26.11.2006

Framsókn, utanríkismálin og framsýni Björgólfs Thors.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í dag. Fréttnæmast þóttu orð hans um Íraksstríðið og afstöðu ríkisstjórnar Íslands á þeim tíma, það er í mars 2003, skömmu fyrir þingkosningar. Davíð Oddsson var þá forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Ég sat þá í utanríkismálanefnd alþingis, var utan ríkisstjórnar og fylgdist því ekki með gangi málsins á þeim stað.

Afstaða mín til Íraksstríðsins birtist hér á síðunni á sínum tíma og í greinum, sem ég skrifaði reglulega á þessum ári í Morgunblaðið. Ég taldi heimsfriðnum fyrir bestu, að Saddam Hussein yrði komið frá völdum. Mér þótti raunar einsýnt strax eftir árásina á New York og Washington 11. september 2001, að Bandaríkjastjórn mundi ekki þyrma neinu ríki, sem hún teldi skjól fyrir hryðjuverkamenn. Ég taldi einnig, að yrði stríðið langvinnt vegna átaka innan Íraks, gæti það orðið Bandaríkjamönnum mjög erfitt.

 

Þegar tæp fjögur ár eru liðin frá innrásinni og allt logar í átökum innan Íraks, hefur komið í ljós, að þeir, sem töldu, að langvinn átök í Írak yrðu erfið fyrir Bandaríkjamenn, höfðu á réttu að standa. Í opnum þjóðfélögum Vesturlanda töldu margir skynsamlegt að ýta Saddam Hussein frá völdum fyrir fjórum árum en segja nú, að það hafi verið mistök, vegna þess að innan Íraks hafi ekki verið unnt að koma í veg fyrir blóðug átök milli ólíkra þjóðfélagsafla, sem leystust úr læðingi við brotthvarf einræðisherrans.

 

Spyrja má: Hvar hefur það gerst við fall einræðisherra undanfarin ár, að ekki hafi komið til átaka, jafnvel blóðugra? Hvað með Júgóslavíu fyrrverandi? Eða Sovétríkin? Upplausn Sovétríkjanna hefur vissulega dregið blóðugan dilk á eftir sér. Barist er í Tjetsjeníu og spenna er á milli Georgíu og Rússland. Í Hvíta Rússlandi ríkir enn einræði og einnig þegar sunnar og austar dregur.

 

Einræðisherrann í Írak féll í fangið á Bandaríkjaforseta, sem hrósaði sigri alltof fljótt og var ekki á neinn hátt búinn undir að takast á við afleiðingarnar. Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra lét eins og viðfangsefnið væri léttvægara en í raun reyndist og hann var látinn fara eftir dapurlega útkomu repúblíkana í bandarísku þingkosningunum á dögunum. Hann hefði átt að víkja miklu fyrr. Margt af því, sem Bandaríkjastjórn hefur sagt og gert, hefur borið keim af því, að hún liti á óheppilega framvindu mála sem tæknileg mistök, þegar vandinn er miklu meiri. Rumsfeld gafst ekkert færi til iðrunar eftir tap flokks síns. Hann hvarf þegjandi og hljóðalaust á vit sögunnar. Kissinger taldi Rumsfeld þó slyngasta bardagamanninn fyrir eigin hag innan bandaríska stjórnkerfisins. Brottvikning Rumsfelds hefur verið túlkuð á þann veg, að  George W. Bush hafi viðurkennt mistök.

 

Skammsýni í utanríkis- og öryggismálum hefur því miður einkennt stefnu Bandaríkjamanna síðan Ronald Reagan hvarf úr Hvíta húsinu.  Hann hafði skýra sýn og náði sínu fram með uppgjöf kommúnismans. Síðan hefur Bandaríkjastjórn ekki tekist síðan að móta utanríkisstefnu, sem sameinar hernaðarlega yfirburði hennar og það lítillæti, sem farsælast er fyrir þá, sem ráða gangi mála, ef þeir telja nauðsynlegt að láta að sér kveða. Utanríkisstefnuna skortir enn nauðsynlegt jafnvægi milli ótvíræðra hernaðarlegra yfirburða og viðurkenningar á nauðsyn hæfilegs samráðs og samstarfs við önnur ríki. Bandaríkjastjórn hefur verið einkar lagið að skapa spennu í samskiptum við vini sína, stundum meira að segja að því er virðist að óþörfu.

 

Ríkisstjórn Íslands hélt velli í þingkosningunum 2003, þótt hún hefði staðið með Bandaríkjamönnum og Bretum nokkrum vikum áður í aðförinni að Saddam Husseinmeð innrásinni í Írak. Raunar var það ekki fyrr en nokkrum mánuðum eftir kosningar, þegar átökin innan Írak mögnuðust, að stjórnarandstaðan hér tók að gera Íraksmálið að höfuðárársarefni sínu á Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Fyrir þá sem sinna stjórnmálafræðilegum eða sagnfræðilegum rannsóknum ætti að vera spennandi viðfangsefni að rannsaka þróun Íraksstríðsins á íslenskum stjórnmálavettvangi og greina áhrif þess á umræður eða fylgi flokka.

 

Ummæli Jóns Sigurðssonar eru forsíðuefni Morgunblaðsins og Fréttablaðsins sunnudaginn 26. nóvember og var helsta fréttaefni í ljósvakamiðlum laugardagskvöldið 25. nóvember, þau ættu því ekki að fara fram hjá neinum. Þeim var vel tekið á miðstjórnafundinum.

 

Ríkisstjórn Íslands eða einstakir ráðherrar innan hennar báru enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði verið gerð, hvað sem afstöðu íslenskra stjórnvalda leið. Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak. Tony Blair fór meira að segja háðuglegum orðum um Jacques Chirac Frakklandsforseta og ríkisstjórn hans í ræðu á breska þinginu í aðdraganda innrásarinnar, þegar hann sagði, að ekki væri unnt að láta frönsku ríkisstjórnina draga sig á asnaeyrunum í öryggisráðinu í von um, að hún myndi segja já við innrás, þegar hún myndi alltaf segja nei.

 

Ég hef skýrt afstöðu ríkisstjórnar Íslands til innrásarinnar með vísan til þess, að hún hafi þar staðið með hefðbundnum samstarfsríkjum sínum innan Atlantshafsbandalagsins – það hefði verið miklu stærri ákvörðun með að gera það ekki en að gera það. Þá hefði íslenska ríkisstjórnin skipt um samstarfshóp innan NATO.

 

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, ákvað að veðja á andstöðu við innrásina í Írak á síðustu stundu í kosningabaráttu í Þýskalandi haustið 2003 – hann náði þá endurkjöri en hefur nú verið úthrópaður af eigin flokki, þrátt fyrir að hann snerist gegn Bush og Blair.  Að þeir stjórnmálamenn, sem það gerðu séu hafðir í hávegum heima fyrir er spunablekking. Jacques Chirac nýtur engra sérstakra vinsælda í Frakklandi og hið sama má segja um Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakklands – vinsældir hans meðal Frakka eru ekki miklar um þessar mundir, þótt hann hafi hlotið heimsfrægð sem utanríkisráðherra Frakka með ræðu gegn innrás í Írak í öryggisráðinu í mars 2003.

 

Með ræðu sinni á miðstjórnarfundinum var Jón Sigurðsson að leggja grunn að stefnu sinni sem formaður Framsóknarflokksins. Hann vill hafa hreint borð. Eftir að hann varð iðnaðarráðherra birti hann stefnuskjal um stöðuna í virkjana- og stóriðjumálum til að hún væri á hreinu. Á miðstjórnarfundinum vildi hann ýta deilum um Íraksstríðið og ákvarðanir um það aftur fyrir sig. Óljóst er af orðum Jóns, hvort hann telur, að ekki hafi verið haft nægilegt samráð við utanríkismálanefnd alþingis vegna ákvarðana, sem ríkisstjórnin tók á þessum tíma, eða hvort hann er að árétta að ávallt skuli hafa slíkt samráð. Í  Fréttablaðinu 26. nóvember segir: „Jón [Sigurðsson] segist gera ráð fyrir að fræðimenn muni fjalla um hvort stjórnvöld þurfi að biðjast afsökunar á stuðningnum, líkt og sumir hafa kallað eftir, en minnir á að lögfræðiálit sýni að ákvörðunin var lögmæt á sínum tíma.“ Af þessum orðum má álykta, að í ræðunni hafi Jón verið að vísa fram í tímann.

 

Hér verður ekki rætt meira um þennan kafla í ræðu Jóns Sigurðssonar að sinni. Takist honum með þessum orðum að höfða meira til kjósenda en framsóknarmönnum hefur tekist á undanförnum misserum, er tilgangi Jóns líklega náð. Í Fréttablaðinu segir hann þó, að það sé ekki aðaltriði hjá sér að breyta ásýnd Framsóknarflokksins heldur að „leiða sannleika í ljós.“

 

Athygli vekur, að hið eina, sem Jón Sigurðsson hefur að segja um utanríkis- og öryggismál á þessum miklu breytingatímum snertir tæplega fjögurra ára gamla atburði. Þótt vissulega skipti miklu að ræða þá til hlítar og leggja mat á þá, er jafnljóst, að þeirri fortíð verður ekki breytt. Þessir atburðir eru hluti sögunnar og viðfangsefni í því ljósi og uppgjörið vegna þeirra verður mun dramatískara annars staðar en hér á landi. Við íslenskum stjórnmálamönnum blasir hins vegar að stýra þjóðinni við nýjar aðstæður í öryggismálum og gjörbreyttar aðstæður að því er varðar hlut hennar og íslenskra fyrirtækja á alþjóðavettvangi og þá ekki síst með tilliti til alþjóðaviðskipta.

 

Í vikunni vorum við rækilega minnt á, hve framsýni í alþjóðaviðskiptum getur reynst ábatasöm, þegar bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers greindi 23. nóvember frá kaupum á tékkneska fjarskiptafyrirtækinu Ceske Radiokunikace (CRa).  Hlutur Björgólfs Thors Björgólfssonar í félaginu var seldur á 120 milljarða, en upphaflegt kaupverð var 40 milljarðar króna og nemur söluhagnaðurinn því 80 milljörðum króna.

 

Þegar Björgólfur Thor festi kaup á þessu tékkneska símafyrirtæki á árinu 2003 hafði trú manna á gildi slíkra fjárfestinga minnkað og ýmsir tapað á þeim.  Fjárfestir átti fárra annara kosta völ en að selja og þess vegna var kaupandinn í sterkri stöðu. Um var að ræða gamalt símafyrirtæki með stóran hlut í farsímafyrirtæki, sem rekið var með tapi.  Öll skynsemi benti til, að fyrirtækið mundi rétta úr kútnum, þótt fjármálamarkaðir gæfu annað til kynna. Björgólfur Thor tók áhættu og keypti – það er í sjálfu sér gott að kaupa eitthvað á góðu verði hitt verður þó kennt við afrek að geta selt á hærra verði, svo að ekki sé talað um jafnhátt verð og að ofan er lýst.

 

Geir H. Haarde forsætisráðherra fór til New York í vikunni og var þar með Björgólfi Thor í kauphöllinni þriðjudaginn 22. nóvember og hringdi bjöllu við lok viðskipta þann daginn. Björgólfur Thor flutti ræðu um Liquidity and Permanent Capital af þessu tilefni, þar sem hann skýrði meðal annars frá sölunni í tékkneska símafyrirtækinu. Hann sagði einnig frá því, hvernig einkavæðing bankanna árið 2002 hefði leyst íslenskt fjármálalíf úr læðingi og gjörbreytt öllum aðstæðum hér á landi. Hann minnti bandaríska áheyrendur sína á þá staðreynd, að undanfarin ár hefðu bandarískir fjárfestar riðið á vaðið við að festa fé á íslenskum fjármálamarkaði. Hann sagði að við val sitt á fjárfestingakostum réði landið meiru en atvinnugreinin eða fyrirtækið og nú væri fjárfestingafyrirtæki hans Novator til dæmis að beina athygli sinni til Indlands – grunnfyrirtækja þar í byggingar- og orkuiðnaði.

 

Það verður spennandi að sjá, hvernig Björgólfi Thor og samstarfsmönnum hans tekst að nýta sér tækifærin á heimsvísu á komandi árum. Við Íslendingar þurfum allir og sameiginlega sem þjóð að átta okkur á þessum tækifærum og leggja á ráðin um þau. Það er augljóst á öllum samanburði við önnur lönd, að á undanförnum árum hefur tekist frábærlega vel við að styrkja efnahag og stöðu þjóðarbúsins, innviði þess og styrk til að takast á við ný og krefjandi verkefni. Þetta hefur tekist með íslenska krónu að vopni og með því að standa utan Evrópusambandsins, svo að tvö álitamál líðandi stundar séu nefnd. Leiðir velgengni síðustu ára til þeirrar niðurstöðu, að við eigum að kasta krónunni fyrir róða og ganga í Evrópusambandið?

 

Jón Sigurðsson fjallaði ekki um spurningar af þessu tagi í ræðu sinni. Þar vék hann af braut, sem Halldór Ásgrímsson hefur markað við sambærileg tækifæri undanfarin ár sem formaður Framsóknarflokksins, þar sem hann gældi jafnan við þá hugmynd, að Ísland yrði enn betur sett innan Evrópusambandsins en utan. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra virðist hallast að línu Halldórs í ræðum sínum eins og fram kom á ráðstefnu alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands föstudaginn 24. nóvember. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir hins vegar í Fréttablaðinu 26. nóvember „ummæli Valgerðar hluta af fræðilegri umræðu um málið“.