4.2.2007

Dómaramyndir - málsvarar Ólafs Ragnars.

Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, sagði oft, að það væru forréttindi að vera ritstjóri blaðs, sem þyrfti ekki haga forsíðufréttum sínum þannig, að þær drægju að sér kaupendur. Þetta var á þeim dögum, þegar sjálfsagt var talið af flestum að fá Morgunblaðið í áskrift.

Það kom oft í hlut minn sem aðstoðarritstjóri og fréttastjóri erlendra frétta á Morgunblaðinu að ákveða fréttirnar á forsíðu blaðsins, enda voru þær þá alla jafna af erlendum toga og endurspegluðu framvindu alþjóðamála eða stórviðburði erlendis. Einstaka sinnum, einkum ef stórslys urðu, var ákveðið að hafa innlenda frétt á forsíðu blaðsins.

Nú eru tímarnir aðrir og ekki eru aðeins innlendar fréttir á forsíðu Morgunblaðsins heldur einnig fréttaskýringar. Enn eitt skref var stigið í breytingaátt á forsíðunni föstudaginn 2. febrúar, þegar þar birtust andlitsmyndir af fimm hæstaréttardómurum. Áður fyrr þegar svo margar andlitsmyndir birtust á forsíðunni boðaði það venjulega mannskætt slys eða annan voðaatburð.

Morgunblaðið skýrir afstöðu sýna til hæstaréttar í leiðara laugardaginn 3.febrúar og segir:

 

„Dómur Hæstaréttar í máli barnaníðings, sem rétturinn kvað upp í fyrradag, misbauð án nokkurs vafa réttarvitund almennings. Kynferðisafbrot, ekki sízt gegn börnum, eru almennt talað sá brotaflokkur, þar sem lengst bil er á milli þess sem almenningur telur réttláta refsingu og þeirra dóma, sem kveðnir eru upp, jafnt í héraði sem í Hæstarétti. Reiði fólks vegna dóms Hæstaréttar er hins vegar ekki sízt til komin vegna þess að dómararnir milduðu dóm héraðsdóms, sem flestum þótti vafalaust vægur miðað við þau brot, sem um er að ræða og hversu órækar sannanir um viðurstyggilegt athæfi mannsins liggja fyrir, þar á meðal ljósmyndir, sem hann tók sjálfur af fórnarlömbum sínum. Refsing hans var lækkuð úr tveggja ára fangelsi í eins og hálfs árs fangavist.“

 

Í Reykjavíkurbréfi, sem skrifað er laugardaginn 3. febrúar en birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 4. febrúar segir um myndbirtinguna:

Í gær, föstudag, olli Morgunblaðið nokkru uppnámi með birtingu á forsíðu á dómi Hæstaréttar, sem féll á fimmtudag í einu slíku máli. Í því tilviki mildaði Hæstiréttur dóm, sem fallið hafði í Héraðsdómi í máli manns, sem hafði misnotað fimm stúlkubörn með svívirðilegum hætti. Svo mikið er vitað um sálræn áhrif slíkrar misnotkunar nú til dags að telja verður mikla hættu á og raunar víst, að þessar fimm stúlkur muni eiga erfitt líf alla ævi vegna þessara atburða. Refsingin fyrir slíkan glæp var að mati Hæstaréttar 18 mánaða fangelsi.

Þegar þetta er skrifað á laugardagsmorgni höfðu fjórir áskrifendur sagt upp áskrift sinni að blaðinu vegna framsetningar fréttarinnar á forsíðu Morgunblaðsins, nokkrir einstaklingar höfðu haft uppi harða gagnrýni á blaðið og talið að það væri komið niður í svaðið í blaðamennsku sinni. Einn talaði um subbulega blaðamennsku. Yfirleitt voru gagnrýnendur karlar.

Hins vegar fékk Morgunblaðið í gær, föstudag, gífurlega mikil jákvæð viðbrögð við fréttinni og framsetningu hennar og þar voru að langmestu leyti á ferð konur en einnig nokkur hópur yngri karla. Langflestir gagnrýnendur töldu ekki við hæfi að birta myndir af dómurum Hæstaréttar, sem felldu dóminn. Þó skal ekki dregið í efa að þeir hafi dæmt samkvæmt sinni beztu sannfæringu og ættu því sjálfir ekkert að hafa við það að athuga að myndir af þeim séu birtar með frétt um dóm enda er það gert í fjölmörgum tilvikum, þótt yfirleitt sé um að ræða myndir sem teknar eru í dómsal við uppkvaðningu.“

Í Staksteinum Morgunblaðsins 4. febrúar segir:

„Í Morgunblaðinu í gær birtist athugasemd frá Dómarafélagi Íslands í tilefni af frétt um dóm Hæstaréttar í tilteknu máli, sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins sl. föstudag. Með fréttinni birtust myndir af þeim dómurum í Hæstarétti, sem kváðu upp dóminn.

Í athugasemd Dómarafélagsins segir m.a.:

„Fréttaflutningur af dómsmáli með þessum hætti á sér enga hliðstæðu og fer langt út fyrir eðlileg mörk og jaðrar við sorpblaðamennsku, sem ekki hefur verið dæmigerð fyrir Morgunblaðið fram að þessu.“

Í athugasemdinni segir einnig:

„...og krefst þess að ritstjórn Morgunblaðsins svari því umyrðalaust hvað hér býr að baki“.

Þetta er einhver misskilningur hjá Dómarafélagi Íslands. Við búum í opnu og lýðræðislegu þjóðfélagi, sem þar að auki verður sífellt opnara.

Það er ekkert athugavert að birta myndir af dómurum, hvort sem er í Hæstarétti eða í héraðsdómi í tilefni uppkvaðningu dóma enda er það oft gert, þótt yfirleitt séu þær myndir teknar við dómsuppsögn. Er einhver munur á slíkum myndum og andlitsmyndum af dómurum?

Hvers vegna má ekki birta myndir af dómurum? Ekki telja þeir að þeir hafi neitt að skammast sín fyrir. Varla lítur Dómarafélag Íslands svo á að þessi tiltekni dómur sé eitthvert feimnismál fyrir dómarana?

Svo Dómarafélaginu sé svarað „umyrðalaust“!“

Ég er þeirrar skoðunar, að Morgunblaðið hafi stigið rangt skref með því að birta myndir af dómurunum. Augljóst er af leiðara blaðsins laugardaginn 3. febrúar, að birtingin er dómurunum til umvöndunar og til að stilla þeim upp við vegg. Sú skoðun, að allt í lagi sé að birta myndirnar, af því að dómararnir telji sig ekki þurfa að skammast sín er ósannfærandi. Blaðið birti myndirnar en ekki dómararnir og blaðið gerði það fullt vandlætingar, af því að það taldi dómarana eiga að skammast sín.

Að sjálfsögðu á að ræða dóma um kynferðisbrot eins og önnur dómsmál á opinberum vettvangi en umræðurnar skila ekki þeim árangri, sem að er stefnt, ef framsetningin er á þann veg, að hún dregur alla athygli að sér en ekki efni málsins.

Málsvarar Ólafs Ragnars.

Nokkrar umræður hafa orðið um þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að taka sæti í þróunarráði Indlands. Fyrstu viðbrögð við gagnrýni voru þau, að Ólafur Ragnar væri ekki í þessu ráði sem forseti Íslands. Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, hefur fært fyrir því málefnaleg rök, að forseti Íslands geti ekki ákveðið upp á sitt eindæmi að taka setu í slíku ráði. Halldór Blöndal, formaður utanríkismálanefndar alþingis, hefur boðað, að málið verði rætt í nefndinni.

Ef marka má tvær greinar í Blaðinu laugardaginn 3. febrúar er tveimur málsvörum forsetans þeim Sigurði G. Guðjónssyni hrl. og Illugi Jökulsson rithöfundur. Þeim er báðum mjög uppsigað við Halldór Blöndal vegna frumkvæðis hans. Ég minnist þess, að á þeim árum, sem við Ólafur Ragnar sátum saman í utanríkismálanefnd alþingis og ég gegndi formennsku, gerðist varla sá atburður í samskiptum þjóðarinnar við aðra eða á alþjóðavettvangi, að Ólafur Ragnar teldi ekki nauðsynlegt að taka málið til umræðu í utanríkismálanefnd og það oftast án tafar. Var oft hart að mér sótt með spurningum um það, hvort ég ætlaði ekki að boða fund í nefndinni að ósk þingmannsins.

Nú bregður svo við, að áform formanns utanríkismálanefndar um að ræða setu sjálfs forseta Íslands í þróunarráði Indlands kallar fram þessa fyrirsögn hjá Sigurði G. Guðjónssyni: Heimska Halldórs Blöndals.

Sigurður G. dregur í efa, að þingsköp leyfi umræður um þetta mál í utanríkismálanefnd og grein sinni lýkur hann á þessum orðum:

„Gerðir Halldórs Blöndals nú bera heimsku hans einni vott, líkt og heimastjórnarafmælið, sem hann sem þingforseti og Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, efndu til í fjarveru forseta Íslands.“

Hér er einkennilega að orði komist, þeir Halldór og Davíð efndu til 100 ára afmælis heimastjórnar og stjórnarráðs Íslands á afmælisdaginn 1. febrúar 2004, en vitað hafði verið um hann í 100 ár. Ólafur Ragnar Grímsson kaus að verja deginum á skíðum í Bandaríkjunum.

Illugi Jökulsson hefur þessa fyrirsögn á grein sinni: Lágkúrulegt raus.

Illugi lýkur grein sinni á þennan hátt: „Við rausarana sem kvarta og emja undan Ólafi Ragnari í þessu máli er bara eitt að segja: Lágkúran maður, lágkúran!“

Hér á það sem sagt vel við, að rökin og málflutningurinn sé í góðu samræmi við málstaðinn, þótt draga megi í efa, að hæfi embætti forseta Íslands.