8.9.2007

Fólkið og ESB - Rússaflug.

Yfirlit

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna koma saman um þessa helgi í Portúgal til að ræða um breytingar á stofnsáttmálum Evrópusambandsins (ESB) í samræmi við niðurstöður leiðtogafundar ESB-ríkjanna í Brussel í júní sl. Ætlunin er að breyta stofnunum og skipulagi ESB, án þess að bera þurfi ákvarðanir um breytingarnar undir þjóðir ríkjanna í atkvæðagreiðslu.

Kristján Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, ræddi á dögunum við Hollendinginn Pierre Mathijsen, prófessor við Frjálsa háskólann í Brussel. Hann starfaði árum saman hjá Evrópusambandinu, m.a. sem skrifstofustjóri hjá framkvæmdastjórninni. Mathijsen flutti fyrirlestur á hádegisfundi Háskólans í Reykjavík miðvikudaginn 5. september um væntanlegan stofnsamning ESB og áhrif hans á samstarf Íslands og sambandsins. Birtist viðtalið við hann í Morgunblaðinu 5. september.

Mathijsen sagði ljóst, að nýi samningurinn gæti skipt máli fyrir stöðu Íslands í samstarfinu á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, án þess hann lýsti þó frekar í viðtalinu, hvernig þetta gæti skipt máli. Kristján spurði Mathijsen, hvort Íslendingar gætu fengið undanþágur frá sjávarútvegsstefnu ESB, ef þeir gerðust ESB-aðilar. Mathijsen sagðist kenna, að engin regla væri án undatekninga. En yrði hún varanleg? spyr Kristján og svarið er: „Er til nokkuð eilíft í lífinu? En þið gætuð samið, fengið undanþágu og séð síðan til.“ Minnast má þess sem annar sérfræðingur um ESB sagði á dögunum, Gabriel Stein: Þið kunnið að fá undanþágu en síðan kemur ESB-dómstóllinn og afnemur hana í krafti jafnræðisreglu.

Kristján spyr Mathijsen um afstöðu kjósenda ESB, þarf ekki að spyrja þá álits á nýja stofnsamningnum? Prófessorinn svarar:

„Ég skal segja þér það strax að hollenskir kjósendur höfnuðu ekki stjórnarskránni, þeir höfnuðu ríkisstjórn sinni og sama átti við um Frakka. Þeir vissu ekki hvað stóð í stjórnarskránni, þeim var sama hvað stóð í henni. Þetta var alltof flókið, ég veit ekki hvort margir lásu hana, þetta var afar flókið, í nokkrum hlutum og fullt af lagalega tæknimáli.

Og hollenska stjórnin útskýrði málið ekki fyrir þjóðinni. Það hefði hún átt að gera en sennilega hafa þeir reiknað með að fólk gerði það sem ráðamenn mæltu með. En almenningur var á móti stjórninni og á móti því að Hollendingar skyldu borga meira í sameiginlega sjóði ESB en nokkur önnur þjóð miðað við höfðatölu. Margir urðu ævareiðir þegar þeim var bent á það rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Ég var í París í vikunni fyrir atkvæðagreiðsluna 2005. Ég tók leigubíl frá Gare du Nord brautarstöðinni og bílstjórinn var fokvondur vegna þess að hann hafði fengið sekt fyrir umferðarlagabrot. „Þess vegna ætla ég að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni,“ sagði hann. Það er nákvæmlega þetta sem gerðist, hundruð þúsunda, milljónir manna voru brjálaðar vegna þess að skattarnir voru of háir, brjálaðar út af einhverju og sögðu þess vegna nei.

Þess vegna biðjum við núna um að ekki verði nein þjóðaratkvæðagreiðsla, hvergi. Við viljum enga þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í þessum orðum prófessorsins birtist hin dæmigerða afstaða Brussel-valdamanna. Viðfangsefni okkar er svo flókið og merkilegt, að það er borin von, að almenningur geti áttað sig á mikilvægi þess. Hann getur ekki myndað sér skoðun á því vegna þekkingar- og skilningsleysis. Ef kjósendur segja nei, eru þeir hvort sem er að kjósa um eitthvað annað! Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópusérfræðingur Háskólans á Bifröst, ritaði bókina Opið land um nauðsyn þess, að Ísland gengi í ESB og byggði niðurstöðu sína meðal annars á samtali við leigubílstjóra. Prófessor Mathijsen byggir afstöðu sína á sambærilegri heimild og ályktar af henni um meirihluta franskra kjósenda.

„Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, hefur sagt að orðalag tillagnanna sé af ásettu ráði loðið til þess að hægt verði að ná því fram sem ráðamenn vilja en margir kjósendur tortryggja,“ segir Kristján Jónsson og spyr: „Eru ráðamenn ESB hræddir við kjósendur sína?“ og svarið endurspeglar enn vantrú á þekkingu almennings:

„Þetta er svo flókið mál að það er ekki hægt að láta almenning kjósa um þetta. Til hvers höfum við þing? Það er vegna þess að við viljum að fulltrúarnir taki ákvarðanir í nafni okkar. Hvers vegna ættum við ekki að treysta þessum fulltrúum til að taka ákvarðanir um stjórnarskrá eða nýja samninginn? Hvað gerum við ráð fyrir að fólkið á götunni, bændur, verkamenn, segi um stjórnarskrártillögur, öll smáatriðin, grein þetta, undirgrein hitt? Hvað tóku margir þátt í að semja bandarísku stjórnarskrána? Nokkrir tugir manna.“

Fréttir af leiðtogafundi Evrópusambandsríkjanna báru með sér, að þar hefðu menn sammælst um, að ekki yrði þjóðaratkvæðagreiðsla í neinu landanna, nema Írlandi, þar sem stjórnarskráin krefst þess. Einkum vildu menn tryggja, að Bretar tækju ekki upp á því að kjósa um hinn nýja samning. Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, býr hins vegar við vaxandi þrýsting þeirra, sem krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samkvæmt fréttum eru allt að 120 þingmenn Verkamannaflokksins þeirrar skoðunar, að flokkurinn geti ekki skorast undan því að fallast á kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu og er David Blunkett, fyrrverandi innanríkisráðherra, talinn vera í þeirra hópi og einnig Keith Vaz, fyrrverandi Evrópuráðherra. Málsvarar þessa sjónarmiðs segja, að þetta snúist um traust, þingmenn hafi boðið sig fram undir þeim merkjum, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á Evrópusambandinu og þetta traust verði fyrir hnekki, ef menn hverfi frá þessu fyrirheiti, af því að hætt sé að kenna breytingarnar við stjórnarskrá ESB og kalla þær eitthvað annað, þótt í raun snúist málið efnislega um hið sama og áður.

Þingmenn breska Íhaldsflokksins, 195 að tölu, vilja þjóðaratkvæðagreiðslu. Séu þingmenn í neðri deild breska þingsins taldir, sést, að um helmingur þeirra vill bera málið undir þjóðina. Það verður erfitt fyrir Gordon Brown að standast þennan þrýsting. Hann heldur við það, sem gerðist á leiðtogafundinum, þegar Tony Blair sagði, að hann hefði náð öllum kröfum Breta fram, þess vegna þyrfti ekki að kjósa, yrði hins vegar farið yfir rauð strik Breta, kynni staðan að breytast. Á þessi rauðu strik mun reyna við útfærslu á samþykktum leiðtogafundarins næstu mánuði. Breska stjórnin mun segja: Ef þið farið ekki að okkar vilja, verður þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi! Hótunin er ógnvekjandi frá sjónarhóli þeirra, sem telja fólkið aldrei geta skilið ákvarðanir Brussel-valdsins í þágu þess, auk þess sem allar kannanir sýna, að meirihluta Breta þykir nóg um þetta vald, hvað sem öllu öðru líður.

Rússaflug.

Að morgni fimmtudags 6. september flugu 8 rússneskar Bear-sprengjuvélar á alþjóðlegri flugleið suður Noregshafs og inn á Norður-Atlantshaf, norskar F-16 orrustuþotur og breskar Tornado-orrustuþotur flugu að Bear-vélunum og fylgdust með þeim. Í tilefni af þessu birtist eftirfarandi frétt í 22 fréttum sjónvarpsins þennan dag:

„Íslendingar ættu að venja sig við flugferðir rússneskra herflugvéla í nánd við landið segir sendiherra Rússlands hér á landi og segir rangt að búa til einhvern æsing úr ferðunum.

Engin svör fengust hjá rússneska sendiráðinu í dag þegar fréttastofan leitaði þar upplýsinga um ferðir rússnesku sprengjuvélanna sem flugu nærri landi í morgun. En Victor Tatarintsev, sendiherra Rússlands á Íslandi, var með opinn fund hér í MÍR-salnum í kvöld og það var hér sem við náðum honum og spurðum spurninga.

Victor Ivanovich Tatarintsev: Þið ættuð að venja ykkur við flug sem þessi eins og ég hef áður látið liggja að í viðtölum því Pútin forseti sagði um miðjan ágúst að sprengjuárásarflugvélar okkar munu fljúga reglulega inn á hlutlaus flugumferðarsvæði en ekki fara inn í lofthelgi annarra þjóða. Þetta er því ekkert stórmál og óþarfi að blása það út.

Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður: En íslensk yfirvöld báðu um það í ágúst að rússnesk hernaðaryfirvöld létu flugumferðarstjórn vita þegar rússneskar flugvélar færu inn á stjórnsvæði íslenskra flugumferðarstjóra. Samt var ekki látið vita nú; er einhver sérstök ástæða fyrir því?

Victor Ivanovich Tatarintsev: Ég get aðeins sagt þér að ekkert ákvæði í alþjóðalögum kveður á um að erlent ríki skuli tilkynna fyrirfram um flug véla sinna inn á alþjóðleg og hlutlaus flugumferðarsvæði. Ég tel ekki að þið þurfið að blása þetta svona út.

Ingólfur Bjarni: En ef íslensk yfirvöld hafa krafist væri það ekki í anda góðra grannasamskipta að tilkynna þeim það?

Victor Ivanovich Tatarintsev: Við höfum fengið formlega kröfu frá íslenskum yfirvöldum um það og við bíðum enn svars frá Moskvu. Um leið og það berst læt ég íslensk yfirvöld vita af því.““

Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, hitti rússneska sendiherrann á fundi föstudaginn 7. september og var skýrt frá því eftir hann, að þeir ætluðu að hittast aftur til að ræða málið. Sendiherrann hefur greinilega ekki verið búinn að fá svarið frá Moskvu, þegar þeir hittust.

Í svarinu mun kannski koma fram svar við þeirri spurningu, hvers vegna við Íslendingar eigum að venja okkur við ferðir þessara sprengjuflugvéla í nágrenni lands okkar – á dögunum flugu þær umhverfis landið. Hvaða rök eru fyrir þeirri skoðun, að Íslendingar skuli bara venja sig við þetta?

Michael McFaul, við Hoover-stofnunina og prófessor í stjórnmálafræði við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, ritaði hinn 2. september grein í The Los Angeles Times undir fyrirsögninni:  New Russia, new threat Working with the West is no longer the goal as the Kremlin flexes its muscle and rethinks its role in the world. (Nýtt Rússland, ný ógn – það er ekki lengur markmið Kremlverja að eiga samstarf við Vesturlönd, þegar þeir hnykla vöðvana og endurmeta hlutverk sitt í heiminum.)

McFaul nefnir einmitt flug Bear-vélanna eftir 15 ára hlé, sem skýrt dæmi um þessa nýju ógn og þau orð Pútíns, sem rússneski sendiherrann sagði okkur Íslendingum að hafa í huga. McFaul segir: „Er kalda stríðið að laumast til baka? Nei, sem betur fer. Ættu Bandaríkjamenn að hafa áhyggjur af hinni nýju rússnesku ógn? Já.“ Og síðar í grein sinni segir hann:

„Nú er samhæfing gagnvart Vesturlöndum ekki lengur markmið rússneskrar utanríkisstefnu. Pútín kýs þess í stað að stilla afli sínu og annarra þjóða andspænis afli Vesturlanda og þó sérstaklega Bandaríkjanna. Flug langdrægra sprengjuflugvéla, sameiginlegar heræfingar með öðrum ríkjum og ógn í garð bandamanna Bandaríkjanna eins og Georgíu er til marks um grundvallarbreytingu á afstöðu Kremlverja til heimsmála og gefur vísbendingu um nýjan vilja til að ógna áhrifum Bandaríkjanna.“