17.3.2007

Evrópuumræður - Össur - viðvörun Þorgerðar Katrínar.

Þriðjudaginn 13. mars héldum við í Evrópunefnd blaðamannafund og sendum frá okkur 136 bls. langa skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, þar sem við ræðum ekki aðeins um framkvæmd EES-samningsins, sem tók gildi 1. janúar 1994, heldur einnig um Schengen-samstarfið, sem hefur verið að þróast með virkri þátttöku okkar undanfarin ár. Í umræðunum um Evrópumálin gleymist oft, að þar er um tvær meginsamskiptaleiðir okkar Íslendinga að ræða, EES og Schengen. Þá er þess ekki heldur alltaf látið getið, að við hliðina á EES höfum við samið um aðild að menningar-, menntunar- og vísindasamstarfi við ESB.

Ég vek athygli á því, að á vefsíðu forsætisráðuneytisins eru eftirfarandi fylgiskjöl með skýrslu Evrópunefndar birt:

Lög samþykkt á Alþingi sem eiga rætur að rekja til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið Greinargerð sem Eva Margrét Ævarsdóttir og Hafdís Ólafsdóttir frá skrifstofu Alþingis unnu fyrir Evrópunefndina.

Minnispunktar um þátttöku í evrópsku samstarfi í rúman áratug Greinargerð sem Ágúst H. Ingþórsson vann fyrir Evrópunefndina árið 2006 um þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB.

Kostir og gallar upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi Greinargerð unnin af Hagfræðistofnun fyrir Evrópunefndina árið 2007.

Schengensamstarf í þágu öryggis og frelsis Grein eftir Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra og formann Evrópunefndar. Birtist upphaflega árið 2006 í Bifröst. Riti lagadeildar Háskólans á Bifröst

Samstarf ESB á sviði utanríkis- og öryggismála og tengsl Íslands við það samstarf Greinargerð sem Þórir Ibsen vann fyrir Evrópunefndina árið 2006.

Nefndin hefur auk þess leitað eftir heimild þeirra fjölmörgu gesta, sem komu á fund hennar til að birta á vefsíðu forsætisráðuneytisins fundargerðir, sem Hreinn Hrafnkelsson, starfsmaður nefndarinnar, skráði eftir hvern fund. Þær gefa einstaklega góða mynd af stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu á líðandi stundu.

Sem formaður nefndarinnar fagna ég því, hve skýrsla nefndarinnar hefur fengið góðar viðtökur. Að sjálfsögðu lesa menn það gjarnan út úr úttekt eins og þessari, sem þeim finnst koma sínum málstað best. Hins vegar er full ástæða til að benda þeim, sem eru að velta fyrir sér útleggingum á skýrslunni, að lesa hana sjálfa og það, sem þar segir til  dæmis um „sérlausnir“ einstakra ríkja. Enginn, sem skoðar þann texta af hlutlægni, getur komist að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar fengju viðurkenningu á yfirráðum um yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu sinni sem „sérlausn“ á vettvangi Evrópusambandsins með vísan til þess, hvernig samið var við Möltu og Lettland, en um það má lesa á bls. 103 til 104 í skýrslunni.

Í aðildarsamningi Möltu er að finna ákvæði um sérstakt stjórnunarsvæði fyrir fiskveiðar innan 25 mílna lögsögu. Sú lausn byggir á verndunarsjónarmiðum og felur ekki í sér undanþágu frá reglunni um jafnan aðgang allra heldur er byggt á stærð báta. Einungis fiskibátar innan við 12 metrar að lengd mega veiða innan 12 til 25 mílna, sem tryggir Maltverjum allan kvótann, þar sem svo langt er á miðin frá öðrum löndum, að ekki er hagkvæmt fyrir fiskimenn annarra þjóða að sækja á þau. Heildarfiskafli Maltverja hefur verið 850 til 1050 tonn á ári en hér var heildaraflinn 1.667.000 tonn árið 2005.

Lettland samdi um sérstakt stjórnunarsvæði fyrir fiskveiðar í Riga-flóa með vísan til verndunarsjónarmiða, ekki er veitt undanþága frá reglunni um jafnan aðgang allra, heldur miðað við vélarstærð og má hún ekki vera yfir 221 kW hjá fiskibátum. Að auki hefur verið gerður listi yfir fiskibáta með veiðileyfi í Riga-flóa til að tryggja  að heildarfiskveiðigeta þeirra, mæld í vélarstærð (kW) verði ekki meiri en árin 200-2001.

Í raun þarf meira en gott hugmyndaflug til að láta sér til hugar koma, að „sérlausnir“ af þessum toga komi til álita, þegar Íslendingar gera kröfu til fullra yfirráða yfir 200 mílna lögsögu sinni og að þeir sitji einir að þeim afla, sem þar er að finna – að bera 758 þúsund ferkílómetra lögsögu okkar saman við Riga-flóa, eða 1.667.000 tonna afla saman við um 1000 tonna afla Maltverja, er einfaldlega fráleitt.

Látið hefur verið að því liggja, að til að ná fram slíkri sérlausn nægi að eiga góða samningamenn. Ég geri ekki lítið úr gildi góðra samningamanna og einn þeirra er Kolbeinn Árnason, lögfræðingur, sem hefur komið að samningum um sjávarútvegsmál á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Í tilefni af skýrslu Evrópunefndar var rætt við hann í 22 fréttum sjónvarps ríkisins miðvikudaginn 14. mars og er fréttin á þennan veg:

„Það er flókið mál að ná góðum samningum við Evrópusambandið um fiskveiðar segir fyrrverandi samningamaður Íslendinga. Nær ómögulegt sé að fullyrða hver niðurstaðan yrði ef sótt yrði um aðild að ESB.

Kolbeinn Árnason tók um árabil þátt í samningaviðræðum við Evrópusambandið um fiskveiðar. Samningar hafa verið gerðir um flesta mikilvægustu stofnanna.

Kolbeinn Árnason: Menn hafa ákveðið að sætta sig við þá niðurstöðu, sem að, sem að þar fékkst og eflaust eru skiptar skoðanir um það hvort að það hafi tekist vel eða illa. Einhverjir stofnar eru ennþá úti eins og til dæmis karfi á Reykjaneshrygg sem er gríðarlega mikilvægur stofn.

Sumir telja að Íslendingar verði að sækja um aðild að ESB og hefja viðræður til að fá botn í það hvernig sjávarútvegsmálum yrði háttað eftir inngöngu.

Kolbeinn Árnason: Ég held að áður en menn sækja um þá sé nú rétt að átta sig á því hvað við viljum og rétt að átta sig á því hvað hinn aðilinn í þeim samningum er líklegur til að vilja.

Hann segir að þótt Evrópusambandið sé ekki mjög efnahagslega háð fiskveiðum þá séu þær mikilvægur pólitískur málaflokkur.

Kolbeinn Árnason: Það er augljóst öllum þeim sem hafa tekið þátt í viðræðum við þá um, um fiskveiðar að, að þar eru öflugir þrýstihópar á ferð og þeir koma þar fram að fullri alvöru og einurð í samningum gagnvart hverjum sem er.

Og því er erfitt að fullyrða hver niðurstaðan yrði af mögulegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Kolbeinn Árnason: Reynslan segir okkur að, að, að það er flókið mál, erfitt og tímafrekt að, að ná góðri niðurstöðu í samningum við Evrópusambandið þegar það kemur að fiskveiðum.

Af þeim fulltrúum hagsmunasamtaka, sem komu á fund Evrópunefndar, mæltu aðeins fulltrúar Samtaka iðnaðarins með aðild að Evrópusambandinu. Á Iðnþingi, sem haldið var 16. mars 2007 ræddi Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, um Evrópumál. Það vakti athygli mína, að hann lét eins og þau hefðu ekkert verið rætt á því kjörtímabili, sem nú er að líða og minntist ekki einu orði á skýrslu Evrópunefndar heldur sagði:

„Það er kominn tími til að Íslendingar fái botn í áralanga umræðu um það hvort við ætlum að sækjast eftir aðild að ESB og taka upp evru eða sigla okkar sjó um alllanga framtíð með íslensku krónuna sem framtíðargjaldmiðil.

Umræðan um þessi mál hefur verið algjörlega óviðunandi hér á landi. Hún hefur því miður ekki farið fram af neinni yfirvegun og skynsemi. Hún hefur verið  sundurlaus og hættuleg. Því miður hefur stundum skort á að menn gæti orða sinna og gefið yfirlýsingar sem hafa verið til þess fallnar að grafa undan trausti gagnvart Íslendingum.....

Er ekki rétti tíminn einmitt kominn á Íslandi fyrir vitræna umræðu um Ísland og Evrópu með ákvörðun - af eða á -  að markmiði. Er sá tími ekki strax eftir kosningarnar 12. maí? Við lítum þannig á að þessi mál eigi að leiða til lykta á næsta kjörtímabili.

Það er sú krafa sem við gerum til þeirra sem verða kjörnir til setu á Alþingi í vor og til þeirrar ríkisstjórnar sem þá verður mynduð. Ef góður meirihluti næst á Alþingi fyrir því að láta reyna á aðildarumsókn á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða og sé atvinnulífið og verkalýðshreyfingin því fylgjandi – þá á að láta til skarar skríða fyrr en seinna. 

Næsta þing og næsta kjörtímabil ráða útslitum. 

Verði ekki samhugur um það, getum við hætt að fjalla um þessi Evrópumál – í bili að minnsta kosti – því að umræðan eins og hún er núna gerir ekkert nema skaða samfélagið.“

Eftir þá miklu vinnu, sem við fulltrúar allra flokka höfum lagt í að ræða Evrópumálin á þessu kjörtímabili, og eftir að hafa lagt fram ítarlega skýrslu um málið, þar sem öllum steinum er velt til að skoða það, sem að baki býr, er í raun furðulegt, að lesa þessi orð formanns Samtaka iðnaðarins um málið, þremur dögum, eftir að skýrslan birtist. Fór hún framhjá honum eða kaus hann einfaldlega að þegja um hana og óska eftir að sama starf færi fram á næsta kjörtímabili? Hvernig er unnt að taka málflutning af þessu tagi alvarlega? Er þetta kannski bara gamli söngurinn um, að engar umræður fari fram, af því að enginn stjórnmálaflokkur tekur af skarið um aðild að ESB og gerir það að höfuðmáli sínu? Allar skynsamlegar umræður koðna einmitt niður og verða að engu, þegar látið er eins og ekkert hafi gerst í Evrópumálum, þótt þau séu brotin til mergjar og niðurstaðan kynnt á greinargóðan hátt. Ef eitthvað „skaðar“ Evrópuumræðurnar, er það innantómt tal á borð við það, sem fram kom hjá formanni Samtaka iðnaðarins.

Ályktun Iðnþings 2007 bendir til, að þar séu menn ekki eins ákveðnir og áður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Nú er málinu varpað til þingmanna með þessum almennu orðum:

„Samtök iðnaðarins krefjast þess að Alþingi sem kjörið verður í vor og  næsta ríkisstjórn taki aðild Íslands að Evrópusambandinu til alvarlegrar skoðunar og komist að niður­stöðu á kjörtímabilinu. Ná þarf sem víðtækastri samstöðu meðal stjórn­mála­flokka, samtaka atvinnu­rekenda og launþega um stefnu þjóðarinnar í Evrópumálum.“

Össur.

Agnes Bragadóttir ritar fréttaskýringu á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 17. mars undir fyrirsögninni: Einleikur með fölskum hljómi – Geir og Jón sáu við Barbabrellum Össurar. Hefst greinin á þessum orðum:

„Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kann svila sínum, Össuri Skarphéðinssyni, litlar þakkir fyrir þann einleik sem hann hefur, í nafni Samfylkingarinnar, leikið í auðlindaákvæðismálinu, í fullkominni óþökk flestra Samfylkingarmanna, samkvæmt mínum heimildum.“

Síðan segir Agnes, að stjórnarskrárbreytingin hafi aðeins verið skálkaskjól Össurar til að reka fleyg milli stjórnarflokkanna og sprengja stjórnina, en þeir Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson hafi séð við honum. Til að koma málinu frá sér hafi formenn stjórnarandstöðuflokkanna boðað til blaðamannafundar 16. mars og sagt, að þeir hafi ekki borið neina ábyrgð á því að stjórnarskrárbreytingin náði ekki fram að ganga. Vegna þeirra orða spyr Agnes: „En er það svo?“ Hún svarar ekki spurningunni.

Hinn 5. mars efndu forystumenn Samfylkingar, vinstri/grænna og frjálslyndra til blaðamannafundar vegna þeirrar stöðu, sem upp var kominn í tilefni af kröfu framsóknarmanna um að sameignarákvæði kæmi í stjórnarskrána. Lýstu forystumenn flokkanna sig  reiðubúna til að greiða fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ekki væru háðar einkaeignarrétti, yrði tekið upp í stjórnarskrá. Sögðu þeir boltann nú hjá framsókn.

Í fréttum var þetta haft eftir Össuri Skarphéðinssyni: „Þetta hefur verið sameiginlegt baráttumál okkar sem að erum samherjar í stjórnarandstöðu og við höfum ákveðið að ganga til samstarfs eða bjóða upp á samstarf við ríkisstjórnina til þess að ná fram þessu sameiginlega baráttumáli stjórnarflokkanna og okkar.

Hinn 15. mars ákvað sérnefnd alþingis um stjórnarskrármál að vísa auðlindákvæðinu til stjórnarskrárnefndar og þar með af borði alþingis að þessu sinni. Birgir Ármannsson, formaður sérnefndarinnar, sagði ástæðuna þá, að meirihluti nefndarinnar teldi, að við meðferð málsins í þinginu og í nefndinni hefði komið fram svo ólík sjónarmið, bæði meðal stjórnmálamanna og sérfræðinga, að nefndinni myndi ekki vinnast tími til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu.

Viðbrögð Össurar Skarphéðinssonar voru þau í kvöldfréttum sjónvarps 15. mars, að það hefði alls ekki verið látið á það reyna hvort það væri hægt að ná samstöðu. Hann vildi fá þjóðareign inn í stjórnarskrána en það hefði ekki verið tekið til neinnar umræðu og  þetta væri einhver mesta sneypuför sem hann hefði séð Framsóknarflokkinn fara. Hann færi algjörlega á nefið í þessu máli, teymdur á asnaeyrunum í gegnum þetta af Sjálfstæðisflokknum sem kæmi út sem hinn fullkomni sigurvegari í þessari glímu flokkanna tveggja.

Að sögn Agnesar Bragadóttur er það hins vegar skoðun Samfylkingarfólks, að það séu ekki framsóknarmenn heldur sjálfur Össur, sem hafi farið verst út úr þessu máli og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir haldi þeirri skoðun fram með liði sínu innan flokksins. Hér býr annað og meira undir: Ingibjörg Sólrún er enn að leita að blóraböggli vegna fylgisminnkunar Samfylkingarinnar. Hún er enn að skella skuldinni á Össur – í byrjun desember talaði hún um, að kjósendur treystu ekki þingflokki Samfylkingarinnar, nú er hún beinskeyttari: Það er Össur Skarphéðinsson, sem er eða leiða flokkinn til glötunar en ekki ég!

Ingibjörg Sólrún var í fríi á Kanaríeyjum, þegar Össur kallaði til blaðamannafundar 5. mars til að hefja auðlindagönguna undir merkjum stjórnarskrárinnar. Ég sagði þá, að stóru tíðindin við fundinn væru þau, að Ingibjörg Sólrún hefði ekki setið hann – nú notar hún fjarveru sína til að herða baráttuna gegn Össuri innan flokksins og kenna honum um dvínandi fylgi, sem hefur verið jafnt og þétt síðustu vikur.

Margt bendir til, að Össur ætti frekar að snúa sér að því að líma saman eigin flokk en reyna að kljúfa aðra – honum kann þó svo sem að vera sama um örlög Samfylkingarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar – er ekki einmitt það, sem skín úr fréttaskýringu Agnesar laugardaginn 17. mars?

Viðvörun Þorgerðar Katrínar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra, sagði í eldhúsdagsumræðum á þingi 14. mars:

„Síðastliðinn áratugur hefur verið mesta hagsældar- og framfaratímabil Íslandssögunnar. Íslenskt samfélag er ríkara og fjölbreyttara hvort sem litið er til menningarlegra mælikvarða eða peningalegra. Margt af því sem við teljum vera sjálfsagt í dag, valkostirnir og tækifærin, var það hins vegar ekki fyrir nokkrum árum og verður það heldur ekki lengur ef hér kemst til valda ríkisstjórn undir forustu vinstri flokka sem hafa ávallt skilað auðu eða verið á móti þegar framfaramál hafa komið hér til atkvæðagreiðslu á undanförnum árum. Þegar þetta er sagt er ekki verið að reyna að slá pólitískar keilur heldur eru þetta raunverulegar staðreyndir og það er af mörgu að taka.

 

Hér í salnum er stjórnarandstaða sem studdi ekki rammalöggjöf um háskóla, ein mikilvægustu lög sem samþykkt hafa verið á sviði skólamála í seinni tíð.

 

Hér í salnum er stjórnarandstaða sem vildi ekki veita sjálfstæðum grunnskólum eins og Ísaksskóla, barnaskóla Hjallastefnunnar eða Landakotsskóla tækifæri.

 

Hér í salnum er stjórnarandstaða sem vildi ekki sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskólans eða samkeppni og sjálfstæða skóla á háskólastigi.

 

Hér er stjórnarandstaða sem var á móti skattalækkunum, á móti einkavæðingu ríkisfyrirtækja og vill helst reka stórfyrirtækin með vel menntuðu fólki úr landi.

 

Vel að merkja hér er líka stjórnarandstaða með leiðtoga og mikinn höfðingja sem var á móti frjálsu útvarpi og treysti þjóðinni ekki til að kaupa bjór, en það er önnur saga.

 

En fyrst og síðast er í salnum stjórnarandstaða sem er að meginstefnu til á móti efnahagslegum umbótum sem voru nauðsynlegar fyrir íslenskt samfélag, íslenskar fjölskyldur, íslenskar barnafjölskyldur sem aðrar.

 

Og kostulegt nokk er hér hins vegar einnig stjórnarandstaða sem gefur út háa kosningatékka á grundvelli þessara umbóta, á grundvelli þess hagvaxtar sem skapaður hefur verið á síðustu árum. Það er kannski besti vitnisburður þess að vel hefur tekist til við stjórn efnahagsmála.“

 

Þessi einstæði listi gæti verið miklu lengri – ef stjórnarandstaðan hefði verið við völd síðustu 12 ár, væri mennta-, vísinda- og atvinnulíf enn allt í viðjum, en frjálsræði og samkeppni hefur verið mesti aflvaki síðustu ára.