24.6.2007

ESB-sáttmálinn - gjafakvótinn.

Þegar Evrópunefndin var sett á laggirnar sumarið 2004, sagði í erindisbréfi hennar: „Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) hafa nú komið sér saman um nýja stjórnarskrá sambandsins, sem verður borin undir þjóðaratkvæði í ýmsum aðildarríkjum þess á næstu misserum. Hljóti stjórnarskráin samþykki, breytist skipulag ESB, sem m. a. mun hafa áhrif á stöðu Íslands.“ Var nefndinni falið að skilgreina „hver verði staða Íslands miðað við hina nýsamþykktu stjórnarskrá.“

 

Á það reyndi í raun aldrei í nefndinni að skilgreina þetta, þar sem stjórnarskráin eða stjórnarskrársáttmálinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi í lok maí og byrjun júní 2005, en þá átti Evrópunefndin einmitt fundi með áhrifamönnum innan og utan ESB í Brussel. Í Brussel-samtölunum kom fram, að stjórnendur ESB mundu ekki láta þar við sitja, heldur yrði leitað leiða til að ná markmiðum stjórnarskrársáttmálans með öðrum leiðum, úr því að honum hefði verið hafnað af Frökkum og Hollendingum. Það tókst á leiðtogafundi ESB, sem lauk í Brussel aðfaranótt laugardagsins 23. júní.

 

Nicolas Sarkozy, þáverandi innanríkisráðherra Frakka, fór í heimsókn til Brussel í september 2006 og var litið á ferð hans þangað sem lið í undirbúningi hans undir forsetakosningarnar, sem hann vann síðan 6. maí 2007. Sarkozy sagði eftir kynnisferðina til Brussel, að hann teldi unnt að ná markmiðum stjórnarskrársáttmálans um nýja stjórnskipan ESB, án þess að setja ESB stjórnarskrá, nægilegt væri að breyta gildandi sáttmálum um samstarfið. Þegar Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tók við pólitískri forystu í ESB setti hún sér þetta sama markmið. Það hefur nú náðst.

 

Markmið leiðtoganna var að ýta vandræðunum vegna nei-niðurstöðunnar í Frakklandi og Hollandi aftur fyrir sig og setja ESB framtíðarmarkmið, sem enginn hefði hafnað. Markmið þeirra var einnig að halda þannig á málum, að niðurstöðunni yrði ekki hafnað í neinni þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem hvergi þyrfti að boða til hennar! Hvort það hefur tekist á eftir að koma í ljós. Skoðanakönnun í Danmörku sýnir, að 70% Dana vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um sáttmálabreytingarnar, 19% segja hennar ekki þörf en 11% svara „veit ekki“.

 

Næsta skref á vettvangi ESB er, að undir pólitískri forystu Portúgala verður á seinni helmingi þessa árs boðuð svonefnd ríkjaráðstefna, en án hennar verður sáttmálum ESB ekki breytt. Þá verður Merkel-samkomulagið frá Brussel útfært nánar í sáttmálagreinum. Þær verða hins vegar ekki bindandi fyrr en  þjóðþing ESB-landanna 27 hafa samþykkt þær. Ætlunin er, að því ferli verði lokið fyrir kosningar til ESB-þingsins sumarið 2009.

 

 

Af hálfu okkar Íslendinga er mikilvægast að fylgjast með því, hvernig breytingum á sviði refsiréttar og lögreglumála verður háttað.

 

Með því að gera Evrópusambandið að einni lögpersónu er verið að fella þrjár stoðir þess saman í eina. Undir fyrstu stoð hafa ESB-ríkin framselt ríkisvald til sameiginlegra stofnana. ESB-stofnunum hefur verið veitt heimild til að taka ákvarðanir um sameiginlega stefnu sambandsins og setja sameiginlegar reglur um þau málefni, sem undir þessa stoð falla og þar með er því um yfirþjóðlegt vald að ræða.  Önnur stoðin hefur tekið til utanríkis- og öryggismála og þriðja stoðin til samvinnu lögreglu- og ákæruvalds. Á þessum sviðum hefur samstarfið fyrst og fremst byggst á milliríkjasamvinnu og ákvarðanir eru teknar með samhljóða samþykki aðildarþjóðanna, en ekki af hinum sameiginlegu stofnunum.

 

Nú hefur þetta allt verið fellt undir eina stoð með frávikum, einkum að ósk Breta, um það, sem áður féll undir aðra og þriðju stoð. Áhrif Evrópuþingsins á málefni, sem áður voru undir þriðju stoð, munu aukast.

 

Við Íslendingar þurfum sérstaklega að fylgjast með skipan mála þriðju stoðar og þeim áhrifum, sem breytingarnar hafa á þau, því að Schengen-samstarfið fellur undir þessa stoð með Europol, Eurojust, Cepol og Frontex – en við höfum gert sérstaka samning um aðild að þessum stofnunum.

 

Franska blaðið Le Monde segir þessi atriði hafa horfið úr stjórnarskrársáttmálanum, sem Frakkar og Hollendingar höfnuðu: Orðið stjórnarskrá. Vísan til tákna, sem engu að síður gilda áfram, 12 stjörnu bláfánans, þjóðsöngsins (Óður til gleðinnar), yfirlýsing (Samband í fjölbreytileika) og setning: Mynt sambandsins er evran.

 

Gjafakvótinn.

 

Síðan ég settist á þing árið 1991 hefur oft verið ráðist að okkur sjálfstæðismönnum eins og við bærum ábyrgð á því, sem nefnt er „gjafakvóti“ innan kvótakerfisins og látið eins og við berum einhverja sérstaka ábyrgð á honum vegna frjálshyggjunnar – framsóknarmenn hafa raunar setið undir þessum árásum með okkur, þótt ekki séu þeir kenndir við frjálshyggju í þessu sambandu. Mér er sérstaklega minnisstætt, hve hart Sverrir Hermannsson hefur gengið fram með stóryrðum í þessa veru. Af orðum hans hefur mátt draga þá ályktun, að það hefði verið sérstakt áhugamál frjálshyggjumanna og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar að stofna til gjafakvótans.

 

5. maí 1999 sagði Sverrir í Morgunblaðinu:

 

„Allar auka ívilnanir til handa almennum launamanni er fleinn í holdi frjálshyggjumanna. Þetta hefir Hannes Hólmsteinn auðvitað bent forystu Sjálfstæðisflokksins á, enda stjórnar hann hugmyndafræði þeirra. Svo lágt áttu þeir eftir að lúta.

Þær blikur eru á lofti í íslenzkum stjórnmálum, að enn um hríð muni fram halda sú óáran sem gandríður efnahagskerfinu: Gjafakvótinn og frjálst framsal hans. Aldrei í sögu Íslands hefir jafn fáum verið færður í hendur slíkur firna auður með jafn óbilgjörnum hætti.“

 

21. nóvember 1999 vitnaði Morgunblaðið í ræðu Sverris á aukalandsfundi Frjálslynda flokksins:

„Sverrir Hermannsson sagði, er hann ræddi stjórnmálaviðhorfið við þingsetninguna, frjálshyggjuna ræna einstaklinginn rétti hans til að nýta sér gögn landsins og gæði og frelsinu til athafna. Hún beygði einstaklinginn undir hæl lénsherra sem færður sé Íslandsauður á silfurfati.“

Í Tímariti VM – Vélfræðingurinn 1. árg. 1. tbl. júní 2007 er birt viðtal við Helga Laxdal, fráfarandi formann Vélstjórafélagsins, sem nú heitir Félag vélstjóra og málmtæknimanna. Helgi sat í þriggja manna starfshópi árið 1983, eftir að kvótakerfið hafði verið ákveðið, en hópnum var falið að fara yfir kvótasetningu allra skipa og báta með tilliti til undantekninga vegna bilana, frátafa og fleiri þátta. Kristján Ragnarsson, formaður LÍU, og Stefán Þórarinsson sátu í hópnum auk Helga og starfaði hann náið með Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra. Helgi veit um uppruna þeirrar reglu, sem gat af sér gjafakvótann svonefnda. Hann segir í viðtalinu:

„Ég man vel eftir því þegar ákveðin var reglan um það að þegar skipstjóri eða meirihluti áhafnar flyttu sig, af skipi með mikla veiðireynslu yfir á skip sem hafði litla sem enga reynslu, skyldu þeir njóta reynslu sinnar. Þar má nefna kvótann sem Akureyrin fékk, þegar Steini Villa og hans menn fóru af Kaldbaki yfir á Akureyrina. Sá sem bjó til þessa reglu heitir Jón Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Norræna fjárfestingabankans. Mér er það mjög minnisstætt, þegar við sátum uppi í gamla sjávarútvegsráðuneytinu, þegar hann var að festa þetta á blað. Það voru sex skip sem nutu þessarar reglu. Þetta var svo hrópandi óréttlæti sem blasti við þessum mönnum sem voru nýbúnir að fara af góðum skipum með mikla reynslu yfir á skip sem litla aflareynslu höfðu. Það var ekki hægt annað en að leysa þau mál. Þetta hefur alla tíð vakið mikið umtal, talað um gjafakvóta og svo framvegis, en það var algjört réttlætismál fyrir þessa sjómenn að lagfæra þetta. Þetta átti til dæmis við Friðrik Sigurðsson ÁR og Snorra Sturluson RE líka.“

Að kenna þessa lausn við frjálshyggju eða Hannes Hólmstein Gissurarson er að sjálfsögðu út í hött – þarna voru trúnaðarmenn hagsmunasamtaka og ríkisstjórnar að leita sanngjarnrar lausnar við upphaf kvótakerfisins. Sverrir Hermannsson sat sem iðnaðarráðherra í ríkisstjórn með Halldóri Ásgrímssyni á þessum árum undir forsæti Steingríms Hermannssonar.

Helgi Laxdal er eindreginn fylgismaður kvótakerfisins og vegna þeirra umræðna, sem nú eru, segir hann í þessu viðtali:

„Það er líka annað sem mér hefur alltaf fundist skrítið í sambandi við kvótakerfið, þegar pólitíkusarnir eru að segja að það virki ekki. Þeir taka þá dæmi um það að ekki hafi tekist að byggja þorskstofninn upp. Það hefur einfaldlega ekkert með kvótakerfið að gera.“

Helgi segir:

„Staðreyndin er sú að ég er sáttur við kvótakerfið. Það var í upphafi eins rétt gefið og hægt var. Við reyndum allir eins og við gátum að gæta fyllstu sanngirni og ég veit ekki til þess að reynt hafi verið að hygla einum eða neinum. Þetta var gert eins rétt og hægt var og eftir þeim leikreglum sem settar voru. Mér finnst það reyndar nánast kraftaverk að við skyldum komast í gegnum þetta, miðað við það hrikalega moldviðri sem þyrlað var í kringum þetta, án þess að fá á okkur kærur. Auðvitað eru öll skömmtunarkerfi slæm, en ég held að þetta sé það skásta sem vitað er um í dag....Við erum alls ekki illa sett, enda eru aðrar þjóðir að taka upp okkar kerfi.“

Ég hef kynnst Helga Laxdal í störfum mínum sem menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra og veit, að hann er einarður baráttumaður fyrir umbjóðendur sína, kemur til dyranna eins og hann er klæddur og liggur ekki á skoðunum sínum. Ég kann vel að meta kynni okkar og þakka Helga fyrir þau og óska honum velfarnaðar við þessi tímamót.