25.3.2007

Evrópusambandið 50 ára.

Evrópusambandið (ESB) fagnar 50 ára afmæli í dag. Þegar litið er yfir samskipti Íslands og ESB í þessi 50 ár,  má minna á, að Íslendingar stóðu næst því að ganga í ESB við upphaf sjöunda áratugarins, þegar viðreisnarstjórnin var við völd. Þá var rætt um hugsanlega aðild af hálfu ríkisstjórnarinnar og sérfræðinga hennar af meiri þunga en nokkru sinni síðan. Bretar voru þá að velta fyrir sér aðild. Þeim var hafnað af Charles de Gaulle Frakklandsforseta og þar með runnu hugmyndir um aðild Íslands einnig út í sandinn.

 

Ísland gerðist ekki aðili að EFTA, fríverslunarsamtökum Evrópu, fyrr en árið 1970 og voru harðar deilur um málið á alþingi, þegar framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn snerust hart gegn aðildinni. Þeir settust síðan í ríkisstjórn 1971 og vildu að sjálfsögðu ekkert vita af stækkun ESB 1973, þegar Bretar og Danir gerðust aðilar. Norðmenn höfnuðu aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu 1972.

 

1989 bauð Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar ESB, EFTA-ríkjunum að gera samning um fjórfrelsið við ESB – EES-samninginn. Þá var Steingrímur Hermannsson, Framsóknarflokki, forsætisráðherra í vinstri stjórn og Jón Baldvin Hannibalsson, Alþýðuflokki, utanríkisráðherra. Þeir gengu til EES-viðræðnanna með samþykki Alþýðubandalagsins, sem sat með þeim í ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu voru tvístígandi og hallaðist þingflokkurinn að gerð tvíhliða samnings við ESB.

 

1991 urðu stjórnarskipti, Davíð Oddsson varð forsætisráðherra en Jón Baldvin hélt áfram sem utanríkisráðherra. Þingflokkur sjálfstæðismanna ákvað að standa að viðræðunum um EES, þótt innan hans væru ekki allir á því máli. Framsóknarmenn snerust gegn EES og einnig Alþýðubandalagið, við lokaafgreiðslu málsins á þingi klofnaði þingflokkur framsóknarmanna, Halldór Ásgrímsson og nokkrir þingmenn með honum sátu hjá en aðrir voru á móti. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem þá sat á þingi fyrir Kvennalistann, sat hjá við atkvæðagreiðslu um EES (hún hefur síðar látið eins og hún hafi stutt aðild) en aðrar kvennalistakonur voru á móti samningnum.

 

Eftir hrun Sovétríkjanna glímdu hlutlausu EFTA-ríkin, Austurríki, Finnland og Svíþjóð, ekki lengur við sovéska andstöðu við aðild þeirra að ESB og þau ákváðu að hætta við EES og ganga beint í ESB. Norðmenn felldu árið 1994 ESB-aðild aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svisslendingar felldu bæði EES- og ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef áherslan hér á landi hefði á þessum árum færst frá EES-aðild yfir á ESB-aðild, hefðum við lent í sömu sporum og Svisslendingar, en síðan setið uppi með áhugaleysi ESB um að gera við okkur tvíhliða samning.

 

EES-aðild var og er besti kosturinn  fyrir okkur til náins samstarfs við ESB og síðar urðum við aðilar að Schengen-samstarfinu um landamæralausa Evrópu. Um þróun þessara tengsla má lesa í skýrslu Evrópunefndar, sem birt var 13. mars 2007.

 

Evrópusambandið heldur áfram og íslensk stjórnvöld munu áfram rækta samstarf við það. Í skýrslu Evrópunefndar er bent á, hvernig það verður best gert. Þar er einnig farið yfir praktísk og pólitísk atriði, sem hafa verður í huga, ef ræða á aðild að ESB. Í stuttu máli er ferlið ekki flókið: Við förum í einskonar krossapróf, ef við svörum ekki öllum spurningum og skilyrðum ESB játandi, fáum við frest til að svara játandi síðar, ekki verður um neinar varanlegar undanþágur á neinum sviðum að ræða.

 

Áður en þetta gerist, ef það gerist, þarf að breyta íslensku stjórnarskránni og heimila framsal á fullveldi til yfirþjóðlegra stofnana. Nýlegar umræður um breytingar á stjórnarskránni og ítrekanir á því, að um víðtæka samstöðu, helst allra flokka þurfi að vera að ræða, sýna, að hér getur orðið um flókið heimaverkefni að ræða.

 

Áður en til þess hugsanlega kemur, að rætt verði um aðild við ESB, þarf að setja lög um, hvernig staðið skuli að þjóðaratkvæðagreiðslum, til að um bindandi niðurstöðu sé að ræða. Þegar sá einkennilegi og óvænti atburður gerðist 2. júní 2004, að forseti Íslands synjaði lögum með því að neita að skrifa undir þau, urðu hatrammar pólitískar deilur um, hvernig staðið skyldi að þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Á atkvæðagreiðsluna reyndi ekki, af því að ríkisstjórnin dró hið samþykkta lagafrumvarp til baka. Eftir stendur, að mjög erfitt getur orðið að ná samþykki um reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur.

 

Þeir, sem vilja aðild að ESB, ættu að beita sér fyrir umræðum um það, hvernig best sé að komast yfir þessa heimasmíðuðu þröskulda, ef þeir vilja vera trúverðugir í málflutningi sínum. Án leiðar yfir þá er tómt mál að láta eins og málið snúist um einhver samningsmarkmið gagnvart ESB – þar er aðeins um eina kjólastærð að ræða, annað hvort passar þú í hana eða þú verður að fita þig eða grenna til að njóta þín í henni – stærðinni, sniðinu og litnum verður ekki breytt.

 

Á fréttavef BBC er í tilefni af 50 ára afmæli ESB birt grein eftir Kjetil Wiedswang dálkahöfund Dagens Næringslivtil að lýsa stöðu Noregs gagnvart ESB, hann víkur að Íslandi með þessum orðum:

„The second largest non-EU member of the EEA is Iceland, which has a single reason for not being a EU member - a deep fear of the EU Common Fisheries Policy. That fear is absolutely rational and Iceland's position is not going to change any time soon. “

*

 

Yfirlýsingin, sem leiðtogar ESB-ríkjanna gáfu á fundi sínum í dag í Berlín, þegar þeir fögnuðu 50 ára afmælinu, ber þess merki, að reynt er að sigla fram hjá deilumálum, þótt lagt sé á ráðin um að hefja að nýju vinnu við einhvers konar nýjan sáttmála (ekki má nota orðið stjórnarskrá) til að gera ESB sæmilega starfhæft með 27 aðildarríkjum (Tyrkland og Króatía eru í biðsalnum en enginn frá þeim var við hátíðarhöldin í Berlín og ekki er minnst á ný aðildarríki í Berlínar- yfirlýsingunni.) Um hana segir Mark Mardell, Evrópuritstjóri BBC, meðal annars:

It's also true that one of the European Union's stock phrases, "ever closer union," does not make an appearance. Instead, there is a reference to the EU thriving "on the will of its members states to consolidate the Union's internal development".

Angela Merkel later suggested that there was wide agreement that energy and home affairs [það er refsi- og lögreglumál] should become areas where the EU can make laws.

The Germans have on the whole achieved their aim of writing an accessible and easy to understand document that won't cause offence in the governments of the member countries.

But to deal with that tricky issue of what happens to the constitution, the Germans had to use more oblique language.

While they avoid the word "constitution" itself, the declaration says: "We are united in our aim of placing the European Union on a renewed common basis" by 2009.

This is quick. Diplomats say to achieve the 2009 deadline there would have to be agreement at a big summit by next January at the latest.

Given that the real work can't start until the French choose a new president at the beginning of May, this means the wrangling has to take place in just eight months, or seven if you take out the August break. The Poles have come straight out and said this is unrealistic.“

Bretar vilja ekki, að hið nýja skjal sé þannig úr garði gert, að nauðsynlegt sé að bera það undir þjóðaratakvæðagreiðslu. Í frétt BBC segir hins vegar:

„But a poll by a British Eurosceptic think tank, Open Europe, suggests that three-quarters of Europeans would like a referendum on any new treaty giving more power to the EU.

According to the poll, carried out in all 27 EU countries, 41% of people in the EU would Yes in such a referendum and the same proportion, 41%, would vote against.

However, a majority would vote No in 16 EU countries, including Germany.“

*

Hér á landi starfa Evrópusamtök með að markmiði, að Ísland verði aðili að ESB. Samtök iðnaðarins hafa verið hlynnt því, að Ísland gerðist aðili að ESB en ályktun Iðnþings 2007 tekur ekki af skarið um það efni, því að þar segir:

„Samtök iðnaðarins krefjast þess að Alþingi sem kjörið verður í vor og  næsta ríkisstjórn taki aðild Íslands að Evrópusambandinu til alvarlegrar skoðunar og komist að niður­stöðu á kjörtímabilinu. Ná þarf sem víðtækastri samstöðu meðal stjórn­mála­flokka, samtaka atvinnu­rekenda og launþega um stefnu þjóðarinnar í Evrópumálum.“

Spyrja má, þegar þessi ályktun er lesin: Eru einhverjar deilur milli stjórnmálaflokka, samtaka atvinnurekenda og launþega um stefnu þjóðarinnar í Evrópumálum? Við lestur textans verður þó að hafa í huga, að í umræðum um Ísland og ESB tala Evrópusinnar oft einskonar dulmál, orðin „stefna þjóðarinnar í Evrópumálum“ kann að eiga að túlka á þann veg, að í þeim felist áskorun um, að samstaða náist um umsókn að ESB milli stjórnmálaflokka, samtaka atvinnurekenda og launþega. Setningin er í raun merkingarlaus, ef í henni felst ekki einhver dulin áskorun.

Röksemdir talsmanna ESB-aðildar hér á landi eru oft næsta langsóttar, eins og þegar EES-samningnum er líkt við gamla sáttmála og látið í veðri vaka, að við séum algjörlega háðir vilja Norðmanna um framtíð hans. Fullyrðingar um þetta standast ekki gagnrýna skoðun en eru settar fram til að kalla fram tilfinningaleg viðbrögð.

Auðbjörg Ólafsdóttir, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, ritaði grein í blaðið 22. mars og fannst ekki mikið um skýrslu Evrópunefndar, þvert á orð annarra, sem um hana hafa rætt á opinberum vettvangi. Þá gerði hún lítið úr hlut stjórnmálamanna í umræðum um Evrópumálum. Bar greinin öll merki þess, að Auðbjörg hallist að skjótri aðild Íslands að ESB og sárni, að skýrsla Evrópunefndar er þeirri skoðun ekki til framdráttar. Auðbjörg virðist telja, að umræður um evruna séu til marks um, að aðild að ESB sé á næsta leiti og viðskiptajöfrar leiði stjórnmálamenn og þjóðina inn í evru-landið nú alveg á næstunni.

Hver svo sem afstaða viðskiptalífisins er, fara stjórnendur þess ekki fram hjá leikreglunum hér hjá okkur og innan ESB. Hvers vegna kalla viðskiptajöfrar ekki á breytingu á stjórnarskránni? Eða á setningu laga um þjóðaratkvæðagreiðslu? Samkvæmt skýrslu Evrópunefndar tæki 2 til 3 ár að ganga frá samningum við ESB eftir að stjórnarskránni hefði verið breytt og þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram – síðan þyrfti svipaðan árafjölda til að komast inn í evru-landið.

Það er engin furða, að blaðamönnum, sem gera jafnlítið með staðreyndir og Auðbjörg Ólafsdóttir í þessari grein sinni um Evrópumálin, þyki lítið til skýrslu Evrópunefndarinnar koma.