27.1.2007

Á Blönduósi - Baugsmálið - reiði Steingríms J. - frjálslyndir í uppnámi.

Þessi pistill er skrifaður á hinum fornfræga stað Þingeyrum, þar sem fyrst var reist klaustur á Íslandi. Nú er síðdegi á laugardegi og ég hef verið á Blönduósi, þar sem ég opnaði formlega Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar hjá embætti sýslumannsins þar. Með athöfninni lauk ferli, sem hófst sumarið 2005, þegar Bjarni Stefánsson sýslumaður ræddi við mig, hvort til álita kæmi að opna slíka miðstöð, hann myndi treysta sér til að fá heimamenn til liðs við sig og í stjórnsýsluhúsi staðarins, sem reist var að frumkvæði Jóns Ísbergs, þáverandi sýslumanns, væri rými fyrir starfsemina.

Með því að stíga þetta skref hefur innheimta, sem verið hefur í höndum 26 sýslumannsembætta og lögreglustjórans í Reykjavík, verið færð á einn stað. Þetta tókst ekki nema með náinni samvinnu embættanna og fangelsismálastofnunar. Var ánægjulegt við athöfnina í dag, hve margir sýslumenn komu til hennar og Stefán Skarphéðinsson, sýslumaður í Borgarnesi og formaður Sýslumannafélags Íslands, flutti ávarp. Hann fagnaði þessu skrefi og fleirum, sem stigin hafa verið til að færa verkefni til sýslumanna og gat þess meðal annars, að sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal væri nú ritstjóri Lögbirtingarblaðs.

Það er ekki aðeins framtak góðra og hæfra einstaklinga, sem gerir kleift að dreifa verkefnum á embætti sýslumanna, heldur einnig hin rafrænu samskipti, sem auðvelda nú alla meðferð mála og spara skriffinnsku og pappír. Hjá sýslumanninum á Blönduósi er nú risið rafrænt þjónustuver fyrir landið allt á þessu sviði.

Ég er undrandi á því, hve lágt hefur farið, að síðan í haust hefur verið leitast við að knýja menn til að standa í skilum með sektargreiðslur með því að nýta fangaklefa við 6 sýslumannsembætti um landið og láta menn sitja sektina af sér í þessum klefum, ef þeir sinna ekki kalli um greiðslu. Reynslan af þessu er góð og dæmi um, að ekki líði nema stuttur tími, eftir að menn eru settir á bakvið lás og slá, þar til þeir hafa gert ráðstafanir til greiðslu á skuld sinni. Ég vænti þess, að þetta úrræði verði notað í vaxandi mæli. Raunar mundi fælingarmáttur þess aukast töluvert, ef einhver fjölmiðill sýndi því áhuga að kynna það.

Baugsmálið.

Í einhverri könnun, sem gerð var um fréttamiðlun á síðasta ári, kom í ljós, að Baugsmálið hefði vakið mestan áhuga af því, sem í fréttum var. Angar málsins teygja sig víða og ýmsir tjá sig um upphaf þess af lítilli þekkingu, þegar látið er í veðri vaka, að um pólitískt samsæri með þátttöku lögreglu og ákæruvalds hafi verið að ræða.,

Ég hef aldrei tjáð mig um efnisatriði þessa máls og hef ekki í hyggju að gera, á meðan ég gegni embætti dómsmálaráðherra, þótt fjölmiðlar leggi fyrir mig spurningar um það, til dæmis í tilefni af dómi hæstaréttar nú í vikunni.

Af fréttum má ráða, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ætli núna nokkrum mánuðum fyrir kosningar að taka til við að ræða um Baugsmálið á pólitískum forsendum og bæta við þann blekkingarvef, að um pólistískt lögreglusamsæri sé að ræða. Líklega er það vegna þess, hve lítið mark er tekið á orðum Ingibjargar Sólrúnar, að hún kemst upp með slíkt tal, án þess að hún sé spurð um heimildir sínar.

Í ræðu á aðalfundi Samfylkingarféllagsins í Reykjavík 27. janúar sagði Ingibjörg Sólrún: „Mér finnst eins og menn hafi látið stjórnast af pólitískum hvötum sem ekki eru í takt við réttarríkið í Baugsmálinu. Þó að ég vilji ekki halda því fram að ákæruvaldinu hafi verið sigað á sakborninga Baugsmálisns er ljóst að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa látið orð falla um þetta mál, sem er vitnisburður um að þeir hafi farið gáleysislega með vald sitt."


 

Í raun er ekki meira að marka dylgjur Ingibjargar Sólrúnar en Sigurjón Má Egilsson, sem nú er orðinn ritstjóri DV,  skrifar þar undir dulnefninu Dagfari og er með það innlegg í Baugsmálið, að ég hafi mælt með Jónínu Benediktsdóttur til meistaranáms við Háskólann á Bifröst. Þessi fullyrðing ritstjórans er algjörlega úr lausu lofti gripin og styðst ekki við neitt annað en ímyndunarafl hans. Á hinn bóginn varð ég fyrir nokkrum mánuðum við ósk Jónínu um að koma að Bifröst og flytja þar erindi og ræða við meistaranema, sem ég gerði 19. júlí 2005 eins og fram kemur í dagbók minni hér á síðunni. Ef það tengist samsæri um Baugsmálið, er það nýlunda fyrir mig og sýnir aðeins, hve angar þess geta legið víða að mati einhverra.

 

Reiði Steingríms J.

 

Fyrir nokkrum vikum ritaði ég hér á síðuna um bók Margrétar Frímannsdóttur Stelpan frá Stokkseyri, þar sem hún lýsir samskiptum sínum við Steingrím J. Sigfússon á þann veg, að þau hafi verið svo óbærileg, að líktist dvöl hjá kölska. Mér kom þessi lýsing Margrétar í hug, þegar Steingrímur J. tók reiðikast og gerði hróp að mér með blótsyrði í þingsalnum miðvikudaginn 24. janúar.

 

Fyrir einni viku varð Steingrímur J. rauður af reiði, þegar hann las skjöl, sem utanríkisráðuneytið birti og fylgdu varnarsamningnum frá 1951 sem leyndarskjöl. Stóryrði Steingríms J. voru þá á þann veg, að þessi skjöl sýndu, að Íslendingar hefðu verið verr leiknir af Bandaríkjamönnum en Grænlendingar vegna Thule-stöðvarinnar.

 

Ég hef ekki skilið, hvernig Steingrímur J. komst að þessari niðurstöðu og hann hefur ekki heldur fylgt henni eftir, svo að ég viti. Á sjöunda áratugnum fórst bandarísk flugvél með kjarnorkuvopn við Thule-stöðina og olli miklum og langvinnum skaða. Er þetta slys kveikjan að ummælum Steingríms J.? Hvernig getur hann heimfært þetta á samingana, sem Íslendingar hafa gert við Bandaríkjamenn?

 

Frjálslyndir í uppnámi.

 

683 atkvæði voru gild í varaformannskjöri Frjálslynda flokksins 27. janúar og sigraði Magnús Þór Hafsteinsson með 54% en Margrét Sverrisdóttir tapaði. Hún sagði fyrir kosninguna, að yrði hún undir ætti hún ekki samleið með flokknum. Hún tekur kannski nafn flokksins með sér, því að fram hefur komið, að það sé eign föður Margrétar, Sverris Hermannssonar.

Fréttir af fundinum og kosningunni voru á þann veg, að fjöldi manna þar væri svo mikill, að allt hefðí farið í handaskolum vegna hans. Fólki hefði með herkjum tekist að greiða atkvæði. Þetta eru einkennilegar frásagnir, ef haft er í huga, hve langan tíma menn hafa haft til að búa sig undir varaformannskosninguna og ekki síður, þegar miðað er til dæmis við aðalfundi Heimdallar, þar sem meira en helmingi fleiri kjósendur koma að því að kjósa stjórn, án þess að fjölmiðlamenn standi á öndinni - þar fá frambjóðendur gjarnan fleiri atkvæði í sinn hlut en alls tóku þátt í kosningunni í Frjálslynda flokknum.

Enginn hefur þó enn slegið Samfylkingunni við í varaformannkjöri en þar komu fram 900 atkvæði á 500 manna fundi, þegar Ágúst Ólafur Ágústsson náði kjöri. Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hneykslast á póltiíkinni má hún ekki gleyma þessum einstaka atburði.

 

ps. eftir að ég skrifaði þessar tölur eftir fyrstu fréttum af varaformannskjöri frjálslyndra kom í ljós, að ótalið hafði verið úr einum kjörkassa, en 128 gild atkvæði voru í honum, Magnús Þór fékk 91 þeirra og Margrét 37. Alls voru því 811 atkvæði gild og hlaut Magnús Þór 460 eða 56,7% og Margrét 351 eða 43,5%. Margrét heldur því fram, að 100 atkvæði hafi verið keypt af Nýju afli, flokki Jóns Magnússonar hrl., sem sett hefur allt á annan endann meðal frjálsyndra, en Höskuldur Höskuldsson, varaformaður í Nýju afli, greiddi 200 þúsund krónur í flokkssjóð frjálslyndra, sem jafngildir félagsgjöldum fyrir100 manns. Höskuldur segist hafa greitt þetta úr eigin vasa en ekki úr sjóðum Nýs afls.