6.1.2007

Feminísk fyndni

Í tveimur pistlum hér á síðunni var undir lok síðasta árs rætt um harðræðið innan Alþýðubandalagsins síðasta áratuginn, sem það lifði. Var það gert með því að vísa annars vegar til æviminninga Margrétar Frímannsdóttur, Stelpan frá Stokkseyri, og hins vegar með vísan til greinar um Hafskipsmálið og pólitíska hlið þess í Þjóðmálum.

Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri/grænna, er lýst á ófagran hátt í bók Margrétar. Hefur sú ályktun meðal annars verið dregin af lýsingunni, að Steingrími J. sé í nöp við þátttöku kvenna í stjórnmálum. Óvirðing hans í garð Margrétar eigi rætur að rekja til þess.

Í netheimum var því hent á loft, að í áramótaannáli Múrsins (murinn.is), sem haldið er úti af vinstri/grænum, væri æviminningum Margrétar Frímannsdóttur svarað á smekklausan hátt. Í annálnum stendur:

 

„Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig.“

 

Þegar þessi texti hafði birst, varð hann fleygur í netheimum og barst þar í hneykslunarskyni manna á meðal.

 

Björn Ingi Hrafnsson sagði á vefsíðu sinni 4. janúar:

 

„Undir þetta skrifa nokkrir fastapennar á Múrnum, m.a. varaformaður Vinstri grænna Katrín Jakobsdóttir. Og í kjölfarið hlýtur maður að spyrja forsvarsmenn hins feminíska flokks, sem svo vill vera kallaður, hvort það sé bara hluti af leiknum að kalla Margréti Frímannsdóttur, fyrrverandi formann Alþýðubandalagsins og síðar Samfylkingarinnar, minnislausa af því hún hefur dirfst að gagnrýna Steingrím J. Sigfússon, formann VG, í téðum endurminningum sínum? Að þá sé í lagi að láta hana bara hafa það?

 

En hvernig pólitískt karp af þessu tagi á erindi við Thelmu Ásdísardóttur er ofar mínum skilningi og svo ósmekklegt að engu tali tekur. Vinstri grænum til upplýsinga, var Thelma maður ársins í fyrra, m.a. vegna þess að hún hafði hugrekki og þor til að rjúfa þagnarmúr um skelfilegt ofbeldi sem hún og fleiri ættingjar hennar höfðu orðið fyrir og vakti fyrir vikið athygli og aðdáun allrar þjóðarinnar.

 

Að halda því fram að Margrét sé að heimfæra endurminningar Thelmu upp á sjálfa sig, er því ekki aðeins fráleitt heldur ótrúlega ósmekklegt.

Þess vegna er hér komin alvarleg atlaga að nafnbótinni ósmekklegheit ársins, enda þótt aðeins sé kominn 4. janúar.“

 

 

Össur Skarphéðinsson sagði hinn 6. janúar um textann á vefsíðu sinni:

 

„Þetta eru smekklaus ummæli, niðurlægjandi fyrir báðar þær konur sem getið er í klausunni, og lykta langar leiðir af kvenfyrirlitningu einsog gamall fjóshaugur. Það er raunar rannsóknarefni hvernig forystumenn í VG, ungir og gamlir, tala niður til stjórnmálakvenna - ekki síst í ljósi þess að forsvarsmenn hreyfingarinnar tala gjarnan einsog þeir hafi fundið upp femínismann.

Þarna er heiftin á ferðinni. Þau sem klausuna skrifa eru pólitísk börn Steingríms J. Sigfússonar. Pólitískt uppeldi þeirra í VG er ekki betra en svo að þau hafa tekið í arf gamla heift millum löngu liðinna vængja í Alþýðubandalaginu sáluga, þar sem Steingrímur og Margrét tókust á. Tilgangurinn helgar meðalið, og löngunin til að slæma höggi á Margréti í hefndarskyni fyrir frábæra bók hennar um síðustu jól leiðir þau til að þau snúa písk úr hetjulegri frásögn Telmu Ásdísardóttur af hræðilegu ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi föður síns.

Þann písk láta þau svo ríða á hrygglengju Margrétar í barnalegri viðleitni til að fá útrás fyrir pólitíska heift - sem Steingrímur á auðvitað fyrir löngu að hafa útrýmt við hið pólitíska kvöldverðarborð VG.

Í leiðinni niðurlægir þetta ágæta fólk með ótrúlega ósmekklegum hætti báðar þessar hugdjörfu konur, sem hvor á sínu sviði hafa skarað fram út. Hið ótrúlega er, að allir eru höfundarnir upprennandi stjórnmálamenn í flokki, sem í orði kveðnu slær um sig með femínisma!

Einn höfundanna undir pistlinum þar sem klausuna er að finna er Katrín Jakobsdóttir. Hún er varaformaður VG, og ein efnilegasta stjórnmálakona „femíníska“ flokksins og tilvonandi alþingiskona. Mér er hlýtt til Katrínar og sé í henni mikið efni. Vonandi verður hið pólitíska ferðalag hennar öllum til góðs. Það ferðalag má hins vegar ekki byrja með heiftina að fylgikonu og góð byrjun til að útrýma henni væri að Katrín birti litla afsökunarbeiðni til bæði Margrétar og Telmu á Múrnum. Það myndi duga mér, og sérstaklega ef hún tekur báðar inn í kvöldbænir á sínu heimili.

Það er þó líklega til of mikils mælst af jafn gáfuðu yfirburðafólki og þar stýrir skriftum. Besservisserar eiga alltaf auðveldast með að tala niður til fólks, sérstaklega kvenna, en það er dapurlegt að sjá yfirlýsta vinstri menn og konur föst einsog kviðsíðar merar í mýri heiftarinnar.“

 

Sama dag og Össur birti pistil sinn, laugardaginn 6. janúar, var málið komið í kvöldfréttir Stöðvar 2. Það var borið undir Katrínu Jakobsdóttur, varaformann vinstri/grænna, sem bar blak af Múrnum en með semingi þó, um leið og hún vísaði til þessarar yfirlýsingar á Múrnum 6. janúar:

 

„Að gefnu tilefni

6.1.2007

Um nokkra hríð hefur ritstjórn Múrsins haft þann hátt á um áramót að líta yfir farinn veg og rifja upp ýmsa atburði gamla ársins í gamansömum tón. Þeir brandarar sem þar hafa verið sagðir hafa auðvitað verið misjafnlega langsóttir eins og gengur. Þó að engum brandara sé greiði gerður með neðanmálsgreinum og útskýringum hefur þess orðið vart að ákveðnir aðilar hyggjast nota útnefningu á bók ársins í seinasta áramótaannál í pólitísku skyni og þess vegna er rétt að taka fram að þar var verið að gera grín að kostulegum ritdómi Jóns Baldvins Hannibalssonar um endurminningar Margrétar Frímannsdóttur. Í þeim ritdómi kallaði Jón Baldvin samskiptamáta fólks í Alþýðubandalaginu nefnilega „heimilisofbeldi“ og mætti halda því fram að sú samlíking geri heldur lítið úr því grafalvarlega fyrirbæri, eins og blasir við ef menn hugsa til raunverulegra tilvika.

Nokkrir andstæðingar Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs sem þögðu þunnu hljóði um samlíkingu Jóns Baldvins hafa undanfarna daga reynt að þyrla upp moldviðri að þessu háði Múrsins og nota sem fóður í hvíslherferð sem hófst í nóvember og gengur út á að flokksforysta VG sé haldin kvenhatri og taki heimilisofbeldi ekki alvarlega. Sem er vissulega kostulegt í ljósi baráttu Atla Gíslasonar og flokksins alls í þessum málaflokki. Er þessi dæmalausi málflutningur væntanlega orðinn til vegna lítils fylgis í skoðanakönnunum. En þó að flestir ættu að sjá gegnum lágkúruna er gömul saga og ný að túlkanir texta geta stundum breiðst betur út en textinn sjálfur. Þess vegna bregður Múrinn af vana sínum og því er hér með komið á hreint í eitt skipti fyrir öll að hverju var verið að hæðast. Er það von Múrsins að engum saklausum hafi sárnað eða brugðið yfir þessari rangtúlkun brandarans sem komst á kreik.

Rétt er að taka fram að Múrinn aðhyllist sem fyrr femínisma og jöfnuð á öllum sviðum og hefði það í raun átt að vera hafið yfir allan vafa.

áj/sh/sj

Upphafsstafirnir undir brandara-skýringunni standa fyrir þá Ármann Jakobsson, Steinþór Heiðarsson og Sverri Jakobsson.

 

Sumir brandarar eru dýpri en aðrir eins og allir vita. Í Áramótaskaup sjónvarpsins kom Páll Magnússon útvarpsstjóri og sagði þá ekki nógu gáfaða, sem þætti skaupið ófyndið. Ritstjórn Múrsins grípur til sama ráðs og segir þá andstæðínga sína, sem „þögðu þunnu hljóði“ um þá ósvinnu Jóns Baldvins að nota orðið „heimilisofbeldi“ í umsögn sinni um bók Margrétar, ekki skilja húmor Múrsins í áramótaannálnum. Þetta skilningsleysi sé þeim mun furðulegra, þegar til þess sé litið, að Atli Gíslason hrl. sé í flokki vinstri/grænna! Skýringin á skilningsleysinu felist í fylgisleysi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum!

 

Ég játa fúslega, að hugmyndaflug mitt náði ekki til þess, að þessi aulabrandari í áramótaannálnum snerist um Jón Baldvin Hannibalsson.

Hið fyndnasta í þessu máli öllu er, að aulahátturinn skuli hafa orðið til að sýna enn og aftur, hve grunnt er á illviljanum í samskiptum vinstrisinna, þrátt fyrir sparibrosið, sem varð þó að grettu, þegar þau hittust í Kryddsíldinni Steingrímur J. og Ingibjörg Sólrún, og hann talaði niður til hennar um forsætisráðherrastólinn – þótt yfir allan vafa sé hafið, að hann „ aðhyllist sem fyrr femínisma og jöfnuð á öllum sviðum.“