21.10.2007

Úttekt Ólafs Teits - „leiðangur“ Dags B.

Nýlega kom á markaðinn bókin Fjölmiðlar 2006 – Getur þú treyst þeim? eftir Ólaf Teit Guðnason, blaðamann á Viðskiptablaðinu, en bókin hefur að geyma greinar um fjölmiðla, sem birtust í blaðinu á árinu 2006. Áður hafa komið út sambærilegar bækur um árin 2004 og 2005.

Fyrir áhugamenn um íslenska fjölmiðlun er ómetanlegt, að greinar Ólafs Teits skuli koma í bók. Heildarmyndin, sem þar fæst, af efnistökum fjölmiðla auðveldar mat á metnaði þeirra og stefnu. Þá gefur það bókunum aukið gildi, að þar er að finna mannanafnaskrá, en með leit í henni er unnt að átta sig betur á því en ella, hvert viðhorfið er til einstakra manna, sem eru undir smásjá fjölmiðla vegna þátttöku í stjórnmálum, viðskiptalífi, menningarlífi og íþróttum, svo að nokkrir málaflokkar séu nefndir til sögunnar.

Á síðasta ári var Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV, ritstjóri Mannlífs. Á bls. 151 í bók Ólafs Teits er vísað til ummæla Reynis á vefsíðu Mannlífs um mánaðamótin apríl/maí um DV, sem Reynir lýsir þannig: „Vandi DV hins nýja hefur augljóslega verið að Baugur var stærsti eigandinn. Ekki vegna þess að Baugur fjarstýrði fréttum heldur vegna þess að stjórnendur fyrirtækisins hafa verið stöðugt fréttaefni og miðillinn sem engum mátti hlífa þagði gjarnan eða birti hlutlausar fréttir af gangi mála....Það má segja að blaðið hafi kafnað í kærleika Baugs.“

Guðbjörg Hildur Kolbeins, sem fylgst hefur náið með framvindu fjölmiðlastarfsemi Baugs, segir á vefsíðu sinni 15. október síðastliðinn:

„Reynir Traustason lét eitt sinn fleyg ummæli falla um Baug á vef Mannlífs. Hann hélt því fram að [DV] hefði „kafnað í kærleika Baugs“. Þetta var vorið 2006. Nokkrum mánuðum síðar var Reynir sjálfur kominn í kærleiksríkan faðm Baugs. Merkilegt er að ummælin eru hvergi að finna á vef Mannlífs þegar þeirra er leitað nú.

Annað sem vekur eftirtekt er að frétt undir heitinu „Rekinn í annað sinn“ sem skrifuð var í upphafi árs 2006 um brotthvarf Guðmundar Magnússonar frá Fréttablaðinu hefur verið fjarlægð af vef Mannlífs. Fyrirsögnin á greininni kemur upp en þegar smellt er á hana koma villuboð á skjáinn.

Reynir Traustason og Guðmundur Magnússon hafa báðir tjáð sig af gagnrýni um eignarhald Baugs á fjölmiðlum. Þessir sömu menn eru nú starfsmenn fjölmiðla sem eru í tæplega 90% eigu Baugs. Það er ekki laust við að það veki dálitla furðu að þeir skuli kæra sig um að vinna hjá DV og DV.is, en ekki síst að þeir skuli yfirleitt hafa verið ráðnir. Besta leiðin til að þagga niður í mönnum er greinilega að bjóða þeim vinnu. Það má síðan alltaf reyna að þurrka fyrri ummæli út og þykjast eins og þau hafi aldrei verið látin falla. Aut bibat aut abeat.“

Það gæti verið spennandi rannsóknarefni fyrir áhugamenn um efnistök fjölmiðla, að taka saman afstöðu DV til þeirra atburða, sem gerst hafa á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur undanfarnar vikur, eftir að upplýst var um ótrúleg vinnubrögð á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur og ég lýsti í síðasta pistli mínum.

Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri DV, ritaði leiðara í blaðið hinn 9. október, undir fyrirsögninni: Rúinn trausti. Þar sem hann ræðst af offorsi að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og skammar samherja hans í Sjálfstæðisflokknum með þessum orðum: „Frekar en að gera borgarstjóra ábyrgan var sú auma leið farin að verja hann út á við.“

Þessi lína réð þó ekki lengi á ritstjórn DV, því að hún dugði illa til að ala á úlfúð innan Sjálfstæðisflokksins. Nú ræður þar sú skoðun, að í raun hafi flokksbræður Vilhjálms Þ. snúist gegn honum með stuðningi sínum og þeim sé auk þess fjarstýrt. Þessi lygavefur er spunninn dag eftir dag í ýmsum myndum og til dæmis endurtekið, að efnt hafi verið til einhverra fundarhalda á heimili mínu, þótt ég hafi skýrt blaðamanni DV afdráttarlaust frá því, að orðrómur í þá veru eigi ekki við nein rök að styðjast.

Þegar bók Ólafs Teits Guðnasonar er lesin, sjá menn atburðina, sem hann lýsir úr nægilega mikilli fjarlægð, til að átta sig enn betur á því, en á þeim tíma, sem úttekt hans birtist, hve auðveldlega fjölmiðlamenn geta misstigið sig, ef þeir láta eigin skoðanir eða spunameistara afvegaleiða sig í stað þess að treysta á öruggar heimildir.

„Leiðangur“ Dags B.

Dagur B. Eggertsson, nýr borgarstjóri, notar orðið „leiðangur“ í tíma og ótíma, þegar hann ræðir um stjórnmál. Í orðabókinni er orðið leiðangur skýrt á þennan hátt: könnunarferð, rannsóknarferð * þeir sem taka þátt í slíkri ferð, þá hefur orðið einnig verið notað um hernað og herferð. Notkun Dags og annarra stjórnmálamanna á þessu orði hlýtur að eiga að lýsa einhverju öðru en verið sé að kanna eitthvað eða rannsaka.

 

Í stjórnmálum er mikilvægt, að kveðið sé skýrt að orði, svo að ekki verði misbrestur vegna þess, að ekki liggi ljóst fyrir, hvað er í boði eða hvert er stefnt. Átökin innan borgarstjórnar Reykjavíkur síðustu vikur eiga upptök sín í því, að kjörnir fulltrúar töldu, að mál væru ekki lögð fyrir þá á nægilega skýran og ótvíræðan hátt. Þeim mun meira, sem málið er rætt, því skýrara verður, að hér var um réttmæta gagnrýni að ræða.

 

Myndaður er nýr meirihluti, sem setur á laggirnar stýrihóp eða sérstaka rannsóknarnefnd um fortíð og þróun mála á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur, REI og GGE.  Þá kemur ný frétt: Sameining Geysis Green Energy og REI er frágengin og búið að skrifa undir samninga, segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy. Menn haldi sínu striki í samrunaferlinu. Stýrihópur borgarráðs breyti þar engu um!

 

Til samstarfsins er hins vegar stofnað án þess að kynnt sé nokkur stefnumál, og borgarstjóri lætur nægja að tala um „leiðangur“, það er könnunar- eða rannsóknarferð. Hann lætur engra markmiða getið heldur talar um „félagshyggju“ – en Ólafur heitinn Björnsson, prófessor við Háskóla Íslands, færði fyrir því skýr rök á sínum tíma, að þetta hugtak væri merkingarlaust og hefði helst gildi sem yfirbreiðsla yfir sósíalisma í einhverri mynd – þegar Tony Blair hóf forsætisráðherraferil sinn fyrir rúmum 10 árum var gjarnan talað um „þriðju leiðina“ til að lýsa stefnu hans og New Labour.

 

Hitt þarf ekki að undrast, að Dagur B. tali óljósum orðum um stjórnmál. Hann fór í rannsóknarferð inn í Samfylkinguna sem óflokksbundinn skjólstæðingur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þessi leiðangur hans leiddi að lokum til þess, að hann gerðist félagi í Samfylkingunni en þó með ákveðnum fyrirvörum. Spyrja má: Hverjar eru stjórnmálaskoðanir Dags B. Eggertssonar? Svarið er: Þær, sem duga honum best til að komast til áhrifa og valda.

 

Engum kemur á óvart, að Björn Ingi Hrafnsson og Margrét Sverrisdóttir fari í „leiðangur“ með Degi B. í því skyni að tryggja eigin áhrif og völd án tillits til stjórnmálaskoðana. Borgarfulltrúar vinstri/grænna létu þannig, þar til „leiðangur“ Dags B. hófst, að þeir hefðu skýra og afdráttarlausa stefnu í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar. Nú sannast, að vinstri/græn eru ekki annað en félagar í stefnulausum leiðangri undir fána félagshyggjunnar.