6.5.2007

2% vilja kaffibandalagið.

Tóninn í kosningabaráttunni hefur verið mun mildari en ætla hefði mátt eftir stóryrðin og gauraganginn, sem oft einkenndi störf alþingis á liðnum vetri. Við upphaf þingstarfa síðastliðið haust komst Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, svo að orði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra og vitna ég ég í vefsíðu alþingis:

 

„Það er gleðiefni að stjórnarandstaðan mætir nú samhentari og einbeittari til leiks en hún hefur gert að undanförnu. Hvers vegna gerum við það? Við gerum það vegna þess að við eigum okkur eitt mjög mikilvægt sameiginlegt markmið, einn sameiginlegan ásetning og það er að fella ríkisstjórnina og það er að taka við. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það dugar ekki eins og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og nú Geirs H. Haardes hefur gert að lifa í einhverjum sjálfumglöðum draumaheimi eigin ímyndaðrar snilligáfu og ágætis og kenna öllum öðrum um ef eitthvað bjátar á, Seðlabankanum, viðskiptabönkunum eða jafnvel dönskum bönkum.“

 

Feitletrunin í ræðunni er frá mér komin. Hún segir okkur, hver var meginstefna flokkanna þriggja: Samfylkingar, frjálslyndra og vinstri/grænna í þingstörfunum. Hún fólst í því að koma ríkisstjórninni frá með því að mynda sameiginlega annan kost, sem yrði í boði til kjósenda nú 12. maí 2007.

 

Því miður er ekki skráð í þingtíðindin, hver það var, sem hrópaði: Heyr, heyr, eftir að Steingrímur J. hét þjóðinni að vinna bug á ríkisstjórninni með hinum flokkunum tveimur. Þingmaðurinn sá mun áreiðanlega ekki gefa sig fram núna, þegar nýjasta könnun á afstöðu almennings til þess, hvaða flokkar eigi helst að vera í ríkisstjórn að kosningum loknum, sýnir, að aðeins um 2% vilja þann kost, sem Steingrímur J. lýsti svo fjálglega í ræðu sinni 3. október 2006.

 

Þegar dregur að kosningunum er eins og enginn stjórnmálafræðingur eða fréttaskýrandi nenni að velta því fyrir sér, hvað hefur gerst í samskiptum stjórnarandstöðuflokkanna þriggja, frá því að þeir kynntu kaffibandalag sitt gegn ríkisstjórninni til þessa dags, þegar það er orðið að engu. Sagan um örlög bandalagsins ætti hins vegar að varpa ljósi á þróun stjórnmálanna og kannski auðvelda einhverjum að gera upp hug sinn fyrir kjördag.

 

Ein af ástæðunum fyrir því, hve rólegt er yfir vötnunum í kosningabaráttunni, er einmitt sú staðreynd, að kaffibandalagið varð að engu vegna ágreinings milli þeirra, sem í því voru og ætluðu að fella ríkisstjórnina með sameiginlegu átaki. Forystumenn flokkanna misstu trúna á, að þeir gætu starfað saman, og fóru að velta fyrir sér öðrum kostum og þá helst, hvort þeir gætu myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Við það hvarf broddurinn úr árásunum á Sjálfstæðisflokkinn og þar með varð spennufall í mörgum málum, sem kveiktu ákafar umræður á þinginu.

 

Sú kenning er furðuleg, að við Sjálfstæðisflokkinn sé að sakast, ef menn sakna meiri hörku í kosningabaráttunni. Sjálfstæðismenn hafa látið verkin tala við landsstjórnina í 16 ár og leggja með sér fyrir kjósendur gífurlega góðan árangur á öllum sviðum, þar sem þeir hafa látið að sér kveða. Hvers vegna skyldu þeir ganga til þessara kosninga með því hugarfari að stofna til ófriðar við aðra? Þeim er mest í mun að haldið verði áfram á sömu framfarabraut og enn betri árangri náð. Sjálfstæðismenn hafa lýst yfir vilja til að láta að sér kveða á fleiri sviðum en áður og þá ekki síst við stjórn heilbrigðismála. Ég er sannfærður um, að fái stefna og sjónarmið flokksins að setja svip sinn á þann málaflokk, skili það góðum árangri.

 

Í kosningaþáttum hafa fjölmiðlamenn gjarnan nálgast mál á þann veg, að nú sé einhver vandi öllum augljós og síðan spurt sjálfstæðismenn, hvers vegna hann sé óleystur, þótt þeir hafi verið 16 ár í ríkisstjórn. Þetta er sérkennileg aðferð til að ræða stjórnmál líðandi stundar, sem snúast um lausnir á viðfangsefnum hennar, en ekki um það, sem efst var á baugi fyrir 16, 12, 8 eða 4 árum. Ef litið er á kraftana, sem hafa verið leystir úr læðingi á undanförnum 16 árum, og hve miklu öflugra þjóðfélagið allt er til að takast á við úrlausn verkefna á öllum sviðum nú en þá, verða spurningar um óleyst viðfangsefni líðandi stundar í ljósi sögunnar í besta falli undarlegar.

 

Við mat á leiðum til að leysa úr málum ber að huga að stefnu stjórnmálaflokkanna og hvort þeir boða leiðir til aukinnar farsældar eða ekki. Ég er til dæmis stoltur af þeirri leið, sem ég valdi til að efla háskólastigið. Skömmu eftir að ég varð menntamálaráðherra voru fréttir um, að Háskóli Íslands væri að komast í fjárþröng, vegna þess að endar næðu ekki saman innan ramma fjárlaga. Fagran sumardag kom fréttamaður sjónvarps heim til mín og lagði af þunga fyrir mig þá spurningu, hvað ég ætlaði að gera til að tryggja starfsemi háskólans, sem væri að komast í fjárhagslegt þrot. Ég sagðist ekki ætla að gera neitt sérstakt, enda ætti skólinn að starfa innan fjárlaga.

 

Ég tók þá stefnu að taka upp nýjar aðferðir við fjárveitingar til Háskóla Íslands og jafnframt auka frelsi annarra en ríkisins til að standa að háskólastarfsemi, sem sagt ýta undir einkarekstur á háskólastiginu. Þessi stefna hefur skilað miklum og góðum árangri og síðastliðinn föstudag var nýr skóli á háskólastigi kynntur til sögunnar og mun hann starfa á Keflavíkurflugvelli.

 

Þegar menn ræða þróun háskólastigsins staldra þeir gjarnan við fjóra skóla: Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Háskólann á Akureyri. Hvers vegna muna ekki fleiri eftir Listaháskóla Íslands? Um árabil hafði verið tekist á um það, hvernig ætti að skipa listnámi á háskólastigi og verið var að reyna að mynda ríkisháskóla, sem tókst ekki vegna sífellds vandræðagangs. Það var ekki fyrr en nefnd, sem Ólafur G. Einarsson skipaði undir formennsku minni, lagði til, að stofnaður yrði einkarekinn skóli, að skriður komst á málið. Undarlegasta andstaðan við listaháskólann kom frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra, og R-listanum, sem taldi sig sko ekki eiga að koma að neinni háskólastarfsemi, hún væri í verkahring ríkisins. Þegar leitað var að lóð undir skólann, beitti Ingibjörg Sólrún þeirri blekkingu á einu stigi máls, að hann gæti risið á Miklatúni!

 

Nú vilja öll sveitarfélög fá háskóla til sín sama hvar þau eru á landinu og R-listinn gaf Háskólanum í Reykjavík land milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar til að koma í veg fyrir, að hann flyttist í Garðabæ. Allir sjá, hve mikil og spennandi breyting hefur orðið á háskólastiginu og hve gefandi það er fyrir þjóðfélagið og einstök byggðarlög, að háskólastarfsemi af einhverju tagi fari þar fram.

Þörfin fyrir háskólamenntað fólk vex einnig jafnt og þétt. Á síðasta ári urðu til 1000 ný störf í fjármálageiranum einum og hátæknistörfum fjölgar á öllum sviðum.

Það er ein af stórlygum þessarar kosningabaráttu, að sjálfstæðismenn hafi beitt sér gegn störfum fyrir menntað starfsfólk og einblíni á verksmiðjustörf - fyrir utan að neikvætt tal um verksmiðjustörf gefur einnig alranga hugmynd um þau. Fiskiðjuver á Íslandi eru hátæknifyrirtæki, sem meðal annars hafa staðið að baki þróun fyrirtækis á borð við Marel, sem er í fremstu röð á heimsvísu við nýtingu hátækni í matvælaiðnaði. Álver eru einnig hátæknifyrirtæki svo að ekki sé minnst á alla þekkinguna og verkmenninguna, sem býr að baki virkjun fallvatna og jarðvarma.

Hinn holi hljómur í málflutningi þeirra, sem eru á móti mennta- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, setur æ meiri svip á kosningabaráttunna eftir því sem nær dregur kjördegi - enda hefur fylgi vinstri/grænna dalað. Þeir hafa verið á móti eflingu fjármálafyrirtækja, stórvirkjunum og stóriðju - en hamra á því, að ríkisútgjöldin séu ekki nægilega mikil.