3.3.2007

Virðing stofnana.

Gallup hefur kannað traust almennings til nokkurra stofnana frá árinu 1993. Líkt og undanfarin ár var að þessu sinni spurt um átta stofnanir og voru niðurstöður birtar 1. mars sl.  Að sögn Gallup gefa mælingar sem þessar vísbendingu um afstöðu fólks til stofnana á hverjum tíma. Mælingarnar nú sýna, að traust til allra stofnana hefur dalað, í mismiklum mæli, frá því í febrúar 2006.

 

Alþingi nýtur minnst trausts en einungis 29% svarenda sögðust bera traust til þingsins, sem er lækkun um 14 prósentustig frá síðasta ári og hefur aldrei verið eins lítið síðan mælingar hófust í ágúst '93.  Telur Gallup, að  þessar niðurstöður hljóti að teljast til tíðinda í ljósi þess að stutt sé til Alþingiskosninga.

 

Traust til dómskerfisins er 31%, sem er einnig minna en mælst hefur áður og minnkaði um 12 prósentustig frá síðustu mælingu.

 

Gallup vekur sérstaka athygli á því, hve traust til Alþingis og dómskerfis virðist fylgjast að í mælingum undanfarinna ára.

 

Háskóli Íslands hefur frá upphafi verið sú stofnun sem nýtur mests trausts, en það mælist nú 85%.

 

Lögreglan nýtur aftur mests trausts almennings á eftir Háskólanum.

78% þjóðarinnar bera traust til lögreglunnar sem er einu prósentustigi

minna en í febrúar á síðasta ári. Traust til lögreglunnar í síðustu tveimur mælingum hefur ekki verið eins mikið síðan 1993 þegar það var 84%.

 

Af öðrum breytingum vekur athygli að traust til ríkissáttasemjara hefur

rýrnað um 9 prósentustig og mælist nú 47%. Hjá öðrum stofnunum mælast minni breytingar en traust til heilbrigðiskerfisins (70%)  og þjóðkirkjunnar (52%)  hefur minnkað um 3 prósentustig. Umboðsmaður Alþingis nýtur einnig svipaðs trausts og í síðustu mælingu (57%).

 

Áður en ég segi eitthvað frá eigin brjósti um þessar niðurstöður ætla ég að birta í heild grein úr Morgunblaðinu 3. mars eftir Pál E. Winkel, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna og núverandi yfirmann stjórnsýslustoðar ríkislögreglustjóra, og Staksteina úr sama tölublaði Morgunblaðsins.

 

Páll E. Winkel skrifar:

 

„Fyrir nokkrum vikum skrifaði undirritaður grein í Morgunblaðið vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, í garð starfsmanna lögreglu og ákæruvalds þar sem þingmaðurinn fullyrti að lögregla og ákæruvald væri handbendi Sjálfstæðisflokksins og vinnubrögð í samræmi við það. Áður hefur sami stjórnmálamaður haldið því fram að vinnubrögð lögreglu hafi verið ámælisverð við rannsókn tiltekinna mála.

Þeir aðilar sem hafa innsýn og þekkingu á störfum lögreglu vita að slíkar fullyrðingar eru rakalaust þvaður, enda unnið af fagmennsku á öllum sviðum innan lögreglu. Að undanförnu hefur mikið borið á sleggjudómum og persónulegum árásum í garð nafngreindra starfsmanna lögreglu og ákæruvalds í tengslum við rannsókn og saksókn í Baugsmálinu. Fyrirfram mætti ætla að slíkur áróður hefði áhrif á traust almennings í garð lögreglu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að sjá niðurstöður könnunar sem Capacent-Gallup gerði fyrir skemmstu. Niðurstaða könnunarinnar er að traust almennings í garð lögreglu er mikið og stöðugt og mælist næst mest á eftir Háskóla Íslands, eða 78%.

Athyglisvert var jafnframt að sjá að í sömu könnun kemur fram að þjóðin hefur aldrei áður borið minna traust til Alþingis. Gæti verið að ítrekaðar órökstuddar og ósannar fullyrðingar einstakra þingmanna um spillingu innan réttarvörslukerfisins dragi verulega úr trausti almennings í garð Alþingis?“

Í Staksteinum Morgunblaðsins  3. mars segir:

„Niðurstöður Þjóðarpúls Gallup, sem birtust á fimmtudag, eru ekki góðar fréttir fyrir elztu og virðulegustu stofnun þjóðarinnar, hið háa Alþingi.

Þegar traust á stofnunum samfélagsins var mælt í Þjóðarpúlsi fyrir ári var Alþingi í neðsta sæti ásamt dómskerfinu, naut trausts 43% svarenda. Nú segjast aðeins 29% bera traust til Alþingis, færri en nokkru sinni áður frá því mælingar hófust árið 1993.

Hvernig skyldi nú standa á þessari hörmulegu útkomu Alþingis? Getur verið að málþófið, sem stjórnarandstaðan stóð fyrir vikum saman í vetur, hafi haft þessi áhrif á kjósendur? Að kjósendur hafi tapað trausti á fólki, sem er á launum hjá þeim sjálfum en sóar vinnutíma sínum í innihaldslaust þvaður?

Það er krónískur misskilningur stjórnarandstöðunnar – nokkurn veginn burtséð frá því hver hún er – að hægt sé að bregðast við meintu virðingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þinginu með því að mala endalausa vitleysu í ræðustóli. Það eina, sem hefst upp úr því, er að þingið tapar enn frekar virðingu sinni og enn auðveldara verður fyrir stjórnina að hunza það næst.

Ein leiðin til að endurheimta virðingu og traust Alþingis er að stytta ræðutíma þar til muna. Hið skefjalausa málæði, sem enn tíðkast á löggjafarsamkundu okkar, viðgengst varla í neinu öðru þjóðþingi, sem vill láta taka sig alvarlega.

Þingmenn þurfa sömuleiðis að umgangast starf sitt af meiri virðingu til þess að verða ekki álitnir innantómir kjaftaskar.“

Ég tek bæði undir með Páli E. Winkel og Staksteinahöfundi. Árásir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, á lögregluna voru með ólíkindum og erfitt að átta sig á því, hverju þær áttu í raun að þjóna. Árásirnar voru hins vegar í ætt við málflutning stjórnarandstöðunnar á alþingi, málflutning, sem endurspeglast síðan í fjölmiðlum og gefur þá mynd af alþingi, að þar standi með á öndinni í upphafi hvers fundar til að hneykslast á einhverju, sem þeir heyrðu kvöldið áður í fréttum eða fréttaþáttum eða lásu í blöðunum um morguninn, og líti þannig á, ef marka má Össur Skarphéðinsson, þingflokksformann stærsta stjórnarandstöðuflokksins, að þingið sé einmitt vettvangur til að láta móðan mása um allt og ekkert. Mestu skipti í raun, að eiga einhverja eina setningu, sem komist í fréttir dagsins um eitthvað, sem er hvort sem er í fréttum.

Ég man eftir því, að nokkrar vonir voru bundnar við, að beint útvarp frá alþingi kynni að skipta sköpum um stöðu þess og þegar ég átti sæti í forsætisnefnd þingsins árið 1991 til 1992 var kannað, hvað kostaði að tryggja beinar útvarpssendingar frá þinginu og minnir mig að talan 400 milljónir króna á ári hafi verið nefnd af forráðamönnum ríkisútvarpsins. Nú er öldin önnur og auðvelt að fylgjast með öllu, sem sagt er í þingsalnum í sjónvarpi en svo virðist sem virðing þingsins minnki eftir því sem aðgengi að því, sem þar er sagt, eykst.

Hið merkilega er, að enginn talar lengur um neinn kostnað við að miðla beinum sendingum frá þinginu og hvar sem menn hafa tölvu með sæmilegum búnaði tengda við netið geta þeir komist inn í þingsalinn og hlustað á það, sem þar er sagt. Þá hefur aðgengi að öllum skjölum og skrifuðum textum frá þinginu tekið slíkum stakkaskiptum, að með ólíkindum er. Fyrirhafnarlaust svo að segja er unnt að kynna sér allt, sem sagt hefur verið eða prentað um eitthvert mál á þingi.

Allt þetta aðgengi hefur ekki orðið til þess að auka virðingu þingsins,  því miður. Þingmenn hljóta að velta því alvarlega fyrir sér, hvaða brotalöm í störfum þeirra veldur þessum ósköpum. Staksteinahöfundur telur, að það séu langar og innihaldslitlar ræður og auka megi virðingu þingsins með því að breyta þingsköpum og stytta ræðutímanna.

Augljóst er, að það voru mikil mistök hjá stjórnarandstöðunni að stofna til málþófsins vegna breytinganna á ríkisútvarpinu úr ríkisstofnun í ríkishlutafélag. Málið stóð einfaldlega ekki undir þessu málæði öllu. Ég held hins vegar, að virðingarleysið fyrir alþingi eigi dýpri rætur en þetta og í sjálfu sér ráði lengd á ræðum því ekki, hvort menn bera virðingu fyrir stjórnmálamönnum eða ekki. Ég held, að þar ráði mestu, hvað þeir segja og hvernig þeir koma fram hver í annars garð.

Yfirbragð þinghaldsins eins og það birtist á þingfundum, þegar menn eru að slá sig til riddara hver á kostnað annars, hlægja og flissa, hafa í heitingum við forseta, bölva jafnvel, svo að glymur í þingsalnum, og sýna hvorki alþingi né hver öðrum þá virðingu sem ber, dregur óhjákvæmilega úr virðingu þingsins.

Þá er þess einnig að geta, að þingfréttir í fjölmiðlum eru í raun hættar að snúast um þingmálin sjálf, frumvörpin og ályktanirnar, sem lagðar eru fram og hvað í þeim felst. Þingfréttirnar byggjast á því að finna eitthvað bitastætt í skammaryrðum, sem fara á milli manna, eða eitthvað skringilegt og skondið. Leggja út af því, sem menn hafa á tilfinningunni, frekar en því, sem kynnt er og lagt fram oft eftir mikinn og góðan undirbúning.

Um þessar mundir eru nákvæmlega fjögur ár, frá því að lagt var á ráðin um innrásina í Írak. Þá voru þingkosningar í nánd eins og núna og svipað ástand að myndast í stjórnmálunum eins og um þessar mundir, þegar stjórnmálaflokkarnir eru að búa sig undir kosningar og átta sig á þeim málum, sem þeir vilja leggja fyrir kjósendur.

Ég sat ekki í ríkisstjórn á þessum tíma en var til dæmis í utanríkismálanefnd alþingis fyrir flokk minn og tók þátt í umræðum um Íraksmálið þar auk þess sem ég skrifaði greinar um það í Morgunblaðið og hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína á Saddam Hussein og stjórnarháttum hans.

Íslensk stjórnvöld tóku þá afstöðu með bandamönnum sínum innan Atlantshafsbandalagsins en Bandríkjastjórn ákvað að setja saman lista með nöfnum ríkja, sem hún taldi sér hliðholl á þessum örlagaríku tímum, og lét hann fjölmiðlum í té. Þessi listi hefur frá því eftir þingkosningarnar vorið 2003 verið eitt helsta árásarefni stjórnarandstöðunnar á þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson og hann var enn til umræðu á alþingi nú í vikunni, eins og hann skipti einhverjum sköpum um þessar mundir. Svo virðist sem stjórnarandstaðan sé meira með hugann við Íraksstríðið núna en fyrir fjórum árum, þegar það var háð – það eigi að gera það að meira kosningamáli vorið 2007 en 2003.

Að rífast um fjögurra ára gamlan lista, sem Bandaríkjastjórn samdi til að treysta eigin ásýnd, í stað þess að ræða mál líðandi stundar í því skyni að skýra þau og skilgreina, er ekki til þess fallið að auka virðingu alþingis. Þessi listi er hins vegar það, sem stjórnarandstöðunni er efst í huga, þegar rætt er um utanríkis-, öryggis- og varnarmál á þingi!

Í mínum huga er tiltölulega auðvelt að átta sig á því, hvers vegna virðing alþingis minnkar. Það er ekki endilega vegna þess, að ræður séu langar, heldur vegna þess að í löngum ræðum er í raun ekki sagt neitt sem máli skiptir. Bragurinn á þinghaldinu er einnig þannig vegna framgöngu þingmanna sjálfra og þess sem þykir fréttnæmast af störfum þeirra, að ekki er til þess fallið að vekja virðingu meðal þeirra, sem utan standa. Ef menn sýna ekki hver öðrum virðingu, eða eigin vinnustað virðingu, hvernig er þá unnt að vænta þess, að aðrir beri virðingu fyrir þessum stað?

Gallup nefnir í greiningu sinni á niðurstöðum um virðingu fyrir stofnunum, að fylgni sé milli virðingar fyrir alþingi og dómstólunum. Ég hef vakið máls á því í ræðum á fundum með dómurum, að fáir taki upp hanskann fyrir dómara. Ég tel, að dómstólaráð eigi að huga að markvissri kynningu á störfum dómstóla. Raunar virðist opinber gagnrýni á dómara vaxandi og nægir að nefna fræga forsíðu Morgunblaðsins á dögunum til marks um það, en af hálfu ritstjórnar blaðsins hefur komið fram, að aldrei hafi hún fengið jafnjákvæð viðbrögð og þá, aðeins fjórir hafi sagt upp blaðinu. 

Fréttir af gangi dómsmála og niðurstöðum dómara eru meiri nú en nokkru sinni fyrr og meira er rætt um dómara og störf þeirra manna meðal en áður. Ef niðurstaðan er hin sama hjá dómstólunum og alþingi, að virðingin minnkar í réttu hlutfalli við aðgengi að upplýsingum um það, sem gerist í þingsalnum eða réttarsalnum, er það ekki síður til umhugsunar fyrir dómara en okkur þingmenn.

Málefni lögreglunnar hafa ekki síður verið mikið til umræðu undanfarið en dómstóla. Breyting á skipan lögregluumdæma um áramótin, aðdragandi hennar og síðan framkvæmdin, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, hefur kallað á meiri umræður um lögregluna, skipulag hennar og störf en orðið hafa um langt árabil. Af könnuninni, sem Gallup hefur birt, er augljóst, að virðing fyrir lögreglunni er mikil og djúptæk.