13.1.2007

RÚV ohf. - evran - tónlistarhús.

Síðasta lotan á alþingi fyrir þingkosningarnar 12. maí hefst núna mánudaginn 15. janúar og þá verður fyrstu dagana haldið áfram að ræða frumvarpið um að breyta ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins. Það hefur verið mikil þrautarganga á hinum pólitíska vettvangi að finna leið til að gera RÚV kleift að laga sig að nútímanum með nútímalegu rekstrarformi.

Á mínum tíma sem menntamálaráðherra voru framsóknarmenn ófáanlegir til að fallast á hlutafélagavæðingu RÚV. Smátt og smátt rann þó upp fyrir þeim, að RÚV gæti ekki búið við tilvistarvanda vegna pólitísks þráteflis um breytingar á stofnuninni – breytingar, sem tækju mið af því, sem hefði verið að gerast annars staðar við þróun ríkisrekins útvarps.

Framsóknarmenn féllust á að RÚV yrði breytt í sameignarfélag. Ég taldi þá leið aldrei til farsældar. Horfið var frá henni og ákveðið að breyta RÚV í opinbert hlutafélag, eftir að eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í Brussel hafði fundið það að frumvarpinu um Ríkisútvarpið sf. að þar væri ríkið með ótakmarkaða ábyrgð.

 

Frumvarp um RÚV varð ekki útrætt á síðasta þingi og þegar það var tekið á dagskrá þess þings, sem nú situr, hinn 16. október 2006 hóf stjórnarandstaðan strax umræður um málsmeðferðina og þá var allt, sem sagt var á vorþinginu um skjóta afgreiðslu á frumvarpinu við upphaf nýs þings fokið út í veður og vind. Atkvæðagreiðsla eftir 2. umræðu var í alþingi hinn 8. desember 2006, en þá hafði málið verið rætt í samtals 24 klukkustundir á haustþinginu.

 

Í ræðu 8. desember sagði Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar: „Nú er ljóst að þunginn í þessari umfjöllun þingsins um frumvarpið verður í 3. umr. ef hún fer fram. Það verður ekki fyrr en á næsta ári og óljóst svo sem hvenær á næsta ári það verður.“

 

Menntamálanefnd þingsins hefur undir formennsku Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, farið yfir frumvarpið um RÚV ohf. í jólaleyfi þingsins og umræður um málið hefjast strax og þing kemur saman mánudaginn 15. janúar.

 

Stjórnarandstaðan lætur eins og hún ætli að halda þófinu um RÚV ohf. áfram eins lengi og frekast er kostur. Mér er óskiljanlegt, hvaða pólitískar keilur stjórnarandstaðan telur sig vera að slá með þessu þrátefli um RÚV ohf. Tal um, að málið risti djúpt hjá almenningi af ótta hans við þessar breytingar, er með öllu marklaust. Langvinnar umræður um málið á þingi vekja undrun almennings og enginn gerir sér grein fyrir neinum þræði í málinu – við blasir það eitt, að stjórnarandstaðan málar skrattann á vegginn í þessu máli eins og öllum öðrum.

 

Hugsanlega telur stjórnarandstaðan, að með löngum ræðum sínum gegn RÚV ohf. tali hún sig í mjúkinn hjá 365, helsta keppinauti RÚV, sem vill að sjálfsögðu ekki sjá RÚV styrkjast á neinn hátt, hvorki í krafti nýrra laga né með nýju skipulagi í takt við breytta tíma og harða samkeppni.

 

Haldi stjórnarandstaðan, að málþóf um RÚV ohf. síðustu þingvikur fyrir kosningar, verði henni til vinsælda meðal kjósenda, veður hún mikla villu.

 

Evran.

 

Nýlega hitti ég stjórnmálamann úr Evrópusambandslandi, sem ekki hefur evru. Reynt var að innleiða evruna í landi stjórnmálamannsins en því var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sagðist aldrei mundu mæla með því að nýju, eins og hann gerði fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í landi sínu, að evran yrði gjaldmiðill þjóðar sinnar. Í kosningabaráttunni hefði hann farið mikinn í ræðum um hættuna af því að hafna evrunni – efnahagur þjóðarinnar myndi einfaldlega stórskaðast og hún dragast aftur úr öðrum. Hið gagnstæða hefði gerst, efnahagurinn utan evru-aðildar hefði blómstrað og styrkst meira en hjá evru-löndunum. Hann ætlað ekki að láta hafa sig að fífli aftur með því að mæla með evru með hrakspár á vörunum um lífið utan evru-lands. Þá væri málum háttað á þann veg, að hagsmunir Þjóðverja og Frakka, þjóða, sem tækist ekki að ná sér á strik efnahagslega, réðu hagstjórn evrópska seðlabankans í Frankfurt – minni ríki yrðu einfaldlega að laga sig að hagsmunum þessara stórþjóða og væru aðrar bjargir bannaðar. Hann hafði nokkra þekkingu á efnahagsmálum okkar Íslendinga og taldi af og frá, að evru-aðild væri bjargráð fyrir okkur.

 

Viðskiptaráð gaf út skýrsluna Krónan og atvinnulífið  í júlí 2006. Niðurstaða sérfræðinefndarinnar sem vann skýrsluna var þessi:  „Evran kemur ekki til álita sem lausn á þeim vanda sem steðjar að íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Til þess að Íslendingar geti í framtíðinni átt raunhæft val á milli evru og íslensku krónunnar, á grundvelli efnahagslegra og stjórnmálalegra forsendna, þarf að beita samræmdum aðgerðum á sviði hagstjórnar til þess að mynda jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Meginverkefni hagstjórnar á næstunni er því að beita samhæfðri stefnu til að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki náist í efnahagslífinu.“

 

Er þett ekki enn í fullu gildi? Evra verður ekki tekin upp hér án aðildar að Evrópusambandinu (ESB). Aðild krefst breytinga á stjórnarskránni, þjóðaratkvæðagreiðslu um heimild ríkisstjórnar til að ganga til aðildarviðræðna, þá kann að verða krafist annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarskilmála og evru-aðild. Þegar það þarf þrjú eða fjögur þing til að afgreiða frumvarp um að breyta ríkisútvarpi í opinbert hlutafélag, verður tímafrekt að ræða ESB-aðild á stjórnmálavettvangi, geri einhver flokkur tillögu um hana.

 

Í ljósi þessara staðreynda er með miklum ólíkindum, að stjórnmálamenn skuli láta í veðri vaka, að það sé ekkert mál að bregðast við hagsveiflu, við bara tökum upp evruna. Mætti halda, að það yrði gert með einfaldri yfirlýsingu. Hvers vegna tala stjórnmálamenn á þennan veg? Hvers vegna láta fjölmiðlamenn eins og einhver innistæða sé að baki yfirlýsingum af þessu tagi um evruna og krónuna?

 

Stjórnmálamenn geta auðvitað gjaldfellt krónuna með tali af þessu tagi og valdið þannig efnahagslegum vanda. Hitt er þó líklegra, að þeir gjaldfelli svo sjálfir með ábyrgðarleysinu, að krónan standi sterkari eftir en þeir sjálfir.

 

Tónlistarhús.

 

Hátíðleg athöfn og lúðrablástur var undir sjávarmáli í grunni tónlistarhússins við Reykjavíkurhöfn föstudaginn 12. janúar, þegar fyrsta steypan var látin renna í grunn hússins, sem á að rísa 24 fermetrar að stærð á næstu þremur árum.

 

Þetta gerist svo að segja réttum átta árum eftir að ríkisstjórnin samþykkti tillögu mína um, að ráðist skyldi í smíði tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í miðborg Reykjavíkur, en þá höfðum við einmitt þennan stað í huga, og samið skyldi um skiptingu kostnaðar milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Samþykkti ríkisstjórnin þetta 5. janúar 1999, eins og sjá má hér á síðunni.

 

Ég hafði einsett mér að koma smíði hússins í réttan farveg fyrir lok kjörtímabilsins vorið 1999 og gekk það eftir. Ég hafði einni einsett mér að tillögu Vladmirs Ashkenazys, að leitað yrði hljómhönnuða hjá Artec í New York til að tryggja að hljómgæði salarins yrðu eins best yrði kosið og gekk það eftir.

 

Á vefsíðu Artec segir meðal annars:

Current Artec projects include The Icelandic National Concert Centre (Reykjavik Iceland); Zarautz Arts Centre (Zarautz, Spain); Wroclaw Concert Hall (Wroclaw Poland); Gustavus Adolphus College Study (St. Peter, Minnesota, USA), Montréal Concert Hall (Montréal, Québec, Canada); Carmel Performing Arts Center (Carmel Indiana, USA); Lifestyle and Entertainment Hub (Singapore); programming for opera house and concert hall in Seoul, Korea, and other projects in early planning phase in the United States, Middle East and Asia.“

Skömmu áður en ég hætti sem menntamálaráðherra ákvað ég, að hljómsveitargryfja og grunnbúnaður yrði í tónleikasalnum til að unnt yrði að flytja þar óperur og sýna dans, án þess að um fullbúna óperusýningu yrði að ræða. Þetta gekk eftir. Portus, sem reisir og á húsið, hefur ákveðið að í salnum verði fullbúið konsertorgel, sem eykur enn gildi hússins.

Ákvarðanir um þessi mál voru allar teknar fyrir opnum tjöldum og hér á síðunni hef ég oft getið um þau. Síðan í janúar 1999 hafa verið tvennar þingkosningar, vorið 1999 og 2003, og tvisvar hefur verið kosið í borgarstjórn Reykjavíkur, 2002 og 2006. Í öllum þessum kosningum hefðu einstakir frambjóðendur eða flokkar getað gert ágreining vegna ákvarðana um tónlistar og ráðstefnuhúsið. Það var ekki gert.

Ég ræði málið á þessum grunni nú vegna greinar eftir Ólaf Hjálmarsson verkfræðing í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 13. janúar undir fyrirsögninni: Látum þjóðina ráða.

Af grein Ólafs má ráða, að eitthvert leynimakk hafi verið í kringum ákvarðanir um tónlistarhúsið og þær hafi ekki verið kynntar nægilega vel á opinberum vettvangi. Verður þessi skoðun Ólafs honum tilefni til að „landsmenn kjósi sérstaklega í vor um framtíðarhúsnæði tónlistarinnar hér á landi á sama hátt og Hafnfirðingar um stækkun álvers. Látum þjóðina ráða.“

Mér finnst Ólafur heldur seint á ferð með þessa tillögu sína og málatilbúnaður af þessu tagi er álíka undarlegur og talið í þá veru, að unnt sé að smella fingri og breyta krónu í evru. Samningar um smíði hússins hafa verið gerðir á grundvelli reglna um opinber útboð.

Ólafur lætur til dæmis eins og sú ákvörðun, að 1800 sæti verði í tónlistarsalnum spilli hljómgæðum. Á vefsíðunni hjá Artec eru birtar upplýsingar um sætafjölda í einstökum sölum og þar má sjá, að talan 1800 er oft nefnd – varla veldu menn þann fjölda, ef hann spillti hljómburði. Þá er fráleitt, að þóknun til hljómhönnuða ráði fjölda sæta, eins og ráða má af grein Ólafs. Notagildi ræður einfaldlega stærð salarins.