5.11.2006

Varnir Íslands – stefnuleysi Samfylkingar – orkuöryggisstefna

Nauðsynlegt er að ýta undir umræður um utanríkis- og öryggismál meðal okkar Íslendinga. Þess vegna er fagnaðarefni, að meistaranemar í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands hafa stofnað félagið Alþjóðasamfélagið til að ræða alþjóðamál og var fyrsti fundur þess haldinn laugardaginn 4. nóvember og snerist hann um valkosti Íslands í öryggis- og varnarmálum.

Sagt er frá fundinum í Fréttablaðinu sunnudaginn 5. nóvember og þar kemur fram, að í ræðu Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar á fundinum, hafi komið fram, að Samfylkingin áskilji sér rétt til að endurskoða frá grunni það samkomulag ríkisstjórnarinnar við Bandaríkin um varnarmál Íslands, komist hún að stjórnartaumunum eftir komandi alþingiskosningar. Þá kemur fram, að Þórunn hafi í grundvallaratriðum verið ósammála Ragnheiði Elínu Árnadóttur, aðstoðarmanni Geirs H. Haarde forsætisráðherra, sem einnig var með framsögu á fundinum um, að Ísland deildi „sömu gildum og pólitísku sýn" með Bandaríkjunum, alla vega svo lengi sem núverandi valdhafar væru við stjórnvölinn vestra.

 

Í Fréttablaðinu segir, að uuk þeirra Þórunnar og Ragnheiðar hafi Alyson Bailes, forstöðumaður sænsku friðarrannsóknastofnunarinnar SIPRI í Stokkhólmi og Michael T. Corgan, dósent í stjórnmálafræði við Boston-háskóla, flutt ræður á fundinum, en bæði Corgan og Bailes séu gestakennarar við Háskóla Íslands um þessar mundir.

 

Fréttablaðið hefur eftir Corgan, að hann hafi heyrt ónafngreindan íslenskan embættismann segja, að það sem Íslendingar hefðu haft á meðan bandaríska varnarliðið var hér enn, hefðu verið „sýnilegar og trúverðugar varnir"; það sem sér sýndist felast í nýja samkomulaginu væru „ósýnilegar og ótrúverðugar" varnir.

 

Í samtali við Fréttablaðið sagði Corgan, að vissulega þyrftu hernaðaráætlanir sem slíkar að vera leynilegar, en þegar Bandaríkin færu að eins og í þessu tilviki, að taka frá landinu hvern einasta hermann og allan búnað og segja síðan, að leynileg varnaráætlun ætti að tryggja varnir landsins framvegis, þá væri það ekki fullnægjandi til að fullvissa Íslendinga um að skuldbinding Bandaríkjanna til varna Íslands væri jafnsterk og áður. Meira hefði þurft að koma til.

 

Fréttablaðið segir, að Alyson Bailes, sem eigi áratuga reynslu úr bresku utanríkisþjónustunni að baki, hafi hvatt til þess að umræðan um öryggismál Íslands tæki tillit til allra hliða öryggismála; hernaðarhliðin væri aðeins ein af mörgum og hún hefði miklu minna vægi nú en á dögum kalda stríðsins. Ísland gæti lært margt í þessu efni af nágrannalöndunum.

Allir pallborðsþátttakendur voru sammála um að brýn þörf væri á því að Íslendingar kæmu sér upp rannsókna- og ráðgjafarstofnun sem sérhæfði sig í öryggis- og varnarmálum.

 

Fréttablaðið lætur þess ekki getið, sem fram kom í fréttum NFS að kvöldi laugardagsins 4. nóvember, að Alyson Bailes teldi ekkert athugavert við, að litið væri á varnaráætlanir landsins sem trúnaðarmál.

Frétt NFS  var á þennan veg kl. 18.30 laugardaginn 4. nóvember:

„Yfirmaður friðarrannsóknarstofnunar í Stokkhólmi segir að í stað þess að hugsa um hvað geti komið í staðinn fyrir samstarf Íslendinga við Bandaríkjamenn í varnarmálum eigi að leita leiða til að styrkja það. Hún segir öryggisógnir gagnvart Íslandi síður tengdar vopnbeitingu en frekar vera á sviði efnahags- og umhverfismála.

Það var Alþjóðasamfélagið, nýtt félag meistaranema í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, sem efndi til málþings í Þjóðminjasafninu í dag. Yfirskriftin var: Tímamót: Valkostir Íslands í öryggis- og varnarmálum. Meðal fyrirlesara var Alyson Bailes, yfirmaður Friðarrannsóknarstofnunarinnar SIPRI í Stokkhólmi. Bailes telur að frekar en að spyrja hvað geti komið í staðinn fyrir varnarsamvinnu við Bandaríkjamenn eigi að finna leiðir til að styrkja það í gegnum samvinnu á öðrum vettvangi samhliða. Hvað ógnir gagnvart Íslandi varðar segir Alyson vitað að afar lítil hætta sér á innrás herja í öryggissamfélagi nútímans en það þýði þó ekki steðji engin hætta af vopnuðum mönnum, hryðjuverkamönnum eða skemmdarvörgum.

Alyson Bailes: „Samt vil ég segja að vopnuð árás er ekki mesta hættan núna, og kannski er hún tiltölulega lítil. Ég held að eins og allir Evrópubúar og reyndar íbúar Norður-Ameríku standi Íslendingar frammi fyrir hugsanlegum vandræðum varðandi lög og reglu og öryggi innanlands. Það eru vandamál varðandi innflytjendur og landamæraeftirlit. Það þarf að gæta þess að fást við það á jákvæðan hátt, án þess að skaða öryggishagsmunina. Það eru vandamál hvað varðar orkuöryggi, kannski ekki svo mjög gagnvart Íslendingum sjálfum heldur að því er snýr að vinum og bandamönnum þeirra og birgðasölum. Það eru vandamál varðandi efnahagslegt öryggi. Sumar hliðar íslensks efnahagslífs eru mjög berskjaldaðar fyrir erlendum áhrifum eins og sást í nýlegri fjármálakreppu. Síðast en ekki síst er það sem ég tel vera mikilvægast. Það er umhverfi og loftslag.

Alyson Bailes segir ekkert athugavert við það að leynd hvíli yfir varnaráætlun Bandaríkjamanna hvað Ísland varði, en sú staðreynd var rædd á málþinginu í dag. Hún segir það ekki ósvipað því sem gerist í öðrum löndum. Ætla megi að í áætluninni sé gert ráð fyrir liðsflutningum og aðgerðum ef hættuástand skapist.“

 

Stefnuleysi Samfylkingar.

 

Af frásögn Fréttablaðsins má ráða, að Micahel Corgan hafi jafnvel verið neikvæðari í garð samkomulags Íslands og Bandaríkjanna en Þórunn Sveinbjarnardóttir. Þau eiga það líklega sameiginlegt að vera andstæðingar Bush-stjórnarinnar, hún á Íslandi og hann í Bandaríkjunum. Þórunn ætlar að beita sér fyrir því að brjóta upp samkomulag Íslands og Bandaríkjanna, nái Samfylkingin því marki sínu að komast í ríkisstjórn. Skyldi Corgan ætla að beita sér fyrir því gagnvart ríkisstjórn Bandaríkjanna, að hún endurskoði afstöðu sína og hafi hér sýnilegan viðbúnað? Kannski eru þau Þórunn og Corgan sammála um, að það þurfi ekki aðeins nýja ríkisstjórn á Íslandi heldur einnig í Bandaríkjunum til að þessi markmið náist?

 

Þórunn Sveinbjarnardóttir náði ekki markmiði sínu í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvestur-kjördæmi. Hún vildi fyrsta sætið en lenti í hinu þriðja á eftir þeim Gunnari Svavarssyni og Katrínu Júlíusdóttur (allt bendir til að tvær konur verði fyrir Samfylkinguna úr þessu kjördæmi á þingi næst í stað þriggja núna, enn lækkar ris kvenna innan Samfylkingarinnar, en Kvennalistinn sálugi er ein stoða flokksins) en Þórunn lagði einmitt áherslu á utanríkis- og öryggismál í kosningabaráttu sinni. Hún hefur látið eins og víðtæk sátt hafi náðst um þau mál innan Samfylkingarinnar undir sinni leiðsögn og forystu.

 

Ástæða er til að draga í efa orð Þórunnar um eindrægni Samfylkingarfólks í utanríkis- og öryggismálum. Á síðasta landsfundi flokksins var látið undir höfuð leggjast að samþykkja ályktun um málið vegna þess hve skoðanir voru skiptar. Hinn 19. mars 2006, eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti brottför varnarliðsins fyrir lok september 2006, birtist þessi frétt í kvöldfréttatíma hljóðvarps ríkisins:

 

„Samfylkingin hefur ákveðið að skipa þverpólitískan hóp sem móta á nýja öryggis- og varnarstefnu Íslands. Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur verið falið að stýra vinnuhópnum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að margoft hafi verið kallað eftir því að skipuð yrði þverpólitísk nefnd til að vinna að málinu. Ríkistjórnin hafi hins vegar alltaf hunsað beiðnina. Hún segir þá breyttu stöðu sem nú blasir við í utanríkismálum Íslendinga fela í sér tækifæri. Hægt sé að ná víðtækri sátt um þá meginþætti er varða varnar- og öryggismál.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: „Og við höfum margsinnis kallað eftir því að það væri sett niður öryggismálanefnd, þverpólitísk til þess að vinna þetta og ríkisvaldið, ríkisstjórnin hefur skellt við skollaeyrum. Við teljum því ekki ástæðu til þess að bíða lengur og ætlum sjálf að fara af stað með þessa vinnu og höfum leitað til Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, að leiða hana og munum kalla að þeirri vinnu fólk sem að er ekki endilega í okkar flokki. Við gerum ekki rétt flokksskírteini að úrslitaatriði vegna þess að við viljum einmitt ná sem flestum að þessu borði og bæði úr pólitík og fræðasamfélagi og annars staðar frá.“
 

 

Það er í samræmi við almennan losarabrag á umræðum um þessi mál á vettvangi Samfylkingarinnar og hve lítið mark er tekið á yfirlýsingum formanns flokksins, sem gefnar eru til að skákskjóta honum út úr erfiðri aðstöðu vegna skorts á stefnu, að enginn hefur gengið eftir framkvæmd á þessum áformum Samfylkingarinnar undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar. Viðleitni Jóns Baldvins til að laða annarra flokka menn til samstarfs um þessi mál hefur undanfarnar vikur mótast af tilraunum til að klína því á sjálfstæðismenn, að þeir hafi staðið fyrir hlerunum á tímum kalda stríðsins og jafnvel hjá honum sjálfum að því loknu.

 

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 í tilefni af brottför varnarliðsins segir, að hún muni vinna að því „að koma á laggirnar samstarfsvettvangi fulltrúa stjórnmálaflokkanna þar sem fjallað verði um öryggi Íslands á breiðum grundvelli, m. a. í samstarfi við sambærilega aðila í nálægum löndum.“

 

Á fyrrnefndum fundi Alþjóðasamfélagsins virðast allir framsögumenn hafa verið sammála þessum áformum. Að mínu mati ætti að vinna að framkvæmd þessa á svipaðan hátt og unnið hefur verið að þverpólitísku samstarfi um Evrópumálin á þessu kjörtímabili á vettvangi Evrópunefndar, sem forsætisráðherra skipaði með þátttöku fulltrúa allra stjórnmálaflokka. Þar hafa menn getað reifað öll sjónarmið, sem vekja áhuga nefndarmanna, farið hefur verið í kynnisferðir og efnt til ráðstefna um álitamál.  Nefndarmenn hafa raunar rætt öryggismál á fundum sínum og kynnt sér starfsemi Europol, evrópsku lögreglunnar, og hitt sérfræðinga ráðherraráðs Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum auk þess sem nefndarmenn hafa sérstaklega kynnt sér stefnu Evrópusambandsins í utanríkis- og varnarmálum. Nú er unnið að því að semja skýrslu nefndarinnar.

 

Orkuöryggisstefna.

 

Ég tel einnig nauðsynlegt, að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir umræðum hér á landi um einstaka þætti öryggismálanna. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið boðaði þannig til ráðstefnu um öryggi siglinga á Norður-Atlantshafi hinn 2. nóvember síðastliðinn. Þátttakendur í ráðstefnunni voru frá Rússlandi, Noregi, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.

 

Á ráðstefnunni voru starfsemi og framtíðaráform Landhelgisgæslu Íslands rækilega kynnt og er öllum ljóst, að íslensk stjórnvöld hafa á skömmum tíma skapað landhelgisgæslunni ný starfsskilyrði með nýjum lögum, endurnýjun á öllum tækjabúnaði, nýrri starfsaðstöðu og ábyrgð í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.

 

Kirsten Ullbæk Selvig, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og strandhéraðaráðuneyti Noregs, hvatti til þess, að efnt yrði til samráðs milli Noregs og Íslands og leitað leiða til þess að koma á frekara samstarfi grannríkja í okkar heimshluta. Að sumu leyti minnir staðan núna mig á það, sem setti svip á umræður um þróun mála á Norður-Atlantshafi í upphafi áttunda áratugarins, þegar Norðmenn og Íslendingar tóku sér fyrir hendur að kynna breytta stöðu á hafsvæðum landa sinna vegna útþenslu sovéska flotans og flughersins. Nú eru það ferðir risaolíuskipa og gasflutningaskipa frá Múrmansk til Norður-Ameríku, sem munu setja svip sinn á þróun mála á höfunum umhverfis Íslands, það er í GIUK-hliðinu, svæðinu frá Grænlandi til Skotlands.

 

Norðmenn hafa gripið til þess ráðs að marka þessum skipum ákveðna siglingaleið í um 30 mílna fjarlægð frá strönd Noregs. Eitt af því sem við Íslendingar þurfum að ræða er, hvort setja eigi reglur um siglingaleiðir hér við land en til þess þarf alþjóðlegt samkomulag. Vakið var máls á því, að það kynni að vera hættulegt að setja strangar reglur um siglingaleiðir á Grænlandssundi, það er milli Íslands og Grænlands, vegna hættu á ís á þessum slóðum allan ársins hring. Raunar kann sú spurning að vakna, hvort ástæða sé til að sporna alveg gegn siglingum risaskipa milli Íslands og Grænlands.

 

Hvað sem öðru líður er ljóst, að huga verður að öryggisráðstöfunum vegna þessara siglinga, að réttum viðbrögðum við hverskyns yfirvofandi hættu innan efnahagslögsögunnar og að aðgerðum sem grípa þarf til vegna öryggis ríkisins og sjófarenda. Meta þarf þá slysahættu sem skapast af þessari umferð og undirbúa viðbrögð. Einnig þarf að meta þýðingu þess út frá öryggis- og varnarhagsmunum Íslands, að siglingaleiðir innan  íslensku efnahagslögsögunnar hafa afgerandi þýðingu fyrir bandlagsþjóðir Íslands og fyrir heimsviðskipti.

 

Að mínu mati er brýnt að ræða þessar staðreyndir af ábyrgð og festu ekki síður en auknar heimildir til lögreglu, svo að hún geti sinnt forvirkum aðgerðum á þann veg, að stjórnvöld geti byggt ákvarðanir sínar á heildstæðu áhættumati.

 

Hvaða skoðun sem menn hafa á inntaki varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna og hvernig standa eigi að sýnilegum eða ósýnilegum vörnum á grundvelli þess, er hitt ljóst, að brottför varnarliðsins leiðir til nýrra starfshátta og nýrrar verkaskiptingar milli ráðuneyta, enda eru öryggis- og varnarmálin nú enn frekar en áður innanríkismál en ekki utanríkismál. Íslenskum stjórnvöldum er ekki um megn að taka á sig þær skyldur sjálfstæðs ríkis að tryggja og verja öryggi borgara sinna, hvað svo sem sagt er af efasemdarfólki. 

 

Á ráðstefnunni kynnti fulltrúi Siglingastofnunar Íslands, hve mikið starf er unnið á vettvangi hennar til að tryggja öryggi sjófarenda á Norður-Atlantshafi með rannsóknum og miðlun upplýsinga auk þátttöku í alþjóðasamstarfi. Mælingar sýna, að hér fyrir sunnan eða suð-vestan land er eitt mesta veðravíti á jarðarkringlunni og hlýtur það setja svip sinn á siglingar og öryggisráðstafanir vegna þeirra.

 

Þá kom glöggt fram á ráðstefnunni, hve Danir búa yfir mikilli þekkingu á þeim vanda, sem við er að etja við siglingar á norðurslóðum og að hve mörgu þarf að huga til að tryggja þar sem best öryggi. Siglingakort við austurströnd Grænlands eru til dæmis ónákvæm en risastór skemmtiferðaskip eru hins vegar stöðugt að færa sig nær strönd Grænlands til að gleðja farþega sinna með návist við hina hrikalegu náttúru landsins. Kom fram, að ef til vill ætti að gera þá kröfu, að þessi skip yrðu aldrei ein á ferð heldur ávallt með hjálparskip í för, ef eitthvað færi úrskeiðis.

 

Hér ætla ég ekki að rekja umræðuefnin á þessari gagnlegu ráðstefnu frekar. Hafi einhverjir haldið, að gildi aðgerða á Íslandi til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi sé að minnka, er það mikill misskilningur. Í ræðum manna frá meginlandi Evrópu var á það minnt að „energy security” væri lykilorð við mótun stefnu ríkja í utanríkis- og öryggismálum og á ráðstefnu um öryggismál hefði þýski utanríkisráðherrann talað um „foreign energy policy“ til að árétta, hve orkumál og orkuöflun settu mikinn svip á hagsmunagæslu ríkja á alþjóðavettvangi. Siglingaleiðirnar umhverfis Íslands og öryggi á þeim eru mikilvægur strengur í þeirri alþjóðlegu fléttu, sem mynda alþjóðlega orkuöryggisstefnu og það er undir íslenskum stjórnvöldum komið að halda þannig á málum, að enginn efist um öflugt framlag okkar til að unnt sé að framfylgja þeirri stefnu.