22.9.2007

Fíkniefnafundur á Fáskrúðsfirði - ESB umbrot - ESB spuni.

Fíkniefnafundurinn á Fáskrúðsfirði 20. september er ekki upphaf endaloka smygls á þessum ófögnuði til landsins. Engum er það betur ljóst en þeim, sem vinna að því að framfylgja lögum á þessu sviði. Á hinn bóginn er fráleitt og beinlínis ómaklegt að gera lítið úr þeim árangri, sem þarna náðist, af því að aðrir eigi eftir að sigla í kjölfar smyglaraskútunnar. Þeir eiga vonandi einnig eftir að lenda undir manna höndum.

Nýlega var ég á fundi með Þórarni Tyrfingssyni, yfirlækni á Vogi, hjá félagsskapnum Heiðursmönnum, sem stendur á bakvið SÁÁ og veitir samtökunum ómetanlegan stuðning. Þórarinn flutti ræðu og sagði, að neysla fíkniefna væri að vaxa eftir lægð fyrir fáeinum árum. Ég sagði þetta koma heim og saman við skoðun mína eftir viðræður við lögregluna á grundvelli athugana hennar. Spurning væri, hvort fíkniefnasölum hefði tekist á ná forskoti gagnvart tolli og lögreglu.

Ég sagði rangt að líta þannig á, að breytingar á lögreglunni undanfarin misseri, byggðust alfarið á því, að Íslendingar stæðu frammi fyrir ógn af hryðjuverkum. Ég hefði hafið umræður um þessi mál á þann veg á vettvangi lögreglunnar, að setja ætti hryðjuverkamenn og fíkniefnasala í sama dilk. Rannsóknir sýndu, að hryðjuverkamenn hefðu lært að skipuleggja sig af fíkniefnasölum – það er að byggja upp marga hópa og gæta þess að slá þannig skjaldborg um höfuðpaurinn eða höfuðpaurana, svo að aldrei næðist til þeirra.

Þetta er í raun hið hefðbundna mafíu-skipulag, þar sem fótgönguliðum er miskunnarlaust fórnað, svo að höfuðpaurarnir geti notið frelsis. Til að brjóta þetta skipulag á bak aftur þarf lögregla á Íslandi að beita nýjum og óhefðbundnum aðgerðum. Skipulagsbreytingar á löggæslu undanfarin misseri hafa tekið mið af þessu, þær miðast við hvers konar skipulagða glæpastarfsemi og fíkniefnafundurinn á Fáskrúðsfirði sýnir árangurinn af því að stilla strengi saman á nýjan hátt bæði heima og erlendis.

Í aðgerðinni var ekki aðeins byggt á íslenskum lögreglumönnum heldur var náið samstarf við aðrar þjóðir fyrir milligöngu Europol, Evrópulögreglunnar. Þá létu færeysk lögregluyfivöld að sér kveða og danski flotinn lagði til herskipið Triton en varðskipið Ægir tók við af því, þegar skútan Polstar nálgaðist Ísland. Þetta eftirlit á hafi var nauðsynlegt til að sjá til þess, að ekki tækist að lauma fíkniefnum óséð í aðra báta. 

Íslenska strandlengjan verður aldrei vöktuð á þann hátt, að ekki takist á einn eða annan veg að laumast þar í land. Auðvitað er unnt að draga úr líkum á því með auknu rafrænu eftirliti með ratsjám eða gervitunglum.

Strandgæsla til að útiloka ólögmæta landtöku er ekkert einfalt mál eins og best sannast á Miðjarðarhafi, þar sem ekki tekst að hefta straum ólögmætra innflytjenda frá Líbýu til ítölsku eyjarinnar Lampedusa eða til Möltu, svo að dæmi séu tekin. Nú á þessu ári hefur nýr straumur myndast frá Alsír til Sardiníu, en talið er, að þeir, sem þá leið fara, vilji komast til Frakklands.

Ólöglegum innflytjendum til Kanaríeyja frá Afríku hefur fækkað á þessu ári, eftir að samstarf tókst milli spænskra stjórrnvalda og stjórnvalda í strandríkjum Afríku næst eyjunum.

Frönsk stjórnvöld telja, að unnt sé að herða enn aðgerðir á Miðjarðarhafi með öflugum ratsjám og er ekki ólíklegt, að ráðist verði í umbætur á því sviði, þótt mestu sé talið skipta að leita upphafs vandans, sem er fyrir sunnan Norður-Afríkulöndin, þar sem allt logar í vandræðum. Auk þess verði ríki að fylgja brottvísunarreglum af meiri þunga.

Norðmenn og Kanadamenn eru í samstarfi við Kongsberg fyrirtækið norska, sem er með þeim fremstu í heimi í hönnun og smíði búnaðar fyrir ratsjáeftirliti, neðansjávareftirliti, loftvarnareftirliti, loftvarnarflaugakerfi sjávareftirlit, strandeftirlit og svo hugbúnað og stjórnkerfi fyrir allan þennan búnað.

Snýst þetta samstarf Norðmanna og Kanadamanna um eftirlitskerfi úr gervihnöttum, sem þýðir að allur hafflöturinn verði undir stöðugu eftirliti öllum stundum.

Er sjálfsagt fyrir okkur Íslendinga eins og aðrar þjóðir að fylgjast náið með því, sem þarna er að gerast. Hitt er síðan sérstakt athugunarefni, hvort nýta má búnað ratsjárstofnunar til að fylgjast með því, sem gerist á haffletinum og rétt fyrir ofan hann umhverfis landið. Er eðlilegt að þetta sé á einni hendi, en þannig má ná mikilli hagræðingu í rekstri og samnýtingu á samskiptaleiðum, tæknimönnum og starfsaðstöðu.

Tæknin er sífellt að þróast og auðvelda stöðugt eftirlit nær og fjær. Hún er hins vegar til lítils gagns, sé ekki fyrir hendi þekking til að vega og meta upplýsingar eða beina upplýsingaöflun í markvissa átt og samhæfa krafta í sama skyni. Á þennan stefnu- og forystuþátt reyndi hjá lögreglu í marga mánuði, áður en kom að atburðunum í Fáskrúðsfjarðarhöfn 20. september.

Á fundinum með Heiðursmðnnum SÁÁ var ég ekki var við annað en þeir og Þórarinn Tryfingsson væru hlynntir þvi, að lögregla léti verulega að sér kveða í baráttu gegn fíkniefnasölum. Raunar töldu sumir fyrirspyrjenda ekki nóg að gert við löggæslu og auka þyrfti heimildir lögreglu. Þórarinn andmælti því ekki og skoða ég yfirlýsingar hans um fíkniefnafundinn á Fáskrúðsfirði í því ljósi – að sjálfsögðu eigi að taka á fíkniefnasölum en sigur vinnist ekki í einu áhlaupi og fleiri þurfi að koma að málum en lögregla.

Á andriki.is er látið eins og það skipti í raun litlu, að allt þetta fíkniefnamagn hafi verið gert upptækt á Fáskrúðsfirði og þeim sérkennilega málstað til stuðnings er vitnað í leiðara Jóns Kaldals í Fréttablaðinu. Vangaveltur af þessum toga minna á frásagnir af hjali hefðarfólks um heim, sem versnandi fer, en við því sé í raun ekkert að gera og þess vegna sé best að búa enn betur um sig í einangrun hefðarsetranna og halda áfram að hafa nóg að gera við að gera ekki neitt.

 

ESB-umbrot.

 

Næstu vikur verða átakadagar innan Evrópusambandsins (ESB), þegar leitað verður lokasamkomulags um nýjan stofnsamning þess í stað þess að setja sambandinu nýja stjórnarskrá eins ætlunin var árið 2005, þar til Frakkar og Hollendingar felldu hana í þjóðaratkvæðagreiðslum.

Í vikunni átti ég þess kost að hitta sérfræðinga í málefnum ESB og ræða um áhrif hins nýja stofnsamnings á samstarf ríkjanna á sviði dóms- og lögreglumála, sem einnig snertir samstarf okkar Íslendinga við ESB vegna Schengen-aðildarinnar.

Af þessum viðræðum dreg ég á ályktun, að ekki sé enn ljóst, hvernig staðið skuli að því að færa fleiri þætti þeirra undir meirihlutaákvarðanir, úr svonefndri þriðju stoð ESB í fyrstu stoð,  það er frá því að vera samningsmál milli sjálfstæðra ríkja yfir í að lúta yfirþjóðlegu valdi. Þótt margir málsvarar ESB telji þjóðríkið tímaskekkju, er viðkvæmt mál alls staðar að svipta þjóðþing valdi til að setja þjóð refsilöggjöf og færa valdið til þess til framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Yrðu öll mál undir þriðju stoð færð undir hina fyrstu, mundi það gerast.

Allir eru sammála um, að ekki verði hreint borð á þessu sviði. Hvorki muni takast að ná samkomulagi um, að öll mál þriðju stoðar verði færð undir hina fyrstu, né, að öll ríki samþykki, að takmarkaður fjöldi þriðju stoðar mála verði fluttur undir fyrstu stoð.

Niðurstaðan verður á þann veg, að sum mál verða flutt og sum ESB-ríki verða utan þessa flutnings að einhverju leyti. Í raun er betur að skýrast sú hugmynd, að ESB verði samband ríkja, sem eiga mismunandi mikið samstarf og á mismunandi hraða. Eftir að samkomulag tókst um einn innri markað, sem Ísland á aðild að í gegnum EES-samninginn, nálgast ESB-ríkin önnur viðfangsefni án sömu kröfu um einsleitni. Ekki hafa öll ESB-ríki tekið upp evruna, ekki eiga öll ESB-ríki aðild að Schengen og ekki eiga öll ESB-ríki sömu aðild að samstarfi á sviði lögreglu- og dómsmála.

Ætlunin er, að þessi skipan verði staðfest í hínum nýja stofnsamningi og raunar er hún leiðin til þess, að samkomulag náist um samninginn hinn 18. október, eins og að er stefnt. Með þessum hætti er unnið að því að útiloka, að samningurinn verði borinn undir þjóðaratkvæði í einhverju aðildarlandanna utan Írlandx, þar sem það er stjórnarskrárskylda.

Í Bretlandi gætir vaxandi þunga í kröfum þeirra, sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu þar. Gordon Brown forsætisráðherra snýst vafalaust gegn þeim kröfum á þingi Verkamannaflokksins næstu daga en hann notar einnig óskirnar um þjóðaraatkvæðagreiðslu sem grýlu gagnvart ESB, þegar hann krefst þar sérstöðu fyrir Breta. Danir hafa skapað sér sérstöðu í lögreglu- og dómsmálasamstarfinu og þurfa að þræða þröngt einstigi til að halda sig frá þjóðaratkvæðagreiðslu. Því er hins vegar spáð af sumum, að eftir næstu þingkosningar í Danmörku, snemma á næsta ári, verði að nýju gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku um upptöku evru og afnám fyrirvaranna gagnvart ESB - den tid, den sorg.

Mér þótti merkilegt að verða þess var í viðræðum við stjórnmálamenn í Prag í vikunni, að enn hefur ekki verið tekið af skarið um, hvort efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-stofnsamninginn í Tékklandi. Vaclav Klaus, forseti Tékklands, getur ákveðið, hvort þjóðin verði spurð um þetta. Klaus kallar sig „evruraunsæismann“, hann sé ekki blindaður af ágæti ESB heldur taki raunsæja afstöðu til einstakra álitaefna. Evruraunsæismaður er annað en að vera evruskeptískur, þeir menn eru með meiri fyrirvara gagnvart ESB en raunsæismennirnir.

Tékkar ræða nú samstarf við Bandaríkjamenn um eldflaugavarnakerfi og sósíal-demókratar í stjórnarandstöðu heimta þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og þess vegna er spurningin um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-stofnsamninginn ekki ofarlega á dagskrá. Að bera ákvarðanir um öryggisgæslu þjóðar undir þjóðaratkvæði er fráleitt, því að með þeirri aðferð er óvinum þjóðarinnar gefið tækifæri til að hlutast til um innanríkismál hagsmunum sínum til framdráttar. Allt annað og brýnna er að bera undir þjóðir, hvort þær vilji gerast aðilar að þjóðaheild með því að afhenda sameiginlegum stofnunum og embættismönnum þeirra vald til að ráðskast með hefðbundin innri mál eins og inntak refsiréttar.

 

ESB-spuni.

Í nýjasta hefti Þjóðmála skrifa ég grein um evruna og segi hana ekki lengur gulrót fyrir ESB-aðild, þar sem unnt sé að taka hana upp einhliða að mati ýmissa sérfróðra manna, þótt aðrir séu annarrar skoðunar.

Ég lít á þessa grein sem lið í umræðum um Evrópumál, en undan skorti á henni eru Evrópusinnar á Íslandi alltaf að kvarta. Á hinn bóginn sannast enn í viðbrögðum við þessari grein, hve erfitt er að skiptast á skoðunum um ESB-mál með rökræðum. Ef ekki eru reknir upp kveinstafir yfir skoðunum þeirra, sem ekki sjá Evrópuljósið, er leitast við að gera lítið úr efnislegum málflutningi.

Þannig segir Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, í hinum einsýna töluvpósti, sem hann sendir ESB-málstaðnum væntanlega til stuðnings, að í Þjóðmála-greininni sé ég í „klemmu“. Hvers vegna skyldi ég vera það? Jú, vegna þess að það er gefið til kynna í einhverjum ritstjórnardálki í Blaðinu. Hvers vegna skyldi Andrés ekki birta lesendum sínum efni greinar minnar? Er það ekki meira framlag til umræðunnar en ESB-spuni af þessum toga?

Egill Helgason grípur einnig til spuna í útlistun sinni á þessari hugleiðingu minni. Hann kennir hana við heimasmíðað en torskilið hugtak sitt valgerðarisma. Hugtakið er væntanlega framlag til málefnalegra umræðna um ESB en hlýtur að fara fyrir ofan garð og neðan hjá fleirum en mér. Valgerður Sverrsidóttir hefur talað um ESB og Ísland í hálfkveðnum vísum. Telur Egill það svo marktækt framlag til umræðunnar, að sérstakur ismi hafi fæðst?