11.2.2007

Samfylking/vinstri græn - Morgunblaðið og Margrét - tvær bækur.

Nú eru þrír mánuðir til kosninga. Skoðanakönnun í Fréttablaðinu í dag, sunnudaginn 11. febrúar, sýnir, að Samfylking og vinstri græn fengju nægilega marga þingmenn kjörna til að mynda tveggja flokka stjórn, ef atkvæði féllu í samræmi við niðurstöðu könnunarinnar.

 

Að sjálfsöðgu er draumastaða hverrar stjórnarandstöðu, að geta boðið annan trúverðugan kost. Til þessa hafa kannanir sýnt, að þriggja flokka stjórn væri óhjákvæmileg, ef Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur héldu ekki áfram um stjórnartaumana, eins og flokkarnir hafa gert í tólf ár með ótrúlega miklum og góðum árangri.

 

Hér á landi hefur ekki verið annað en tveggja flokka stjórn síðan 1991 en síðasta stjórn fyrir þann tíma var ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem sat árin 1989 til 1991, en hún var skipuð ráðherrum fjögurra flokka: Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Borgaraflokks og Framsóknarflokks. Reynsla stjórnmálamanna af því að starfa í slíkum fjölflokka stjórnum hefur fælt þá frá því að reyna samstarf af þeim toga aftur. Tveir þingmenn úr þessari ríkisstjórn Steingríms sitja enn á þingi og bjóða sig fram að nýju 12. maí næstkomandi, þau Jóhanna Sigurðardóttir, sem nú er í Samfylkingunni, og Steingrímur J. Sigfússon, sem nú er formaður vinstri grænna.

 

Starfsháttum í ríkisstjórninni og innan Alþýðubandalagsins á valdatíma hennar er lýst í bók Margrétar Frímannsdóttur Stelpan frá Stokkseyri, sem ég hef fjallað um hér á síðunni.

 

Ef Samfylking og vinstri græn hefðu afl til að mynda tveggja flokka stjórn að loknum komandi kosningum, gerðu þau Jóhanna og Steingrímur J. bæði kröfu um að verða ráðherrar í þeirri stjórn. Enginn, sem fylgist með framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur á alþingi, getur efast um, að hún telur engan félagsmálaráðherra hafa starfað að nokkru viti í landinu síðan hún lét af því emætti. Það gerði hún í júní 1994, þegar hún hvarf úr fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Þá var hún komin upp á kant við þá flokksbræður sína og meðráðherra Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson.

 

Steimgrímur J. Sigfússon lét að því liggja í áramótaspjalli, að ekki væri sjálfgefið, að hann yrði ekki forsætisráðherra í ríkisstjórn með Samfylkingunni – við litla gleði Ingibjargar Sólrúna Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Vilji þau styrkja þá ímynd, að Samfylking og vinstri græn séu raunverulegur kostur sem tveggja flokka stjórn, þurfa þau Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J. að jarða þennan ágreining um forsætisráðherrastólinn á þann veg, að eftir verði tekið. Ég hef nokkrum sinnum vakið máls á því, að Samfylkingunni yrði kannski fyrir bestu að gera Össur Skarphéðinsson að forsætisráðherraefni.

 

Þegar litið er til annarra þingmanna en Jóhönnu og Steingríms J. verður Össur hinn eini í þingliði flokkanna, sem hefur verið ráðherra, að kosningum loknum. Hann var umhverfisráðherra í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar frá því í júní 1993 þar til í apríl 1995, þegar samstarf sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hófst.

 

Lykilspurningin er þessi: Geta Samfylking og vinstri græn sest saman í ríkisstjórn?

 

Síðan þau Jóhanna og Steingrímur J. sátu saman í stjórn Steingríms Hermannssonar hefur mikið og margt gerst á vinstri væng stjórnmálanna. Draumurinn á fyrri hluta tíunda áratugarins var að mynda samhentan flokk jafnaðarmanna og sósíalista, sem gæti einn staðið Sjálfstæðisflokknum á sporði. Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi formaður Alþýðuflokksins, talaði manna mest um þetta, en tilraunin til sameiningar var þó ekki gerð, fyrr en hann hafði hætt stjórnmálaþátttöku. Tilraunin misheppnaðist, því að í stað eins flokks urðu til Samfylking og vinstri græn.

 

Steingrímur J. gat ekki hugsað sér að starfa með því fólki, sem fór úr Alþýðubandalaginu í Samfylkinguna og óvinátta milli manna var gagnkvæm. Síðan hefur hún verið áréttuð með skoðanaágreiningi og kapphlaupi um atkvæði. Spyrja má: Verður þráin eftir að starfa saman í ríkisstjórn sterkari á lokaspretti þessa kjörtímabils en þráin eftir að vinna sem flest atkvæði? Atkvæði, sem barist er um af mikilli hörku milli Samfylkingar og vinstri grænna.

 

Hvað um málefnin? Nefna má fimm stórmál:

 

1. Ef Ingibjörg Sólrún ætlar að gera aðild að Evrópusambandinu að höfuðmáli í kosningabaráttunni, gerir hún það ekki, eigi samstarf Samfylkingar og vinstri grænna að vera trúverðugur kostur að loknum kosningum.

 

2. Ef vinstri græn ætla að gera baráttuna gegn frekari stóriðju að höfuðmáli í kosningabaráttunni, gera þau það ekki, ef ætlunin er að starfa með Samfylkingunni. Innan Samfylkingarinnar taka menn afstöðu til stóriðju eins og hentar á hverjum stað og á hverjum tíma.

 

3. Ef flokkarnir ætla að leggja áherslu á stefnu sína í efnahagsmálum fyrir kosningar, geta þeir ekki orðið samstiga, þar sem þá greinir þar bæði á um markmið og leiðir.

 

4. Í raun liggur ekkert fyrir um, hvernig þessi flokkar sjá fyrir sér, að tryggja varnarhagsmuni íslensku þjóðarinnar eða öryggisgæslu hennar við núverandi aðstæður. Þeir lýstu andstöðu við niðurstöðuna í viðræðunum við Bandaríkjastjórn og hafa opinberlega dregið í efa nauðsyn skynsamlegra ráðstafana til að efla innri öryggisgæslu.

 

5. Flokkarnir hafa lagst gegn breytingum á útlendingalöggjöf, sem miða að því að styrkja lögheimildir og úrræði íslenskra stjórnvalda til að halda uppi eftirliti á landamærum og beina þeim frá landinu, sem koma hingað á ólögmætum forsendum. Þeir hafa látið eins og frekar ætti að losa um þessar heimildir en skerpa þær.

 

Þegar litið er á málefni nú þremur mánuðum fyrir kosningar, vekur undrun, að umræður snúast um eitthvað, sem er liðið og sumt fyrir áratugum, nægir þar að nefna hleranamálin svonefndu og frásagnir af lífinu í Breiðuvík. Annað stendur nær okkur í tíma og ber þar Byrgismálið hæst.

 

Enginn efast um, að margt hefur farið úrskeiðis í starfsemi og rekstri Byrgisins og vissulega hefði verið ástæða til að grípa þar í taumana, fyrr en gert var. Hitt er ósanngjarnt að gera Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, að blóraböggli í þessu máli. Eftir að hann fékk vitneskju sem ráðherra um, að þarna væri ekki allt með felldu, tók hann fast og skipulega á málum. Fjárveitingar til Byrgisins voru ræddar við meðferð fjárlaga á alþingi og þar lögðu þingmenn stjórnarandstöðunnar hart að stjórnarþingmönnum að auka útgjöld ríkisins frekar en draga úr þeim. Þeir töluðu þá í ræðustól alþingis eins og fyrirmyndarstarf væri unnið í Byrginu. Hvaða vitneskju höfðu þeir, þegar hvatt var til aukinna útgjalda?

 

Ríkisstjórn og alþingi stóðu saman að því síðastliðið vor að beina athugun vegna hleranamálsins í skipulegan og ákveðin farveg. Nefnd sérfróðra manna var skipuð af forsætisráðherra, hún skilaði áliti í vikunni, og við blasir, að öll stóryrðin og dylgjurnar voru úr lausu lofti gripnar. Hér voru gerðar ráðstafanir til að tryggja innra öryggi ríkisins en þær voru á svo lágu stigi, að þeir menn verða næsta marklitlir, sem hæst tala um, að hér sé um eitthvert stórhneyksli á ferð og þörf sé sambærilegra aðgerða og í Noregi við allt aðrar aðstæður. Sagnfræðingar síðari tíma eiga áreiðanlega eftir að undrast mest, hvers vegna þessi læti voru öll gerð út af málinu. Var það til þess, að stjórnarandstaðan virtist þó samstiga um eitthvert eitt mál? 

 

Saga Breiðuvíkur og þess, sem þar gerðist, er að sjálfsögðu að hluta harmsaga vegna aðstæðna þeirra, sem þangað voru sendir. Hún er einnig saga um viðleitni samfélagsins til að grípa á vanda þessara einstaklinga og um leið að verja samborgara þeirra og jafnvel nánustu fjölskyldu. Enn þann dag í dag er þörf á úrræðum af þessum toga, þótt aðferðirnar séu aðrar en á árum áður.

 

Ég er hér á Landspítalanum, þegar ég skrifa þetta, og hingað getur fólk komið til mín, þegar því og mér hentar. Horfið hefur verið frá hinum ströngu reglum um heimsóknartíma. Breytingin er enn meiri á barnadeildunum. Þar giltu reglur um, að foreldrar ættu sem minnst að heimsækja börn sín, færu þau á sjúkrahús, nú er svefnrými fyrir foreldra hluti af sjúkrastofunni. Ég nefni þetta til marks um breytt viðhorf  við meðferð og úrræði þeim til handa, sem þurfa á aðstoð samfélagsins að halda.

 

Sé talið nauðsynlegt að rannsaka það, sem gert var eða gerðist í Breiðuvík á að fela sérfræðingum að gera það á skipulegan hátt.  Niðurstöðuna á að birta og bregðast við henni.

 

Varla geta þetta þó orðið kosningamálin? Löngu liðnir atburðir, sem eiga heima í höndum sérfræðinga eða lesa má um í söfnum?

 

Til að atburðir og atvik nýtist til að árétta samstöðu Samfylkingar og vinstri grænna mega þeir hins vegar ekki vera úr samtímanum, þeir mega ekki vera frá miðjum tíunda áratugnum, þegar uppgjörið mikla varð í nafni sameiningar vinstri manna, sem aldrei varð. Það þarf að leita áratugi aftur í tímann, til að finna hæfilegan samnefnara.

 

Og er það ekki tímanna tákn, að Ingibjörg Sólrún þarf að dekstra hugmyndafræðing sameiningarinnar, Jón Baldvin Hannibalsson, til að bjóða ekki fram sérstakan lista nú í vor? Hver var dúsan? Að hann yrði ráðherraefni?

 

Morgunblaðið og Margrét.

 

Ritstjórn Morgunblaðsins hefur lagt mikið kapp á að kynna Margréti Sverrisdóttur til leiks á vettvangi stjórnmálanna og vill greinilega, að hún bjóði fram í komandi kosningum. Í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag eru henni lagðar lífsreglur á þennan veg:

Sennilega yrði það farsælast fyrir framboð Margrétar Sverrisdóttur að byggja á þeim málefnagrundvelli sem Sverrir Hermannsson lagði fyrir kosningarnar 1999 en breikka hann á þann veg, að hún nái til óánægðra kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sem m.a. kunni að telja, að Sjálfstæðisflokkurinn leggi ekki nægilega áherzlu á umhverfismál og náttúruvernd. Styður Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur hvaladrápið eða er það einkamál sjávarútvegsráðherrans?

Það mun ráða örlögum framboðs Margrétar Sverrisdóttur hvernig henni tekst til um þennan málatilbúnað.

En auðvitað er það ósanngjarnt að beina öllum spjótum að ungri konu og krefjast svara um afstöðu hennar til allra mála.“   

 

Margrét á öruggt skjól hjá Morgunblaðinu fari hún að ráðum þess. Ég sé hins vegar að Pétur Gunnarsson, fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, telur þessar umvandanir eða ráðleggingar blaðsins frekar niðurlægjandi fyrir Margréti og einkennilegt sé að tala um hana 48 ára gamla sífellt sem unga konu.

 

Pétur hefur nokkuð til síns máls, þegar hann minnist á aldurinn – ég var 46 ára, þegar ég bauð mig fram í prófkjöri í fyrsta sinn. Mér hefði þótt skrýtið, að rætt væri um mig sem ungan mann, þótt ég hefði að sjálfsögðu tekið því fagnandi.

 

Þetta er útúrdúr, hitt er að sjálfsögðu spennandi, hver verður niðurstaða Margrétar og hvort hún tekur boði Morgunblaðsins um dans í þessum takti. Líklega er þetta orðaval ekki pólitískt kórrétt en ég læt það flakka.

 

Tvær bækur.

 

Í lokin ætla ég að nefna tvær bækur, sem ég hef lesið undanfarna daga.

 

Hin fyrri er Jón Arason biskup Ljóðmæli, sem Ásgeir Jónsson ritstýrði, en hann ritar einnig inngang og lýsir ævi og áhrifum Jóns Arasonar á einkar skýran hátt auk þess sem hann dregur athygli lesandans að ríkidæmi Íslendinga á tímum Jóns, þegar verslunafrelsi ríkti enn og setur siðaskiptin í viðskiptalegt og stjórnmálalegt ljós. Kári Bjarnason bjó kvæði Jóns Arasonar til prentunar og ritar með þeim skýringar. JVP forlag er útgefandi, en bókin er fallegur prentgripur og hin vandaðasta að allri gerð.

 

Hin síðari er allt annars eðlis og heitir America Alone: The End of the World as We Know It og er eftir Mark Steyn, sem er heimskunnur dálkahöfundur og fer ekki í launkofa með skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Bókin er númer þrjú á metsölu lista Amazon yfir bækur um samtímaviðburði. Á kápu bókarinnar er haft eftir sendiherra Sádi Arabíu í Bandaríkjunum: „Hrokinn sem Mark Steyn sýnir er takmarkalaus.“ Steyn segir hlutina þannig, að það hriktir í öllu bæði vegna skoðana hans og framsetningar.