Evrópsk miðjusókn - RÚV-umræðan.
Nokkrar hræringar hafa verið í dönskum stjórnmálum undanfarna mánuði. Hinn 7. maí var stofnaður nýr danskur stjórnmálaflokkur Ny Alliance, sem dró til sín fólk frá Venstre og Radikale venstre. Hinn 15. júní urðu formannsskipti hjá Radikale venstre. Er talið, að þessar breytingar kunni að leiða til nýs samstarfsmynsturs í dönskum stjórnmálum, ef marka má grein eftir Lars Hovbakke Sørensen, lektor í sagnfræði við Árósarháskóla, sem birtist í Berlingske Tidene hinn 30. júlí.
Höfundur spáir því, að samstarf „yfir miðjuna“ muni setja svip sinn á dönsk stjórnmál næstu ár. Skilin milli vinstri og hægri séu að verða stöðugt óljósari. Þetta sé síður en svo sér-danskt fyrirbrigði. Hér sé um að ræða evrópska þróun.
Til að rökstyðja hinar evrópsku þróun nefnir höfundur fimm ólík Evrópulönd til sögunnar: Finnland, Ísland, Írland, Belgíu og Frakkland. Í öllum þessum löndum hafi þingkosningar leitt til ný samstarfs milli flokka „yfir miðjuna“.
Í Finnlandi hafi verið mynduð samsteypustjórn milli „hinna bláu“ og „hinna grænu“. Það er að segja á milli hinna hefðbundnu borgaraflokka (íhaldsmanna og frjálslyndra) og hins vinstrisinnaða flokks græningja auk flokks sænska minnihlutans.
Finnski dómsmálaráðherrann, Tuija Brax, er úr flokki grænna og hitti ég hana á fundi í júní. Hún sagði flokk sinn njóta mest fylgis meðal menntamanna og í háskólabæjum Finnlands. Hún taldi hann ekki dæmigerðan vinstriflokk, stefnumál hans byggðust á umhverfisverndarsjónarmiðum.
Aftur að grein danska lektorsins. Hann segir, að á Íslandi hafi Framsóknarflokkurinn horfið úr ríkisstjórn eftir að hafa tapað illa í þingkosningunum. Samstarfsflokkur framsóknarmanna, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi á hinn bóginn myndað „stóra samsteypustjórn“ með Samfylkingunni þvert yfir hægri-vinstri-línuna, sem hingað til hafi mótað íslensk stjórnmál.
Á Írlandi hafi borgaraflokkarnir (íhaldsmenn og frjálslyndir) gengið til samstarfs við hina vinstrisinnuðu græningja eins og gerst hafi í Finnlandi. Á Írlandi
séu jafnaðarmenn utan stjórnar.
Í Frakklandi hafi stjórnmálamenn vinstra megin við miðju sest í ríkisstjórn íhaldsmanna. Þótt stjórnmálamenn hafi áður tekið sæti í ríkisstjórn Frakklands og brúað bilið milli hægri og vinstri, sé óvenjulegt, að annarra flokka menn hafi fengið jafn valdamikil embætti og í þeirri ríkisstjórn, sem nú situr.
Enn hafi ekki tekist að mynda ríkisstjórn í Belgíu eftir kosningarnar í júní, en líklegt sé, að flokkar úr ólíkum áttum, taki höndum saman.
Danski lektorinn veltir fyrir sér, hvað valdi þessum breytingum í evrópskum stjórnmálum.
Í fyrsta lagi telur hann, að allir flokkar keppist um fylgi á miðjunni. Það sé orðið jákvæðara en áður að kenna sig við miðjuna. Hér á landi höfum við kynnst því í síðustu kosningum bæði til sveitarstjórna og alþingis, að Morgunblaðið hefur til dæmis hvatt Sjálfstæðisflokkinn og frambjóðendur hans að sækja fast inn á miðjuna.
Í öðru lagi hafi áhugi á umhverfismálum og loftagsbreytingum aukist mikið á skömmum tíma og stuðlað að því að borgaralegir flokkar vilji eiga samstarf við flokka, sem setja þessi mál á oddinn. Þetta hefði verið óhugsandi í mörgum löndum fyrir aðeins hálfu ári. Þá sé málum þannig háttað í ýmsum löndum, að samstarf borgaralegra flokka við græningja sé frá sjónarmiði beggja, og ekki síst hinna borgaralegu, vel til þess fallið að halda jafnaðarmönnum utan ríkisstjórnar.
Ef þetta sjónarmið hefði ráðið ferðinni hér eftir kosningarnar í vor, hefðu sjálfstæðismenn og vinstri/græn átt að taka höndum saman, bæði til að skerpa áherslur í umhverfismálum og til að halda Samfylkingunni utan stjórnar.
Lars Hovbakke Sørensen nefnir í þriðja lagi til sögunnar, að í aðildarlöndum Evrópusambandsins (ESB) sé mikilvægt að mynda breiða samstöðu flokka í því skyni að ná sem mestri sátt um óhjákvæmilegar breytingar á ESB. Með slíkri samstöðu aukist líkur á, að breytingarnar nái fram og einnig sé dregið úr pólitískri áhættu einstakra flokka heima fyrir fari eitthvað úrskeiðis í ESB-ferlinu.
Í fjórða lagi glími stjórnmálamenn nú við ýmis úrlausnarefni, sem séu þess eðlis, að skynsamlegt sé fyrir þá að ná sem víðtækastri sátt um niðurstöðuna og án þess að tekist sé á um hana með vísan til vinstri eða hægri. Þar megi nefna útlendinga- og innflytjendamál, vinnumarkaðsmál, velferðarmál og skattamál, en aðstæður séu að breytast í öllum þessum málflokkum vegna hnattvæðingarinnar.
Sjónarmið hins danska lektors eru forvitnileg frá íslenskum sjónarhóli, því að hér hefur verið mynduð ríkisstjórn, sem nýtur á fyrstu mánuðum stuðnings meira en 80% þjóðarinnar – stuðningurinn getur varla orðið meiri eða breiðari í lýðræðislandi.
RÚV-umræðan.
Spurning mín hér á síðunni miðvikudaginn 1. ágúst um, hvort kannski væri tímabært að selja annað hjá RÚV en rás 1 hefur vakið meiri viðbrögð en ég vænti. Hefði ég gert upp hug minn um þetta efni, hefði ég lýst honum, en spurninguna setti ég fram til íhugunar í ljósi framvindu í rekstri RÚV síðan stofnuninni var breytt í opinbert hlutafélag.
Á meðan ég var menntamálaráðherra sótti ég fast, að RÚV yrði breytt í opinbert hlutafélag til að styrkja samkeppnisstöðu þess við gjörbreyttar aðstæður. Á þeim tíma reyndist ógjörlegt að fá framsóknarmenn til að fallast á opinbera hlutafélagavæðingu RÚV, en smátt og smátt fikruðu þeir sig frá andstöðu sinni, fyrst með því að samþykkja RÚV sem opinbert sameignarfélag, en sú niðurstaða þótti mér alltaf andkannaleg, og síðan með því að samþykkja hlutafélagsformið – besta rekstrarformið, hvort sem um opinberan eða einka-rekstur er að ræða.
Meiri umræður urðu um hlutafélagavæðingu RÚV en EES-samninginn á sínum tíma. Samfylkingin undir forystu Marðar Árnasonar beitti öllum ráðum til að spilla fyrir framgangi málsins og vinstri/græn voru á móti þessari breytingu eins og öðrum, þar sem orðið hlutafélag kemur við sögu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sýndi þrautseigju í málinu og Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, leiddi það í gegnum þingið. Hann vildi ganga lengra og helst selja RÚV og að minnsta kosti taka það út af auglýsingamarkaði. Ég lagðist gegn hvoru tveggja eins og sjá má hér á síðunni og taldi mig hafa góð rök máli mínu til stuðnings.
Í núverandi stöðu RÚV eru tveir kostir að mínu mati: RÚV sýni, að það eflist og batni við hinar nýju og stórbættu starfsaðstæður, eða ríkisvaldið selji annað en rás 1. Spurning mín 1. ágúst snerist um, hvort unnt væri að velja á milli þessara kosta strax, ef hlutafélagavæðingin ylli því einu, að RÚV næði í starfsmenn frá Baugsmiðlunum.
Menn geta á skömmum tíma skynjað, hvort skipulagsbreyting í opinberum rekstri skili því, sem þeir væntu, eða ekki. Ég er vissulega til þess búinn, að gefa RÚV lengri tíma en fáeina mánuði til að sýna, hvað í því býr við nýjar starfsaðstæður, en nú eru kostirnir þeir, sem að ofan greinir.
Baugsmiðlarnir hafa sýnt spurningu minni mestan áhuga. Jón Kaldal ritaði til dæmis leiðara í Fréttablaðið laugardaginn 4. ágúst. Þar segir meðal annars:
„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar Alþingis, eru boðnir velkomnir í hóp þeirra sem setja spurningarmerki við stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði. Um leið er þeim þakkað fyrir að halda lifandi umræðunni um þá ójöfnu stöðu sem sannarlega ríkir í samkeppni Ríkisútvarpsins við einkarekna fjölmiðla.
Nú vill svo til að Björn og Sigurður Kári greiddu báðir atkvæði með umdeildu frumvarpi um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins á síðasta þingi. Frumvarpið var gagnrýnt úr ýmsum áttum, meðal annars á þeim nótum að breyting á rekstrarforminu væri tilgangslítil nema það væri hugsað sem undanfari sölu stofnunarinnar. Sá sem hér skrifar var ekki sammála þeirri gagnrýni, en var hins vegar eindreginn andstæðingur frumvarpsins á þeim forsendum að hvergi var þar tekið á því augljósa ranglæti að Ríkisútvarpið keppir við einkareknu miðlana á auglýsingamarkaði en þiggur jafnframt milljarða rekstrarfé úr ríkissjóði.“
Reksturinn hjá 365 miðlum hefur gengið illa og þar á bæ eru menn þeirrar skoðunar, að fari RÚV út af auglýsingamarkaðnum muni hagur þeirra vænkast. Ég lít á auglýsingar sem hluta af lifandi fjölmiðli og þess vegna er ég andvígur því, að RÚV, þótt ríkisrekið sé, fari af þeim markaði. Ég sé ekki, að atkvæði greitt með hlutafélagavæðingu RÚV sé í neinni andstöðu við skoðun á því, hvort RÚV standi undir því að hafa verið hlutafélagavætt.
Jón Kaldal lýkur leiðara sínum með þessum orðum:
„Fyrirætlanir um sölu Ríkisútvarpsins hræða hins vegar okkur sem þykir vænt um stofnunina og kunnum að meta menningarhlutverk hennar. Þegar það sögulega hlutverk er hins vegar á hraðleið með að leysast upp í dagskrárstefnu sem er kirfilega mörkuð meginstraumnum, er kannski alveg eins gott að selja.
Hitt er svo annað mál að erfitt er að una lengur við að gengið sé á rétt þeirra sem keppa við ríkið með því að láta Ríkisútvarpið leika lausum hala á auglýsingamarkaði. Björn og Sigurður Kári mega gjarnan beita sér fyrir leiðréttingu í þeim efnum.“
Réttmætt er hjá Jóni Kaldal, að velta því fyrir sér, hvort RÚV sé að glutra niður menningarhlutverki sínu. Ég er honum ósammála, þegar hann vill RÚV af auglýsingamarkaði. Sigurður Kári Kristjánsson gerir grein fyrir viðhorfi sínu til leiðara Jóns á vefsíðu sinni.
Svanborg@frettabladid.is skrifar laugardaginn í ritstjórnardálk Fréttablaðsins við hliðina á leiðara Jóns Kaldals:
„Heh! Verum óskýr
Það voru margir sem stóðu og klóruðu sér í höfðinu eftir útspil Björns Bjarnasonar þar sem hann virtist hvetja til þess á heimasíðu sinni að RÚV yrði selt, án þess þó að útskýra nánar um hvað hann var að tala. Hefði hann talað við fréttamenn hefði hann meðal annars getað útskýrt hvort hann var að hvetja til þess að selja Ríkissjónvarpið, Rás 2, Textavarpið og ruv.is, eða hvort hann var bara að setja ofan í við Pál Magnússon fyrir að laða til sín starfsmenn á allt of háu verði og veita þeim ríkisskjól. Ætli Egill Helgason taki þetta til sín?“
Svanborg hefur greinilega ekki lesið það, sem ég skrifaði, því að þar undanskildi ég aðeins rás 1 í spurningu minni. Ég minntist hvorki á Pál Magnússon né Egil Helgason – heldur vakti máls á þeirri stefnubreytingu hjá RÚV, sem ég hefði helst séð eftir hlutafélagavæðinguna.
Föstudaginn 3. ágúst birti Fréttablaðið frétt undir fyrirsögninni:
Dómsmálaráðherra vill selja RÚV
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að réttast væri að selja Ríkisútvarpið.
Þeir, sem lesa spurningu mína hér á síðunni 1. ágúst, sjá, að hvorki fyrirsögn Fréttablaðsins né undirfyrirsögn er rétt.
Hafi thorgunnur@frettabladid.is rétt eftir Páli Magnússyni útvarpsstjóra í þessari frétt, þá sagði hann:
„Mín vegna má Björn Bjarnason hafa hvaða skoðun sem er á því hvort selja eigi Ríkisútvarpið. Það heldur ekki fyrir mér vöku. Nú veit ég ekki hvaða starfsmenn Björn á við né hvert hann er yfir höfuð að fara í þessari færslu sinni. Mannaráðningar fara nú fram á hreinum faglegum forsendum burtséð frá því hvort einhverjir starfsmenn hafi áður verið hjá því sem Björn kallar „Baugsmiðlana“. Kannski sér Björn svolítið eftir þessum pólitísku áhrifum og vill frekar hafa þetta eins og það var áður - og hann væri þá auðvitað frjáls að þeirri skoðun.“
Í tilefni af þessum orðum Páls sagði ég á vefsíðu minni 3. ágúst:
„Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í Fréttablaðinu í dag, að hann missi ekki svefn vegna spurningar minnar hér á síðunni sl. miðvikudag um, hvort ríkið ætti ekki að selja aðra hluta RÚV en gömlu gufuna, það er rás 1. Það vakti alls ekki fyrir mér að raska svefnró útvarpsstjóra og er gott að vita, að spurning mín hafði ekki svo alvarlegar afleiðingar. Viðbrögð útvarpsstjóra eru annars í ætt við tóninn frá Kastljósi, leyfi sér einhver að finna að efnistökum þess, og koma þau því ekki á óvart.
Stjórnendur almannaútvarps hvarvetna í Evrópu þurfa að halda uppi vörnum fyrir stofnanir sínar vegna nýrrar samkeppni og minnkandi skilnings stjórnmálamanna og almennings á nauðsyn þess að viðhalda hinu ríkisrekna kerfi. Hvergi hefur almannaútvarp notið meiri virðingar en í Bretlandi, BBC, en þar hafa undirstöður þess nötrað oftar en einu sinni undanfarin ár vegna óvandaðrar framgöngu starfsmanna þess.“
Orð Páls benda til þess, að honum þyki mest um vert við hlutafélagavæðinguna, að geta hagað starfsmannahaldi að eigin vild og rennir hann þar með stoðum undir þá skoðun, að af hans hálfu sé litið á vald til mannaráðninga sem höfuðmarkmið hlutafélagavæðingarinnar. Í mínum huga hefur viðleitni til að styrkja samkeppnisstöðu RÚV snúist um að stórbæta dagskrána og þjónustu við almenning. Ég tel það markmið náist frekar með metnaði við dagskrárgerð en einhverju smástirnastríði.
Ég sakna einskis varðandi ráðningar starfsmanna hjá RÚV, en í ljósi orða Páls, má spyrja: Á hvaða forsendum var hann ráðinn til starfa hjá stofnuninni?