11.3.2007

Hin hraða rafræna þróun.

Í nýjasta hefti The Economist er ársfjórðungslegur blaðauki um tækni, snýst hann að mestu um upplýsingatæknina og þar er meðal annars rætt við Sir Tim Berners-Lee, sem er faðir veraldarvefsins www. Hann hvarf árið 1994 frá CERN, rannsóknasetrinu nálægt Genf í Sviss, til starfa hjá MIT í Boston. Í greininni segir, að í þann mund sem Sir Tim flutti með fjölskyldu sína eða í árslok 1994 hafi verið um 10.000 vefsíður til í heiminum en séu þær meira en 100 milljón. Hann segir í viðtalinu, að vefurinn hafi verið hannaður með það fyrir augum, að allir gætu lagt eitthvað af mörkum með því að nota hann. Sir Tim er ekkert sérlega uppnæmur yfir því, sem nú er kallað Web 2.0 og á að sameina fleiri nýtingarleiðir.

Sir Tim finnst meira spennandi, að unnt er að nota vefinn í fleiri tækjum en tölvum og nettengdir farsímar séu að taka við af tölvunum af miklum þunga. Þegar þessi tæki lækki í verði, fái fólk í þriðja heiminum aðgang að vefnum.

Árið 2005 komst fjöldi fólks með aðgang að netinu yfir einn milljarð í veröldinni allri. Í Norður-Ameríku eru 70% með netaðgang, 11% í Asíu og minna en 4% í Afríku. Hinn 8. mars sl. birti hagstofan þessar tölur:

Að meðaltali voru tölvur á 84% íslenskra heimila og 83% heimila hér á landi voru tengd interneti árið 2006. Það ár höfðu 62% heimila í aðildarlöndum Evrópusambandsins tölvu og 51% þarlendra heimila voru tengd interneti.

Notkun tölvu og internets er afar útbreidd hér á landi en árið 2006 notuðu 90% Íslendinga á aldrinum 16–74 ára tölvu og 88% þeirra notuðu internet. Á sama tíma notuðu 61% íbúa Evrópusambandsins tölvu og 54% þeirra notuðu internet.“

Sir Tim hefur jafnan haldið þeirri skoðun fram, að vefurinn og netið sé ekki síður félagslegt fyrirbæri en tæknilegt. Vefurinn hefði aldrei öðlast þessa stöðu nema vegna þess að hann laðaði fólk að sér, fólk, sem vildi nýta sér þessa samskiptatækni. Hann hefur beitt sér fyrir rannsóknum á notkun vefjarins og félagslegum áhrifum og telur, að þær geti stuðlað að þróun nýrra félagslegra strauma.

Þá beinir Sir Tim athygli sinni að því, hvort unnt sé að þróa tölvur á þann veg, að þær dragi saman nýtilegar upplýsingar úr gögnum, sem er að finna á vefsíðum eða öðrum grunnum á netinu. Hér er um að ræða upplýsingar, sem menn geta dregið fram á neinu en liggja svo djúpt – deep web - , að venjulegar leitarvélar ná ekki til þeirra. Enginn veit, hvað þarna er um mikið af upplýsingum að ræða, en talið er, að það sé hundruð eða þúsund sinnum meira en „yfirborðs“ leitarvélar geta fundið, en þær eru taldar ná til meira en 10 milljarða blaðsíðna.

Þessar leitarvélar eru margar magnaðar. Ég var til dæmis núna um helgina að leggja lokahönd á skýrslu Evrópunefndar og vildi afla mér upplýsinga um umræður á íslensku um matvælaverð og ESB og fór inn á erlenda leitarvél, sem ég nota töluvert, og sló inn orðin „matvælaverð og ESB“ og fékk þannig aðgang að miklu meira magni af upplýsingum en ég þurfti að nota.

Í þessu sambandi er á ensku rætt um „semantic web“, sem hafi verið í vinnslu í meira en áratug. Skoðanir eru skiptar um, hvort hann komi nokkru sinni til sögunnar. Ég ætla mér ekki þá dul að reyna að skýra það út hér og nú í hverju þessi tækni felst.

Þegar ég las þessa grein í The Economist staldraði ég við þá staðhæfingu, að undir lok 1994 hafi aðeins verið 10.000 vefsíður í veröldinni. Minni ég á, að hinn formlegi fæðingardagur vefsíðu minnar er 19. febrúar 1995 en undirbúningur að síðunni hófst í janúar þetta sama ár. Ég hef áður vikið að því hér á síðunni, hve margar af þessum upphafssíðum séu enn í tölu lifenda eða hafi verið haldið úti stöðugt síðan. Ég held, að þær séu ekki margar.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, bloggaði, áður en hann varð ráðherra. Eftir að hann tók við ráðherraembætti varð hlé á þessari iðju hans en síðan hófst hann handa að nýju og bloggar mikið. Hann hefur sætt gagnrýni blaðamanna í Svíþjóð fyrir þetta, en þeir telja sig missa spón úr aski sínum, þegar ráðherrann stjórnar því sjálfur, hvað um hann og störf hans er sagt. Má helst skilja á blaðaskrifum, að blaðamennirnir telji, að þeir séu nauðsynleg sía á milli stjórnmálamanna og almennings og þeirra hlutverk sé að stjórna því, sem um er rætt en ekki stjórnmálamannsins sjálfs. Auk þess sem menn gagnrýna auðvitað Bildt fyrir, hvað hann „leyfir“ sér að segja – og maðurinn er ráðherra!

Ég þekki þessar umræður og á fyrstu árum síðunnar minnar heyrði, að mörgum þótti ekki við hæfi, að ráðherra væri að viðra skoðanir sínar á þennan hátt. Raunar heyri ég enn setningar sem þessar: „Jú, hann er svo sem ágætur, en hvers vegna þarf að vera með þessa vefsíðu?“

Ég hef svo oft svarað vangaveltum af þessu tagi, að ég ætla að sleppa því núna, en minna á, að fyrsta þunga, pólitíska gagnrýnin, sem beindist gegn mér fyrir að nota vefinn, kom frá Guðrúnu Helgadóttur, rithöfundi og fyrrverandi þingmanni Alþýðubandalagsins, í grein í Morgunblaðinu, sem birtist 12. maí 1995 undir fyrirsögninni: bjorn@centrum.is.

Í greininni sagði Guðrún meðal annars:

„Það er þó ljóst að bjorn@centrum.is, öðru nafni Björn Bjarnason menntamálaráðherra, nýtur ómældra vinsælda landsmanna. Óralangir biðlistar hafa myndast á viðtalaskrá ráðherrans, svo að hann telur kjörtimabilið ekki endast til að hitta allt þetta fólk sem áhuga hefur á mennt og menningu þjóðarinnar. Hann segir því í Morgunblaðinu l0. maí sl. og þetta má líka lesa á Internetinu: „Fljótlegasta og einfaldasta leiðin er hins vegar sú að senda tölvubréf. Á meðan mér endist kraftur til að opna tölvuna og sjá það sem hún hefur að geyma mun ég lesa bréfin og leitast við að svara þeim. Þetta krefst ekki neinna formlegheita og á að tryggja skjót og milliliðalaus samskipti.“

Þetta er auðvitað hárrétt. Misfríðir milliliðirnir eru aðeins til leiðinda á biðstofu ráðherrans og ástæðulaust að eyða vinnutíma þeirra og hans í að hanga þar. Miklum mun er eðlilegra að þeir setjist við tölvuna að loknum vinnudegi og skrifi ráðherra sínum í trausti þess að honum „endist kraftur til að opna tölvuna“ að morgni. Og vissulega má spara dýrmætt starfsþrek ráðherrans, því að þetta getur hann gert heima í rúmi.

Á þessu skipulagi er aðeins einn smágalli. Til er fólk ­ eða svona milliliðir ­ í landinu sem annt er um íslenska menningu, en hefur aldrei vanist tölvuskriftum. Því fólki fer þó fækkandi og mikill fjöldi manna hefur fjárfest í heimilistölvu og kann að nota hana. En ekki nægir að eiga tölvu til að skrifa ráðherranum, heldur þarf einnig að festa kaup á viðbótarhlut sem kallaður er mótald og hann kostar einhverja tugi þúsunda. Þetta er nauðsynlegt að menn viti sem áhrif vilja hafa á mennta- og menningarmálastefnu ráðherrans.

Ekki er að efa að öll ríkisstjórnin á eftir að fara að dæmi menntamálaráðherrans, svo og Alþingi allt, og losa sig þannig við sauðsvartan almúgann sem vílar ekki fyrir sér að trufla þingmenn og ráðherra í tíma og ótíma með ólíklegasta kvabbi og hafa skoðanir á öllum málum. Það er dagljóst að kraftar þingmanna duga miklu betur ef þeir þurfa aldrei að sjá kjósendur sína í eigin persónu sína eða eyða tíma sínum í að hlusta á rausið í þeim en geta þess í stað einbeitt sér við að „leitast við að svara“ bréfum. Milliliðalaus samskipti manna er það sem koma skal. “

Ég svaraði þessum aðfinnslum Guðrúnar og fleiri gerðu það eins og sjá má á upphafi þessarar greinar, sem Guðrún ritaði og birtist í Morgunblaðinu 20. maí 1995:

„Mikil kvöl er kímnigáfan. Örlítill greinarstúfur minn í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum vegna tilboðs hins nýja menntamálaráðherra um að menn hafi samband við hann í tölvupósti og hann heiti nú bjorn@centrum.is hefur valdið miklu uppnámi. Ráðherrann er sár við mig, höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins setur ofan í við svo fávísa konu og í blaðinu í dag birtist grein undir fyrirsögninni rhbriem@ismennt.is, sem er tölvuheiti höfundarins Ragnheiðar Briem menntaskólakennara. Þetta fólk bregður mér um íhaldssemi og skilningsleysi á samskiptatækni nútímans. Einhver sagði Ragnheiði Briem meira að segja að engir væru eins íhaldssamir og Alþýðubandalagsmenn! Vel kann það að vera rétt, enda hafa einungis róttækir menn efni til að vera íhaldssamir. En í íhaldssemi þeirra á hrokinn ekki heima.

Hann á heldur ekki heima í þessum viðbrögðum við greinarstúfnum mínum. Ég skil mætavel að menntafólk sé himinlifandi yfir því að hafa nú loksins komist í kallfæri við menntamálaráðherra þjóðarinnar og fyrirgef því fyllilega að finnast ekkert fyndið að hann heiti nú bjorn@centrum.is. Þetta fólk hefur þekkingu á tölvum og þarf á þeim að halda og hefur oftlega aðgang að þeim ásamt mótaldi á vinnustöðum sínum sér að kostnaðarlausu. En sá hópur er miklu stærri sem hvorki hefur tíma til að afla sér þekkingar né aðgangs að slíkum tækjum án verulegra útgjalda og þarf reyndar ekkert á þeim að halda. Þar sem ætla má að biðlisti menntamálaráðuneytisins styttist nú verulega, ættu tölvulausir foreldrar skólabarna ekki að þurfa að bíða í heilt ár eftir viðtalstíma við ráðherrann og er það vel.“

Undir lok greinarinnar segir Guðrún:

„Mín vegna má öll þjóðin eiga tölvur og mótöld. Það er víst ágæt skemmtun að komast inn í „gagnslausu síðurnar“ á Internetinu, ef menn þarfnast þess ekki til annars. Þar má sjá hvað vatnsborðið er hátt í klósettkassa einhvers manns í Texas og hvað er eftir í kaffikönnunum í Háskólanum í Cambridge. Og svo er hægt að spjalla við nágrannana eða menntamálaráðherrann og enginn þarf nokkru sinni að að hitta neinn. Allt er þetta mat á því hvernig aflatekjum þjóðarinnar er ráðstafað og það er mönnum sem betur fer í sjálfsvald sett.“

Nú eru bráðum 12 ár frá því, að þessar greinar Guðrúnar Helgadóttur birtust. Þær endurspegla afstöðu til þess, að stjórnmálamenn og aðrir noti netið, sem flestum Íslendingum þykir líklega gamaldags og undarleg nú á dögum. Á þeim árum var unnt að ræða málið með vísan til þess, að aðeins sumir en ekki allir gætu notað tölvur til samskipta. Ég man ekki, hvenær þessi röksemd í umræðum um upplýsingatæknina og nýtingu hennar varð markleysa hér á landi.

Í öllum ákvörðunum, sem ég hef tekið, um nýtingu upplýsingatækni, hvort heldur sem menntamálaráðherra eða dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur leiðarljós mitt verið, að opna aðgang allra að tækninni og nýta hana til hins ýtrasta. Ég get hæglega nefnt til sögunnar dæmi um árangur þessarar stefnu og raunar blasir hann við öllum, sem líta til þess, hvernig umhverfi hefur verið skapað um mennta- og menningarstofnanir í þessu tilliti á undanförnum árum.

Undanfarna daga hefur tækni – og þekkingariðnaðurinn staðið að sýningunni Tækni og vit 2007 og í tilefni af því var UT-blaðið gefið út. Þar er meðal annar sagt frá upplýsingatækniverkefnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins undanfarin ár. Þau hafa verið margvísleg. Ný vegabréf eru til dæmis nú gefin út í algjörlega pappírslausu umsóknar- og framleiðslukerfi sem hefur stytt meðalafgreiðslutíma vegabréfa úr 10 dögum í 2 virka daga auk þess sem framleiðslan krefst mun minna vinnuframlags en áður. Þá hefur hið nýja afgreiðsluferli dregið úr umstangi borgaranna og sparað þeim tíma.

Á vegum ráðuneytisins er nú unnið að metnaðarfullu rafrænu verkefni við þróun þjóðskrár, en hún er eitt mikilvægasta og mest notaða upplýsingagnasafnið á landsvísu en ótal kerfi stjórnsýslunnar og stærri sem smærri fyrirtæki landsins tengjast henni á einn eða annan hátt. Í þjóðskrá eru upplýsingar meira en 450.000 einstaklinga. og árlega berast til Þjóðskrár skriflega um 25 til 30.000 tilkynningar um búsetuflutninga allt að 60 þúsund einstaklinga. Þar að auki fær Þjóðskrá meira en 15.000 önnur tilmæli um þjónustu ár hvert vegna skráningar og er þó ekki allt talið.

Markmið ráðuneytisins er, að samskipti borgaranna við Þjóðskrá geti verið rafræn en til þess verða menn að geta staðfest rafrænt, hverjir þeir eru. Í því skyni að gera þetta kleift hefur verið unnið að því á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að þróa það, sem nefnt er rafrænt þjónustulag en með því eru tölvukerfi ráðuneytisins tengd við ytri notendur ásamt tölvukerfum annarra stofnana ríkisins. Þar er einnig haldið utan um samræmdar aðgangsstýringar, notendaauðkenningar og opnað fyrir greiðslumiðlun og þar með rafrænar bókanir hjá ríkinu.

Með rafrænu þjónustulaginu er verið að fjölga leiðum borgaranna til að reka erindi sitt eða sækja nauðsynlega þjónustu beint til viðkomandi stjórnsýslu á þeim stað og stundu, sem hverjum og einum hentar. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur að lokinni þróun þessa rafræna þjónustulags afhent það forsætisráðuneytinu til afnota fyrir alla stjórnsýsluna.

Eins og áður sagði er Þjóðskrá þungamiðja hins rafræna þjónustukerfis dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem snýr að hinum almenna borgara. Vegabréfin eru nú gefin út af Þjóðskrá og þau eru framleidd í miðstöð hennar í Njarðvíkum, þar sem ætlunin er einnig að framleiða ökuskírteini, sem eru gefin út af ríkislögreglustjóra, en framleiðsla þeirra hefur verið erlendis til þessa. Þá er verið að undirbúa útgáfu rafræns nafnskírteinis og verður þetta nýja skilríki þannig úr garði gert, að það mun gagnast sem ferðaskilríki inna Schengen-svæðisins í Evrópu.