10.12.2006

Uppgjör Margrétar - kaldar kveðjur.

Bókin Stelpan frá Stokkseyri – saga Margrétar Frímannsdóttur, sem Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir skráði og Hólar gefa út, segir meira um innviði Alþýðubandalagsins síðustu ár þess og upphafsár Samfylkingarinnar en áður hefur birst. Sagan segir einnig meira um þá Steingrím J. Sigfússon, Svavar Gestsson og Ólaf Ragnar Grímsson og hvern mann þeir hafa að geyma en áður hefur birst. Sagan lýsir þessu öllu og miklu fleiru frá sjónarhóli söguhetjunnar, sem háð hefur hetjulega baráttu við margt á lífsleiðinni, nú síðast erfiðan sjúkdóm. Af bókinni verður ráðið, að baráttan við samflokksmennina innan Alþýðubandalagsins hafi verið henni erfiðust og kemur orðið einelti oftar en einu sinni upp í hugann, þegar sú lýsing er lesin.

 Frásögnin er einlæg og verður sterkari fyrir bragðið. Hún einkennist einnig af hugrekki, því að til sögunnar eru þeir nefndir, sem svífast greinilega einskis til að skara eld að eigin köku. Jón Baldvin Hannibalsson er í aukahlutverki í frásögn Margrétar en sér þó ástæðu til að bera hönd fyrir höfuð sér í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 9. desember – hann hafi sko ekki verið að hugsa um sjálfan sig heldur þjóðarhag, þegar hann myndaði stjórn með Davíð Oddssyni vorið 1991! Hann hefði svo sem getað orðið forsætisráðherra í vinstri stjórn, ef hann hefði viljað fórna EES-samningnum fyrir það.

 

Margrét lýsir því á þennan veg, hvernig tekið var á móti henni í þingflokki Alþýðubandalagsins, þegar hún kom þangað rúmlega þrítug eftir kosingar 1987:

 

„Ég átti að vera í vöggu sem þeir rugguðu þar til ég væri orðin nógu stór til þess að þeir hleyptu mér upp úr henni og treystu mér til að ganga. Þeir sem gátu strax staðið í fæturna voru karlmenn sem þeir hinir þekktu fyrir. Þeir áttu sína pólitísku fortíð tengda Þjóðviljanum eða einhverjum nafntoguðum þingmönnum sem þeir höfðu verið í samstarfi við.“

 

Steingrímur J. Sigfússon varð formaður þingflokks Alþýðubandalagsins eftir kosningarnar 1987 en hann hafði setið á þingi frá 1983. Af frásögn Magrétar má ráða, að þeir Steingrímur J. og Svavar Gestsson hafi ráðið ferðinni innan þingflokksins og jafnframt að litið var á þingflokkinn á þeim tíma sem þungamiðjuna innan flokksins. Margrét segir um Steingrím J.:

 

„Ég fann strax að þó að við værum á svipuðu reki þá vorum við ákaflega ólík og höfðum ennfremur ólíkan bakgrunn. Hann hafði góðan talanda, var góður ræðumaður og fullur sjálfstrausts. Hann hafði líka háskólamenntun og starfsreynslu úr fjölmiðlageiranum.

 

Ég var alls ekki jafn tungulipur í ræðustól og Steingrímur. Ég kom inn á þing sem fiskvinnslukona og ómenntuð tveggja barna móðir sem áður hafði m.a. staðið í því að losa stíflur úr klóakinu á Kumbaravogi í starfi mínu sem oddviti.“

 

Árið 1988 tók þingflokkur Alþýðubandalagsins þátt í stjórnarmyndun með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og samkvæmt frásögn Margrétar sátu þeir Svavar, Steingrímur J. og Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðubandalagsins, um þrjú ráðherraembætti, sem komu í hlut flokksins. Hún segir:

„Mín tilfinning var reyndar sú að ekki hafi verið neinir sérstakar armar í þingflokknum, einungis bandalag karlkyns flokksmanna, sem stóðu saman þegar á þurfti að halda. Áralöng reynsla innan Alþýðubandalagsins markaði líka sín spor og kenndi okkur að láta karlana ráða ferðinni....Karlaklíkan réði öllu þrátt fyrir allt tal um armaskiptingu. Alþýðubandalagið var ekki jafnréttisflokkur.“

 

Alþýðubandalagsmenn á Suðurlandi töldu þingmanni sínum ekki sýndur nægur trúnaður innan þingflokksins og varð þá að ráði hjá þríeykinu, sem réði þar ríkjum, að gera Margréti að þingflokksformanni í stað Steingríms J.: „Þegar Ólafur og félagar seldu mér það voru þeir allir á einu máli um að þingflokksformennskan væri gífurlega mikilvægt embætti.“

 

Steingrímur J. Sigfússon varð landbúnaðarráðherra og segir Margrét, að hann hafi sýnt sér „yfirgengilega“ vanvirðu, þegar hann hefði rekið mann hennar, Jón Gunnar Ottósson, úr stöðu forstjóra rannsóknastöðvar skógræktarinnar á Mógilsá, án þess að skýra sér frá því: „Hann áleit mig einfaldlega ekki vera þess virði að hann þyrfti að láta mig vita af ákvörðun sinni.“ Og síðar: „Ég dreg ekki fjöður yfir að það var heilt helvíti að þurfa að sitja þingflokksfundi með Steingrími tvisvar sinnum í viku meðan á þessu máli stóð.“ Steingrímur J. bar fyrir sig, að fjármálastjórn Jóns Gunnars réttlætti ákvörðun hans en skýrsla ríkisendurskoðunar hreinsaði Jón Gunnar af öllum slíkum ávirðingum. Margrét telur, að Steingrímur J. hafi einfaldlega ekki sætt sig við skoðanir Jóns Gunnars og þess vegna gripið til þessara harkalegu aðgerða.

 

Þeir Ólafur Ragnar, Steingrímur J. og Svavar misstu ráðherrastólana 1991 af því tilefni segir Margrét: „Það hefur löngum komið mér á óvart hversu mikilvægt það er sumum körlum, sem komnir eru yfir miðjan aldur og hafa skilað góðu pólitísku dagsverki, að skarta titlum af einhverri tegund. Það er ekki nóg að hafa unnið gott verk, hafa reynsluna og orðsporið. Titill verður að fylgja.“

 

Ólafur Ragnar hlaut upphefðina á Bessastöðum en Svavar í sendiherrastörfum. Steingrímur J. og Margrét börðust um formannsstólinn í Alþýðubandalaginu, eftir að Ólafur Ragnar hafði setið sinn tíma, og þvert á  vilja valdaklíkunnar í flokknum sigraði hún Steingrím J. og þá tóku þeir að gera lítið úr henni sem flokksformanni eins og þeir gerðu, á meðan hún var þingflokksformaður – en hún skildi við þingflokksformennskuna með ræðu á þingflokksfundi og segist hafa sagt þeim allt: „Hvernig mér fyndist framkoma þeirra hafa verið. Hvernig ég hefði fundið þá pota í mig og ýta mér út. Hvernig þeir hefðu vanvirt störf mín og tekið ákvarðanir fram hjá mér... Ég hæddi þá líka. Sagði þeim hvaða álit ég hefði á sýndarmennskunni sem fælist í hverju orði þegar þeir opnuðu munninn um jafnréttismál. Og ég lét þá vita að í hvert sinn, sem einhver þeirra myndi ræða stöðu kvenna opinberlega, myndi ég hlæja hátt.“

 

Ég ætla ekki að rekja þessa merkilegu sögu frekar hér, en Margrét varð formaður Alþýðubandalagsins 1995 fram að stofnun Samfylkingarinnar. Hún lýsir aðdraganda að stofnun Samfylkingarinnar og hlut sínum á þeim vettvangi, en hún var talsmaður Samfylkingarinnar í þingkosningunum 1999 og varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003, en þá tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir við varaformennskunni með þau orð á vörunum, að hún ætlaði að verða formaður eftir tvö ár, þótt Össur Skarphéðinsson hafi gefið henni eftir að vera forsætisráðherraefni flokksins eftir þingkosningarnar 2003. Margrét var ósammála ákvörðun Össurar um fá Ingibjörgu Sólrúnu til liðs við Samfylkinguna á þennan hátt. Ingibjörg Sólrún sigraði Össur með nokkrum yfirburðum í formannskjörinu 2005 en síðan hefur Samfylkingin ekki staðið undir þeim væntingum Margrétar og fleiri að verða að minnsta kosti 30% ef ekki 35% til 40% flokkur.

 

Í bókinn kemur ekki fram, hvernig samstarfi þeirrar Margrétar og Ingibjargar Sólrúnar hefur verið háttað á vettvangi Samfylkingarinnar. Margrét var formaður þingflokks Samfylkingarinnar 2004-2006 og hefur nú ákveðið að bjóða sig ekki fram í kosningunum næsta vor.  Spyrja má, hvort Ingibjörg Sólrún var með Margréti og stjórn hennar á þingflokki Samfylkingarinnar í huga, þegar hún sagði á flokkstjórnarfundi í Reykjanesbæ 2. desember:

 

„Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum – ekki ennþá, ekki hingað til. Of margt fólk sem vill og ætti að kjósa okkur – allur meginþorri Íslendinga sem hafa sömu lífssýn, áhyggjur og verkefni og við – hefur ekki treyst þingflokknum fyrir landsstjórninni. Þetta fólk hefur ekki treyst okkur til þess að gæta hagsmuna þeirra, tryggja stöðugleika, fara með skattpeninga af ábyrgð, gæta þess að atvinnulíf okkar sé samkeppnishæft og vernda hagsmuni Íslands utan landssteinanna.“

 

Það væri í anda þeirrar lýsingar, sem Margrét gefur á reynslu sinni af samstarfi vinstrisinna, að Ingibjörg Sólrún hefði kosið að kveðja Margréti á þennan veg.

 

Kaldar kveðjur.

 

Þetta eru ekki einu köldu kveðjurnar, sem Ingibjörg Sólrún hefur sent síðustu daga. Sagt var frá því á mbl.is, að formaður Samfylkingarinnar hefði kynnt tillögu til þingsályktunar um hleranamálið margrædda og í greinargerð hennar segði meðal annars: „að nýlegar samþykktir Alþingis vegna þessara mála séu mikilvægur liður í því að upplýsa umfang hlerana og annars eftirlits með íslenskum ríkisborgurum frá stríðslokum og til ársins 1991 en dugi þó ekki til. Viðbúið sé, að ekki liggi fyrir skrifleg gögn í öllum tilvikum enda hafi komið fram að mikilvægum spjaldskrám lögreglu hafi verið eytt í ársbyrjun 1976. Þá sé ekki ljóst, að til séu gögn um hvernig staðið hafi verið að hlerunum, hversu lengi þær hafi staðið yfir, hvað hafi verið gert við þær upplýsingar sem safnað var, hverjir hafi fengið aðgang að þeim og til hvers þær hafi verið notaðar.

Líklegt sé að fyrrverandi lögregluþjónar, símamenn og aðrir sem hugsanlega komu við sögu búi yfir upplýsingum sem þeir muni þá og því aðeins láta í té, að þeir fái fullvissu æðstu stjórnvalda fyrir því að það brjóti ekki í bága við trúnaðareið þeirra í opinberu starfi. Þá þurfi viðkomandi einstaklingar jafnframt að fá vissu fyrir því, að þeir verði ekki sóttir til saka ef í ljós komi, að þeir hafi farið út fyrir ramma laga og reglna í störfum sínum við öryggiseftirlit hjá ríkinu.

Þá segir í greinargerðinni, að vegna þeirra upplýsinga, sem liggi fyrir um að símar þingmanna, verkalýðsforingja og annarra pólitískra einstaklinga hafi verið hleraðir af takmörkuðu tilefni, sé mikilvægt að Alþingi rannsaki þessi mál eins vel og kostur er. Þeir sem urðu fyrir hlerunum á þeirri forsendu, að þeir ógnuðu öryggi ríkisins, sem og afkomendur þeirra, eigi rétt á því að fá eins glögga vitnesku og kostur er um allan málatilbúnað í tengslum við þessar hleranir þannig að þeir geti hreinsað sig af öllum slíkum áburði. Flest bendi til þess að hleranir, sem réttlættar voru með tilvísun til öryggis ríkisins, hafi verið notaðar til að afla pólitískra upplýsinga. Hið rétta í þessum málum verði að koma fram.“

Feitletranir eru mínar.

1.     Þarna er staðfest, að ekkert liggur fyrir um, að heimildir til hlerana hafi verið nýttar. Eiga þau skilyrði ekki við í þessu máli eins og öðrum, að telji menn, að brot hafi verið framið skuli færð fyrir því fullgildar sannanir?

2.     Þarna fá símamenn og lögreglumenn kaldar kveðjur, því að gefið er til kynna, að þeir hafi verið að brjóta lög með störfum sínum og þess vegna vilji þeir ekki skýra frá þeim. Sæma slíkar getsakir formanni stjórnmálaflokks, sem kvartar undan því, að þingflokki sínum sé ekki treyst? Er ekki ástæða til að vantreysta fleirum en þingflokknum, þegar svona dylgjur eru á borð bornar? Af þeim gögnum, sem fram hafa verið lögð, er ekkert, sem bendir til annars en farið hafi verið að lögum við allar ákvarðanir vegna hlerana.

3.     Dylgjupólitíkin nær síðan hámarki í þriðju feitletruðu klausunni. Ekkert stendur á bakvið þessi orð annað en ímyndunarafl Samfylkingarformanns, sem er þó að berjast við trúverðugleikavanda. Þessi orð minna á Borgarnesræðuna frægu, sem varð helst til að veikja tiltrú til Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni vorið 2003 - þar var pólitíkin boðuð í dylgjustíl.