðun minni. DV skuldar mér og öðrum skýringu á því, hvers vegna blaðinu er svona mikið í mun að telja lesendum sínum trú um, að samstarf okkar Geirs H. Haarde sé ekki gott. Á það hefur engan skugga borið nema í hugarheimi Sandkornshöfundar DV. Að tengja nafn mitt uppgjöri innan borgarstjórnar á þann veg, sem gert er í hinum tilvitnuðu orðum, er hrein markleysa og af illum huga gert.
Á blaðsíðu 17 ritar Hreinn Loftsson hrl,, sem var til skamms tíma og er kannski enn stjórnarformaður útgáfufélags DV, grein um meint samsæri mitt og Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra, af því að Matthías, faðir Haraldar, var ritstjóri Morgunblaðsins með Styrmi Gunnarssyni, sem er óvinur Baugs númer eitt, tvö og þrjú eins og Jóhannes Jónsson, kaupmaður í Bónus, lýsti í grein í DV, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í síðustu viku. Nýjasta sönnun óvináttu Styrmis birtist í því, að Morgunblaðið birti nafnlaust bréf um Bónus.
Samsæriskenninguna byggir Hreinn á því, að ég hafi sem dómsmálaráðherra vitað um að lögreglan væri að leiða til lykta rannsókn í fíkniefnamáli, sem kennt hefur verið Fáskrúðsfjörð, þar sem reyndi á samstarf fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sérsveitar lögreglunnar, greiningardeildar, landhelgisgæslu og danska flotans. Að dómsmálaráðherra sé upplýstur um svo víðtæka samhæfingu við rannsókn sakamáls getur ekki þótt athugavert, nema annarleg sjónarmið ráði hjá þeim, sem um málið fjallar.
Á dögunum tók ég ákvörðun um að hafin skyldir landamæravarsla á innri Schengen-landamærum á Keflavíkurflugvelli vegna viðvarana frá greiningardeild lögreglunnar um ferðir félaga í Hell’s Angels.
Svo virðist sem Hreinn Loftsson tengi Fáskrúðsfjarðarsmyglið Baugsmálinu, af því að ég vissi um hina víðtæku samhæfingu vegna skútunnar til landsins? Hvað um landamæraeftirlitið vegna komu Hell’s Angels? Tengist það einnig Baugsmálinu að mati Hreins?
Á bls. 62 í DV 9. nóvember er síðan enn sagt frá því i Sandkorni, að ég hafi komið töskulaus frá Kaupmannahöfn til Brussel sl. miðvikudag.
Líklega eru þeir jafnfáir, sem sakna þess, að DV lætur ekki mæla lestur sinn og lesa blaðið. Í leiðara blaðsins var á dögunum býsnast yfir því, að Morgunblaðið hefði ekki sagt frá því, að í mælingu hefði ég mælst með minnstar vinsældir ráðherra. Hagur minn mundi kannski vænkast, ef DV skrifaði minna um mig? Það kynni einnig að auka útbreiðslu blaðsins? Hér mætti slá tvær flugur í einu höggi. Eða kannski er bara best fyrir mig að fara að fordæmi DV og banna að nafn mitt sé nefnt í mælingum af þessu tagi.