26.5.2007

Stórviðburðum lýst.

 

Frá því á kjördag, 12. maí til 22. maí eða í 10 daga fóru fram umræður um nýja ríkisstjórn. Ef farið er yfir fréttamiðlun af stjórnarmyndunarviðræðunum, virðist hún ekki hafa einkennst af miklu hugmyndaflugi. Allt var í föstum skorðum, stjórnmálaforingjum fylgt eftir, reynt að ráða í orð þeirra, staðið utan við fundarstaði, míkrófónar reknir í andlit manna, myndir teknar í salnum á Bessastöðum, á tröppunum á Bessastöðum og að lokum við lyklaskiptin.

 

Þegar geta fjölmiðlamanna sjálfra þrýtur leita þeir á vit stjórnmálafræðinga eða sagnfræðinga sér til hjálpar í því skyni að bregða ljósi á framgang mála eða setja þau í stærra sögulegt samhengi. Sagnfræðingar líta hins vegar almennt á hið liðna og fortíðin endurtekur sig ekki, hvorki í stjórnmálum né endranær. Getgátur stjórnmálafræðinga um framtíðina hafa takmarkað forsagnargildi.

 

Stundum er meira spennandi að ræða óorðna atburði, en það, sem síðan gerist. Galdurinn við góða blaðamennsku felst í því, að lýsa af þekkingu og leikni atburðum líðandi stundar á þann veg að veki áhuga og þekkingu.

 

Í aðdraganda kosninganna urðu nokkrar umræður um, hvernig Ólafur Ragnar Grímsson mundi taka á málum, ef hann þyrfti að tilnefna mann til að mynda ríkisstjórn. Þegar á reyndi, brást hann auðvitað við í samræmi við hinn pólitíska veruleika, sem við blasti, þegar Geir H. Haarde gerði honum grein fyrir stöðu mála og vilja Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar til samstarfs.

 

Umræður um nafnið á ríkisstjórninni báru með sér, að annað hvort var reynt að gera lítið úr henni eða mikið. Vilji formanna stjórnarflokkanna stendur til þess, að stjórnin sé kennd við Þingvelli, vegna þess að þar hittust þeir til viðræðna um stjórnarsáttmálann. Raunar sagði glöggur maður við mig á föstudagsmorgun, eftir að hann sá forsíðumynd Morgunblaðsins af nokkrum glaðværum ráðherrum á tröppum Bessastaða, að besta stjórnarnafnið væri Gleðibankinn.

 

Gagnvart okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hélt Geir H. Haarde af öryggi á stjórnarmynduninni. Hann lagði mál fyrir okkur, eftir að framsóknarmenn höfðu slitið samstarfinu. Þriðjudaginn  22. maí kallaði hann hvern og einn þingmann til fundar við sig í Ráðherrabústaðnum til að ræða innviði stjórnarsamstarfsins. Hitti ég hann fyrstur þingmanna klukkan 08.45. Sama dag klukkan 19.00 var síðan flokksráðsfundur, þar sem hann las stjórnarsáttmálann og fékk óskorað umboð til samstarfs við Samfylkinguna á grundvelli hans. Strax að þeim fundi loknum eða um kl. 20.00, kom þingflokkurinn saman. Geir lagði tillögu sína um ráðherra fyrir hann og var hún staðfest á nokkrum mínútum.

 

Þessi snurðulausa stjórnarmyndun undir forystu Sjálfstæðisflokksins, hin fimmta í röð, er til marks um, hve samheldni er mikil meðal forystu og flokksmanna almennt. Hún sýnir einnig, hve vel hefur verið staðið að því að flytja formennsku úr flokknum úr hendi Davíðs Oddssonar til Geirs H. Haarde.

 

Missi menn sjónar á þessari sögulegu framvindu mála á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og hinu óskoraða forystuhlutverki, sem flokkurinn gegnir, þegar þeir fjalla um hlut hans í stjórnmálunum, verður lýsingin ekki trúverðug. Velti menn vöngum yfir stöðu einstakra manna við myndun ríkisstjórnar, verður einnig að hafa þessa heildarsýn á stöðu mála.

 

Þegar stóratburðir gerast er ekki aðeins unnt að draga upp mynd af atburðinum sjálfum heldur einnig af ýmsum hliðum hans, eins og hann blasir við ritfærum blaðamönnum eða hugmyndaríkum sjónvarps- og fréttamönnum. Þá skiptir máli að setja atburðinn í stærra samhengi eða finna á honum forvitnilega hlið af einhverju tagi.

 

Stundum sést viðleitni í þessa átt í íslenskum fjölmiðlum. Gallinn á henni er oft sá, hve fjölmiðlamönnum hér er mjög tamt að fjalla um sjálfa sig og eigin skoðanir frekar en lýsa atburðum eða atvikum.

 

Mér sýndist Morgunblaðið gera tilraun í blaðamennsku í tengslum við listahátíðina, sem er að ljúka, með því að fela Þresti Helgasyni, umsjónarmanni lesbókar blaðsins, að skrifa daglega litla dálka um það, sem honum þótti markverðast. Honum fataðist hins vegar flugið strax í frásögn af setningarathöfn hátíðarinnar í Listasafni Íslands. Hvers vegna? Jú, Þröstur fór að agnúast út í ræðuhöldin við setninguna og felldi þann dóm, að þau ættu almennt ekki heima við upphaf listviðburða eða hátíða, ef ég skildi hann rétt.

 

Þetta er ómakleg aðfinnsla. Þeim, sem undirbúa hátíðir eða atburði af kostgæfni, finnst flestum nokkru skipta, hvernig staðið er að upphafinu. Ef setningu listahátíðar er lýst með aðfinnslu vegna þess, að þar skuli fluttar ræður eða ávörp, er sérvitringslegri skoðun haldið að lesendum en þeim ekki sagt, hvernig andrúmsloftið var í Listasafni Íslands á þessari stundu.

 

Þegar ég hef flutt ræður í listasafninu við upphaf sýninga, hef ég undrað mig á því, hvers vegna ekki er búið þannig um hnúta með öflugu hljóðkerfi, að heyrist vel um allt húsið. Kliðurinn fyrir framan sjálfan sýningarsalinn er oft svo mikill, að gestir í salnum heyra tæplega í ræðumanni, þótt hann tali í hljóðnema. Ætli Þröstur Helgason hafi kannski misst af ræðunum, sem voru fluttar við upphaf listahátíðar, þótt hann hafi verið á staðnum?

 

Ein leið til að lýsa menningarviðburðum er að fara að ritstjórnarstefnu Séð og heyrt og taka myndir af þeim, sem koma til að sýna sig og sjá aðra um leið og þeir njóta listarinnar. Myndir af því tagi rata í öll blöð en þó mest í Morgunblaðið, sem hefur lagt talsvert rými undir slíkt efni hin síðari ár. Frásagnir af fræga og fína fólkinu hér á landi taka á sig ýmsar myndir í blaðinu, eins og þegar því var haldið stíft að okkur lesendum þess, að Jakob Frímann Magnússon hefði eignast dóttur.