29.10.2006

Að prófkjöri loknu.

Prófkjörinu er lokið – ég hlaut þriðja sætið, sama sæti og ég hef skipað, frá því að ég gaf fyrst kost á mér haustið 1990. Þá sóttist ég eftir þriðja sætinu og þótti það nokkuð djarft spilað af nýliða. Mér hefur liðið ágætlega í þessu sæti og þrisvar hefur það dugað mér til setu í ríkisstjórn. Tvisvar hefur verið sótt að mér í þriðja sætinu, af Geir H. Haarde í prófkjöri vegna kosninganna 1995 og af Sólveigu Pétursdóttur í prófkjöri vegna kosninganna 2003. Hélt ég sætinu í bæði skiptin. Nú ákvað ég að sækjast eftir öðru sætinu, þar sem Davíð Oddsson hafði sagt af sér þingmennsku en formaður og varaformaður flokksins hafa síðan í kosningunum 1991 skipað fyrsta og annað sætið í Reykjavík.

 

Á þessu kjörtímabili hef ég velt því fyrir mér, hvort ég ætti að hætta beinum stjórnmálaafskiptum og snúa mér að öðru, á meðan ég hef fulla heilsu og krafta. Þegar dró að ákvörðunum vegna væntanlegs prófkjörs, ákvað ég að láta slag standa að nýju. Meginástæðan var hin breytta staða í öryggismálum þjóðarinnar vegna brottfarar varnarliðsins, en í marga áratugi hef ég látið mig varnar- og öryggismál og utanríkismál almennt varða. Mér er mikið í mun, að Sjálfstæðisflokkurinn haldi forystu sinni við stefnumótun á því sviði. Ég hef einnig sem dómsmálaráðherra fengið einstakt tækifæri til að hrinda í framkvæmd ýmsum umbótum á þessu sviði og tel því starfi ekki lokið.

 

Í prófkjörinu gladdi mig sérstaklega, hve lögreglumenn stóðu þétt að baki mér og létu sér annt um framgang minn. Þótti mér það góð viðurkenning á störfum mínum og met ég hana mikils.

 

Eftir að ég hafði sagt frá því opinberlega, að ég ætlaði að gefa kost á mér að nýju og sækjast eftir öðru sætinu, fóru að birtast um það fréttir, að Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður ætlaði einnig að setja stefnuna á það sæti. Ég stofnaði til fundar okkar Guðlaugs Þórs um málið og sagðist hann þá ekki hafa gert upp hug sinn en hart væri að sér lagt að sækjast eftir þessu sæti. Ég sagði honum þá skoðun mína, að átök, sem þar með yrðu, gætu orðið flokknum hættuleg, einkum væri líklegt, að andstæðingar flokksins myndu leitast við að færa sér þau í nyt til að ýta undir flokkadrætti.

 

Gekk þessi spá mín um andstæðinga flokksins eftir og var atlaga þeirra meðal annars til þess, að við Geir H. Haarde héldum sameiginlegan fund um öryggismál í Valhöll laugardaginn 21. október. Þá hafði það líka gerst nokkrum dögum áður, að stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hafði sent frá sér dæmalausa ályktun, sem túlkuð var eins og árás á mig á viðkvæmasta stigi prófskjörsbaráttu.

 

Af álitsgjöfum í fjölmiðlum hafa tveir sótt harðast gegn mér, þeir Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Blaðsins, og Egill Helgason á Stöð 2. Egill taldi raunar, að farið gæti fyrir mér eins og Geir Hallgrímssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, á sínum tíma, þegar Albert Guðmundsson og liðsmenn hans beittu sér fyrir því, að Geir hrapaði niður eftir prófkjörslistanum. Þessi sýn Egils rættist ekki gagnvart mér en vafalaust olli hin harða barátta um annað sætið því, að þriðji frambjóðandinn í það sæti, Pétur Blöndal hafnaði í sjötta sæti, honum til lítillar gleði.

 

Aðdragandi prófkjörsins einkenndist af miklum umræðum um hin svokölluðu hleranamál og af einhverjum ástæðum, sem ég skil ekki, er spjótum beint að mér vegna þessara mála, þótt ekkert þeirra sé eða hafi verið á döfinni á þeim tíma, sem ég hef gegnt stöðu dómsmálaráðherra. Mér þótti grein Jóns Baldvins Hannibalssonar í Morgunblaðinu á sjálfan prófkjörs-laugardaginn staðfesta þá skoðun mína, að framganga hans í þessu máli markaðist öðrum þræði af viðleitni til að gera hlut minn í prófkjörinu sem verstan. Það verður spennandi að sjá, hvernig umræður um þessi mál þróast, nú þegar prófkjörinu er lokið.

 

Fyrir okkur, sem munum tímann, þegar sótt var gegn Geir Hallgrímssyni, er ekki gleðiefni, ef álitsgjafar í fjölmiðlum eru þeirrar skoðunar, að innan Sjálfstæðisflokksins séu starfandi hópar, sem beiti sömu eða svipuðum aðferðum og beitt var gegn Geir. Sé staðan orðin sú, hefur flokksstarfið ekki verið að þróast til réttrar áttar og þá eru menn teknir til við að hlutast til um innra starf flokksins með því hugarfari að beita flokksfélögum á borð við hverfafélög til átaka við samherja en ekki til þess að vinna að framgangi sameiginlegra mála og sjálfstæðisstefnunnar. Formennska í hverfafélagi er í eðli sínu ekki ólík formennsku í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna, og enginn gerir þá kröfu til þess, sem gegnir þeirri formennsku, að hann taki opinberlega afstöðu með eða á móti einhverjum frambjóðanda í prófkjöri – annað er uppi á teningnum, þegar litið er til formanna hverfafélaga. Sé litið á slík félög sem tæki í átökum innan flokks, eru þau að snúast í andhverfu sína, því að þau eru tæki til að stuðla að samheldni og samstöðu með heildarhagsmuni flokksins að leiðarljósi.

 

Ég háði kosningabaráttu mína undir kjörorðinu: Samstaða til sigurs! Í því felst áminning um, að sundrung og sundurlyndi innan flokka er helsti óvinur þeirra. Prófkjör eru ekki besta leiðin til að þétta raðir flokksmanna eða hvetja þá til samstöðu, því að í eðli sínu felst í þeim krafa um átök. Slík átök geta því miður leitt til viðvarandi sundrungar og reynir þá oft mjög á forystumenn og hæfileika þeirra til að draga úr viðsjám og leiða hópinn á ný til samstöðu og samheldni.

 

Þegar ég lít yfir prófkjörið og úrslit þess, tel ég mig hafa unnið góðan varnarsigur. Eftir margra ára árásir andstæðinga og geysiharða atlögu innan flokks, þar sem hvorki var sparað fé né fyrirhöfn, fékk ég mjög örugga kosningu í þriðja sætið og raunar mjög mikinn stuðning í annað sætið.