31.3.2007

Viðbrögð við erindi hjá SVS og Varðbergi.

 

 

Erindi mínu um ábyrgð okkar Íslendinga á eigin öryggi, sem ég flutti á fundir SVS og Varðbergs 29. mars, hefur almennt verið tekið á málefnalegan hátt nema af hálfu þess samfylkingarfólks, sem ákveður að feta í fótspor Össurar Skarphéðinssonar þingflokksformanns, sem datt ofan í holu, þegar hann sagði álit sitt á ræðu minni, án þess að hafa lesið hana, og hefur síðan haldið áfram að grafa þessa sömu holu. Blessaður Össur, hann getur stundum verið seinheppinn í því, sem hann segir lítt hugsað á vefsíðu sinni.

 Morgunblaðið sagði í upphafi leiðara laugardaginn 31. mars:

„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra flutti merka ræðu á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs í fyrradag. Þetta var stefnumarkandi ræða af því tagi, sem ráðherrar eiga að flytja en gera sjaldan. Með þessari ræðu hefur dómsmálaráðherra tryggt flokki sínum, Sjálfstæðisflokknum, að frumkvæðið í öryggismálum okkar Íslendinga verði áfram í hans höndum.

Ræða Björns Bjarnasonar er grundvallarplagg um öryggismál, sem taka verður mið af í umræðum um þennan málaflokk á næstu árum.“

Ég met þessi orð Morgunblaðsins mikils, þar sem blaðið hefur alla tíð, frá því að Íslendingar tóku til við að móta eigin stefnu í utanríkis- og varnarmálum, látið sig þau mál mikils varða og staðið að baki þeim, sem hafa viljað tryggja öryggi lands og þjóðar á raunsæjan og traustan hátt. Á grundvelli þeirrar farsælu stefnu byggði ég erindi mitt og tók mið af aðstæðum, eins og ég tel þær nú vera.

Össur og félagar hans nokkrir í þingflokki Samfylkingarinnar hafa kosið, að rangtúlka orð mín um varalið lögreglu á þann veg, að þar hafi ég verið að lauma inn hugmyndum um íslenskan her. Þetta er í raun svo mikið á skjön við allt, sem fram kom í erindinu, að með ólíkindum er, að þessu sé haldið fram af stjórnmálamönnum, vilji þeir á annað borð vera marktækir í umræðum um þessi mál – eða af spunamönnum á blogginu, svo að ég nefni þá til sögunnar, því að Steingrímur Sævarr Ólafsson, sem stjórnar Íslandi í dag á Stöð 2, gerði hinn dæmalausa útúrsnúning Össurar, að sínum orðum og myndskreytti þau með illa gerðri mynd af mér í ljótum einkennisbúningi.

Sýnir best á hve hálum ís Össur og skoðanabræður hans eru í þessu máli, að meira að segja Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, tekur skynsamlegri pól í hæðina en þeir, þegar hann er spurður um ræðu mína í Morgunblaðinu 31. mars. Í blaðinu segir:

„Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, setur spurningarmerki við hugmyndir um stofnun 240 manna varaliðs lögreglunnar og spyr hvort ekki sé skynsamlegra að efla þá löggæslu sem fyrir er í landinu, fjölga löggæslumönnum og bæta starfsaðstæður áður en ráðist er í stofnun „einhvers varaútkallsliðs“.

Steingrímur tekur fram að honum hafi ekki gefist tóm til að kynna sér hugmyndir dómsmálaráðherra nákvæmlega. Hann segir að megn óánægja sé með það í byggðum landsins hversu takmörkuð almenna löggæslan er í dag. „Má ekki frekar efla þá almennu löggæslu og björgunarþætti sem fyrir er í landinu?“ spyr hann og bætir við að hugmyndir í þá veru að stofna varalið lykti af áhuga Björns Bjarnasonar á að koma á fót vísi að her eða sérsveitum.

Spurður um ummæli Björns um aukna áherslu á heimavarnir og að borgaralegar stofnanir komi meira til sögunnar, sagðist Steingrímur geta tekið undir þær upp að ákveðnu marki. „Menn hafa í talsverðum mæli endurskilgreint öryggishugtakið á síðustu 10 til 15 árum og ég hef alltaf haldið því fram að verkefni okkar eru borgaralegs eðlis. Við erum með þær stofnanir í landinu sem við þurfum til þess, þ.e. a.s. löggæsluna, tollgæsluna, landamæraeftirlitið og björgunarsveitirnar. Það er enginn þörf fyrir her eða hervarnir.

Ef Björn Bjarnason er að átta sig á þessu þá er það gott. Þetta hef ég sagt í tíu ár, nú er herinn farinn og kannski er Björn bara að endurmeta sín viðhorf í þessu. Hann var áður fyrr mikill talsmaður hervarna og sýnilegra loftvarna eins og það hefur verið kallað.“

Steingrímur tók fram að hann vildi ekki fella dóma yfir þessum hugmyndum fyrr en hann hefði kannað þær betur og í heild sinni.“

Þegar Steingrímur J. ræðir um öryggismál þjóðarinnar á þennan veg er unnt að eiga við hann málefnalegar umræður um þau. Hér er ekki um að ræða annað hvort eflingu lögreglu eða varalið – hvoru tveggja þarf að vera á dagskrá. Ég er enn talsmaður hervarna til að tryggja öryggi Íslands. Þær eru í höndum Bandaríkjamanna samkvæmt varnarsamningnum frá 1951. Þar skilur á milli okkar Steingríms J., því að hann vill segja upp varnarsamningnum og að Ísland fari úr NATO.

Fyrir nokkru þótti tíðindum sæta, að við fulltrúar Sjálfstæðisflokks og vinstri/grænna í Evrópunefnd skiluðum að nokkru sameiginlegu áliti á afstöðunni til Evrópusambandsins. Mér finnst ekki síður sæta tíðindum, að formaður vinstri/grænna skuli tala á þennan veg um ræðu mína um öryggis- og varnarmál í stað þess að hlaupa ofan í sömu holu og Össur Skarphéðinsson – það gerir Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hins vegar í Morgunblaðinu 31. mars. Um afstöðu hennar segir:

„Þórunn segir þessa hugmynd koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum. ,,Nú halda aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni því fram að varnir okkar séu að fullu tryggðar,“ segir hún og bætir við að auk þess sé rætt um aukið samstarf við önnur Norðurlönd á N-Atlantshafi. „Ég velti því fyrir mér hvar þessar hugmyndir Björns Bjarnasonar passa inn í þessa heildarmynd sem ég hélt að ríkisstjórnin hefði reynt að teikna upp af stöðunni,“ segir Þórunn.

Hún tekur fram að hún hafi ekki haft tækifæri til að kynna sér þessar hugmyndir til hlítar og þekki ekki hvaða vinna liggi þarna að baki. En fram hafi komið í svörum dómsmálaráðherra í fjölmiðlum að verkefni varaliðs gætu m.a. komið til ef um náttúruhamfarir eða aðrar hamfarir innanlands yrði að ræða. Hún bendir á að hér sé til staðar öflugt almannavarnakerfi og mjög öflugar björgunarsveitir. Því sé þeirri spurningu ósvarað hvað heimavarnalið eigi að gera. Auk þess vanti rökstuðning fyrir því að setja mörg hundruð milljónir í að stofna svona lið og reka það. „Mér finnst því þessi hugmynd fráleit.““

Af þessari afstöðu Þórunnar dreg ég þá einföldu ályktun, að hún hafi ekki hugmynd um það, sem í ræðu minni sagði, því að þar var ég einmitt að fara yfir stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún var kynnt 26. september 2006, en þar var einmitt rætt um varaliðið, svo að það er vissulega hluti af „heildarmynd“ ríkisstjórnarinnar.

Viðbrögðin, sem ég hef fengið frá þeim, sem starfa á vettvangi björgunarsveita, sýna, að þar telja menn þörf fyrir skýrari heimildir og reglur um varalið. Í bréfi frá einum þessara manna segir meðal annars:

„Í tilefni þeirrar umræðu sem er í dag um varalið lögreglu vil ég lýsa yfir stuðningi mínum við þessa hugmynd. Á þessum árum hef ég þrisvar þurft að vera hluti af aðstoðarliði lögreglu, þ.e á fundi Reagan og Gorbatshov, við heimsókn páfa og við kristnitökuafmælið á Þingvöllum. Í öllum þessum tilfellum hefur verið full þörf á að hafa til taks hóp fólks sem hefur þjálfun og reynslu af starfi sem varalið lögreglu. Það gengur ekki að það þurfi stöðugt ad hoc reddingar hjá okkar fólki í svona tilfellum.

 

Einnig hefur þetta eins og þér er kunnugt um verið skilgreint sem hluti af okkar störfum sem aðstoðarlið lögreglu í almannavarnaástandi. Þar hefur verið reynt að koma á þjálfun í tengslum við Lögregluskólann, en vandamál hafa þar komið upp varðandi lagastoð og lagaleg réttindi okkar fólks.

 

Á hverju sumri eru björgunarsveitarmenn til aðstoðar lögreglu við gæslu á útihátíðum osfrv og þar hafa komið upp álitamál þegar fólk hefur verið aðstoðarlið lögreglu.

 

Þess vegna væri formleg tilkoma varaliðs lögreglu til mikilla bóta og tryggja þjálfun, réttindi og skyldur þeirra sem hvort sem er þurfa að koma að þessum störfum þegar neyðarástand skapast.“

 

Sigurgeir Guðmundsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 30 mars: „Þetta er bara eins og þegar að menn ganga í raðir slökkviliðsmanna eða eitthvað slíkt. Þetta er bara hið besta mál. Við náttúrulega vinnum með, við hlið lögreglunnar að leit og björgun og að vernda eignir fólks og svo framvegis. Þarna er bara verið að koma einhverju meira skikki á þessi mál.

 

Í sama fréttatíma hljóðvarpsins sagði einnig:

 

„Össur Skarphéðinsson, varaformaður Samfylkingarinnar [svo!], sagði í hádegisfréttum að ekki væri hægt að skilgreina varalið ríkislögreglustjóra sem annað en herlið. Georg Lárusson, forstjóri landhelgisgæslunnar og fyrrverandi formaður almannavarnaráðs [svo!], vísar því á bug.

Georg Lárusson: „Nei, nei, nei, það er alveg af og frá. Við getum náttúrulega ekkert staðið hér eins og glópar upp á Íslandi. Við verðum að horfa á það sem er að gerast í heiminum og vera viðbúin því sem kann að gerast en allt, það sem er kannski meginatriðið er það að þetta er allt saman byggt á borgaralegum grunni. Það verðið að byggja ofan á skipulag sem er fyrir, það er ekkert sem að lyktar af neinu hernaðarbrölti í þessu frumvarpi.

Georg segir að almannavarnir hafi allt frá árinu 1962 veri túlkaðar vítt í lögum, ekki aðeins sem viðbúnaður við náttúruhamförum heldur einnig til að vernda almenning fyrir hernaðaraðgerðum.

Georg Lárusson: „Þannig að hernaðaraðgerðir hafa verið inn í lögum frá 1962 og þetta er kannski bara nánari útfærsla á því sem kann að geta gerst hér. Hryðjuverkaógn hugsanlega og svo framvegis og framvegis, þannig að þetta er engin gjörbreyting. Það er sami grunnurinn.

 

Í tilefni af þessum orðum Georgs segir Össur á vefsíðu sinni:

 

“Þetta er allt annað en dómsmálaráðherra hefur sagt. Er það Georg Lárusson sem ekki þekkir hlutverk varaliðsins - eða telur dómsmálaráðherra að óvopnað varalið geti veitt vernd gegn hernaðaraðgerðum og hryðjuverkaógninni sem forstjóri Landhelgisgæslunnar talaði um í Ríkisútvarpinu í gær?

Björn Bjarnason þarf að skýra þetta mál. Yfirlýsingar hans og forstjóra Landhelgisgæslunnar eru misvísandi - svo vægt sé að orði kveðið.“

Spurning er hvort Össur hafi ekki hlustað á Georg, áður en hann skrifaði þetta, frekar en hann las ekki erindi mitt, áður en hann skýrði, hvað þar sagði. Hvernig sem á þetta mál er litið, er í raun óskiljanlegt, að Össur og fylgismenn hans hafi ákveðið að tala um varaliðið á þann veg, sem þeir hafa kosið að gera. Breytingar á lögreglulögum leiða einfaldlega ekki til þess, að hér verði stofnaður her! Almannavarnahugtakinu er ekki heldur breytt, þótt það sé skerpt.

 

Ég heyrði, að Margrét S. Björnsdóttir, sem ekki er í liði Össurar innan Samfylkingarinnar, ræða málið á allt öðrum nótum en hann í útvarpsþættinum Í vikulokin laugardaginn 31. mars. Hún hoppaði með öðrum orðum ekki ofan í holuna með Össuri til að halda áfram að grafa með honum, heldur ákvað að skipa sér í lið með þeim, sem telja sjálfsagt að ræða málið á málefnalegum grunni.

 

Þegar ég verð þess var, að enn og aftur er það ætlan fjölmiðlamanna að beina umræðum í framhaldi af ræðu minni inn á þær brautir, að ég hafi gaman að kvikmyndum með Bruce Willis, eins og gert er í Blaðinu  31. mars, eða ég sé að stofna einhvern leyniher með tillögum, sem ekki hafa einu sinni verið ræddar á alþingi, velti ég því fyrir mér, hvenær í ósköpunum skapist hér grundvöllur til að ræða mikilvæg hagsmunamál í þágu öryggis Íslendinga, án þess að fíflaskapur og rugl dragi umræðurnar ofan í svaðið.

 

Ég sá einhvers staðar þau rök notuð til stuðnings málstað Össurar, að Sigmund teiknaði mig jafnan í herklæðum í Morgunblaðinu og þess vegna hlyti ég að vilja stofna íslenskan her! Sé málstaður Samfylkingarinnar almennt byggður á slíkum rökum, er ekki skrýtið, að fylgið minnki í stað þess að aukast.