19.11.2006

Norðmenn og varnir Íslands.

Í Morgunblaðinu í dag, 19. nóvember, birtist fróðleg grein eftir Ólaf Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóra blaðsins, um áhuga Norðmanna á þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi með vísan til þess annars vegar, að Keflavíkurstöðinni hafi verið lokað, og hins vegar að sjóflutningar á gasi og olíu frá Barentshafi til Norður-Ameríku munu stóraukast á næstu árum. Undrast norskir viðmælendur Ólafs, hve Bandaríkjamenn virðast áhugalitlir um þessa þróun en öryggi á siglingaleiðinni ræðst meðal annars á þeim viðbúnaði, sem er á Íslandi. Þá vekja Norðmenn máls á því, að ekki sé um hernaðarógn að ræða en að tryggja öryggi á mikilvægum siglingaleiðum sé öðrum þræði hernaðarlegt viðfangsefni auk þess sem hernaðarleg návist á slóðum sem þessum hafi sjálfstætt gildi án tillits til þess, hvort unnt sé að benda á eina sérstaka ógn.

 

Þegar ég les um þessi viðhorf Norðmanna, koma mér í hug sjónarmið, sem settu svip á samstarf okkar Íslendinga og Norðmanna á fyrstu árum áttunda áratugarins. Þá gerðu norskir sérfræðingar og stjórnvöld sér grein fyrir því, að breyting yrði á þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi vegna uppbyggingar og útþenslu sovéska flotans og flughersins. Þeim var einnig ljóst, að ekki yrðu aðrir til að vekja máls á þessum breytingum en þeir, sem hefðu beinna hagsmuna að gæta, það er Norðmenn og Íslendingar.

 

Á þessum árum var hér við völd vinstri stjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Hún hafði á stefnuskrá sinni, að varnarliðið hyrfi af landi brott. Olli þessi stefna Norðmönnum og ríkisstjórnum annarra norrænna landa áhyggjum, en íslenska ríkisstjórnin tók því síður en svo vel, að norrænu ríkisstjórnirnar viðruðu áhyggjur sínar og taldi um óviðurkvæmileg afskipti af innanríkismálum að ræða. Sá tími er liðinn og í Morgunblaðinu í dag tala norskir embættismenn af óvenjumikilli hreinskilni um áhuga sinn á þróun íslenskra öryggismála og um nauðsyn samstarfs ríkjanna.

 

Fyrir rúmum þremur áratugum komu þrír starfsmenn Norsku utanríkismálastofnunarinnar (NUPI) Johan Jörgen Holst, síðar varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra, Anders Sjaastad, síðar varnarmálaráðherra, og John Kristen Skogan, en til hans er enn vitnað sem fræðimanns í Morgunblaðinu í dag, hingað til lands til að kynna sér aðstæður og stofna til samstarfs.  Ég var á þessum árum tekinn til við að fjalla um varnar- og öryggismál og tókust góð kynni með mér og þeim þremenningum, sem hafa haldist síðan en Johan Jörgen er látinn, langt um aldur fram.

 

Johan Jörgen var forystumaður í þessum hópi og ávann sér virðingu um heim allan fyrir rannsóknir í öryggismálum og kynningu á þeim hagsmunum, sem huga þyrfti að á Norður-Atlantshafi og síðar á mun víðtækara sviði varnar- og afvopnunarmála. Voru þær ófáar ráðstefnunar, sem efnt var til um þróun öryggismála í okkar heimshluta, og við gáfum einnig saman út bækur um efnið.

 

Í stuttu máli reyndist greining Norðmanna og okkar, sem með þeim störfuðu, á þróun mála rétt. Hernaðarlegt mikilvægi GIUK-hliðsins svonefnda, það er hafsvæðanna frá Grænlandi um Ísland og Færeyjar til Skotlands, jókst jafnt og þétt í áranna rás og viðbúnaður NATO og Bandaríkjanna hér á landi og á hafinu varð sífellt öflugri og má segja, að árið 1985 hafi hámarki verið náð.

 

Þarna var um hernaðarlega ógn að ræða. Þegar rætt er um breytingar nú á tímum er litið til þess, hve mikið af ónýttum gas- og olíulindum heims er að finna í Barentshafi bæði á yfirráðasvæði Norðmanna og Rússa.

 

Á tímum kalda stríðsins var þegjandi samkomulag um það milli Norðmanna og nágranna þeirra í Rússlandi, að NATO-herafli héldi sig ávallt í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð frá rússnesku landamærunum og hernaðarumsvif Norðmanna væru í lágmarki á þessum slóðum, þótt þeir byggju sig að sjálfsögðu undir að verja land sitt allt frá Kirkenes í austri – megin varnarlínan var hins vegar dregin við Bardufoss.

 

Í Morgunblaðinu í dag segir Espen Barth Eide, aðstoðarvarnarmálaráðherra Noregs, að Norðmenn telji nauðsynlegt að halda úti herafla á Barentshafi: „Við teljum að hernaðarlegrar nærveru sé þörf, ekki af því að menn óttist stríð, heldur þurfi menn að hafa öfluga möguleika á eftirliti og að hafa sýnilegar varnir.“ Og síðar segir hann: „Það þýðir að við munum fjúga meira og sigla meira á norðursvæðunum og herinn mun æfa meira í Norður-Noregi en verið hefur.“

 

Kjetil Skogrand, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, segir, að með vaxandi umferð skipa á norðurslóðum sé þörf á herafla þar til að koma í veg fyrir, að hættuástand geti skapast, aukin nærvera herafla auki stöðugleika.

 

Sverre Diesen, hershöfðingi og yfirmaður norska hersins, segir Norðmenn hafa mikinn áhuga á að sýna bæði getu og vilja til að styrkja Ísland „hernaðarlega ef aðstæður krefjast þess. Við erum að tala um einstakar ferðir flugvéla og æfingar, bæði hvað varðar orrustuflugvélar og eftirlitsflugvélar. Við höfum nægt svigrúm til þess.“

 

Norðmenn eru að láta smíða fimm hátæknivæddar freigátur á Spáni, þeir ætla að kaupa 48 langdrægar orrustuþotur á næstu árum, þeir eru að endurnýja flota sex Orion-kafbátaleitarflugvéla, ætla að styrkja leyniþjónustuna og efla landhelgisgæslu sína. Ég sá það ekki í Morgunblaðinu, að minnst væri á kaup Norðmanna á  10 nýjum þyrlum til leitar- og björgunarstarfa, en við Íslendingar höfum stofnað til samstarfs við þá um það verkefni.

 

Af lestri greinarinnar í Morgunblaðinu verður sú ályktun dregin, að Norðmenn hafi markað sér skýra stefnu varðandi hernaðarlegan viðbúnað á norðurslóðum og þeir telji æskilegt og raunar óhjákvæmilegt, að hafa Ísland inni í þeirri mynd eins og jafnan áður. Jafnframt finnst þeim einkennilegt, að Bandaríkjastjórn skuli ekki átta sig á þróuninni og þeirri breytingu, sem er að verða með vaxandi skipaumferð.

 

Þegar aðstoðarvarnarmálaráðherrann er spurður nánar um samstarfið við Íslendinga segir hann: „Íslendingar þurfa sjálfir að skilgreina heima fyrir við hvað er að fást og við viljum mjög gjarnan taka þátt í að skiptast á vangaveltum og upplýsingum en þið verðið að hafa forystuna. Okkar afstaða er sú að við væntum þess að Íslendingar taki málið upp og erum jákvæðir gagnvart því.“ Hann telur ekkert vit í því að ætla að byggja hér upp íslenskan flugher.

 

Ólafur Þ. Stephensen segir: „Og hvað þyrftu Íslendingar að leggja á móti ef Norðmenn sæju að einhverju leyti um loftvarnir Íslands og eftirlit á hafsvæðinu milli landanna? Það liggur beint við að velta fyrir sér hvort efling Landhelgisgæzlunnar gæti komið þar á móti og hún tekið virkari þátt í samstarfi við norsku strandgæzluna. Landhelgisgæzlan er þar að auki sú stofnun tengd öryggis- og varnarmálum sem sennilega er mest pólitísk samstaða innanlands á Íslandi um að styrkja, mun meiri en t.d. sérsveitir eða greiningardeildir á vegum Ríkislögreglustjóraembættisins eins og nýlegar umræður sýna.“

 

Hér vaknar sú spurning, hvort höfundi textans sé virkilega ekki kunnugt um öll þau áform, sem eru að komast á framkvæmdastig um stóreflingu Landhelgisgæslu Íslands, það er með smíði á nýju varðskipi, kaupum á nýrri flugvél og þremur þyrlum. Þá voru samþykkt ný lög um landhelgisgæsluna á þessu ári, til að hún gæti betur tekist á við ný verkefni, auk þess sem höfuðstöðvar hennar hafa verið fluttar og hún tekið á sig aukin verkefni í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð með rekstri vaktstöðvar siglinga.

 

Það þarf ekkert að ræða um það í viðtengingarhætti, hvort efla eigi Landhelgisgæslu Íslands. Ákvarðanir hafa þegar verið teknar um það og gæslan á náið og gott samstarf við Norðmenn eins og aðrar þjóðir, sem láta sig öryggismál á Norður-Atlantshafi varða. Ég er viss um, að kynning á starfsemi og þróun gæslunnar á alþjóðlegri ráðstefnu um öryggi á siglingaleiðum á Norður-Atlantshafi, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hélt 2. nóvember sl. sýndi öllum, sem þar voru, að unnið er af miklum metnaði undir merkjum gæslunnar.

 

Ég hef ekki orðið var við neinn ágreining hin síðari misseri um sérsveit lögreglunnar og nauðsyn þess að efla hana. Það var snemma árs 2004, sem stjórnarandstæðingar undir forystu Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, tóku rispu gegn stækkun sérsveitarinnar. Ég held, að nú vilji allir, að sérsveitin sé sem öflugust og best úr garði gerð.

 

Um næstu áramót tekur greiningardeild til starfa hjá embætti ríkislögreglustjóra og var samstaða um það mál á þingi síðastliðið vor eftir stuttan hugaræsing hjá einstaka þingmönnum, þegar frumvarpið um deildina var lagt fram. Enn hefur hins vegar ekki náðst samkomulag um næsta skref til að efla greiningarstarf og áhættumat á vegum lögreglunnar, það er með greiningar- og öryggisþjónustu undir eftirliti þingnefndar. Að því máli er unnið.

 

Mér þótti þessi stutti kafli um aðgerðir okkar sjálfra í þessari ágætu grein um viðhorf Norðmanna bera merki um hikið og vandaræðaganginn, sem setur enn alltof mikinn svip á umræður um íslensk öryggismál, þegar að því kemur, að ræða verkefni okkar sjálfra. Við höfum áratuga langa reynslu af því að ræða við aðra um það, hvað þeir kunni að vilja gera til að tryggja öryggi Íslands og hafsvæðanna umhverfis landið. Við höfum einnig áratuga reynslu af því að fara að síðan að rífast um það heima fyrir, hvort þetta ágæta fólk eigi að veita okkur þau ráð, sem það gerir, eða þá aðstoð, sem það býður.

 

Hvers vegna spurði Morgunblaðið ekki Norðmennina, hvort Íslendingar þyrftu ekki að stofna her við núverandi aðstæður? Spurningin er rökrétt í framhaldi af öllu, sem norsku stjórnmálamennirnir segja. Aðstoðarvarnarmálaráðherrann segir: „Og það er eðlilegt að Íslendingar ræði hvað þeir geti lagt af mörkum. En það er alveg örugglega ekki að stofna flugher með tveimur flugvélum.“

 

Norðmennirnir voru ekki spurðir að því, hvort Íslendingar ættu að stofna her, af því að við höfum ekki sjálf burði til að ræða málið hér heima fyrir. Á opinberum vettvangi og meðal stjórnmálamanna hafa umræður um þennan þátt íslenskra varna aldrei komist af flissstiginu. Blaðamaðurinn vildi að sjálfsögðu ekki bera þá staðreynd á borð fyrir norska viðmælendur sína, enda hefðu þeir ekki skilið röksemdirnar – hefðu hljómað álíka einkennilega og bann við hundahaldi gerði á sínum tíma, lokun sjónvarps á fimmtudögum eða bann við að selja áfengt öl. Bannhelgi okkar sjálfra um þennan þátt íslenskra öryggismála, stendur umræðum um þau verulega fyrir þrifum. Við höfum enga þjálfun í að ræða eigin öryggismál af nokkurri alvöru, á meðan litið er fram hjá hernaðarlega þættinum og jafnvel látið eins og hann snerti þau ekki – hann sé mál Bandaríkjamanna, Norðmanna eða jafnvel Evrópusambandsins!

 

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra flutti alþingi skýrslu um utanríkismál fimmtudaginn 16. nóvember og lauk ræðu sinni með þessum orðum: „Meginstoð öryggis- og varnarstefnu Íslands er sem fyrr samkomulagið við Bandaríkin. Öryggis- og varnarstefnan er hins vegar sífelldum breytingum undirorpin og þarf stöðugt að vera í endurskoðun. Slík endurskoðun kallar á yfirvegaða og vandaða umræðu um hvernig best megi sinna öryggis- og varnarþörf landsins. Þetta mál er mikilvægara en svo að afgreiða megi með flimtri eða innantómu pólitísku karpi. Allir stjórnmálaflokkar þurfa að taka þátt í þeirri stefnumótun og fræðasamfélagið þarf einnig að eiga þar aðkomu. Til skoðunar er í hvaða farveg beri að beina umræðunni til þess að hún nýtist til þeirrar stefnumótunar sem fer fram hjá stjórnvöldum. Færi vel á því að setja á fót utanríkis- og öryggismálasetur að fyrirmynd margra nágranna ríkja okkar.“

 

Um það er pólitísk samstaða að koma slíku setri á fót og skiptir þá miklu, hvernig til tekst og staðið sé að því á þann veg, að traust og tiltrú skapist innanlands og utan strax í upphafi. Ef slíkt setur fer af stað, án þess að þar sé tekist á við hernaðarleg viðfangsefni og hlut Íslands við lausn þeirra, yrði það ekki til þess að skapa trúverðugleika gagnvart öðrum þjóðum. Við verðum að þora að spyrja okkur sjálf spurninga um þessi efni, án þess að forðast kjarna málsins.