16.12.2006

Harmsaga Alþýðubandalagsins - máttlítil siðavöndun.

Í nýjasta hefti Þjóðmála, sem kom út núna í vikunni, er grein um Hafskipsmálið eftir Björn Jón Bragason, sagnfræðing og laganema, undir fyrirsögninni: Atlaga frá Alþingi. Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er þarna einkum rætt um pólitíska hlið Hafskipsmálsins. Þar er hlutur Ólafs Ragnars Grímssonar ekki minnstur. Ólafi Ragnari var mikið í mun að komast inn á alþingi til að ræða málið, en hann var varaþingmaður Alþýðubandalagsins á þessum tíma. Lagði Ólafur Ragnar mikið kapp á „að Guðmundur J. Guðmundsson, þingmaður Reykvíkinga og formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, viki sæti á Alþingi [síðla árs 1985] svo hann gæti sjálfur blandað sér í umræðuna um gjaldþrot Hafskips í sölum þingsins. Sem formaður Dagsbrúnar var Guðmundur J. forystumaður stórs hluta starfsmanna Hafskips hf. og hafði verkamannafélagið, að hans eigin sögn, átt einkar góð samskipti við stjórnendur fyrirtækisins,“ segir Björn Jón.

Ólafur Ragnar hélt þannig á málum, að hann komst inn á þing og talaði þar af heilagri vandlætingu um Hafskipsmálið. Hann, Svavar Gestsson og Jón Baldvin Hannibalsson litu á sigur í Hafskipsmálinu sem sigur í hugmyndafræðilegri baráttu gegn einkaframtaki og frjálsræði í viðskiptum – sigur fyrir þá ríkisafskiptastefnu, sem þeir ráku grímulaust á þessum árum í anda hollustu sinnar við heimskommúnismann og afturhaldssósíalisma, sem ekki var ýtt til hliðar, fyrr en Tony Blair komst til valda í breska Verkamannaflokknum. Sagan hefur án afskipta Ólafs Ragnar, Svavars og Jóns Baldvins fært frjálshuga mönnum sigur í þeirri hugmyndafræðilegu baráttu, eins og allir vita, og nú telja þeir ómaklega að sér vegið, þegar skoðanir þeirra frá þessum árum eru reifaðar.

Í greininni um Hafskipsmálið rifjar Björn Jón Bragason upp fleira og þar á meðal aðförina að Guðmundi J. Guðmundssyni í júní 1986, þegar það upplýsist við rannsókn á gögnum Hafskips, að Guðmundur J. hafði hlotið 120 þús. kr. ferðastyrk frá Eimskip og Hafskip fyrir milligöngu Alberts Guðmundssonar, svo að Guðmundur J. gæti farið til útlanda sér til hressingar. Fréttir af styrknum bárust hingað til lands í gegnum dönsku fréttastofuna Ritzau, ríkisfjölmiðlarnir hér fóru mikinn í málinu og einnig Helgarpósturinn og Þjóðviljinn. Í Alþýðublaðinu var sagt, að andstæðingar Guðmundar J. innan Alþýðubandalagsins hefðu átt upptök að þessum fréttaflutningi. Björn Jón segir:

„Það voru með öðrum orðum pólitískir samherjar Guðmundar sem gengu harðast fram í því að krefjast afsagnar hans en aukinheldur var þráfaldlega krafist afsagnar Alberts Guðmundssonar í sömu andrá. Ólafur Ragnar Grímsson formaður framkvæmdastjórnar Alþýðubandalagsins og varaþingmaður Guðmundar lagðist ásamt Svavari Gestssyni formanni flokksins og alþingismanni hart gegn Guðmundi J. í þessu máli. Í fjölmiðlum var það nefnt að Ólafur hygðist taka sæti Guðmundar á þingi, en aðspurður sagðist hann ekki láta saka sig um slík „annarleg sjónarmið“.

Ólafur Ragnar greindi frá því í sjónvarpsfréttum 19. júní [1986] að Guðmundur hygðist láta af þingmennsku fyrir fullt og allt. Guðmundur aftók þetta þó með öllu. Hann sagðist aðeins ætla að segja af sér þingmennsku og trúnaðarstörfum tímabundið, eða meðan rannsókn stæði yfir.“

Síðar í grein sinni segir Björn Jón:

 

„Þá tóku Helgarpóstsmenn undir með téðum hópi innan Alþýðubandalagsins og tönnluðust á því að meirihluti þingflokksins vildi að Guðmundur J. segði af sér. Sjálfur talaði Guðmundur um að hér hefði átt sér stað „soraleg pólitísk aðför“.

 

Vinir Guðmundar reyndust hans verstu fjandmenn.

 

Svo fór að Guðmundur J. Guðmundsson sagði sig úr Alþýðubandalaginu og hætti alfarið afskiptum af stjórnmálum.“

 

Ég ætla ekki að vitna meira í þessa fróðlegu grein í Þjóðmálum en ég staldra einkum við þennan þátt í henni, því að mér er lýsing Margrétar Frímannsdóttur á andrúmsloftinu innan þingflokks Alþýðubandalagsins á þessum árum enn ofarlega í huga, síðan ég las bók hennar Stelpan frá Stokkseyri. Hún kom inn í þingflokkinn eftir kosningarnar 1987 og af bókinni má ráða, hve mikið ofríki þeir Ólafur Ragnar, Svavar og Steingrímur J. Sigfússon sýndu þar samflokksmönnum sínum. Líklegt er, að þeir hafið talið sig færa í flestan sjó í pólitískum átökum, eftir að hafa tekist að hrekja sjálfan Guðmund J. úr hópnum.

 

Ég var að ræða bók Margrétar á dögunum og þá sagði viðmælandi minn, að sér kæmu lýsingar á ofríki Steingríms J. ekki á óvart. Hann hefði á ráðherratíma hans farið í Landmælingar Íslands, sem þá lutu forræði samgönguráðuneytis, og beðið um  landmælingakort frá bandaríska hernum. Þá hefði sér verið sagt, að fyrirmæli hefðu komið frá samgönguráðherra um, að sala á kortunum skyldi stöðvuð!  Þá var alkunnur feluleikur Steingríms J. vegna lagningar á ljósleiðurunum til ratsjárstöðvanna á vegum NATO – með það stórvirki átti að fara eins og mannsmorð.

 

Ég hef hvergi séð þá Steingrím J. og félaga snúast til varnar vegna bókar Margrétar. Huginn Freyr Þorsteinsson heimspekingur tekur hins vegar up hanskann fyrir þá félaga í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 16. desember. Huginn Freyr hefur látið að sér kveða sem málsvari vinstri/grænna í ræðu og riti. Hann velur þann kost, að vega ekki beint að Margréti heldur að Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi ráðherra og formanni Alþýðuflokksins, vegna greinar Jóns Baldvins í lesbókinni laugardaginn 9. desember. Grein Hugins Freys heitir: Ritdómur eða rógburður? Í fyrirsögninni birtist hugur hans til Jóns Baldvins og skrifa hans en Huginn Freyr víkur þó einnig að Margréti meðal annars á þennan veg:

 

„Uppgjör Margrétar við fortíðina markast því umfram allt af mikilli beiskju og reiði í garð pólitískra samferðarmanna. Eru þær meiningar Margrétar að mörgu leyti óskiljanlegar, sérstaklega þegar litið er til þess að hún á farsælan og langan stjórnmálaferil að baki.“

 

Spyrja má vegna þessara orða: Hefur Huginn lesið bók Margrétar? Þar er engin fjöður dregin yfir farsæld Margrétar. Uppgjörið felst í því, að hún lýsir ótrúlega harðneskjulegri framkomu í sinn garð frá hópi innan Alþýðubandalagsins og hún ber svipaðan hug til þessa fólks og Guðmundur J. gerði á sínum tíma.

 

Huginn Freyr segir um hlut Jóns Baldvins:

 

„Það er athyglisvert að Jón Baldvin Hannibalsson verði fyrstur til að bera út hreinan óhróður um nafngreinda einstaklinga, sem bókin virðist innihalda, en aðrir hafa sneitt hjá því fram að þessu.....

 

Ekki er gott að átta sig á þeim hvötum sem búa að baki skrifum Jóns Baldvins. Sjálfsagt hefur sú staðreynd að kosningavetur fer í hönd ekki latt hann til að ata helstu forystumenn vinstrimanna auri. Margir af þeim hafa kosið að leggja lag sitt við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og kann það að vera undirrót þess  að menn leggjast í lágkúrulegar árásir á þá....

 

Í því skyni er eðlilegt að velja Morgunblaðið sem vettvang enda ljóst að þar tækju menn fegnis hendi við greinum þar sem vegið er með ógeðfelldum hætti að forystumönnum vinstrimanna....Morgunblaðið hefur aldrei fúlsað við efni þar sem forystumenn vinstrimanna eru gerðir tortryggilegir með vafasömum hætti.“

 

Ég ætla ekki að bera blak af Jóni Baldvini Hannibalssyni, hann verður að sjá um það sjálfur. Hitt er víst, að þessi gagnrýni á hann missir marks við lestur bókar Margrétar. Stjórnmálamenn líta bókina örugglega öðrum augum en til dæmis bókmenntafræðingar, sem um hana fjalla – þegar ég las hana staldraði ég einkum við lýsingar Margrétar á Steingrími J. og öðrum samstarfsmönnum hennar, eins og sjá má í síðasta pistli mínum. Mér þóttu þessar lýsingar veita meiri hugmynd um ástandið í Alþýðubandalaginu síðustu ár þess en ég hafði áður kynnst og nú hefur frásögnin í Þjóðmálum á lokaþættinum í stjórnmálaferli Guðmundar J. enn skerpt þá sýn og ýtt undir þá skoðun, að lýsing Margrétar sé á rökum reist, hvað sem líður hinum klassísku átökum vinstrimanna, sem endurspeglast í reiði Hugins Freys í garð Jóns Baldvins.

 

Máttlítil siðavöndun.

 

Margrét Frímannsdóttir vill einfaldlega ekki láta þá Steingrím J. og félaga eiga neitt  inni hjá sér, þegar hún kveður stjórnmálin. Ég segi „eiga neitt inni hjá sér“ að gefnu tilefni. Ég notaði þessi orð í dagbókarfærslu á dögunum, þegar ég ræddi um viðræður þeirra Björns Inga Hrafnssonar og Dags B. Eggertssonar í Kastljósi undir stjórn Helga Seljan.

 

Ég sé af því, sem Egill Helgason skrifar á vefsíðu sína og Illugi Jökulsson í Blaðið laugardaginn 16. desember, að ég hef farið út fyrir pólitíska rétthugsun þeirra með því að nota þessi orð. Skilst mér helst, að þar með hafi ég sannað, að ég geti ekki tekið þátt í nútímalegum orðræðum, sem eiga að þeirra mati líklega að byggjast á hæfilegri hófsemi.

 

Gildi siðavöndunar af þessu tagi ræðst verulega af því, hverjir hafa hana í frammi. Að þeir félagar hafi efni á því að segja öðrum fyrir verkum, þegar að því kemur að gæta orða sinna í opinberum umræðum, er að sjálfsögðu matsatriði. Satt best að segja kippi ég mér ekki mikið upp við athugasemdir þeirra við orðfæri mitt og ítreka, að mér þykja slíkir tilburðir frekar hlægilegir en sniðugir.