17.6.2007

Frakkar kjósa - ESB leitar sátta - Schengen og Prüm.

 

 

Vikuna, sem leið, hef ég verið á ferðalagi og sótt fundi í Lúxemborg og hér í París, þar sem ég er staddur núna. Tímann hef ég einnig nýtt til að átta mig á því, sem hæst ber í umræðum um frönsk og evrópsk stjórnmál.

 

Í Frakklandi beinist athyglin að úrslitum í seinni umferð þingkosninganna, sem er í dag. Hægrimenn undir forystu Nicolas Sarkozys, nýkjörins forseta, og François Fillon forsætisráðherra í ríkisstjórninni, sem Sarkozy skipaði, unnu góðan sigur í fyrri umferð kosninganna og eru öruggir með góðan meirihluta á þingi, hvað sem gerist í dag,

 

Sósíalistar fóru illa út úr fyrri umferðinni en eru taldir hafa sótt dálítið í sig veðrið fyrir seinni umferðina, þar sem þeir hafa lagst gegn hugmyndum Fillons um hækkun á virðisaukaskatti til að standa undir félagslegum útgjöldum, sem til þessa hafa verið borin af fyrirtækjum. Með þessari skattalagabreytingu vill stjórnin skattleggja neyslu í stað þess að íþyngja fyrirtækjum í von um, að þeim vaxi ásmegin og þar með minnki atvinnuleysi. Sósíalistar segja, að með þessu sé verið að þyngja byrðar almennings og segjast 60% aðspurðra kjósenda vera þeirrar skoðunar, að þessi skattabreyting eigi ekki rétt á sér.

 

Fillon segir vissulega rétt, að óvenjulegt sé að segja frá slíkum áformum um skattabreytingar rétt fyrir kosningar, en í því einu, að segja sannleikann, felist einmitt góð vísbending um stefnubreytingu.

 

Hvað sem líður fylgi eða fylgisleysi sósíalista í kosningunum og vandræðum þeirra, sem eiga eftir að vaxa vegna ágreinings innan dyra að kosningunum loknum, kemur forsetaframbjóðandi miðjumanna, François Bayrou, líklega verst frá kosningaslagnum núna. Hann fékk töluverðan byr um tíma í forsetakosningunum, en eftir að hafa lent þar í þriðja sæti og síðan skilað auðu í átökum stóru flokkanna, hefur hann einangrast og orðið fylgislaus.

 

Bayrou tók við flokki, sem Valéry Giscard d’Estaing stofnaði á sínum tíma til samstarfs frá miðjunni inn á hægri vænginn. Nú segir flokksfaðirinn d’Estaing reiðilega, að Bayrou hafi drepið flokkinn. Talið er líklegt, að Bayrou sitji einn fyrir flokkinn á þingi að kosningum loknum – það er víðar en á Íslandi, sem miðjuflokkar eiga undir högg að sækja. Örlögin sem Bayrou hefur hlotið sýna einnig, að auðvelt er að glutra niður góðri stöðu í kosningabaráttu og sitja uppi áhrifalaus, ef menn hika við að taka afstöðu og þykjast jafnvel yfir aðra hafnir.

 

Í Le Figaro var í gær sagt frá því, að um miðnætti síðastliðim félli niður friðhelgin, sem Jacques Chirac hefur notið sem forseti síðastliðin tólf ár. Hann ætti nú í vændum að vera kallaður fyrir dómara eða lögreglu í að minnsta kosti fimm málum, sem eru til rannsóknar.

 

ESB leitar sátta.

 

Nicolas Sarkozy var í Póllandi sl. fimmtudag til að sannfæra tvíburabræðurna, sem fara með stjórn landsins sem forseti og forsætisráðherra, um að þeir ættu að fallast á nýjar tillögur um breytingar á grundvallarreglum Evrópusambandsins (ESB), sem koma í stað sáttmálans um stjórnarskrá fyrir ESB, sem Frakkar og Hollendingar felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu um árið og síðan er orðinn að engu, þótt meirihluti ESB-ríkja virðist hlynntur honum.

 

Segja má, að það hafi verið biðröð evrópska þjóðarleiðtoga við forsetahöllina í Varsjá til að fá bræðurna ofan af kröfum þeirra og andstöðu við tillögur, sem kynntar hafa verið að nýjum samþykktum ESB. Þeir komust til valda í Póllandi með ESB-andstöðu á vörunum og tortryggni í garð Þjóðverja. Það er hins vegar sérstakt metnaðarmál Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að ljúka þessu vandræðalega sáttmálamáli ESB, áður en Þjóðverjar láta af forsæti ESB í þessum mánuði.

 

Á leiðtogafundi ESB 21. og 21. júní verður reynt til þrautar að ná samkomulagi og virðist ljóst, að stóru ESB-ríkin hafi komið sér saman um niðurstöðuna og nú sé reynt með öllu tiltækum ráðum að ná allsherjarsamkomulagi.

 

Breska stjórnin hefur tilkynnt, að verði niðurstaðan á þann veg, sem henni er þóknalegt, verði ekki efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um hana í Bretlandi. Með því að hóta slíkri atkvæðagreiðslu hefur Tony Blair tekist að fá fyrirvara inn í niðurstöðuna, sem er hagfelld honum, meðal annars varðandi samstarfið á sviði lögreglu- og refsimála, en meðal margra Evrópuþjóða á það vaxandi fylgi að fagna að flytja þann málaflokk undir meirihlutaákvarðanir innan ESB, en Bretar sætta sig ekki við það.

 

Ef marka má frönsku blöðin tókst Sarkozy að milda afstöðu pólsku tvíburanna. Þeir tala ekki um neina úrslitakosti og eru mildari á manninn við Sarkozy en Chirac, sem móðgaði öll A-Evrópuríkin í ESB árið 2003, þegar hann sagði við lok leiðtogafundar ESB, að leiðtogar þessara ríkja hefðu þar „misst af góðu tækifæri til að þegja“, en þau hölluðu sér frekar að stefnu Bandaríkjanna í málefnum Íraks en Frakka.

 

Schengen og Prum.

 

Síðastliðinn þriðjudag sat ég fund dóms- og innanríkisráðherra Schengen-landanna í Lúxemborg en auk Íslands eru Noregur og Sviss í Schengen-samstarfinu, án þess að vera í ESB, og Bretland og Írland eru í ESB án þess að taka þátt í Schengen. Vorum við fulltrúar Schengen-ríkjanna utan ESB á fyrstu klukkutímum ráðherrafundarins en hurfum af vettvangi, þegar Schengen-málefni höfðu verið rædd.

 

Allt er þetta því með sínu sniði, þegar fulltrúar allra ríkjanna koma saman og gilda að sjálfsögðu umsamdar reglur um þau mál, sem falla undir Schengen-samkomulagið. Við sem erum í Schengen en ekki í ESB höfum getað með sérstökum samningum gerst aðilar að EUROPOL, evrópsku lögreglunni, EUROJUST, samstarfsvettvangi evrópskra ákærenda, CEPOL, samstarfsvettvangi evrópskra lögregluskóla, og FRONTEX, landamærastofnun Evrópu. Þetta formlega samstarf jafngildir því ekki, að efnislegar reglur, sem dóms- og innanríkisráðherrar ESB-ríkjanna taka um málefni utan Schengen-samkomulagsins bindi okkur.

 

Í því skyni að átta sig á þessu flókna samstarfi er auðveldast að kynna sér skýrslu Evrópunefndar, sem birtist í mars sl. en þar er Schengen-samstarfinu lýst. Þá hef ég einnig skrifað langa, lögfræðilega ritgerð um Schengen-samstarfið, sem birtist í riti á vegum háskólans í Bifröst.

 

Ég rifja þetta upp í tilefni af leiðara Morgunblaðsins 15. júní, þar sem rætt var um fund dómsmála- og innanríkisráðherra ESB-ríkjanna í Lúxemborg. Í leiðaranum sagði meðal annars:

 

„Samvinna innan Evrópusambandsins um varnir gegn glæpum og eftirlit með glæpamönnum verður stöðugt víðtækari. Fyrr í þessari viku samþykktu innanríkisráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins að koma upp nýju kerfi, sem ætlað er að tryggja að lögregla deili erfðaupplýsingum, fingraförum og bifreiðaskráningum manna, sem grunaðir eru um glæpi. Samkvæmt því mun lögreglan í einu landi geta flett upp í tölvu og athugað hvort gögn hennar eigi saman við gögn lögreglu í öðru landi. Til að vernda upplýsingar mun hins vegar aðeins koma fram hvort gögnin eigi saman, en síðan þurfa yfirvöld að fara fram á frekari upplýsingar.

Tilgangurinn með þessari ákvörðun er að auðvelda aðgerðir gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi, sem nær milli landa. Hið fyrirhugaða samstarf er framlenging á Prüm-samkomulaginu, sem Austurríki, Belgía, Frakkland, Þýskaland, Lúxemborg, Holland og Spánn gerðu með sér 2005 og mun það nú ná til allra 27 aðildarríkja ESB og væntanlega einnig Evrópska efnahagssvæðisins....

Tilhneigingin til að rýmka heimildir lögreglu hefur verið mjög sterk á undanförnum árum. En því má ekki gleyma að nú þegar eru fyrir hendi víðtækar heimildir til að afla upplýsinga, sem oft eru ekki notaðar sem skyldi. Nú þegar hafa verið teknar ákvarðanir um að rýmka heimildir, sem orka tvímælis. Ákvarðanir um samstarf á borð við þetta þarf að taka með lýðræðislegum hætti að undangenginni rækilegri athugun á því að það verði ekki á kostnað upplýsinga- og persónuverndar. Það verður athyglisvert að sjá hvernig þessu máli mun reiða af hér á landi. En kannski er athyglisverðast við þetta mál hversu lítið hefur farið fyrir því.“

Feitletrunin er mín, því að þau orð gefa til kynna, að leiðarahöfundurinn telji, án þess að hann viti það, að ákvarðanir ESB-innanríkisráðherranna séu bindandi fyrir Ísland. Líklegt er, að þeir, sem lásu þessar hugleiðingar blaðsins, hafi dregið þá ályktun, að íslensk stjórnvöld séu umræðulaust að lauma einhverju evrópsku eftirlitskerfi yfir landsmenn.

Vorið 2005 hófu sjö Evrópusambandsríki nána lögreglusamvinnu, þar með um gagnkvæman aðgang að gagnabönkum sem geyma lífkennaupplýsingar (DNA og fingraför) og bifreiðaskrám. Þýskaland hafði frumkvæði að samstarfinu en önnur þátttökuríki voru Frakkland, Austurríki, Spánn og Benelux ríkin þrjú. Samstarfið varð síðan bundið í Prüm-samningnum, sem undirritaður var af framangreindum ríkjum 17. nóvember 2006.

 

Þjóðverjum var kappsmál, að öll ESB-ríki yrðu aðilar að samningnum og beittu sér fyrir því í formennskutíð sinni í ESB og náðu markmiði sínu eins og staðfest var á ESB-ráðherrafundinum í Lúxemborg í vikunni og Morgunblaðið lýsir í leiðara sínum.

 

Aðdragandi og gerð Prüm-samningsins minnir óneitanlega á ferlið, sem leiddi til Schengen-samningsins, sem ekki er hluti af EES-samstarfinu heldur er samið um aðild þriðju ríkja að Schengen sérstaklega og verður hið sama uppi á teningnum varðandi Prüm-samninginn, enda eru lögreglu- og dómsmál ekki hluti af EES-samstarfinu. Ályktun Morgunblaðsins um evrópska efnahagssvæðið í þessu sambandi byggist því á misskilningi.

 

Morgunblaðið að höfða til íslenskra stjórnvalda í lok leiðara síns, þegar rætt er

um, hve lítið hefur farið fyrir þessu máli í innlendum umræðum, má spyrja, hvort þau séu upplýsingaskyld um innri málefni ESB og sérstaka samninga sem ESB-ríkin gera sín á milli. Almennt hefur fremur verið litið á það, sem hlutverk annarra, til dæmis fjölmiðla, að flytja fréttir af ESB-málum. Hitt er víst, að leiti íslensk stjórnvöld eftir aðild að Prüm-samningnum verður málið rætt á alþingi og hvarvetna þar, sem ástæða er til að kynna það. Á þessu stigi byggjast slíkar umræður aðeins á vangaveltum um hvort og hvenær samningurinn verður opnaður til aðildar fyrir þriðju ríki.

 

Um leið og því er fagnað, að Morgunblaðið skuli taka þessar mikilvægu ákvarðanir ESB-ráðherranna til umræðu í leiðara sínum, skal enn minnt á, að í skýslu Evrópunefndar er sérstök áhersla lögð á að draga skil á milli EES-samstarfsins annars vegar og Schengen-samstarfsins hins vegar til að minna á, að lögreglu- og dómsmál falla ekki undir EES og samvinna á því sviði byggist á sérstöku samkomulagi milli ríkja innan ESB og við þriðju ríki. Evrópunefndin, sem samdi Evrópuskýrsluna, efndi til sérstakrar ráðstefnu um það efni, hvort fella ætti EES og Schengen saman á einhvern hátt og varð niðurstaðan sú, að það ætti ekki að gera.