30.9.2007

Framsækni EFTA-dómstólsins - yfirþjóðlegur EES-samningur.

Í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga er athyglisverð grein eftir Carl Baudenbacker, forseta EFTA-dómstólsins,  þar sem hann ræðir niðurstöðu dómstólsins í máli Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur frá 10. desember 1998. Dómstóllinn taldi skaðabótaskyldu ríkja hluta af EES-samningnum. Um var að ræða beiðni um forúrskurð, sem borist hafði frá héraðsdómi Reykjavíkur. Baudenbacker segir, að hæstiréttur Íslands og hæstiréttur Noregs hafi viðurkennt niðurstöðu EFTA-dómstólsins í málinu.

 

Undir lok greinar sinnar segir Baudenbacker: „Í máli Erlu Maríu sagði íslenska ríkisstjórnin að ef sú staðreynd að skaðabótaábyrgð ríkja væri ekki fyrir hendi myndi hafa áhrif á einsleitni á EES-svæðinu, þyrfti að „útkljá málið eftir pólitískum og diplómatískum leiðum, líkt og gert er ráð fyrir í 105-111 gr. EES-samningsins (þ.e. ákvæðin um einsleitni og úrlausn ágreinings) en ekki hjá EFTA-dómstólnum.“ Rökin eru klassísk. Því er haldið fram að dómarar séu að taka sér vald löggjafans, án lýðræðislegrar heimildar, og að þeir ættu að halda sig innan sinna valdmarka, sem er – að því er sagt – einungis að beita lögunum og ekki að endurskrifa þau. Ella brjóta dómararnir, samkvæmt röksemdafærslunni, sem ekki hafa verið lýðræðislega kjörnir heldur skipaðir, gegn fullveldi samningsaðilanna. Hér verður að skoða fullveldishugtakið, sem beitt er í þessu samhengi, gaumgæfilega. Sumir halda því fram að fullveldisrökin séu notuð af hátt settum opinberum starfsmönnum innan ráðuneytanna, af stjórnmálamönnum og fulltrúum þrýstihópa á þingi, sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta. Þetta er í raun skiljanlegt, því ef dómur fetar þessa braut, gætu völd þessara aðila skerst. Þessi rök geta þó ekki gengið framar þörfinni fyrir að vernda réttindi einstaklinga og atvinnurekenda. Eins og Leif Sevón [fyrsti forseti EFTA-dómstólsins] hefur sagt, þá er markmið EES-samningsins ekki að vernda fullveldi EFTA-ríkjanna.“

 

Baudenbacker lýkur grein sinni á þessum orðum: „Það hvort nálgun dómstólsins kallist réttarsköpun dómstóla, framsækin túlkun, eða eitthvað annað, er einungis smekksatriði. Það sem máli skiptir er að dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins varðandi skaðabótaábyrgð ríkja hefur verið viðurkennd af öllum þeim er að málinu koma. Þeir eru jafnvel til sem segja að vegna dómaframkvæmdar EFTA-dómstólsins hafi lagalegt eðli EES-samningsins breyst. Samkvæmt því sjónarmiði hefur það sem upprunalega var talið vera þjóðréttarsamningur, breyst í samning sem hefur öll einkenni yfirþjóðlegs samnings. Í máli E-1/06 Eftirlitsstofnun EFTA gegn Noregi (hið svokallaða spilakassamál), féllst ríkisstjórn Noregs á þetta sjónarmið. Að mínu mati er ekki nauðsynlegt að svara spurningunni um hvort yfirþjóðleg einkenni hafi verið til staðar frá upphafi eða hvort þeim hafi verið bætt við samninginn af EFTA-dómstólnum. Aðalatriðið er að EES-samningurinn er í raun yfirþjóðlegur samningur.“ (Feitletrun mín, Bj. Bj.)

 

Í aðdraganda þess, að dr. Páll Hreinsson  var skipaður hæstaréttardómari átti ég orðastað við Staksteinahöfund Morgunblaðsins um svonefnda framsækna túlkun dómstóla, en henni er ágætlega lýst í fyrri tilvitnun minni í forseta EFTA-dómstólsins hér að ofan. Hann blæs á alla gagnrýni í þá veru, að dómarar séu að taka sér löggjafarvald. Þeir séu að vernda réttindi einstaklinga og atvinnurekenda, gagnrýnendurnir séu aðeins að gæta eigin valds og hagsmuna.

 

Í bók sinni Statecraft segir Margaret Thatcher, að það hafi verið mikil mistök að lögfesta mannréttindasáttamála Evrópu í Bretlandi, þar sem með því hafi dómurum verið fengið vald til að beita framsækinni túlkun og fara þannig inn á valdsvið stjórnmálamanna. Þessi túlkun geti kallað á það í Bretlandi, að stjórnmálamenn taki til við að skipa dómara eða eins og hún segir:

 

„Wether it is in the United States or in mainland Europe, written constitutions have one great weakness. This is that they contain the potential to have judges take decisions which should properly be made by democratically elected politicians. At the very least, the process creates uncertaubties about what effect of legislation will be. At worst, it can lead to judges exercising what amounts to sovereignty. As this point apporoaches, the pressure for the politicisation of justice become all but unstoppable. In the end, as in the United States, the politicians will demand the right to confirm or reject the judges who wield such huge power. Indeed, once a ceetain degree of politicisation of justice has been reached political confirmation becomes necessary, for it places some power back in the hands of the people’s representatives.“

 

Í viðræðum mínum í Tékklandi á dögunum heyrði ég, að þar í landi eru töluverðar umræður um famsækna túlkun dómara og hefur Vaclav Klaus, forseti Tékklands, gagnrýnt íhlutun dómara í löggjafarvaldið og varað við því, að dómstólaræði komi í stað lýðræðis.

 

Þetta er því lifandi umræðuefni víða, en eins og fram kemur hjá forseta EFTA-dómstólsins er enginn vafi í hans huga um rétt dómaranna á þessu sviði og er hann þar sama sinnis og dómarar við dómstól Evrópusambandsins og mannréttindadómstól Evrópu. Ég hef skipað mér í hóp þeirra, sem vara við þessari þróun.

 

Hitt er ekki síður umhugsunarvert í grein Baudenbachers, að EES-samningurinn sé yfirþjóðlegur í eðli sínu.

 

Þegar tekist var á um aðild að EES, var deilt um, hvort í aðildinni fælist viðurkenning á yfirþjóðlegu valdi. Almennt var sú skoðun ríkjandi, að um þjóðréttarsamning væri að ræða og þess vegna þyrfti ekki að breyta stjórnarskránni vegna aðildarinnar, sem hins vegar væri nauðsynlegt, ef Ísland gengi í Evrópusambandið.

 

Þróunin hefur orðið hin sama á grundvelli EES-samningsins og innan Evrópusambandsins, að dómarar taka sér vald til að mæla fyrir um inntak samstarfsins í nafni einsleitni og þar með jafnvel skipa málum á annan veg en ætlað var við upphaf samstarfsins.

 

Nýlega brást Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, illa við þeim orðum Gabriels Steins, efnahagsráðgjafa frá London, að Íslendingar skyldu ekki treysta neinum undanþágum í sjávarútvegsmálum við aðild að ESB, þar sem dómstóll ESB kynni síðar afnema þær í nafni jafnræðis eða einsleitni. Ég taldi Andrés fara rangt með efni skýrslu Evrópunefndar máli sínu til stuðnings.

 

Hinn 19. september sl. vitnar Andrés í Morgunblaðs-grein síðan í álit tveggja Samfylkingarmanna í nefndinni máli sínu til stuðnings en alls voru nefndarmenn níu. Grein sinni lýkur Andrés með þessum orðum:

 

„Það er merkilegt að dómsmálaráðherra skuli reyna að verja þennan veika málflutning Gabriel Stein. Í mínum huga er það ekki aðalatriðið hvort skýrslan skeri úr því lagatæknilega í eitt skipti fyrir öll hvort Spánverjar eða aðrir gætu kært rétt íslenskra fiskiskipa á veiðum í íslenskri lögsögu heldur hvort staðhæfing Stein um stórsókn erlendra fiskiskipa inn á íslensk fiskimið yrði að veruleika. Auðvitað gætu þeir kært þetta til dómstólsins en staðreyndin er sú að aðildarsamningar hafa sömu réttarstöðu og aðildarsamningar [svo!] og fáir lögmenn myndu reyna slíka lögsókn. Danska ákvæðið um einkrétt Dana á sumarbústaðalandi í Danmörku stenst enn eftir 35 ár og hefur Evrópudómstóllinn ekki hnekkt því ákvæði.“

 

Evrópunefndin ræðir sérlausnir í skýrslu sinni og þar sést, að þessi undanþága Dana vegna sumarhúsanna hefur sérstöðu. Almenna reglan er, að ríki gangast undir allar skuldbindingar samkvæmt sáttmálum ESB. Nú á tímum er leitast við að leysa úr vandkvæðum með tímabundnum sérlausnum en með framsækinni túlkun eða hefðbundinni túlkun getur ESB-dómstóllinn að sjálfsögðu komist að niðurstöðu um gildi slíkra sérlausna eins og annað.

 

Í skýrslu Evrópunefndar er einnig rætt um stuttlega um EES, Schengen, ESB og fullveldi og komist að þessari meginniðurstöðu:

 

„Með vísan til þess sem hér er sagt er ljóst að lögfræðingar telja að þeir samningar sem gerðir hafa verið til þessa við Evrópusambandið, EES-samningurinn og Schengen-samningurinn, standist stjórnarskrána. Þá hefur verið kynnt regla, sem er einskonar lögfræðilegur kvarði við mat á því hve langt er unnt að ganga innan marka stjórnarskrárinnar.

 

Allir stjórnmálaflokkar eru sammála um að aðild Íslands að ESB sé þess eðlis að hún kalli á breytingar á stjórnarskrá. Setja þyrfti ákvæði í stjórnarskrá sem heimilaði framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana áður en aðild að ESB gæti tekið gildi.“

 

Í ljósi hinnar afdráttarlausu niðurstöðu forseta EFTA-dómstólsins um yfirþjóðlegt gildi EES-samningsins er óhjákvæmilegt að halda umræðum um inntak stjórnarskrárákvæðanna vakandi og taka af skarið á fortakslausan hátt um heimildina til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, sem verður sífellt meira og víðtækara.