12.11.2006

Prófkjör - upphlaup frjálslyndra - kosningar í Bandaríkjunum.

Úrslit liggja nú fyrir í prófkjörum helgarinnar hjá sjálfstæðismönnum í suðurvesturkjördæmi og suðurkjördæmi og samfylkingarfólki í Reykjavík. Þegar litið er á heildina kemur á óvart, hve dræm þátttakan var í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, 4842 þátttakendur en hjá okkur sjálfstæðismönnum voru þeir tæplega 11.000. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fékk 3326 atkvæði eða tæp 70% af þeim, sem kusu. Telst það til tíðinda, að flokksformaður fái ekki meiri stuðning í óumdeilt sæti og verður þetta ekki túlkað á annan veg en þann, að Ingibjörg Sólrún hafi mætt þungri undiröldu í prófkjörinu. Össur Skarphéðinsson er kampakátur í 2. sæti en hann keppti um það við Jóhönnu Sigurðardóttur – verður ekki annað ráðið, en Össur líti á úrslitin sem nokkra uppreisn fyrir sig, eftir að hafa tapað formannskjörinu gegn Ingibjörgu Sólrúnu.

 

Steinunn Valdís Óskarsdóttir náði ekki nema í 8. sæti og af þingmönnum Samfylkingarinnar ýtti hún Guðrúnu Ögmundsdóttur til hliðar. Tregðulögmálið réð ferðinni við val manna á framboðslista Samfylkingarinnar og nýliðar áttu ekki upp á pallborðið.

 

6409 greiddu atkvæði í prófkjöri sjálfstæðismanna í suðvesturkjördæmi og þar glönsuðu þau Þorgerður Katrín og Bjarni Benediktsson í fyrsta og annað sætið síðan kemur nýtt fólk eins og við var að búast miðað við þá ákvörðun sitjandi þingmanna að gefa ekki kost á sér til endurkjörs og brottför Árna M. Mathiesens í suðurkjördæmi.

 

5814 greiddu atkvæði í prófkjöri sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi og þar náði Árni M. Mathiesen fyrsta sæti, Árni Johnsen varð í öðru sæti og sannaði með því, að hann hefur síður en svo látið bugast. Kjartan Ólafsson alþingismaður hlaut 3. sætið en þrír þingmenn Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson lentu utan þeirra sæta, sem duga til setu á þingi. Þau hafa öll verið góðir liðsmenn í þingflokki okkar, Drífa hefur haft forystu í landbúnaðarmálum og Guðjón í sjávarútvegsmálum. Þá hefur Drífa setið í stjórn þingflokksins og verið óþreytandi við að taka að sér verkefni á hans vegum.

 

Við sjálfstæðismenn eigum eftir að ákveða lista okkar í norðvestur og norðaustur kjördæmum, stillt verður upp í hinu fyrra en prófkjör í hinu síðara. Augljóst er, að ekkert prófkjaranna hefur vakið jafnmiklar umræður og titring og prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík.  Síðast í gær birti Blaðið við mig viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur í tilefni af prófkjörinu.

 

Upphlaup frjálslyndra.

 

Um síðustu helgi hófust hér miklar og ákafar umræður um málefni innflytjenda vegna orða, sem Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður frjálslyndra, lét falla í sjónvarpsþætti og talin voru til marks um, að grunnt væri á rasisma. Síðan hafa frjálslyndir talað á þann veg, að þeir hafi aðeins verið að ítreka andstöðu sína við það, að 1. maí sl. var fallið frá takmörkunum á för íbúa frá nýjum EES-ríkjum í A-Evrópu til landsins. Rökin fyrir því að hætta að beita takmörkunum voru einkum þau, að með því yrði auðveldara en ella að fylgjast með gangi mála á innlendum vinnumarkaði og koma í veg fyrir starfsemi svonefndra starfsmannaleiga, en uppi voru ásakanir um, að þær færu ekki að lögum. Á sama tíma og frelsi þessara EES-borgara til að koma til landsins var aukið, voru hertar reglur um komu fólks utan EES-svæðisins.

 

Ef menn vilja gjörbreytingu í þessu efni, eiga þeir að krefjast úrsagnar úr EES og þar með afnáms þess frelsis, sem fylgir aðildinni bæði fyrir Íslendinga til að starfa á EES-svæðinu og EES-borgara til að koma hingað.

 

Sumir virðast halda, að þetta frelsi útlendinga til að koma hingað tengist aðild okkar að Schengen-samstarfinu. Þar er um misskilning að ræða, því að Schengen-samstarfið snýst ekki um hinn efnislega rétt EES-borgara, sem felst í frjálsri för, heldur snýst það um landamæraeftirlitið, það er rétt manna til að fara úr einu landi í annað, án þess að sýna vegabréf. Nýju EES-ríkin eru ekki orðin þátttakendur í þessum þætti samstarfsins, borgarar þeirra þurfa enn að sýna vegabréf, þegar þeir fara inn á Schengen-svæðið og hefur enn ekki verið fastákveðið, hvenær afnám vegabréfaskyldunnar tekur gildi.

 

Á vettvangi Evrópusambandsins hafa verið samþykktar nýjar reglur um frjálsa för og um það hefur verið rætt á sameiginlegum vettvangi EFTA-ríkjanna í EES og framkvæmdastjórnar ESB, hvort þessar reglur séu í samræmi við EES-samninginn. Stjórnvöld á Íslandi og í Liechtenstein hafa dregið það í efa en þeim skilningi hefur verið mótmælt af fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar. Þetta mál er enn óleyst.

 

Ég minnist þess vel við afgreiðslu EES-samningsins á alþingi, hve margar spurningar vöknuðu um frjálsa för vegna samningsins og var sá þáttur málsins ítarlega ræddur. Af minni hálfu hefur þeim sjónarmiðum verið haldið fram, að íslensk stjórnvöld verði að stíga varlega til jarðar við allar ákvarðanir í þessum efnum miðað við það, sem sagt var í umræðum um EES-samninginn á þingi, þegar hann var samþykktur.

 

Af orðum málsvara frjálslyndra er erfitt að átta sig á því, hvaða markmiði þeir vilja í raun ná með upphlaupi sínu vegna innflytjenda, öðru en því að ýta undir ótta almennings við þessa þróun og fiska síðan í gruggugu vatni.

 

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír, vinstri/græn, frjálslyndir og samfylkingarfólk hafa ákveðið að starfa saman á þingi í vetur til að skapa sér traust í því skyni að mynda saman ríkisstjórn eftir kosningar næsta vor. Menn hafa að sjálfsögðu velt fyrir sér, hvort þetta upplaup frjálslyndra í útlendingamálum spilli fyrir þessum samstarfsáformum. Fréttablaðið kannaði hug formanna vinstri/grænna og Samfylkingar í því efni og birti svörin 10. nóvember.

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði: „Það er ekki hægt að segja að það hafi orðið stefnubreyting hjá flokknum [frjálslyndum] þótt einstakir menn innan hans tali með hætti sem manni líkar ekki. Það eru auðvitað samþykktir flokksins og yfirlýsingar forystunnar sem gilda.“

 

Steingrímur J. Sigfússon sagði: „Ég tek orð formanns Frjálslynda flokksins gild. Hann segir að stefna síns flokks sé óbreytt og vísar í stefnuskrá flokksins. Ég hef lesið hana og þar sem um þessa hluti er fjallað er ekkert sem veldur mér vandræðum.“

 

Af þessum orðum er ljóst, að stefna frjálslyndra í innflytjendamálum spillir ekki samstarfi þessara þriggja flokka á þingi og mun ekki standa í vegi fyrir því, að þeir setjist saman í ríkisstjórn.

 

Spyrja má: Eru Magnús Þór Hafsteinsson, formaður þingflokks frjálslyndra, og Jón Magnússon, hrl. og nýr liðsmaður frjálslyndra, sama sinnis og Guðjón Arnar, flokksformaður frjálslyndra, Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J.? 

 

Kosningar í Bandaríkjunum.

 

Repúblíkanar töpuðu meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings þriðjudaginn 7. nóvember eins og spáð hafði verið. Mér kom ekki á óvart, að Donald Rumsfeld hyrfi úr embætti varnarmálaráðherra eftir kosningarnar. Hann hefur verið einstaklega seinheppinn í mörgu, sem hann hefur tekið sér fyrir hendur.

 

Þá er ljóst, að John Bolton hverfur frá sendiherrastörfum fyrir Bandaríkin hjá Sameinuðu þjóðunum, en hann hefur ekki hlotið staðfestingu öldungadeildar Bandaríkjaþings sem sendiherra, þótt repúblíkanar hafi haft þar meirihluta. Segir það sína sögu um, hvers virði þessi meirihluti þeirra var, þegar á reyndi, en margt benti til þess, að innviðir hans hefðu veikst mikið.

 

Nú mun stjórnmálaathygli í Bandaríkjunum beinast að því, hver verður næsti forseti þeirra. Það þarf ekki að veikja stöðu repúblíkana, að þeir hafi misst meirihluta í þinginu, þegar dregur að forsetakosningum. Flest bendir til þess, að demókratar séu ekki eins samhentir og nauðsynlegt er til að ná raunverulegum árangri á þingi í andstöðu við forsetann – ekki síst þegar kemur að utanríkis- og öryggismálum.

 

Hér skal ekki spáð mikilli stefnubreytingu en hins vegar verða rannsóknanefndir á vegum þingsins áberandi og þær munu taka sér fyrir hendur að kanna mál, sem talin eru erfið fyrir forsetann, ríkisstjórn hans og flokk.