13.5.2007

Að loknum kosningum.

Kosningarnar í gær fóru mjög vel fyrir Sjálfstæðisflokkinn, í þingflokki okkar fjölgar nú um þrjá þingmenn úr 22 í 25 og fylgið jókst á landsvísu um 2,9% í 36,6%. Hvert sem menn líta í nágrannalöndum er slíkur styrkur stjórnmálaflokks venjumikill og hér erum við auk þess í þeirri stöðu, að flokkurinn er að auka fylgi sitt, eftir að hafa farið með stjórnarforystu í 16 ár, að vísu með stuttu hléi, sem varð ekki samstarfsflokknum til framdráttar.

Á kjörtímabilinu höfum við sjálfstæðismenn skipt um forystu flokksins og geri menn samanburð á því, hve vel við höfum staðið að því, og hve illa samfylkingarfólk hefur staðið að því á kjörtímabilinu að skipta um forystu hjá sér, finna menn skýringu á því, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn styrkist í þessum kosningum en Samfylkingin veikist.

Geir H. Haarde hefur fengið sterkt og óskorað umboð sem forystumaður Sjálfstæðisflokksins með hinni glæsilegu niðurstöðu í kosningunum; Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hlaut hins vegar vantraust, flokkurinn tapar tveimur þingmönnum undir hennar forystu og 4,2% atkvæða. Í þingkosningum reynir á það, hvort karlinn í brúnni fiskar, eins og haft var eftir Jóni Baldvini Hannibalssyni, þegar hann taldi óhjákvæmilegt, að Kjartan Jóhannsson hyrfi úr formannsstöðu Alþýðuflokksins.

Undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, náðu sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi glæsilegum árangri með 42,6% fylgi. Í þessum sigri og góðri fylgisaukningu sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi undir forystu Árna M. Mathiesen kemur fram, að ákvörðun Árna um að flytja sig um set og milli kjördæma hefur skilað góðum árangri.

Í umræðum um stöðu ríkisstjórnarinnar að loknum kosningunum núna hafa menn réttilega borið hana saman við það, sem gerðist að loknum kosningum 1995, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hélt velli með stuðningi 32 þingmanna eins og ríkisstjórnin gerði í kosningunum núna. Þá sáu forystumenn Alþýðuflokksins engan sérstakan vanda við, að ríkisstjórnin sæti áfram, enda hefði hún meirihluta á þingi. Nú segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með 32 þingmenn að baki sér, sé of veik – hún sé ekki á vetur setjandi.

Á skömmum tíma um páskana 1995 var lagður grunnur að stjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem nú hefur staðið í 12 ár. Á þessum árum hefur reynt á samstarf og stefnu flokkanna í mörgu tilliti en ávallt hefur tekist að leysa mál á farsælan hátt með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Ein mesta spennan í stjórnarsamstarfinu varð nú fyrir skömmu, þegar framsóknarmenn hreyfðu því, að þeir teldu sjálfstæðismenn ekki hafa staðið við ákvæði stjórnarsáttmálans um að auðlindir sjávar væru þjóðareign.

Geir H. Haarde brást skjótt við í málinu og komu þeir Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sér saman um breytingu á stjórnarskránni, lögðu hana fyrir alþingi, þar sem hún strandaði vegna andstöðu stjórnarandstæðinga. Í stóru sem smáu hefur stjórnarflokkunum tekist að leysa mál sín á farsælan hátt. Um þetta get ég borið, þar sem ég hef setið í ríkisstjórnum flokkanna frá fyrsta degi fyrir utan rúmt ár frá því í mars 2002 þar til eftir kosningar 2003, þegar ég hvarf til átaka á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur.

*

Ég hélt mig frekar til hlés í kosningarbáttunni að þessu sinni vegna veikinda, sem ég hef fjallað um hér á síðunni og ætla ekki að reifa frekar, fyrir utan að ítreka að batinn er góður og öruggur og finnst mér nú, að ég hafi nú þegar jafnvel meira þol til gönguferða en áður en lungað féll saman í fyrra skiptið. (Þeir, sem hafa áhuga á að kynnast þessum sjúkdómi, en hann kallast „sjálfkrafa loftbrjóst“ á fræðimáli lækna, bendi ég á tvær greinar í nýjasta tölublaði Læknablaðsins 5. tbl. 93. árg. maí 2007, en þar eru tveir læknar mínir Tómas Guðbjartsson og Bjarni Torfason meðal höfunda.)

Hinn 29. mars sl. kynnti ég í erindi á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs stöðuna í öryggis- og varnarmálum eins og hún blasti við mér rúmu ári, eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti einhliða, að Keflavíkurstöðinni yrði lokað fyrir lok september 2006. Vildi ég þannig kynna hin mikilvægu viðfangsefni stjórnvalda á þessu sviði á heildstæðan hátt og taldi, að slík kynning ætti fullt erindi í umræður fyrir kosningar.

Eins og svo oft áður, þegar mál af þessum toga eru rædd, þróast umræður á allt annan hátt en unnt er að vænta. Að þessu sinni hrökk Össur Skarphéðinsson í þann vitlausa gír, að ég væri að boða íslenskan herafla með því að nefna varalið lögreglunnar til sögunnar.

Í aðdraganda kosninganna voru utanríkis- og öryggismál ekki ofarlega á dagskrá, þótt á engu kjörtímabili síðan 1951 hefðu orðið meiri breytingar í þessum málaflokki. Hins vegar bar svo við í síðustu vikunni fyrir kosningar, að sjónvarp ríkisins tók til við að ræða það sem grunsamlegt mál, að auglýst hefði verið eftir aðstoðarríkislögreglustjóra í Lögbirtingablaðinu og aðeins einn hefði sótt um stöðuna, og hann væri þar að auki sonur ritara á ráðherraskrifstofu minni. Fréttblaðið bætti síðan um betur og taldi mig hafa brotið lög með auglýsingunni og á kjördag var Blaðið með heilsíðufrétt um, að ég hefði flutt embættismenn á milli embætta í samræmi við lagaheimildir um það - var látið að því liggja, að með því hefði ég brotið lög!

Jafnframt var leitast við að gera það tortryggilegt, að ég hefði tekið mér lengri frest en ég taldi upphaflega nauðsynlegt að íhuga, hvern skipa skyldi ríkissaksóknara. Dró einn fimm umsækjanda sig til baka og bar fyrir sig, að ráðuneytið beitti þeirri góðu stjórnsýslu að tilkynna um lengri frest minn til ákvörðunar. Eftir eru fjórir umsækjendur og ber mér að sjálfsögðu að velja þann, sem er metinn hæfastur úr þeim hópi.

Ég tek undir með Steingrími J. Sigfússyni í sjónvarpsumræðum í kvöld, að ástæða sé til þess fyrir forystumenn framsóknarmanna að huga að ráðgjöfinni, sem þeir fá frá spunameisturum. Ég tel til dæmis, að einn þessara meistara þeirra, Pétur Gunnarsson, hafi farið fram úr sjálfum sér í að atyrða mig fyrir embættaveitingar.

Daginn fyrir kjördag birti Jóhannes Jónsson kenndur við Bónus heilsíðuauglýsingu í öllum dagblöðum, þar sem hann hvatti kjósendur um að strika út nafn mitt á kjörseðlinum. Enn liggur ekki fyrir, hve margir fóru að hvatningu hans, en framganga af þessu tagi er einstæð og ræði ég hana í dagbók vefsíðu minnar í dag. Rætt var við Jóhannes í Stöð 2 sama dag og auglýsingarnar voru birtar og hann spurður um kostnað við framtak sitt. Hann sagðist ekki vita, hvað þetta kostaði sig og þess mætti geta, að fyrirtæki sín væru umsvifamiklir auglýsendur og hann nyti þess kannski í afslætti!

Satt að segja hafði ég ekki hugmyndaflug til þess, að mál af þessum toga yrðu höfuðefni í fjölmiðlum um störf mín sem dóms- og kirkjumálaráðherra síðustu daga fyrir kosningar. Ég hefði frekar átt von á því, að menn myndu ræða ákvarðanir, sem ég hefði tekið sem ráðherra en beina athygli að því, sem ekki hefur verið ákveðið. Að láta eins og eitthvað óeðlilegt sé við að auglýsa embætti í Lögbirtingablaði er dæmalaust. Þetta varð hins vegar kveikja að neikvæðum umræðum í fjölmiðlum alla kosningavikuna og fram á kjördag. Ef fjölmiðlar hefðu brugðið upp mynd af embættaveitingum mínum sl. fjögur ár, hefði blasað við öllum, að aðeins ein þeirra hefur valdið opinberum deilum.

Á einu stigi þessara áköfu fjölmiðlaumræðna var látið í veðri vaka, að ég hefði gengið á hlut lögrelgumanna en því var harðlega mótmælt af Landssambandi lögreglumanna.