1.9.2007

Vinstri græn - framsókn - ekkert kaffibandalag.

Þegar 100 dagar eru liðnir, frá því að ríkisstjórnin var mynduð nýtu hún stuðnings um 80% kjósenda samkvæmt mælingu Capacent Gallup í ágúst. Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist tæplega 42%, Samfylkingin nær 29% , Vinstrihreyfingin-grænt framboð nálægt 16%. Framsóknarflokkurinn fær naumlega 9%, Frjálslyndir fá 4% og Íslandshreyfingin-lifandi land rúmlega 1%.

Fylgistölur ríkisstjórnarinnar eru háar á alla pólitíska mælikvarða, hvort heldur innlenda eða erlenda. Í þeim felst traust og væntingar til þeirra, sem fara nú með póltíska forystu í landinu.

Sama dag og tölurnar eru birtar heyrist, að stjórnarandstaðan sé að kalla lið sitt saman og búa sig undir stjórnmálastarf vetrarins.

Vinstri græn.

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) kom saman á Flúðum 31. ágúst. Steingrímur J. Sigfússon flokksformaður taldi að aðeins VG gæti tekið að sér það „margþætta hlutverk að vera höfuðandstæðingur og mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn,“ eins og segir í frétt Morgunblaðsins af fundinum. Samfylkingin hefði nú afsalað sér því hlutverki og markaði það pólitísk tímamót. Samfylkinguna hefði skort úthald og kjark til að takast á við Sjálfstæðisflokkinn með því að bjóða sig fram sem hinn kostinn. Við myndun ríkisstjórnarinnar hefði Samfylkingin lýst „hugmyndafræðilegri uppgjöf“ sinni. Framsóknarflokkurinn væri „tærður upp af sambúðinni við íhaldið“ og frjálslyndir væru vitlausu megin við stjórnmálamiðjuna og gætu þess vegna ekki veitt aðhald frá vinstri: VG væri því eini trúverðugi andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, en flokknum væri furðu lagið að fá „nytsama sakleysingja“ [þekkt hugtak úr baráttubók kommúnista] til „að framkvæma stefnu sína.“

Steingrímur J. sagð sér „ekkert feimnisatriði“ að ræða úrslit kosninganna en vonbrigða hefði orðið vart innan VG vegna þess, að fylgið varð ekki eins mikið og kannanir spáðu og þess vegna ekki vinstri umskipti í stjórn landsins. Í Morgunblaðinu segir: „Steingrímur sagði ýmsa hafa sagt í kjölfar myndunar stjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að VG og ekki síst hann sjálfur hefði klúðrað því að flokkurinn kæmist í stjórn. „Jafnvel að tilvist núverandi ríkisstjórnar sé einhvers konar afleiðing af þessu meinta klúðri okkar.“ Kvaðst Steingrímur hins vegar telja að fyrst ríkisstjórnin féll ekki í kosningunum, þótt aðeins hársbreidd munaði, væri ekkert sem VG hefði getað gert til að breyta því að stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði mynduð. Sterk öfl í báðum flokkum hafi verið búin að vinna að því ötullega á bak við tjöldin að það stjórnarsamstarf yrði að veruleika.“

Í Staksteinum Morgunblaðsins 1. september er lagt út af ræðu Steingríms J. á þennan hátt:

„Texti ræðunnar sýnir að formaðurinn sjálfur hefur ekki sannfæringu fyrir því, sem hann er að segja. Verst af öllu er þó, að hann hefur ekkert nýtt fram að færa. Hann vísar VG ekki leiðina fram á við. Hann bregður ekki upp neinni framtíðarsýn fyrir flokk sinn.“

Þetta er ekki góð einkunn fyrir Steingrím J. í upphafi nýrrar lotu í stjórnmálastarfinu, Steingrím J., sem í allan fyrra vetur sigldi góðan byr samkvæmt könnununum en „toppaði“ á röngum tíma, þegar litið er til kosningaúrslitanna og virtist síðan um megn að vinna úr stöðunni til hagsbóta fyrir flokk sinn og situr nú uppi með þann dóm að hafa enga framtíðarsýn.

Forysta VG hélt einstaklega illa á málum fyrstu sólarhringa eftir kosningar og það stenst einfaldlega ekki, að „sterk öfl“ innan Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi unnið „að því ötullega á bak við tjöldin“ að mynda ríkisstjórn. Með þessum orðum er Steingrímur J. að blekkja sjálfan sig og eigin flokksmenn. Forysta VG hefur einfaldlega ekki burði eða vilja til þess að ræða við forystumenn annarra flokka á þann veg, að þá fýsi til samstarfs við þá, þegar á hólminn er komið.

Framsókn.

Steingrímur J. hélt velli að kosningum loknum og sýndi ekki á sér neitt fararsnið á flokksráðsfundinum. Jón Sigurðsson sagði hins vegar af sér formennsku Framsóknarflokksins og er nú tekinn til við kennslu í Háskólanum í Reykjavík. Guðni Ágústsson, varaformaður framsóknar, tók við formennskunni. Morgunblaðið birtir við hann viðtal í dag og telur fréttnæmast í því, ef marka má forsíðu blaðsins, að ekki hafi verið rætt við Framsóknarflokkinn um breytingar á stjórnarráðinu. Í viðtalinu segir:

„Að sögn Guðna eru á kreiki sögusagnir um tilfærslur á verkefnum innan stjórnarráðsins. „Ég gagnrýni forsætisráðherra harðlega fyrir það hvernig hann hefur látið Ingibjörgu Sólrúnu ráða gríðarlega miklum breytingum sem liggja í loftinu á stjórnarráðinu og enn hafa ekki verið kynntar. Ég held að þær geti haft mjög alvarleg áhrif ef af þeim verður.“

Guðni segir að þegar landbúnaðarháskólarnir, landgræðslan og skógræktin verði farin til annarra ráðuneyta verði nánast allir vísindamenn landbúnaðarins farnir frá landbúnaðarráðuneytinu. Þess vegna leggi hann til að landbúnaðarháskólarnir verði sjálfseignarstofnanir með stjórnarmönnum sem tengist íslenskum landbúnaði og atvinnulífi, því það gangi ekki upp að menntamálaráðherra verði æðstur á tilraunastöðvum landbúnaðarins. Hreinir ríkisháskólar munu eiga erfitt í samkeppni framtíðarinnar, sérstaklega ef þeir verði litlir sérhæfðir skólar. Þá leggur Guðni áherslu á að hugað verði að háskólakeðju um allt land.“

Að Guðni skuli gera breytingar á stjórnarráðinu að pólitísku ásökunarefni í garð forsætisráðherra er undarlegt, þegar til þess er litið, að á síðasta kjörtímabili var okkur Árna Magnússyni, þáverandi félagsmálaráðherra, falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarráðinu og kynnti Árni hugmyndir um það efni fyrir Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi forsætisráðherra, áður en Árni hætti í ríkisstjórn. Að vísu var ekkert gert með þessar hugmyndir og ekki var látið eins og þær ætti að ræða sérstaklega við stjórnarandstöðuna. Raunar var rætt um þetta mál á þann veg, að líklega væri best að vinna að breytingum á stjórnarráðinu rétt fyrir kosningar eða í tengslum við stjórnarmyndanir, þá væri líklegast að ná einhverjum árangri, eins og sannaðist við myndun núverandi stjórnar.

Eins og fram kemur í hinum tilvitnuðu orðum hér að ofan er Guðna heitt í hamsi vegna tilveru landbúnaðarráðuneytis og flutnings á landbúnaðarskólum til menntamálaráðuneytis. Flutningurinn er gamalt baráttumál og hefur meðal annars verið tekist um hann á landsfundi sjálfstæðismanna, þar sem mikill meirihluti vildi flytja skólana undan forsjá landbúnaðarráðuneytisins. Framsóknarmenn máttu á hinn bóginn aldrei heyra á þá sjálfsögðu breytingu minnst og raunar var Guðni alltaf mjög á varðbergi, þegar rætt var um breytingar á stjórnarráðinu, af því að hann taldi framtíð landbúnaðarráðuneytisins í húfi – engum dytti í hug að breyta, án þess að leggja landbúnaðarráðuneytið inn í annað ráðuneyti eins og nú hefur verið gert.

Undarlegt tregðulögmál kemur til sögunnar meðal stjórnmálamanna eða innan ráðuneyta, þegar rætt er um færslu verkefna á milli ráðuneyta. Stundum mætti halda, að í slíkum flutningi fælist eitthvað annað en einfaldar skipulagsbreytingar í samræmi við nýjar kröfur og þróun.

Að mínu áliti er flutningur verkefna sjálfsagður, ef skynsamleg rök mæla með honum. Þannig hef ég komið að því, að umferðarmál hafa verið flutt frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Nú er unnið að því að flytja fasteignakaupamál og málefni fasteignasala frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til viðskiptaráðuneytis. Loks hafa verið uppi hugmyndir um, að málefni þjóðkirkjunnar ættu betur heima hjá forsætisráðuneyti en dóms- og kirkjumálaráðuneyti og er sjálfsagt, að kostir og gallar þess séu skoðaðir til hlítar.

Þegar litið er til brottfarar varnarliðsins, lá beint við síðastliðið haust, að verkefni flyttust frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis, fjármálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Verkefni, sem byggðust á tilvist Keflavíkurflugvallar sem varnarsvæðis. Vegna óska utanríkisráðherra var flutningum slegið á frest og enn er til dæmis embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli til með tengsl við utanríkisráðuneytið, þótt verkefni embættisins séu horfin og embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sinni nú toll- og löggæslu á flugvellinum eins og annars staðar á Suðurnesjum.

Ósk Guðna Ágústssonar um samráð við stjórnarandstöðu um breytingar á stjórnarráðinu byggist kannski á vilja framsóknarmanna til að viðhalda neitunarvaldi um jafn sjálfsagðar og eðlilegar breytingar og hér hafa verið nefndar til sögunnar.

Þegar viðtal Morgunblaðsins er lesið, er einkennilegt, að blaðið telji kjarna þess álitaefni í sambandi við innra starf stjórnarráðsins. Hvenær hafa slík málefni verið ofarlega á baugi í stjórnmálaumræðum? Frá pólitískum sjónarhóli er miklu merkilegra, að Guðni sér fyrir sér, að VG hverfi á vettvangi stjórnmálanna. Í Morgunblaðinu segir:

„Framsóknarflokkurinn tapaði miklu fylgi í kosningunum í vor og Guðni segir að stóra verkefnið sé að byggja flokkinn upp á ný, því hann hafi þá trú að hér verði þrír sterkir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn til hægri, Samfylkingin til vinstri og Framsóknarflokkurinn á miðjunni með félagshyggju og samhjálp að leiðarljósi. „Þannig vil ég byggja Framsóknarflokkinn upp,“ segir hann. „Við þurfum að takast á við okkar veikleika um leið og við horfum til styrkleika okkar til að efla fylgi okkar á ný. Framsóknarflokkurinn hefur í hinu langa samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og því miður innbyrðis átökum á síðustu árum tapað töluvert miklu af félagslega sinnuðu fólki sem átti erfitt með að sætta sig við langt samstarf til hægri og ýmis verkefni síðustu stjórnar í einkavæðingu og fleiru. Áherslur flokksins breyttust á þessum tíma eins og úrslit kosninganna báru með sér. Því er það okkar verkefni að endurmeta og yfirfara stefnu flokksins á öllum sviðum.“

Hér er ekki minnst einu orði á vinstri/græn frekar en þau séu ekki til á hinum pólitíska vettvangi. Guðni vill fara með Framsóknarflokkinn lengra til vinstri, en segist þó vilja breyta landbúnaðarskólunum í sjálfseignarstofnanir og þar með hefja einkarekstur á þeim. Styður hann ekki líka breytingu á Orkuveitu Reykjavíkur í opinbert hlutafélag? VG, samviska vinstrimennskunnar, og Dagur B. Eggertsson, samviska Samfylkingarinnar, telja þessa breytingu á OR hins vegar til marks um hina örgustu hægrimennsku.

Ekkert kaffibandalag.

 

Við upphaf þings í fyrra myndaði þáverandi stjórnaandstaða kaffibandalagið, sem átti að ýta Sjálfstæðisflokknum út úr stjórnarráðinu og gera endanlega út af við Framsóknarflokkinn. Þegar dró að kosningum vildu fáein prósent kjósenda þetta bandalag yfir sig að þeim loknum og það varð að loftbólu, sem sprakk fyrir kosningarnar.

 

Nú gengur stjórnarandstaðan til þings með þeim orðum, að formenn stóru flokkarnir innan hennar láta eins og þeir séu í raun einir á vellinum gegn ríkisstjórninni. Steingrímur J segir framsóknarmenn „tærða upp“ og Guðni lætur eins VG sé einfaldlega að hverfa.