20.1.2007

Skjöl skráð - réttmætt vantraust.

„Til að varpa ljósi á umfang þeirra gagna sem ráðuneytið hefur í vörslum sínum og gætu varðað öryggismál Íslands má nefna að þau skjöl sem geymd eru í hinu almenna skjalasafna ráðuneytisins frá þessu tímabili nema um 800 hillumetrum og skjöl frá þessu tímabili í skjalasafn varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins (sem er aðskilið hinu almenna skjalasafni) nema um 50 hillumetrum.

Áætlað er að framkvæmd könnunar á öllum skjölum ráðuneytisins frá þessum tíma og vinna við að gera þau aðgengileg myndi kosta u.þ.b. þrjú ársverk. Eru þá ótalin þau skjöl sem er að finna í skjalasöfnum sendiráða, fastanefnda og aðalræðisskrifstofa Íslands frá þessu tímabili en þau nema um 500 hillumetrum.

Aðeins hluti þeirra skjala er nú á Þjóðskjalasafni, ráðuneytið hefur lokið að pakka og skrá stóran hluta þessara skjala til viðbótar og bíða þau þess að Þjóðskjalasafnið geti tekið við þeim en enn á eftir að skrá hluta þessa safns.

Ráðuneytið er hins vegar fyllilega reiðubúið til þess að veita yður, eða þeim sem þér kjósið að tilnefna, fullan aðgang að skjalasafni ráðuneytisins.

Ennfremur er ráðuneytið reiðubúið til að annast millgöngu um að afla nauðsynlegrar öryggisvottunar frá Atlantshafsbandalaginu vegna aðgangs að gögnum sem aðgangur er takmarkaður að samkvæmt reglum þess.“

Þessi texti birtist á mbl.is laugardaginn 20. janúar 2007 og byggist hann á bréfi, sem Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, hefur sent dr. Páli Hreinssyni prófessor, sem er formaður nefndar, sem skipuð var á grundvelli ályktunar alþingis sl. vor, vegna umræðna um svonefnd hleranamál.

Skipan nefndarinnar varð meðal annars til þess, að innan dóms- og kirkjumálaráðuneytisins var litið til þess, hvort gögn væru þar, sem ættu heima á Þjóðskjalsafni vegna aldurs og var gengið tafarlaust til þess að afhenda þau, enda lítil að vöxtum, en mér skilst að þau séu nú aðgengileg á vefsíðu safnsins. Ýmsir tóku því illa, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði afhent safninu skjöl sín og Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði til dæmis í þingræðu 9. október 2006: „Hæstv. dómsmálaráðherra hafði nefnilega í millitíðinni læðst með þessi hlerunargögn úr ráðuneytinu upp í Þjóðskjalasafn.“

Þetta er einkennileg afstaða þingmanns til Þjóðskjalasafnsins, en hún er ekki staðföst frekar en svo margt annað hjá Merði og Samfylkingunni – hann krafðist þess fyrir skömmu, að ég afhenti skjöl í minni vörslu til Þjóðskjalasafns!

Skyldi Mörður leggjast gegn því, að utanríkisráðuneytið gangi frá skjölum sínum á þann veg, sem að ofan er sagt? Athyglisvert er af fréttinni á mbl.is, að innan utanríkisráðuneytisins skuli ekki hafa verið staðið betur að því að flokka og skrá þessi skjöl í vörslum ráðuneytisins. Svo virðist af fréttinni sem enginn hafi hugmynd um, hvað er að finna í þessum hillumetrum. Ég dreg mjög í efa, að svo sé. Séu þetta skjöl, sem fengin hafa verið frá höfuðstöðvum NATO, hlýtur umgengni um þau að hafa verið á þann veg, að skráð er, hvaða skjal er sent og á hvaða tíma. Hafi ráðuneytið ekki skráð móttöku hjá sér, ættu sendiskýrslunar að auðvelda skráningu skjalanna.

Ég fagna því, að utanríkisráðuneytið skuli veita aðgang að þessum skjölum innan marka skuldbindinga sinna gagnvart samstarfsþjóðum. Fyrir því eru skýr rök, að unnt sé að skoða þessi gögn eins og önnur við athugun á sögu íslenskra utanríkis- og öryggismála. Svo virðist sem utanríkisráðuneytið hefði ekki stigið þetta skref, ef alþingi hefði ekki samþykkt ályktun sína sl. vor um aðgang fræðimanna að skjölum á tímum kalda stríðsins.

Auðvitað dregur það ekki úr framgöngu embættismanna utanríkisráðuneytisins við röðun og frágang skjala, að Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra sagði í ræðu fimmtudaginn 18. janúar:

„Hagsmunir þjóðarinnar í öryggismálum eru ekki pólitískt bitbein og öryggi borgaranna er sameiginlegt markmið allra þingmanna og ráðherra. Því tel ég mikilvægt og rétt að leggja áherslu á gegnsæi og skilning borgara á þeirri starfsemi og úrræðum sem nauðsynleg eru. Það andrúmsloft leyndarhyggju, sem áður var ríkjandi gagnvart þjóð, Alþingi og utanríkismálanefnd þegar að varnarmálum kom er ekki það vinnulag sem ég vil viðhafa. Raunar verð ég að játa að mér hefur oft fundist pukur af þessu tagi fremur einkenna karlana, sem hafa tilhneigingu til að leiða málin til lyktar í reykfylltum bakherberjum. Það hefur vissulega loðað ansi lengi við umræður um utanríkismál að varnar- og öryggismál væru vígi karlanna á meðan konur áttu að einbeita sér að mjúku málunum á borð við mannréttindamál og stöðu kvenna í þróunarríkjunum. Slík viðhorf eiga einfaldlega ekki rétt á sér í dag. Umræðan um öryggis- og varnarmál þoli það alveg að hún sé dregin fram í dagsljósið og aðeins sé loftað um.

Í þessu sambandi vil ég nefna að í gær átti ég fund með utanríkismálanefnd þar sem ég gerði grein fyrir leynilegum viðaukum sem undirritaðir voru við varnarsamning okkar við Bandaríkin frá 1951. Viðaukarnir, sem ég hyggst létta leynd af, eru ekki þess eðlis að ástæða sé til þess að halda þeim leyndum lengur. hafi nokkru sinni verið ástæða til þess. Á næstu dögum verða viðaukarnir gerðir opinberir á heimasíðu ráðuneytisins.“

Ræða utanríkisráðherra var kynnt á þann veg, að þar yrði lagt á ráðin um framtíðarstefnu þjóðarinnar í öryggis- og varnarmálum. Athygli hefur þó einkum beinst að þeim hluta ræðu hennar, sem hér er nefndur til sögunnar, og er það í góðu samræmi við áhuga fjölmiðlamanna á þessum málaflokki. Hann virðist frekar beinast að fortíð en nútíð og framtíð. Síðan er það sérstök íþrótt að lesa eitthvað annað í skjölunum en við blasir við fyrstu sýn, deila svo um heimatilbúnar getgátur og beita oft furðurökum til að segja skjölin lýsa skoðunum þess, sem les þau, en ekki því, sem skráð er.

Sú skoðun stenst ekki, að staða Íslands á tíma kalda stríðsins sé vanreifuð eða einhver sérstök leynd hvíli yfir þeim þætti samtímasögunnar. Þetta er einfaldlega goðsögn þeirra, sem telja, að eitthvað annað hafi gerst en skjöl og saga sýnir.

Mestu blekkingariðju á tímum kalda stríðsins, stunduðu þeir, sem ófu lygavefinn um, að á Íslandi væru falin kjarnorkuvopn. Þegar varnarliðið fór og allar dyr á Keflavíkurflugvelli voru opnaðar, kom að sjálfsögðu í ljós, að hér eru engin merki um varðveislu kjarnorkuvopna. Hvers vegna skyldi enginn áhugamaður um sögu kalda stríðsins og samskipti við Bandaríkin rifja upp allt, sem sagt var um kjarnorkuvopn og Ísland og skoða þau ummæli í ljósi sögunnar?

Ég ráðlegg öllum áhugamönnum um sögu öryggis- og varnarmála að kynna sé rækilega, hve mikið hefur verið skrifað um kalda stríðið og skjöl frá þeim tíma um varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna, áður en því er slegið föstu, að þar sé eitthvað óupplýst. Um þetta hafa verið ritaðar lærðar bækur og ritgerðir og birt fleiri skjöl en nokkurt annað mál í utanríkissögu þjóðarinnar. Ég nefni til dæmis langar greinar, sem ég ritaði í Morgunblaðið 29. og 30. apríl og 1. og 4. maí 1976, þar sem farið er í saumana á frásögnum af viðræðunum, sem leiddu til aðildar Íslands að NATO. Í bók minni Í hita kalda stríðsins er að finna greinar um kjarnorkuvopn og Íslands.

Miðlun upplýsinga um þennan tíma í sögu þjóðarinnar verður auðvitað auðveldari, eftir að utanríkisráðuneytið hefur skráð safn sitt af fyrrnefndum gögnum, en skráningin er forsenda þess, að unnt sé að skoða skjölin skipulega. Hvers vegna þurfti ályktun alþingis til að gengið var til þessa verks?

 

 Réttmætt vantraust.

 

Sunnudaginn 14. janúar birtist viðtal Agnesar Bragadóttur blaðamanns við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu. Það hófst á þennan veg:

 

„Svo ég hefji leikinn á að vitna orðrétt í þig á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Keflavík 2. desember sl. þá sagðir þú: „Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum – ekki ennþá, ekki hingað til.“ Var þetta klókt útspil hjá formanni Samfylkingarinnar, svona skömmu fyrir kosningar? Hver er staðan núna innan Samfylkingarinnar?

„Ég var í þessari ræðu að vísa til þess hver staða flokksins hefur verið, samkvæmt skoðanakönnunum. Þegar flokkur er að mælast undir kjörfylgi, eins og við höfum verið að gera í könnunum, þá segir það manni auðvitað það, að það vantar eitthvað upp á traustið frá kjósendum. Þetta var sú staða sem ég var að færa í orð. Ég er hins vegar alveg sannfærð um, og það sagði ég líka í þessari svonefndu Keflavíkurræðu, að núna eru allar forsendur til að það verði viðsnúningur fram að kosningum.

Þetta er auðvitað flokkurinn minn, sem ég trúi og treysti á og sem ég veit hvers er megnugur, sem ég var að tala við með þessum hætti. Það má kannski segja að ég hafi verið að tala eins og þjálfari við lið sitt í hálfleik. Lið sem er undir. Ég var að segja að við hefðum ekki skorað nógu mörg mörk í fyrri hálfleik. Nú yrði að verða á því breyting og við yrðum að skora fleiri mörk í seinni hálfleik.“

Daginn eftir að viðtalið birtist hófst seinni hálfleikurinn, þegar Ingibjörg Sólrún ætlaði að skora fleiri mörk á alþingi, og síðan 15. janúar hefur samfylkingarfólkið á þingi haldið uppi málþófi á alþingi með öðrum stjórnarandstæðingum, málþófi, sem snýst um það, hvort breyta eigi ríkisútvarpinu úr ríkisstofnun í ríkishlutafélag, málþófi, sem staðið hefur lengur en umræður um Kárahnjúkavirkjun og um aðildina að EES fyrir 15 árum, en umræðurnar um EES voru þá hinar lengstu um eitt mál í meira en 1000 ára sögu alþingis!

Páll Vilhjálmsson gefur þingflokki Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðunni þessa einkunn á vefsíðu sinni:

„Á þessum tíma í kosningabaráttunni reyna stjórnarandstöðuflokkar að finna höggstað á sitjandi ríkisstjórn og búa sér til málefnastöðu. Venjuleg þingstörf eru árangursrík aðferð til þess að þreifa fyrir sér með ólík mál. En þegar aðeins eitt mál er á dagskrá, sem í ofanálag er lítt áhugavert fyrir almenning, er stjórnarandstaðan að tapa tíma.

Ríkisstjórnarflokkarnir hagnast á málþófinu. Ráðherrar hafa næg tækifæri til að fara með sín mál til almennings á meðan þingmenn andstöðuflokkanna láta kvörnina mala án þess að nokkur taki eftir.

Stjórnarandstöðunni hlýtur að líða eins og fíflinu sem var att á foraðið.“

Hvað ætlar Ingibjörg Sólrún að segja nú um og við þingflokk Samfylkingarinnar?